Sunnudagur 3.1.2016 - 20:57 - FB ummæli ()

Óupplýsta fólkið

Jæja þá hefur Halldór Auðar Svansson Pírati opinberað að hann skiptir ekki um skoðun þó svo skoðun hans byggir á ófullnægjandi upplýsingum. Ef einhver tekur ákvörðun eða gerir samning sem byggir á röngum forsendum, ófullnægjandi gögnum, þá á slíkt að standa, alveg sama hvað. Mannslíf eru bara aukaatriði, óþarfa tilfinningaklám, eins og sumir hafa látið frá sér fara.  Hvað þá að stundaðir séu vandaðir stjórnsýsluhættir og lögum og reglum sé fylgt. Það er bara óþarfa vesen.

Eins og allir vita, sem hafa sett sig inn á málefni svokallaðrar neyðarbrautar, var ákvörðun tekin að taka hana af skipulagi, áður en fullvissa lá fyrir að það væri möguleiki án þess að  stefna flugöryggi í hættu. Áhættumat hafði ekki verið gert og enn hefur ekki verið gert áhættumat vegna lokunar hennar.

Viðhorf Píratans minnir mig svolítið á Martein Mosdal……það er bara til ein borgarskoðun alveg sama hversu vitlaus hún er og það er gunguháttur að skipta um skoðun og viðurkenna mistök sín.

Þetta er ekki spurning um góða og vonda fólkið heldur fólkið sem vill taka upplýsta ákvörðun.

Í leiðarljósi fyrir ný samþykkta upplýsingastefnu borgarinnar segir: „Vönduð meðferð og miðlun upplýsinga eru afar mikilvægir þættir í starfsemi opinberra aðila. Ákvarðanir þurfa að byggjast á bestu fáanlegu upplýsingum og almenningur og aðrir hagsmunaaðilar þurfa að vera vel upplýstir um ákvarðanir og forsendur þeirra.“

Fullnægjandi gögn lágu ekki fyrir þegar ákveðið var að taka neyðarbrautina af skipulagi og liggja enn ekki fyrir. Það eru ekki nema örfáir dagar síðan neyðarbrautin sannaði síðast gildi sitt en Píratanum er sama um slíkt. Hann skiptir nefnilega ekki um skoðun. Hann vill frekar gera lítið úr þeim sem hafa haft þann manndóm í sér að skipta um skoðun þegar þeim var ljóst að réttar upplýsingar lágu aldrei fyrir. Mikið er nú gott að innanríkisráðherra stýrir þessu máli af ábyrgð og ætlar sér ekki að loka brautinni án fullvissu um að slíkt komi ekki niður á flugöryggi en ekki formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar.

Píratinn sem er formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs ætti frekar í samantekt sinni að upplýsa af hverju hann virðir ekki 70.000 undirskriftir eða af hverju Píratar vilja stunda vonda stjórnsýslu þegar þeir eru í meirihluta borgarstjórnar og hvort það sé bara stefna þeirra að segjast virða lýðræðið þegar þeir eru í stjórnarandstöðu. Píratar hafa aldeilis haft tækifæri í 1 og 1/2 ár í meirihluta borgarstjórnar að sýna það og sanna að þeir vilja stunda öðruvísi pólitík, það hafa þeir enn ekki gert.

Hér er linkur á umfjöllun Eyjunnar um grein Halldórs Auðar Svanssonar:

http://eyjan.pressan.is/frettir/2016/01/03/halldor-audar-meirihlutinn-er-vonda-folkid-fyrir-ad-verja-hagsmuni-borgarinnar/

 

 

Flokkar: Flugvöllur · Óflokkað

Þriðjudagur 29.12.2015 - 14:42 - FB ummæli ()

Annáll 2015, janúar – mars

Árið hjá meirihlutanum í Reykjavík, þ.e. Samfylkingu, Pírötum, Vinstri grænum og Bjarti framtíð, byrjaði með klúðrinu með ferðaþjónustu fatlaðra og endaði með klúðrinu um deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar.

Í báðum þessum málum vildi meirihlutinn ekki hlusta á tillögur okkar og ábendingar, hvorki að stofna aðgerðarhóp á fyrsta borgarstjórnarfundi ársins vegna ferðaþjónustu fatlaðra en neyddist svo til gera slíkt nokkrum dögum síðar né hlusta á ábendingar okkar í 14 mánuði um það að málsmeðferð deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar væri áfátt og ættu þeir ágallar að leiða til ógildingar þess þar sem breyt­ing­ar voru gerðar eft­ir samþykki deili­skipu­lags­ins í borg­ar­stjórn. Reyndist það raunin því úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi deiliskipulagið úr gildi skömmu fyrir jól.

Borgin fékk falleinkunn í þjónustukönnun 19 stærstu sveitarfélaga landsins, fjárhagsstaða borgarinnar er verulega slæm, biðlistar langir, illa gengur að fjölga félagslegum leiguíbúðum, ekki er verið að úthluta lóðum undir fjölbýlishús, Ísraelsmálið var ekkert undirbúið og göturnar eru eins og gatasigti.

Hér að neðan er yfirlit yfir nokkur atriði sem við í Framsókn og flugvallarvinum fjölluðum um á borgarstjórnarfundum í janúar- mars 2015 en næstu daga mun ég fjalla um hina mánuðina, auk ýmissa atriða sem við fjölluðum um í ráðum borgarinnar. Borgarstjórnarfundir eru haldnir tvisvar í mánuði nema í júlí og ágúst þá eru engir fundir.

Ferðaþjónusta fatlaðra

Þar sem ljóst var að grípa þurfti tafarlaust til aðgerða sem þoldu ekki bið lögðum við í Framsókn og flugvallarvinum fram tillögu á fyrsta borgarstjórnarfundi ársins 2015 að borgarstjórn myndi án tafar skipa aðgerðarhóp, auk þess sem símtöl hringjenda í ferðaþjónustu fatlaðra yrðu gjaldfrjáls. Meirihlutinn taldi slíkt ekki aðkallandi og vísaði tillögunum til velferðarráðs í stað þess að grípa til aðgerða. Á næsta fundi forsætisnefndar sem haldinn var 30. janúar vorum við í minnihlutanum „skömmuð“ að vera leggja fram tillögur með afbrigðum því meirihlutanum fannst það ekki jafn aðkallandi og okkur að grípa tafarlaust til aðgerða. Það var svo nokkrum dögum síðar eða 5. febrúar sem skipuð var neyðarstjórn en daginn áður hafði komið upp mjög alvarlegt tilvik þegar einn farþeginn týndist. Í skýrslum sem gerðar voru í kjölfarið kom fram að innleiðing og framkvæmd breytinganna var illa unnin og kom í ljós að þeir sem ábyrgðina báru töldu að einhver annar ætti að bera ábyrgðina og hafa umsjón með breytingunum.

Í lok pistilsins er að finna bókanir Framsóknar og flugvallarvina á tímabilinu janúar – mars 2015 um ferðaþjónustu fatlaðra og tillögu um að stjórn Strætó verði skipt út.

Ný innkaupastefna

Á borgarstjórnarfundi 20. janúar 2015 var samþykkt að vísa tillögu Framsóknar og flugvallarvina til borgarráðs um að innkauparáði yrði falið að gera nýja innkaupastefnu Reykjavíkurborgar þar sem tekið væri tillit til þeirra athugasemda sem fram komu í eftirfylgniskýrslu innri endurskoðenda Reykjavíkurborgar í janúar 2015 og að ný innkaupastefna yrði lögð fyrir borgarráð fyrir 1. mars 2015.

Aðkoma formanna fagráða á borgarstjórnarfundum

Á borgarstjórnarfundi 20. janúar 2015 ræddum við nauðsyn þess að tryggja aðkomu formanna fagráða, sem væru varaborgarfulltrúar, að borgarstjórnarfundum þegar málefni viðkomandi ráða væru á dagskrá svo borgarfulltrúar ættu beinan aðgang að þeim.

Greiðsla fyrir aukinn byggingarrétt

Á fundi borgarstjórnar 20. janúar 2015 bentu Framsókn og flugvallarvinir og Sjálfstæðisflokkur á það að ekki hefðu verið mótaðar reglur um greiðslur fyrir aukinn byggingarrétt á þegar byggðum lóðum en við teljum að lóðarhafar eigi að greiða fyrir aukinn byggingarrétt hvort heldur er við úthlutun nýrra lóða eða þar sem byggingarmagn er aukið verulega í eldri hverfum.

Þjónustukönnun Capacent á ánægju borgarbúa með þjónustu Reykjavíkurborgar

Á fundi borgarstjórnar 3. febrúar 2015 var umræða um þjónustukönnunina. Í samanburði við önnur sveitarfélög sem tóku þátt í könnuninni var Reykjavík í 19. sætinu, þ.e. neðsta sætinu, varðandi gæði umhverfis í nágrenni við heimilið, þjónustu við barnafjölskyldur, þjónustu grunnskóla, þjónustu leikskóla, þjónustu við eldri borgara, þjónustu við fatlaða, aðstöðu til íþróttaiðkunar og það hversu ánægðir íbúarnir væri með þjónustu sveitarfélagsins. Lýstu Framsókn og flugvallarvinir yfir miklum áhyggjum að Reykjavíkurborg kæmi verst út í þjónustukönnun 19 stærstu sveitarfélaga landsins og bentu á að athyglisvert væri að í þjónustukönnun eftir hverfum borgarinnar væru íbúar miðborgarinnar mest óánægðir með skipulagsmálin af íbúum borgarinnar. Skýrt kæmi fram í könnuninni að þátttakendur telja að brýnast væri að bæta samgöngumálin í borginni.

Deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar

Á fundi borgarstjórnar 3. febrúar 2015 ræddum við enn og aftur þá staðreynd sem við höfðum bent á við breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda á árinu 2014 á fundum umhverfis- og skipulagsráðs, borgarráðs og borgarstjórnar að deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar væri áfátt þar sem málsmeðferðin hafi ekki verið lögum samkvæmt og ættu þeir ágallar að leiða til ógildingar þess en málið hefði verið kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Á fundinum lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram svohljóðandi bókun:

„Deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar um að taka NA-SV flugbrautina af skipulagi var samþykkt í borgarstjórn 1. apríl 2014 á grundvelli umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. mars 2014. Tæpum tveimur mánuðum síðar breytti umhverfis- og skipulagssvið umsögninni og sendi hana breytta til Skipulagsstofnunar. Af fundargerðum umhverfis- og skipulagsráðs, borgarráðs og borgarstjórnar verður hvorki ráðið að þau gögn sem fylgdu bréfi umhverfis- og skipulagssviðs til Skipulagsstofnunar, dags. 26. maí 2014, þ.e. minnisblað skipulagsfulltrúa til borgarráðs, dags. 20. maí 2014, bréf frá Isavia, dags. 23. apríl 2014, bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014, og breytt umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, hafi verið lögð fram né þær breytingar sem gerðar voru á umsögninni frá 10. mars 2014 hafi verið samþykktar vegna breytingar á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar. Hins vegar var bréf Isavia, dags. 23. apríl 2014, og bréf til Isavia, dags. 20. maí 2014, lögð fram á fundi borgarráðs 5. júní 2014 vegna breytinga á deiliskipulagi Hlíðarenda sem er annað mál. Hafði Skipulagsstofnun engar forsendur til að ætla að málsmeðferðarreglum hafi ekki verið gætt við afgreiðslu málsins enda má stofnunin gera ráð fyrir því að upplýsingar frá borginni og breytingar hafi verið afgreiddar á lögmætan hátt.“

Tillaga borgarstjóra um samkomulag um undirbúning, framkvæmdir, áfangaskiptingu og sameiginlega kostnaðarþætti vegna uppbyggingar mannvirkja á Hlíðarendareit

Framsókn og flugvallarvinir höfðu á árinu 2014 lagt fram tillögu í borgarráði að borgin færi í viðræður við félög tengd uppbyggingu á Hlíðarendasvæðinu en tillögunni var hafnað. Á borgarstjórnarfundi 17. febrúar 2015 lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram svohljóðandi bókun:

„Uppbygging á Hlíðarenda gerir ráð fyrir því að flugbraut 06/24 sé ekki lengur til. Niðurstaða áhættumats vegna fyrirhugaðrar lokunar flugbrautar 06/24 liggur ekki fyrir og því liggur ekki fyrir afstaða Samgöngustofu til lokunarinnar. Þegar þessi atriði liggja fyrir væri fyrst hægt að taka upplýsta ákvörðun um hvaða áhrif slík lokun hefði á umhverfi innanlandsflugs, almannavarna, sjúkraflugs og líffæraflutninga. Er því órökrétt og óábyrgt að gera ráð fyrir byggingum sem teppa aðflug að flugbrautinni og loka henni áður en slíkar upplýsingar liggja fyrir. Þá er nefnd sem skipuð var um framtíðarstaðsetningu innanlandsflugs enn að störfum og hefur formaður nefndarinnar óskað eftir svigrúmi til að klára þá vinnu og styðjum við það. Þá hörmum við að borgarráð hafi ekki samþykkt tillögu Framsóknar og flugvallarvina frá 23. október 2014 um að ganga til viðræðna við félög tengd uppbyggingu á Hlíðarendasvæðinu um að finna lausn á fyrirhuguðum breytingum á deiliskipulagi Hlíðarenda þannig að fyrirhugaðar byggingar komist fyrir á reitnum án þess að vera hindrun fyrir flugbraut 06/24 svo hún geti áfram haldið hlutverki sínu þrátt fyrir uppbyggingu á Hlíðarenda og allir hagsmunaaðilar geti vel við unað en tillagan var felld í borgarráði 18. desember 2014 af borgarráðsfulltrúum Samfylkingar, VG, Bjartrar framtíðar og Pírata og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá við afgreiðsluna.“

Auglýsing á nýrri breytingum á skilmálum deiliskipulags Hlíðarenda

Á borgarstjórnarfundi 17. febrúar 2015 var málið tekið fyrir en dagana á undan hafði svokölluð neyðarbraut ítrekað verið notuð þar sem ekki var hægt að lenda á hinum tveimur flugbrautunum vegna veðurs m.a. annars daginn áður. Lögðumst við gegn þessu enda hafa Framsókn og flugvallarvinir „greitt atkvæði gegn öllum tillögum varðandi breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda og er afstaða okkar óbreytt. Framsókn og flugvallarvinir leggjast gegn öllum breytingum sem varða Reykjavíkurflugvöll, niðurstaða áhættumats liggur enn ekki fyrir, auk þess sem Rögnunefndin er enn að störfum. Fyrir liggur að flugbraut 06/24 hefur verið notuð í vetur í þeim tilvikum þegar ekki hefur verið hægt að lenda á hinum tveimur flugbrautunum vegna veðurs, m.a. í sjúkraflutningum og því ljóst að verði hún lögð niður getur m.a. sjúkraflugi og líffæraflutningum verið stefnt í hættu. Nauðsynlegt er að tryggja flugöryggi og það verður ekki gert nema brautin sé opin eins og sannast hefur ítrekað undanfarnar vikur og var hún m.a. notuð tvisvar í gær í sjúkraflugi.“

Rafrænar íbúakosningar

Á fundi borgarstjórnar 17. febrúar 2015 var fjallað um rafrænar íbúakosningar, Betri hverfi 2015, en þessar kosningar eru ekki að virka sem skyldi. Lítil þátttaka er bak við hverja tillögu og bentum við á að margar tillögurnar snúa að almennu viðhaldi og öryggismálum sem borginni ber að sinna en hefur vanrækt.

Börn með fjölþættan vanda

Á borgarstjórnarfundi 17. febrúar 2015 var umræða um málefni grunnskóla Reykjavíkur en við teljum að forgangsmál sé að bregðast við þeim vanda sem snýr að sérfræðiþjónustu við grunnskólabörn með fjölþættan vanda en Framsókn og flugvallarvinir lögðu fram tillögu á fundi borgarstjórnar 21. október 2014 að reglurnar yrðu endurskoðaðar og var samþykkt að vísa tillögunni til borgarráðs. Lögðum við fram svohljóðandi bókun á fundinum:

„Framsókn og flugvallarvinir telja það algerlega óásættanlegan forgang meirihlutans í Borgarstjórn Reykjavíkur að bregðast ekki undanbragðalaust við þeim vanda sem snýr að sérfræðiþjónustu við grunnskólabörn með fjölþættan vanda. Staðreyndin er löng bið eftir greiningum og enn lengri bið eftir viðeigandi úrræðum og þjónustu. Á meðan forgangsmál meirihlutans eru í ólestri versna aðstæður barna og dýrmætur tími fer forgörðum, þar sem erfiðara getur verið að koma viðkomandi til aðstoðar. Ekki er aðeins um að ræða börn í vímuefnavanda, heldur einnig börn með námsörðugleika, hegðunarerfiðleika, vandkvæði, kvíða, félagsfælni, fötlun og þunglyndi og er þá ekki allt upptalið. Skorað er á meirihlutann að breyta þessu, setja fram forgangsáætlun, sérfræðiþjónustu við þennan hóp þarf að setja í algeran forgang og jafnframt að gæta jafnræðis á milli hverfa borgarinnar.“

Tillögur fagráðs um eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings

Umræða var um tillögurnar á fundi borgarstjórnar 3. mars 2015 og lögðum við fram svohljóðandi bókun:

„Framsókn og flugvallarvinir fagna áfangaskýrslu fagráðs um eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings meðal barna og ungmenna í leik- og grunnskólum Reykjavíkurborgar ásamt frístund. Snemmtækum skimunum þurfa að fylgja fagleg úrræði til að tryggja farsæla uppbyggingu lestrarfærni og málþroska barna og unglinga. Símenntun, miðlæg fræðsla og sértæk þjónusta ásamt auðveldu aðgengi að greiningu og margbreytilegri þjálfun og öflugum stuðningi við nemendur eru nauðsynlegir þættir til að hægt verði að koma tillögum fagráðsins í framkvæmd. Eftirfylgnin skiptir öllu máli. Sérfræðiþjónustu kennsluráðgjafa þarf að nýta betur sameiginlega innan skólahverfa en nú er.“

Jafnlaunaúttekt 

Á borgarstjórnarfundi 17. mars 2015 lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram svohljóðandi tillögu sem vísað var til borgarráðs:

„Í tilefni þess að í ár er fagnað 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna á Íslandi, samþykkir borgarstjórn að gerð verði jafnlaunaúttekt hjá Reykjavíkurborg sem staðfest verður með jafnlaunavottun á afmælisárinu. “

Óásættanleg vinnubrögð að mati Skipulagsstofnunar

Á fundi borgarstjórnar 17. mars 2015 var fjallað um deiliskipulag Borgartúns 28 en Skipulagsstofnun gerði athugasemdir við samráðsleysi og taldi vinnubrögðin ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Á fundinum bókuðum við:

„Borgarfulltrúar Framsóknar- og flugvallarvina fagna því að athugasemdir Skipulagsstofnunar hafi verið lagðar fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs og breyttur uppdráttur til samþykktar. Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina greiddu atkvæði gegn breytingu á deiliskipulaginu og er afstaða til þess óbreytt. Skipulagsstofnun telur sérstaklega mikilvægt að haft sé samráð við íbúa og aðra hagsmunaðila umfram lágmarkskröfur skipulagslaga um auglýsingu, sbr. sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti. Meirihluti borgarstjórnar, þ.e. Samfylking, Vinstri græn, Björt framtíð og Píratar, voru ekki sömu skoðunar enda virti meirihlutinn að vettugi fjöldamargar athugasemdir sem bárust vegna breytinga á deiliskipulaginu og höfnuðu því að halda upplýsinga- og samráðsfund vegna breytinganna áður en deiliskipulagið var afgreitt. Eru slík vinnubrögð óásættanleg og ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti eins og Skipulagsstofnun bendir réttilega á.“

Og í lokinn aðeins meira um ferðaþjónustu fatlaðra og stjórn Strætó, hér má finna bókanir okkar og tillögur um málið á tímabilinu janúar- mars 2015:

Ósk um kynningu á akstursþjónustu

Á fyrsta borgarráðsfundi ársins 2015, þ.e. 8. janúar, óskuðu Framsókn og flugvallarvinir og Sjálfstæðisflokkur eftir því að fá kynningu í borgarráði frá akstursþjónustu fyrir fatlaða og Strætó bs. þar sem farið væri yfir stöðu mála og þróun verkefnisins um akstursþjónustu við fatlaðra.

Tillaga Framsóknar og flugvallarvina á borgarstjórnarfundi 20. janúar 2015 að stofnaður yrði aðgerðarhópur án tafar

Á fyrsta borgarstjórnarfundi ársins 2015 var umræða um ferðaþjónustu fatlaðra. Þar sem ljóst var að grípa þurfti tafarlaust til aðgerða sem þoldu ekki bið lögðum við í Framsókn og flugvallarvinum fram tillögu á fundinum að borgarstjórn myndi án tafar skipa aðgerðarhóp, auk þess sem símtöl hringjenda í ferðaþjónustu fatlaðra yrðu gjaldfrjáls. Meirihlutinn var ekki tilbúinn til þess og vísaði tillögunum til velferðarráðs. Á næsta fundi forsætisnefndar sem haldinn var 30. janúar vorum við í minnihlutanum „skömmuð“ að vera leggja fram tillögur með afbrigðum því meirihlutanum fannst það ekki jafn aðkallandi og okkur að grípa tafarlaust til aðgerða. Það var svo nokkrum dögum síðar eða 5. febrúar sem skipuð var neyðarstjórn en daginn áður hafði komið upp mjög alvarlegt tilvik þegar einn farþeginn týndist.

Framsókn og flugvallarvinir bókuðu eftirfarandi á borgarráðs 5. febrúar 2015 um skipun neyðarstjórnar

„Harmar þann alvarlega atburð sem gerðist í gær en fagnar því að loks verði skipaður neyðarhópur, svokölluð neyðarstjórn, en Framsókn og flugvallarvinir gerðu tillögu á borgarstjórnarfundi 20. janúar sl. um að skipaður yrði aðgerðarhópur án tafar. Það er miður að þeirri tillögu hafi verið vísað til velferðarráðs í stað þess að taka strax afstöðu til hennar og grípa til aðgerða enda um mjög brýnt og viðkvæmt mál að ræða. Þá er mjög ámælisvert að á fundi forsætisnefndar 30. janúar sl. bókaði meirihlutinn athugasemdir við að minnihlutinn væri að leggja fram tillögur með afbrigðum á borgarstjórnarfundi, m.a. þessa tillögu, sem sýnir hvað meirihlutinn hefur dregið lappirnar í þessu máli og vilji og alvara til að leysa málið lítill. Þá telja Framsókn og flugvallarvinir það mjög ámælisvert að ráðist var í breytingar á svo mikilvægri og viðkvæmri þjónustu áður en tryggt var að breytingarnar myndu ganga upp og allir verkferlar væru tryggir og skýrir. Voru þessar breytingar á ferðaþjónustu fatlaðs fólks illa undirbúnar. Meirihlutinn hefur dregið lappirnar í að leysa vandamál varðandi ferðaþjónustu fatlaðs fólks og eru afleiðingarnar skelfilegar. Á því ber meirihlutinn ábyrgð og stjórn Strætó bs.“

Á fundi borgarráðs 12. febrúar 2015 lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram svohljóðandi tillögu: 

„Í eigendastefnu Strætó bs. segir að fyrirtækið komi fram af heilindum og trausti og ræki samfélagslega ábyrgð í starfsemi sinni. Fyrirtækið beri hag samfélagsins fyrir brjósti. Þá segir einnig um ábyrgð stjórnar að hún hafi eftirlit með að skipulag fyrirtæksins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi og í samræmi við stefnu eigenda. Eigendur hafa á síðasta mánuði ítrekað þurft að biðjast afsökunar fyrir hönd stjórnarinnar. Meirihlutanum í Reykjavík ber skylda til að axla ábyrgð og sýna borgarbúum þá virðingu að skipa nýjan stjórnarmann í Strætó bs., aðeins þannig verður hægt að endurbyggja traust á stjórn Strætó og meirihlutanum í borgarstjórn í þessum málaflokki. Núverandi stjórn Strætó bs. ber stjórnunarlega, faglega og pólitíska ábyrgð á verkefnum, verkferlum og aðgerðum í tengslum við þá fjölmörgu ágalla sem í ljós hafa komið við þjónustuveitingu við fatlað fólk. Skipan neyðarstjórnar breytir engu þar um. Ítrekað hefur komið í ljós að þetta verkefni, og önnur verkefni, er ofviða núverandi stjórn og hefur hún misst traust íbúa höfuðborgarsvæðisins og borgarbúa til áframhaldandi verka. Því leggja Framsókn og flugallarvinir fram þá tillögu að meirihlutinn í borgarstjórn hlutist til um að skipta út stjórnarmanni og varamanni sínum í byggðasamlaginu Strætó bs. Jafnframt skorum við á fulltrúa Reykjavíkurborgar í Sambandi sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu að leggja fram tillögu á stjórnarfundi SSH um að öll stjórn Strætó bs. verði leyst frá störfum og ný stjórn skipuð, en Reykjavíkurborg er eigandi 60,3% í Strætó bs., skv síðasta ársreikningi og hefur vald samkvæmt því.“

Bókun Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokks á borgarstjórnarfundi 17. febrúar 2015

Borgarstjóri og aðrir fulltrúar meirihluta borgarstjórnar hafa síður en svo axlað ábyrgð á því sem farið hefur úrskeiðis í málefnum ferðaþjónustu fatlaðra á undanförnum mánuðum. Strax á fyrstu dögum ársins kom í ljós alvarlegur þjónustubrestur hjá ferðaþjónustu fatlaðra í kjölfar breytinga, sem gerðar voru á starfsemi hennar um áramótin. Rætt var ítarlega um málið á borgarstjórnarfundi 20. janúar og lögð fram tillaga Framsóknar og flugvallarvina um tafarlausa skipun tímabundins aðgerðahóps til að leysa það vandamál sem Strætó bs. stendur frammi fyrir varðandi ferðaþjónustu fatlaðra. Meirihlutinn vísaði tillögunni til nefndar. Skilaboð borgarstjóra og formanns borgarráðs á fundinum voru þau að unnið væri hörðum höndum að því að koma þjónustunni í lag og að þeir tækju beinan þátt í þeirri vinnu. Sú vinna væri þegar farin að skila árangri og mikilvægt væri að gefa henni meiri tíma. Tillagan væri því óþörf. Eftir því sem dagarnir liðu kom í ljós að ekki stóð steinn yfir steini í yfirlýsingum fulltrúa borgarstjórnarmeirihlutans í málinu 20. janúar því ekki varð lát á alvarlegum tilvikum. Eftir að mjög alvarlegt tilvik varð hinn 4. febrúar kom loks fram tillaga frá meirihlutanum um skipun sérstakrar neyðarstjórnar vegna málefna ferðaþjónustu fatlaðra. Enn koma upp óviðunandi mál á vettvangi ferðaþjónustu fatlaðra þrátt fyrir að nú sé næstum mánuður liðinn frá digurbarkalegum yfirlýsingum borgarstjóra og annarra fulltrúa meirihlutans um að ástand ferðaþjónustu fatlaðra væri að komast í lag. Ljóst er að fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans hafa því ekki með nokkrum hætti axlað pólitíska ábyrgð í málinu eins og þeim ber að gera.

Bókun Framsóknar og flugvallarvina á borgarstjórnarfundi 17. mars 2015 við umræðu um skýrslu sérstakrar stjórnar ferðaþjónustu fatlaðs fólks

Eftir lestur skýrslu sérstakrar stjórnar ferðaþjónustu fatlaðs fólks er það ljóst að skipulag, innleiðing og framkvæmd þjónustunnar var í hæsta máta vanmetin. Ljóst er að bæta þarf verulega í ef duga skal til þess að þjónustan endurspegli þarfir, öryggi og upplifun notenda þjónustunnar. Furðu sætir að þessir þættir skuli ekki hafa verið leiðarljós við innleiðingu þjónustunnar.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.12.2015 - 18:55 - FB ummæli ()

Deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar fellt úr gildi

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi í dag úr gildi deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar sem samþykkt var á fundi borgarstjórnar 1. apríl 2014, rétt undir lok síðasta kjörtímabils, en með deiliskipulaginu var flugbraut 06/24 eða svokölluð neyðarbraut, tekin út af skipulagi. Þær röksemdir sem notaðar voru við athugasemdir sem bárust við breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda, sem var samþykkt í lok síðasta árs, voru á þá leið að þær ættu ekki við rök að styðjast þar sem flugbrautin væri ekki lengur á deiliskipulagi!

Framsókn og flugvallarvinir hafa ávallt haldið því fram og bókað frá árinu 2014 að við teljum að umræddu deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar sé áfátt og eigi þeir ágallar að leiða til ógildingar þess.

Á fundi borgarstjórnar 2. desember 2014 voru samþykktar breytingar á deiliskipulagi Hlíðarenda og greiddum við atkvæði gegn því og bókuðum:

„Í umsögn skipulagsfulltrúa við athugasemdum sem bárust um breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda er vísað til þeirra athugasemda um að flugbraut 06-24 eigi ekki við rök að styðjast þar sem flugbrautina sé ekki lengur að finna á skipulagi þar sem í gildi sé deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar sem tók gildi 6. júní 2014 sem ekki gerir ráð fyrir flugbrautinni. Við teljum að umræddu deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar sem samþykkt var í borgarstjórn 1. apríl 2014 og tók gildi 6. júní 2014 sé verulega áfátt, bæði varðandi málsmeðferð og efni, og eigi þeir ágallar að leiða til ógildingar deiliskipulagsins en umrætt deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar hefur verið kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Eftir samþykkt deiliskipulags Reykjavíkurflugvallar í borgarstjórn þann 1. apríl 2014 voru ýmis gögn og breytingar gerðar sem aldrei voru lagðar fram, ræddar eða samþykktar í sveitarstjórn. Áhættumat vegna fyrirhugaðrar lokunar flugbrautar 06-24 liggur ekki fyrir né afstaða Samgöngustofu til lokunarinnar. Þegar þessi atriði liggja fyrir væri fyrst hægt að taka upplýsta ákvörðun um hvaða áhrif slík lokun hefði á umhverfi innanlandsflugs og sjúkraflugs. Er því órökrétt og óábyrgt að gera ráð fyrir byggingum sem teppa aðflug að flugbrautinni og loka henni áður en slíkar upplýsingar liggja fyrir. Þá er nefnd sem skipuð var um framtíðarstaðsetningu innanlandsflugs enn að störfum og hefur formaður nefndarinnar óskað eftir svigrúmi til að klára þá vinnu og styðjum við það. Þá hörmum við að borgarráð hafi ekki tekið til afgreiðslu tillögu Framsóknar og flugvallarvina frá 23. október 2014, áður en tillaga sú sem hér er til afgreiðslu er afgreidd.“

Hér má finna grein sem ég skrifaði á Eyjuna 7. febrúar sl. sem ber yfirskriftina „Verður deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar fellt úr gildi“. Svarið við þeirri spurningu fékkst í dag: Já.

http://blog.pressan.is/gudfinnajohanna/2015/02/07/verdur-deiliskipulag-reykjavikurflugvallar-fellt-ur-gildi/#.VnL1BrxpSVg.facebook

 

Flokkar: Flugvöllur

Fimmtudagur 26.11.2015 - 16:12 - FB ummæli ()

Reykjavíkurborg ræður rekstrarráðgjafa

Á fundi borgarráðs í dag var tekin fyrir eftirfarandi tillaga Framsóknar og flugvallarvina frá 3. september sl.:

„Í nýrri skýrslu fjármálaskrifstofu segir um rekstrarniðurstöðu A-hluta að hann kalli á viðbrögð í fjármálastjórn borgarinnar.  Því leggja Framsókn og flugvallarvinir fram þá tillögu að borgarráð fái aðstoð utanaðkomandi rekstrarsérfræðinga frá viðurkenndri endurskoðunarskrifstofu til að takast á við fjárhagsvanda borgarinnar sem skal vera borgarráði til ráðgjafar í þeirri vinnu sem framundan er til að ná fram sparnaði og hagræðingu til að snúa við hallarekstri borgarinnar.“

Á fundinum í dag lagði borgarstjóri til að borgarráð samþykkti svohljóðandi breytingartillögu:

„Borgarráð samþykkir að ganga til samninga við Ágúst Þorbjörnsson rekstrarráðgjafa hjá Framsækni. Hann mun vera borgarstjóra, fagsviðum, miðlægri stjórnsýslu, stýrihóp Reykjavíkurborgar um hagræðingaraðgerðir og hagræðinganefndum til ráðgjafar um mögulegar hagræðingarleiðir í rekstri A-hluta Reykjavíkurborgar.“

Var tillagan samþykkt og lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram eftirfarandi bókun:

„Við fögnum því að borgarráð hafi loks samþykkt að ráða rekstrarráðgjafa á grundvelli tillögu Framsóknar og flugvallarvina en gerum athugasemdir við að tillagan sé fyrst nú tæpum þremur mánuðum eftir að hún var lögð fram tekin til afgreiðslu. Slíkan ráðgjafa hefði átt að ráða fyrr, til að aðstoða við gerð fjárhagsáætlunar þ.e. hvernig hægt væri að hagræða í rekstri borgarinnar, en ekki 5 dögum áður en seinni umræðan um fjárhagsáætlun 2016 fer fram. Hins vegar er fagnað að um varanlegt verkefni er að ræða.“

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 23.11.2015 - 16:45 - FB ummæli ()

Neyðarbrautin notuð í dag vegna veðurs

Á facebook í dag hafa komið fram upplýsingar og myndband um það að í morgun hafi NA/SV flugbrautin (06/24) eða svokölluð neyðarbraut verið notuð vegna of mikils hliðarvinds til að hægt væri að lenda á hinum tveimur flugbrautunum.

Á fundi borgarráðs 19. nóvember sl. var lagt fram bréf innanríkisráðherra, dags. 3. nóvember sl., þar sem mótmælt er rökum Reykjavíkurborgar að innanríkisráðuneytinu f.h. íslenska ríkisins sé skylt að tilkynna lokun NA/SV flugbrautarinnar og gera breytingar á skipulagsreglum. Þá er mögulegri bótaskyldu ríkisins vegna fyrirhugaðra byggingaráforma á Hlíðarendasvæði mótmælt. Vegna tilvísunar Reykjavíkurborgar til mögulegrar málshöfðunar á hendur íslenska ríkinu til viðurkenningar á kröfum sínum um að brautinni verði lokað og skipulagsreglum fyrir Reykjavíkurflugvöll breytt, er tekið fram að telja verði eðlilegt að Reykjavíkurborg leggi fyrir dómstóla að fá úr þeim álitamálum leyst þannig að skorið verði úr um hvort sú skylda hvíli á ríkinu að loka flugbrautinni eða skipulagsreglum breytt. Í bókun meirihlutans á fundi borgarráðs var borgarlögmanni falið að höfða mál á hendur ríkinu.

Fullvissa liggur ekki fyrir

Þar sem enn hefur ekki verið sýnt fram á það að hægt sé að loka flugbraut 06/24 þannig að það komi ekki niður á flugöryggi fögnum við í Framsókn og flugvallarvinum því að innanríkisráðherra ætlar ekki að loka flugbrautinni án slíkrar fullvissu. Til að unnt sé að taka ákvörðun um lokun flugbrautar þarf að liggja fyrir að lokunin komi ekki niður á flugöryggi. Er það fyrst þegar búið er að vinna ákveðna grunnvinnu sem felst m.a. í því að kanna hvort og þá hvaða afleiðingar og áhrif slík lokun hefur eða gæti haft sem hægt er að taka upplýsta ákvörðun hvort unnt sé að loka brautinni yfir höfuð. Er því órökrétt og óábyrgt að taka flugbraut út af skipulagi, gera ráð fyrir byggingum sem teppa aðflug að flugbrautinni og loka henni áður en slíkar upplýsingar liggja fyrir.

Byrjað á öfugum enda

Í þessu máli eins og svo mörgum öðrum málum þessa meirihluta í borginni er byrjað á öfugum enda. Má í því sambandi vísa til vinnubragða vegna ferðaþjónustu fatlaðra og í Ísraelsmálinu.

Ekki liggja fyrir nauðsynleg gögn til að taka afstöðu til lokunar flugbrautarinnar en í niðurstöðu Samgöngustofu frá því í sumar um áhættumatið kemur fram að áhættumat Isavia nái hvorki til áhrifa á flugvallarkerfi landsins í heild sinni, neyðarskipulags Almannavarna, áhrifa á sjúkraflutninga né fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur og þurfi að gera sérstakt áhættumat um framkvæmd breytingarinnar komi til þess að ákveðið verði að loka flugbraut 06/24.

Málsmeðferðin í faglegu ferli hjá ráðherra

Innanríkisráðherra hefur yfirumsjón með flugmálum og ber ábyrgð á því að fyllsta flugöryggis sé gætt meðal annars á grundvelli alþjóðlegra reglna. Til að unnt sé að taka ákvörðun um lokun flugbrautar er ekki nóg að taka flugbraut út af skipulagi eins og meirihlutinn gerði heldur verður það að liggja fyrir að lokun flugbrautarinnar komi ekki niður á öryggi flugvallarins og að viðhalda megi fullnægjandi þjónustustigi fyrir alla landsmenn. Slíkt lá hvorki fyrir þegar meirihlutinn ákvað að taka flugbrautina út af skipulagi né liggur það nú fyrir.

Eins og fram kemur í bréfi innanríkisráðherra verður ákvörðun um lokun NA/SV flugbrautarinnar ekki tekin án fullvissu um að lokun brautarinnar komi ekki niður á öryggi flugvallarins og að viðhalda megi fullnægjandi þjónustustigi fyrir alla landsmenn. Því segir ráðherra að ekki sé á þessu stigi unnt að lýsa yfir hver niðurstaðan verði, en ráðuneytið hafi nú m.a. til skoðunar áhættumat Isavia og niðurstöðu Samgöngustofu um áhrif lokunar flugbrautarinnar.

Þar sem enn hefur ekki verið sýnt fram á það að hægt sé að loka flugbraut 06/24 þannig að það komi ekki niður á flugöryggi er ákvörðun innanríkisráðherra rökrétt og ábyrg.

Flokkar: Flugvöllur

Sunnudagur 15.11.2015 - 13:35 - FB ummæli ()

Vilt þú að tilteknum götum verði lokað í 5 mánuði á ári?

Tilraunir með göngugötur í miðborginni hafa staðið yfir síðustu sumur og hefur ánægja borgarbúa með þær aukist ár frá ári, samkvæmt könnunum sem Capacent hefur gert. Nú stendur til að loka ákveðnum götum til frambúðar í 5 mánuði á ári eða frá 1. maí til 1. október.

Í skoðanakönnun sem Gallup gerði meðal félagsmanna í Miðborginni okkar síðastliðið vor voru 59,8% aðspurðra andvígir því að lengja tímabil sumargatna á Laugavegi og Skólavörðustíg í 5 mánuði frá 1. maí til 1. október.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 4. nóvember sl. samþykkti meirihlutinn tillögu um að loka tilteknum götum fyrir bílaumferð í 5 mánuði á ári til frambúðar, þ.e. frá 1. maí til 1. október. Um er að ræða lokun á Pósthússtræti við Kirkjustræti, Hafnarstræti að austanverðu frá Pósthússtræti, Laugavegi við Vatnsstíg að gatnamótum Bankastrætis og Þingholtsstrætis og Skólavörðustíg við Bergstaðastræti. Göturnar verða þó opnar fyrir vöruafgreiðslu virka daga milli kl. 07:00 og 11:00 og tekið verður tillit til þess að fatlaðir komist leiða sinna.

Skoðanakönnun; hlynnt sumargötum, andvíg 5 mánaða lokun 

Í skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Miðborgina okkar í apríl síðastliðnum þar sem kannað var viðhorf félagsmanna til sumargatna voru 58,3% hlynntir sumargötum á Laugavegi og Skólavörðustíg miðað við reynslu undanfarinna ára þar sem lokað væri fyrir bílaumferð frá kl. 12 yfir sumarmánuðina en 38,9 voru því andvígir. Þá voru 39,4% hlynntir lokunum alla daga óháð veðri en 35,8% þegar þurrt væri og hiti yfir 10°.

Það voru hins vegar 59,8% andvígir því að lengja tímabilið í 5 mánuði þannig að það myndi hefjast 1. maí og ljúka 1. október en 34,6% voru því hlynntir. Fjöldi svara í könnuninn var 109 og svarhlufallið 41,4%.

Lítil stemning fyrir samráði

Ljóst er að þótt ánægja með göngugötur í miðborginni hafi aukist ár frá ári þá verður ekki ráðið af þeim skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið að fólk sé almennt tilbúið til þess að loka götum í 5 mánuði á ári. Því til stuðnings er vísað til framangreindrar skoðanakönnunar en samkvæmt henni eru 58,3% hlynntir sumargötum en 59,8% eru andvígir því að lengja tímabilið í 5 mánuði. Vegna þessa samráðsleysis við borgarbúa og hagsmunaaðila greiddi minnihlutinn atkvæði gegn tillögunni.

Meirihlutinn í umhverfis- og skipulagsráði telur hins vegar að miðað við niðurstöður kannana þ. á m. niðurstöðu könnunar þar sem fram kom að 59,8% aðspurðra félagsmanna í Miðborginni okkar séu því andvígir þá séu borgarbúar sáttir og því þurfi ekkert samráð til að loka umræddum götum í 5 mánuði á ári til frambúðar. Meirihlutinn virðist nefnilega ekki átta sig á því að ánægja með göngugötur á sumrin annars vegar og lokun gatna í 5 mánuði á ári hins vegar er ekki alveg það sama í hugum fólks eins og bersýnilega kom í ljós í skoðanakönnunni sem Gallup gerði fyrir Miðborgina okkar.

Nýr kafli í samráði, ekki núna heldur bara seinna

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs var einnig ákveðið að skoða lokun gatna á öðrum tímum t.d. fyrir jól, í tengslum við Hönnunarmars og um helgar frá miðjum mars.  Meirihlutinn er tilbúinn til samráðs áður en ákvörðun verður tekin um slíkt, og því ber að fagna, en í bókun fulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri  grænna segir í því sambandi: „Nú hefst nýr kafli í samráði við borgarbúa þar sem leitað verður skoðunar á því hvort auka beri við það svæði sem gert er aðgengilegra gangandi og hvort opna beri götur fyrir gangandi á öðrum tímum en þegar hefur verið reynt.“

Hvað vilt þú?

Málinu er þó ekki lokið innan borgarinnar því næst verður það tekið til afgreiðslu í borgarráði. Svo spurning mín til þín er: Ert þú sátt/sáttur við að þessum götum verði lokað í 5 mánuði á ári frá 1. maí til 1. október? Endilega láttu okkur borgarfulltrúa heyra skoðun þína áður en endanleg ákvörðun er tekin.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.11.2015 - 21:19 - FB ummæli ()

Upplýsingar til Brynjars

Vegna ummæla Brynjars Harðarsonar sem fram koma í Kjarnanum í dag http://kjarninn.is/frettir/2015-11-13-segir-flugvallarvini-hafa-haldid-uppi-miklu-arodursstridi-i-gegnum-fjolmidla/

er rétt að benda á eftirfarandi:

  1. Flugbraut 06/24 er kölluð neyðarbrautin vegna þess að hún er notuð þegar ekki er hægt að lenda á hinum tveimur flugbrautunum vegna veðurs eins og ítrekað gerðist síðasta vetur.
  2. Í niðurstöðu Samgöngustofu frá því í sumar um áhættumatið kemur fram að áhættumat Isavia nái hvorki til áhrifa á flugvallarkerfi landsins í heild sinni, neyðarskipulags Almannavarna, áhrifa á sjúkraflutninga né fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur. Þá kemur fram að Samgöngustofa minnir á að gera þurfi sérstakt áhættumat um framkvæmd breytingarinnar komi til þess að ákveðið verði að loka flugbraut 06/24.
  3. Þá lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram tillögu til að leysa málið fyrir rúmu ári síðan en á fundi borgarráðs 23. október 2014 lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram svohljóðandi tillögu:

Gerð er tillaga um að Reykjavíkurborg hefji án tafar viðræður við félög tengd uppbyggingu á Hlíðarendasvæðinu um að finna lausn á fyrirhuguðum breytingum á deiliskipulagi Hlíðarenda þannig að fyrirhugaðar byggingar komist fyrir á reitnum án þess að vera hindrun fyrir flugbraut 06/24 eða svokallaða „neyðarbraut“ svo hún geti áfram haldið hlutverki sínu þrátt fyrir uppbyggingu á Hlíðarenda og allir hagsmunaaðilar geti vel við unað.

Tillagan var tekin til afgreiðslu á fundi borgarráðs 18. desember 2014 og var felld af meirihlutanum og Sjálfstæðisflokkurinn sat hjá.

Flokkar: Flugvöllur

Fimmtudagur 5.11.2015 - 21:00 - FB ummæli ()

Fjölgun íbúða í Reykjavík

Á heimasíðu Þjóðskrár Íslands www.skra.is er að finna mikið af gagnlegum upplýsingum. Þar er m.a. að finna upplýsingar um fjölda og skiptingu íbúða eftir sveitarfélögum í árslok hvers árs frá árinu 1994 til og með 2014 og hvernig íbúðirnar skiptast í einbýli og fjölbýli frá 2011 til ársloka 2014.

