Árið hjá meirihlutanum í Reykjavík, þ.e. Samfylkingu, Pírötum, Vinstri grænum og Bjarti framtíð, byrjaði með klúðrinu með ferðaþjónustu fatlaðra og endaði með klúðrinu um deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar.
Í báðum þessum málum vildi meirihlutinn ekki hlusta á tillögur okkar og ábendingar, hvorki að stofna aðgerðarhóp á fyrsta borgarstjórnarfundi ársins vegna ferðaþjónustu fatlaðra en neyddist svo til gera slíkt nokkrum dögum síðar né hlusta á ábendingar okkar í 14 mánuði um það að málsmeðferð deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar væri áfátt og ættu þeir ágallar að leiða til ógildingar þess þar sem breytingar voru gerðar eftir samþykki deiliskipulagsins í borgarstjórn. Reyndist það raunin því úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi deiliskipulagið úr gildi skömmu fyrir jól.
Borgin fékk falleinkunn í þjónustukönnun 19 stærstu sveitarfélaga landsins, fjárhagsstaða borgarinnar er verulega slæm, biðlistar langir, illa gengur að fjölga félagslegum leiguíbúðum, ekki er verið að úthluta lóðum undir fjölbýlishús, Ísraelsmálið var ekkert undirbúið og göturnar eru eins og gatasigti.
Hér að neðan er yfirlit yfir nokkur atriði sem við í Framsókn og flugvallarvinum fjölluðum um á borgarstjórnarfundum í janúar- mars 2015 en næstu daga mun ég fjalla um hina mánuðina, auk ýmissa atriða sem við fjölluðum um í ráðum borgarinnar. Borgarstjórnarfundir eru haldnir tvisvar í mánuði nema í júlí og ágúst þá eru engir fundir.
Ferðaþjónusta fatlaðra
Þar sem ljóst var að grípa þurfti tafarlaust til aðgerða sem þoldu ekki bið lögðum við í Framsókn og flugvallarvinum fram tillögu á fyrsta borgarstjórnarfundi ársins 2015 að borgarstjórn myndi án tafar skipa aðgerðarhóp, auk þess sem símtöl hringjenda í ferðaþjónustu fatlaðra yrðu gjaldfrjáls. Meirihlutinn taldi slíkt ekki aðkallandi og vísaði tillögunum til velferðarráðs í stað þess að grípa til aðgerða. Á næsta fundi forsætisnefndar sem haldinn var 30. janúar vorum við í minnihlutanum „skömmuð“ að vera leggja fram tillögur með afbrigðum því meirihlutanum fannst það ekki jafn aðkallandi og okkur að grípa tafarlaust til aðgerða. Það var svo nokkrum dögum síðar eða 5. febrúar sem skipuð var neyðarstjórn en daginn áður hafði komið upp mjög alvarlegt tilvik þegar einn farþeginn týndist. Í skýrslum sem gerðar voru í kjölfarið kom fram að innleiðing og framkvæmd breytinganna var illa unnin og kom í ljós að þeir sem ábyrgðina báru töldu að einhver annar ætti að bera ábyrgðina og hafa umsjón með breytingunum.
Í lok pistilsins er að finna bókanir Framsóknar og flugvallarvina á tímabilinu janúar – mars 2015 um ferðaþjónustu fatlaðra og tillögu um að stjórn Strætó verði skipt út.
Ný innkaupastefna
Á borgarstjórnarfundi 20. janúar 2015 var samþykkt að vísa tillögu Framsóknar og flugvallarvina til borgarráðs um að innkauparáði yrði falið að gera nýja innkaupastefnu Reykjavíkurborgar þar sem tekið væri tillit til þeirra athugasemda sem fram komu í eftirfylgniskýrslu innri endurskoðenda Reykjavíkurborgar í janúar 2015 og að ný innkaupastefna yrði lögð fyrir borgarráð fyrir 1. mars 2015.
Aðkoma formanna fagráða á borgarstjórnarfundum
Á borgarstjórnarfundi 20. janúar 2015 ræddum við nauðsyn þess að tryggja aðkomu formanna fagráða, sem væru varaborgarfulltrúar, að borgarstjórnarfundum þegar málefni viðkomandi ráða væru á dagskrá svo borgarfulltrúar ættu beinan aðgang að þeim.
Greiðsla fyrir aukinn byggingarrétt
Á fundi borgarstjórnar 20. janúar 2015 bentu Framsókn og flugvallarvinir og Sjálfstæðisflokkur á það að ekki hefðu verið mótaðar reglur um greiðslur fyrir aukinn byggingarrétt á þegar byggðum lóðum en við teljum að lóðarhafar eigi að greiða fyrir aukinn byggingarrétt hvort heldur er við úthlutun nýrra lóða eða þar sem byggingarmagn er aukið verulega í eldri hverfum.
Þjónustukönnun Capacent á ánægju borgarbúa með þjónustu Reykjavíkurborgar
Á fundi borgarstjórnar 3. febrúar 2015 var umræða um þjónustukönnunina. Í samanburði við önnur sveitarfélög sem tóku þátt í könnuninni var Reykjavík í 19. sætinu, þ.e. neðsta sætinu, varðandi gæði umhverfis í nágrenni við heimilið, þjónustu við barnafjölskyldur, þjónustu grunnskóla, þjónustu leikskóla, þjónustu við eldri borgara, þjónustu við fatlaða, aðstöðu til íþróttaiðkunar og það hversu ánægðir íbúarnir væri með þjónustu sveitarfélagsins. Lýstu Framsókn og flugvallarvinir yfir miklum áhyggjum að Reykjavíkurborg kæmi verst út í þjónustukönnun 19 stærstu sveitarfélaga landsins og bentu á að athyglisvert væri að í þjónustukönnun eftir hverfum borgarinnar væru íbúar miðborgarinnar mest óánægðir með skipulagsmálin af íbúum borgarinnar. Skýrt kæmi fram í könnuninni að þátttakendur telja að brýnast væri að bæta samgöngumálin í borginni.
Deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar
Á fundi borgarstjórnar 3. febrúar 2015 ræddum við enn og aftur þá staðreynd sem við höfðum bent á við breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda á árinu 2014 á fundum umhverfis- og skipulagsráðs, borgarráðs og borgarstjórnar að deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar væri áfátt þar sem málsmeðferðin hafi ekki verið lögum samkvæmt og ættu þeir ágallar að leiða til ógildingar þess en málið hefði verið kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Á fundinum lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram svohljóðandi bókun:
„Deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar um að taka NA-SV flugbrautina af skipulagi var samþykkt í borgarstjórn 1. apríl 2014 á grundvelli umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. mars 2014. Tæpum tveimur mánuðum síðar breytti umhverfis- og skipulagssvið umsögninni og sendi hana breytta til Skipulagsstofnunar. Af fundargerðum umhverfis- og skipulagsráðs, borgarráðs og borgarstjórnar verður hvorki ráðið að þau gögn sem fylgdu bréfi umhverfis- og skipulagssviðs til Skipulagsstofnunar, dags. 26. maí 2014, þ.e. minnisblað skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, bréf frá Isavia, dags. 23. apríl 2014, bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014, og breytt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, hafi verið lögð fram né þær breytingar sem gerðar voru á umsögninni frá 10. mars 2014 hafi verið samþykktar vegna breytingar á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar. Hins vegar var bréf Isavia, dags. 23. apríl 2014, og bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014, lögð fram á fundi borgarráðs 5. júní 2014 vegna breytinga á deiliskipulagi Hlíðarenda sem er annað mál. Hafði Skipulagsstofnun engar forsendur til að ætla að málsmeðferðarreglum hafi ekki verið gætt við afgreiðslu málsins enda má stofnunin gera ráð fyrir því að upplýsingar frá borginni og breytingar hafi verið afgreiddar á lögmætan hátt.“
Tillaga borgarstjóra um samkomulag um undirbúning, framkvæmdir, áfangaskiptingu og sameiginlega kostnaðarþætti vegna uppbyggingar mannvirkja á Hlíðarendareit
Framsókn og flugvallarvinir höfðu á árinu 2014 lagt fram tillögu í borgarráði að borgin færi í viðræður við félög tengd uppbyggingu á Hlíðarendasvæðinu en tillögunni var hafnað. Á borgarstjórnarfundi 17. febrúar 2015 lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram svohljóðandi bókun:
„Uppbygging á Hlíðarenda gerir ráð fyrir því að flugbraut 06/24 sé ekki lengur til. Niðurstaða áhættumats vegna fyrirhugaðrar lokunar flugbrautar 06/24 liggur ekki fyrir og því liggur ekki fyrir afstaða Samgöngustofu til lokunarinnar. Þegar þessi atriði liggja fyrir væri fyrst hægt að taka upplýsta ákvörðun um hvaða áhrif slík lokun hefði á umhverfi innanlandsflugs, almannavarna, sjúkraflugs og líffæraflutninga. Er því órökrétt og óábyrgt að gera ráð fyrir byggingum sem teppa aðflug að flugbrautinni og loka henni áður en slíkar upplýsingar liggja fyrir. Þá er nefnd sem skipuð var um framtíðarstaðsetningu innanlandsflugs enn að störfum og hefur formaður nefndarinnar óskað eftir svigrúmi til að klára þá vinnu og styðjum við það. Þá hörmum við að borgarráð hafi ekki samþykkt tillögu Framsóknar og flugvallarvina frá 23. október 2014 um að ganga til viðræðna við félög tengd uppbyggingu á Hlíðarendasvæðinu um að finna lausn á fyrirhuguðum breytingum á deiliskipulagi Hlíðarenda þannig að fyrirhugaðar byggingar komist fyrir á reitnum án þess að vera hindrun fyrir flugbraut 06/24 svo hún geti áfram haldið hlutverki sínu þrátt fyrir uppbyggingu á Hlíðarenda og allir hagsmunaaðilar geti vel við unað en tillagan var felld í borgarráði 18. desember 2014 af borgarráðsfulltrúum Samfylkingar, VG, Bjartrar framtíðar og Pírata og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá við afgreiðsluna.“
Auglýsing á nýrri breytingum á skilmálum deiliskipulags Hlíðarenda
Á borgarstjórnarfundi 17. febrúar 2015 var málið tekið fyrir en dagana á undan hafði svokölluð neyðarbraut ítrekað verið notuð þar sem ekki var hægt að lenda á hinum tveimur flugbrautunum vegna veðurs m.a. annars daginn áður. Lögðumst við gegn þessu enda hafa Framsókn og flugvallarvinir „greitt atkvæði gegn öllum tillögum varðandi breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda og er afstaða okkar óbreytt. Framsókn og flugvallarvinir leggjast gegn öllum breytingum sem varða Reykjavíkurflugvöll, niðurstaða áhættumats liggur enn ekki fyrir, auk þess sem Rögnunefndin er enn að störfum. Fyrir liggur að flugbraut 06/24 hefur verið notuð í vetur í þeim tilvikum þegar ekki hefur verið hægt að lenda á hinum tveimur flugbrautunum vegna veðurs, m.a. í sjúkraflutningum og því ljóst að verði hún lögð niður getur m.a. sjúkraflugi og líffæraflutningum verið stefnt í hættu. Nauðsynlegt er að tryggja flugöryggi og það verður ekki gert nema brautin sé opin eins og sannast hefur ítrekað undanfarnar vikur og var hún m.a. notuð tvisvar í gær í sjúkraflugi.“
Rafrænar íbúakosningar
Á fundi borgarstjórnar 17. febrúar 2015 var fjallað um rafrænar íbúakosningar, Betri hverfi 2015, en þessar kosningar eru ekki að virka sem skyldi. Lítil þátttaka er bak við hverja tillögu og bentum við á að margar tillögurnar snúa að almennu viðhaldi og öryggismálum sem borginni ber að sinna en hefur vanrækt.
Börn með fjölþættan vanda
Á borgarstjórnarfundi 17. febrúar 2015 var umræða um málefni grunnskóla Reykjavíkur en við teljum að forgangsmál sé að bregðast við þeim vanda sem snýr að sérfræðiþjónustu við grunnskólabörn með fjölþættan vanda en Framsókn og flugvallarvinir lögðu fram tillögu á fundi borgarstjórnar 21. október 2014 að reglurnar yrðu endurskoðaðar og var samþykkt að vísa tillögunni til borgarráðs. Lögðum við fram svohljóðandi bókun á fundinum:
„Framsókn og flugvallarvinir telja það algerlega óásættanlegan forgang meirihlutans í Borgarstjórn Reykjavíkur að bregðast ekki undanbragðalaust við þeim vanda sem snýr að sérfræðiþjónustu við grunnskólabörn með fjölþættan vanda. Staðreyndin er löng bið eftir greiningum og enn lengri bið eftir viðeigandi úrræðum og þjónustu. Á meðan forgangsmál meirihlutans eru í ólestri versna aðstæður barna og dýrmætur tími fer forgörðum, þar sem erfiðara getur verið að koma viðkomandi til aðstoðar. Ekki er aðeins um að ræða börn í vímuefnavanda, heldur einnig börn með námsörðugleika, hegðunarerfiðleika, vandkvæði, kvíða, félagsfælni, fötlun og þunglyndi og er þá ekki allt upptalið. Skorað er á meirihlutann að breyta þessu, setja fram forgangsáætlun, sérfræðiþjónustu við þennan hóp þarf að setja í algeran forgang og jafnframt að gæta jafnræðis á milli hverfa borgarinnar.“
Tillögur fagráðs um eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings
Umræða var um tillögurnar á fundi borgarstjórnar 3. mars 2015 og lögðum við fram svohljóðandi bókun:
„Framsókn og flugvallarvinir fagna áfangaskýrslu fagráðs um eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings meðal barna og ungmenna í leik- og grunnskólum Reykjavíkurborgar ásamt frístund. Snemmtækum skimunum þurfa að fylgja fagleg úrræði til að tryggja farsæla uppbyggingu lestrarfærni og málþroska barna og unglinga. Símenntun, miðlæg fræðsla og sértæk þjónusta ásamt auðveldu aðgengi að greiningu og margbreytilegri þjálfun og öflugum stuðningi við nemendur eru nauðsynlegir þættir til að hægt verði að koma tillögum fagráðsins í framkvæmd. Eftirfylgnin skiptir öllu máli. Sérfræðiþjónustu kennsluráðgjafa þarf að nýta betur sameiginlega innan skólahverfa en nú er.“
Jafnlaunaúttekt
Á borgarstjórnarfundi 17. mars 2015 lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram svohljóðandi tillögu sem vísað var til borgarráðs:
„Í tilefni þess að í ár er fagnað 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna á Íslandi, samþykkir borgarstjórn að gerð verði jafnlaunaúttekt hjá Reykjavíkurborg sem staðfest verður með jafnlaunavottun á afmælisárinu. “
Óásættanleg vinnubrögð að mati Skipulagsstofnunar
Á fundi borgarstjórnar 17. mars 2015 var fjallað um deiliskipulag Borgartúns 28 en Skipulagsstofnun gerði athugasemdir við samráðsleysi og taldi vinnubrögðin ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Á fundinum bókuðum við:
„Borgarfulltrúar Framsóknar- og flugvallarvina fagna því að athugasemdir Skipulagsstofnunar hafi verið lagðar fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs og breyttur uppdráttur til samþykktar. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina greiddu atkvæði gegn breytingu á deiliskipulaginu og er afstaða til þess óbreytt. Skipulagsstofnun telur sérstaklega mikilvægt að haft sé samráð við íbúa og aðra hagsmunaðila umfram lágmarkskröfur skipulagslaga um auglýsingu, sbr. sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti. Meirihluti borgarstjórnar, þ.e. Samfylking, Vinstri græn, Björt framtíð og Píratar, voru ekki sömu skoðunar enda virti meirihlutinn að vettugi fjöldamargar athugasemdir sem bárust vegna breytinga á deiliskipulaginu og höfnuðu því að halda upplýsinga- og samráðsfund vegna breytinganna áður en deiliskipulagið var afgreitt. Eru slík vinnubrögð óásættanleg og ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti eins og Skipulagsstofnun bendir réttilega á.“
Og í lokinn aðeins meira um ferðaþjónustu fatlaðra og stjórn Strætó, hér má finna bókanir okkar og tillögur um málið á tímabilinu janúar- mars 2015:
Ósk um kynningu á akstursþjónustu
Á fyrsta borgarráðsfundi ársins 2015, þ.e. 8. janúar, óskuðu Framsókn og flugvallarvinir og Sjálfstæðisflokkur eftir því að fá kynningu í borgarráði frá akstursþjónustu fyrir fatlaða og Strætó bs. þar sem farið væri yfir stöðu mála og þróun verkefnisins um akstursþjónustu við fatlaðra.
Tillaga Framsóknar og flugvallarvina á borgarstjórnarfundi 20. janúar 2015 að stofnaður yrði aðgerðarhópur án tafar
Á fyrsta borgarstjórnarfundi ársins 2015 var umræða um ferðaþjónustu fatlaðra. Þar sem ljóst var að grípa þurfti tafarlaust til aðgerða sem þoldu ekki bið lögðum við í Framsókn og flugvallarvinum fram tillögu á fundinum að borgarstjórn myndi án tafar skipa aðgerðarhóp, auk þess sem símtöl hringjenda í ferðaþjónustu fatlaðra yrðu gjaldfrjáls. Meirihlutinn var ekki tilbúinn til þess og vísaði tillögunum til velferðarráðs. Á næsta fundi forsætisnefndar sem haldinn var 30. janúar vorum við í minnihlutanum „skömmuð“ að vera leggja fram tillögur með afbrigðum því meirihlutanum fannst það ekki jafn aðkallandi og okkur að grípa tafarlaust til aðgerða. Það var svo nokkrum dögum síðar eða 5. febrúar sem skipuð var neyðarstjórn en daginn áður hafði komið upp mjög alvarlegt tilvik þegar einn farþeginn týndist.
Framsókn og flugvallarvinir bókuðu eftirfarandi á borgarráðs 5. febrúar 2015 um skipun neyðarstjórnar
„Harmar þann alvarlega atburð sem gerðist í gær en fagnar því að loks verði skipaður neyðarhópur, svokölluð neyðarstjórn, en Framsókn og flugvallarvinir gerðu tillögu á borgarstjórnarfundi 20. janúar sl. um að skipaður yrði aðgerðarhópur án tafar. Það er miður að þeirri tillögu hafi verið vísað til velferðarráðs í stað þess að taka strax afstöðu til hennar og grípa til aðgerða enda um mjög brýnt og viðkvæmt mál að ræða. Þá er mjög ámælisvert að á fundi forsætisnefndar 30. janúar sl. bókaði meirihlutinn athugasemdir við að minnihlutinn væri að leggja fram tillögur með afbrigðum á borgarstjórnarfundi, m.a. þessa tillögu, sem sýnir hvað meirihlutinn hefur dregið lappirnar í þessu máli og vilji og alvara til að leysa málið lítill. Þá telja Framsókn og flugvallarvinir það mjög ámælisvert að ráðist var í breytingar á svo mikilvægri og viðkvæmri þjónustu áður en tryggt var að breytingarnar myndu ganga upp og allir verkferlar væru tryggir og skýrir. Voru þessar breytingar á ferðaþjónustu fatlaðs fólks illa undirbúnar. Meirihlutinn hefur dregið lappirnar í að leysa vandamál varðandi ferðaþjónustu fatlaðs fólks og eru afleiðingarnar skelfilegar. Á því ber meirihlutinn ábyrgð og stjórn Strætó bs.“
Á fundi borgarráðs 12. febrúar 2015 lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram svohljóðandi tillögu:
„Í eigendastefnu Strætó bs. segir að fyrirtækið komi fram af heilindum og trausti og ræki samfélagslega ábyrgð í starfsemi sinni. Fyrirtækið beri hag samfélagsins fyrir brjósti. Þá segir einnig um ábyrgð stjórnar að hún hafi eftirlit með að skipulag fyrirtæksins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi og í samræmi við stefnu eigenda. Eigendur hafa á síðasta mánuði ítrekað þurft að biðjast afsökunar fyrir hönd stjórnarinnar. Meirihlutanum í Reykjavík ber skylda til að axla ábyrgð og sýna borgarbúum þá virðingu að skipa nýjan stjórnarmann í Strætó bs., aðeins þannig verður hægt að endurbyggja traust á stjórn Strætó og meirihlutanum í borgarstjórn í þessum málaflokki. Núverandi stjórn Strætó bs. ber stjórnunarlega, faglega og pólitíska ábyrgð á verkefnum, verkferlum og aðgerðum í tengslum við þá fjölmörgu ágalla sem í ljós hafa komið við þjónustuveitingu við fatlað fólk. Skipan neyðarstjórnar breytir engu þar um. Ítrekað hefur komið í ljós að þetta verkefni, og önnur verkefni, er ofviða núverandi stjórn og hefur hún misst traust íbúa höfuðborgarsvæðisins og borgarbúa til áframhaldandi verka. Því leggja Framsókn og flugallarvinir fram þá tillögu að meirihlutinn í borgarstjórn hlutist til um að skipta út stjórnarmanni og varamanni sínum í byggðasamlaginu Strætó bs. Jafnframt skorum við á fulltrúa Reykjavíkurborgar í Sambandi sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu að leggja fram tillögu á stjórnarfundi SSH um að öll stjórn Strætó bs. verði leyst frá störfum og ný stjórn skipuð, en Reykjavíkurborg er eigandi 60,3% í Strætó bs., skv síðasta ársreikningi og hefur vald samkvæmt því.“
Bókun Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokks á borgarstjórnarfundi 17. febrúar 2015
Borgarstjóri og aðrir fulltrúar meirihluta borgarstjórnar hafa síður en svo axlað ábyrgð á því sem farið hefur úrskeiðis í málefnum ferðaþjónustu fatlaðra á undanförnum mánuðum. Strax á fyrstu dögum ársins kom í ljós alvarlegur þjónustubrestur hjá ferðaþjónustu fatlaðra í kjölfar breytinga, sem gerðar voru á starfsemi hennar um áramótin. Rætt var ítarlega um málið á borgarstjórnarfundi 20. janúar og lögð fram tillaga Framsóknar og flugvallarvina um tafarlausa skipun tímabundins aðgerðahóps til að leysa það vandamál sem Strætó bs. stendur frammi fyrir varðandi ferðaþjónustu fatlaðra. Meirihlutinn vísaði tillögunni til nefndar. Skilaboð borgarstjóra og formanns borgarráðs á fundinum voru þau að unnið væri hörðum höndum að því að koma þjónustunni í lag og að þeir tækju beinan þátt í þeirri vinnu. Sú vinna væri þegar farin að skila árangri og mikilvægt væri að gefa henni meiri tíma. Tillagan væri því óþörf. Eftir því sem dagarnir liðu kom í ljós að ekki stóð steinn yfir steini í yfirlýsingum fulltrúa borgarstjórnarmeirihlutans í málinu 20. janúar því ekki varð lát á alvarlegum tilvikum. Eftir að mjög alvarlegt tilvik varð hinn 4. febrúar kom loks fram tillaga frá meirihlutanum um skipun sérstakrar neyðarstjórnar vegna málefna ferðaþjónustu fatlaðra. Enn koma upp óviðunandi mál á vettvangi ferðaþjónustu fatlaðra þrátt fyrir að nú sé næstum mánuður liðinn frá digurbarkalegum yfirlýsingum borgarstjóra og annarra fulltrúa meirihlutans um að ástand ferðaþjónustu fatlaðra væri að komast í lag. Ljóst er að fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans hafa því ekki með nokkrum hætti axlað pólitíska ábyrgð í málinu eins og þeim ber að gera.
Bókun Framsóknar og flugvallarvina á borgarstjórnarfundi 17. mars 2015 við umræðu um skýrslu sérstakrar stjórnar ferðaþjónustu fatlaðs fólks
Eftir lestur skýrslu sérstakrar stjórnar ferðaþjónustu fatlaðs fólks er það ljóst að skipulag, innleiðing og framkvæmd þjónustunnar var í hæsta máta vanmetin. Ljóst er að bæta þarf verulega í ef duga skal til þess að þjónustan endurspegli þarfir, öryggi og upplifun notenda þjónustunnar. Furðu sætir að þessir þættir skuli ekki hafa verið leiðarljós við innleiðingu þjónustunnar.