Fimmtudagur 26.02.2015 - 13:09 - FB ummæli ()

Aðalfundir húsfélaga

Nú fer að koma sá tími sem húsfélög halda aðalfund. Ákveðnar formreglur gilda um boðun húsfunda og töku ákvarðana og því er mikilvægt að rétt sé staðið að málum svo ákvörðun sé lögmæt og bindandi fyrir eigendur.

Samkvæmt lögum um fjöleignarhús á að halda aðalfund húsfélags fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Boða þarf til aðalfundar með minnst 8 og mest 20 daga fyrirvara. Á aðalfundi skulu fyrir tekin eftirtalin mál:
1. Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
2. Framlagning ársreikninga til samþykktar og umræður um þá.
3. Kosning formanns.
4. Kosning annarra stjórnarmanna.
5. Kosning varamanna.
6. Kosning endurskoðanda og varamanns hans.
7. Framlagning rekstrar- og framkvæmdaáætlunar fyrir næsta ár.
8. Ákvörðun hússjóðsgjalda.
9. Mál sem tiltekin eru í fundarboði.
10. Önnur mál.

Á öðrum húsfundum en aðalfundi skal fjalla um þau mál sem tiltekin eru í fundarboði en til almennra funda skal boða með minnst 4 og mest 20 daga fyrirvara.

Í fundarboði þarf að tilgreina þau mál sem fyrir verða tekin á fundinum og meginefni tillagna. Ekki er t.d. hægt að taka mál til atkvæðagreiðslu á húsfundi sem ekki hefur verið getið í fundarboði nema allir félagsmenn séu mættir og samþykkja það. Mismunandi er hve margir þurfa að samþykkja ákvörðun eftir því um hvers konar framkvæmdir er að ræða, hve margir þurfa að vera á fundi til að ákvörðun telst lögmæt o.s.frv. Áður en lagt er að stað í viðhaldsframkvæmir þarf því að liggja fyrir lögmæt ákvörðun húsfélags fyrir framkvæmdum.

Hér má finna grein sem ég skrifaði árið 2005 um viðhaldsframkvæmdir í fjöleignarhúsum:

http://fasteignamal.is/index.php?option=content&task=view&id=8&Itemid=31

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur