Í morgun var haldinn fundur í atvinnuvega- og umhverfis- og samgöngunefndum Alþingis í kjölfar þess að umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti deiliskipulag fyrir Hlíðarendasvæðið í gær. Dagur borgarstjóri og Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs voru boðaðir á fundinn en þeir afboðuðu sig.
Á fundinum sagði Friðrik Pálsson frá samtökunum Hjartanu í Vatnsmýrinni að NA/SV-braut (06-24), eða svokölluð neyðarbraut, mætti nota áfram væri fyrirhugaðum byggingum á Hlíðarendasvæðinu breytt. Ekki hefði hins vegar verið hægt að opna þá umræðu. Benti Friðrik á að ef fullur vilji væri til staðar um að komast að samkomulagi um flugvöllinn þá væri það hægt. Til dæmis væri hægt að breyta lögun þeirra bygginga sem fyrirhugað sé að reisa á Hlíðarendasvæðinu þannig að hægt yrði að nota brautina áfram á meðan unnið væri að lausnum til lengri tíma.
Framsókn og flugvallarvinir lögðu fram tillögu þess efnis í borgarráði 23. október 2014 en tillögunni var frestað. Tillagan er svohljóðandi: „Gerð er tillaga um að Reykjavíkurborg hefji án tafar viðræður við félög tengd uppbyggingu á Hlíðarendasvæðinu um að finna lausn á fyrirhuguðum breytingum á deiliskipulagi Hlíðarenda þannig að fyrirhugaðar byggingar komist fyrir á reitnum án þess að vera hindrun fyrir flugbraut 06/24 eða svokallaða „neyðarbraut“ svo hún geti áfram haldið hlutverki sínu þrátt fyrir uppbyggingu á Hlíðarenda og allir hagsmunaaðilar geti vel við unað.“