Í árslok 2014 voru samtals 50.914 íbúðir í Reykjavík, þ.e. einbýli 9.733, tvíbýli 4.488, 3-5 íbúða hús 9.980, 6-12 íbúða hús 14.421, 13 eða fleiri íbúðir í húsi 11.721 og íbúðir í öðrum húsum en íbúðarhúsum 571.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 kemur fram að markmiðið sé að byggðar verði að meðaltali 700 íbúðir á ári. Í töflunni hér að neðan, sem gerð er á grundvelli upplýsinganna á heimasíðunni, má sjá fjölda og fjölgun íbúða í Reykjavík síðustu 15 árin:

árslok fjöldi fjölgun
2000 43.878
2001 44.365 487
2002 45.076 711
2003 46.131 1.055
2004 47.036 905
2005 47.721 685
2006 48.523 802
2007 49.190 667
2008 49.638 448
2009 49.721 83
2010 50.149 428
2011 50.155 6
2012 50.287 132
2013 50.516 229
2014 50.914 398

 

 

 

Flokkar: Húsnæðismál

Laugardagur 3.10.2015 - 13:47 - FB ummæli ()

Laus pláss vegna fjárskorts á leikskólum borgarinnar

Í fréttum undanfarið hefur komið fram að fjöldinn allur er af lausum leikskólaplássum í Reykjavík sem ekki er verið að nýta. Ástæðan er fjárskortur.

http://www.visir.is/furdar-sig-a-thvi-ad-sonurinn-komist-ekki-inn-a-leikskola-tho-ad-thar-se-laust-plass/article/2015150829312

http://kvennabladid.is/2015/08/23/leikskolamal-i-reykjavik/

http://stundin.is/frett/launahaekkanir-standa-i-vegi-fyrir-fjolgun-leiksko/

Fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2014 lofuðu Vinstri græn gjaldfrjálsum leikskólum og sem liður í því loforði voru leikskólagjöld lækkuð smá í ársbyrjun 2015. Á móti standa auð pláss í leikskólum borgarinnar.

Leikskólagjöld skiptast í námsgjald og fæðisgjald. Hér má sjá mánaðargjöld fyrir árið 2014 og 2015 fyrir 8 klst., annars vegar í flokki 1, þ.e. giftir foreldrar, sambúðarfólk og annað foreldri í námi og hins vegar í flokki 2, þ.e. einstæðir foreldrar, báðir foreldrar í námi, annað eða báðir foreldrar öryrkjar, starfsmenn leikskóla RVK.

Ár Flokkur Dvalarstundir Námsgjald Fæðisgjald Samtals
2014 1 8 klst 18.080 7.800 25.880
2014 2 8 klst 7.520 7.800 15.320
Ár Flokkur Dvalarstundir Námsgjald Fæðisgjald Samtals
2015 1 8 klst 16.960 8.060 25.020
2014 2 8 klst 7.040 8.060 15.100

Framsókn og flugvallarvinir óskuðu eftir upplýsingum um málið og fengu svohljóðandi svar við fyrirspurn sinni varðandi leikskólavist barna fædd í mars 2014:

„Í flestum hverfum borgarinnar eru laus leikskólapláss. 3. september 2015 voru laus pláss um 60 þegar búið var að taka tillit til eldri barna á biðlista. 78 börn, fædd í mars 2014, eru nú á biðlista. Börn fædd í mars 2014 sem búa í Reykjavík eru samtals 132. Ekki er til fjármagn til að taka inn á leikskóla börn sem fædd eru í mars 2014 en kostnaður við að taka 60 börn sem fædd eru í mars 2014 inn yrði því um 42 mkr. á ársgrundvelli, en 55 milljónir ef börnin væru 78. Leikskólapláss fyrir yngstu börnin kostar 2,2 mkr. nettó á ári en leikskólapláss fyrir meðalbarnið kostar 1,5 mkr. á ári nettó. Mismunur er 700.000 kr. á ári. Leikskólagjöld eru u.þ.b. 12% af raunkostnaði við leikskólavist. Breytilegur kostnaður er 40% af kostnaði við leikskólavist eða 28 prósentustigum hærri en leikskólagjöld.“

Á fundi borgarráðs 1. október sl. lögðu Framsókn og flugvallarvinir fram svohljóðandi tillögu:

“Mikillar óánægju gætir hjá foreldrum ungra barna fæddum í mars 2014, sem bíða eftir leikskólaplássi hjá Reykjavíkurborg. Samkvæmt svari frá SFS við fyrirspurn Framsóknar og flugvallarvina, kemur fram að 60 laus pláss væru á leikskólum Reykjavíkur en að ekki sé til fjármagn til að taka inn þennan hóp leikskólabarna á þessu ári, en kostnaðurinn við að taka 60 börn sem fædd eru í mars 2014 yrði um 42 m.kr. á ársgrundvelli en 55 milljónir ef öll börnin 78 sem fædd eru í mars 2014 og eru á biðlista. Í ljósi þess að kr. 100.000.000.- voru settar inn í fjárhagsáætlun síðasta árs (2015) til að lækka námsgjöld í grunnskólum til að uppfylla kosningaloforð eins samstarfsflokksins í meirihlutanum, þá leggjum við fram þá tillögu að fyrir fjárhagsáætlun næsta árs (2016) verði ekki settir meiri peningar til að lækka leikskólagjöldin (námskostnað), heldur verði sömu fjárhæð ráðstafað til að koma til móts við fleiri börn og nýta plássin sem til staðar eru á leikskólum borgarinnar. Nauðsynlegt er að nýta öll leikskólapláss sem eru laus hverju sinni.“

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.9.2015 - 07:29 - FB ummæli ()

Hótel í fluglínu neyðarbrautar

Í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi var viðtal við Jóhann Halldórsson forsvarsmann S8 ehf. sem sagðist vera að fara byggja hótel í Vatnsmýrinni. Umrætt hótel verður í fluglínu svokallaðrar neyðarbrautar.

http://www.ruv.is/frett/byggja-staersta-hotel-landsins

Forsaga málsins er sú að 2. apríl 2008 gerði Framkvæmda- og eignasvið borgarinnar samning við S10 ehf. um kaup S10 ehf. á byggingarrétti á lóð við Njarðargötu. Borgarráð staðfesti ekki samninginn með vísan til þess að ótímabært væri að úthluta byggingarrétti á lóðinni þar sem óvissa væri uppi um framtíðarskipulag svæðisins og framtíðarnotkun þess og lóðarinnar.

Í kjölfarið höfðaði S8 ehf., sem var í eigu sama aðila og S10 ehf., mál á hendur Reykjavíkurborg til að láta reyna á afgreiðslu borgarráðs í málinu. Þeim málaferlum lauk með dómsátt sem var gerð milli aðila hinn 8. desember 2008. Samkvæmt dómsáttinni er gert ráð fyrir að félaginu verði „……..úthlutað og seldur byggingarréttur á aðliggjandi svæði þegar endurskoðun gildandi deiliskipulags samhliða vinnu við framtíðarskipulag allrar Vatnsmýrarinnar liggur fyrir eða fyrr, ef ljóst verður hvort fyrirliggjandi hugmyndir stefnanda um uppbyggingu samræmist heildarendurskoðun svæðisins.“ Þá kemur fram í dómsáttinni að forgangsrétturinn að úthlutun lóðarinnar skuli gilda í fimm ár frá dagsetningu dómsáttarinnar. Borgarráð hafði í tvígang framlengt dómsáttina vegna tafa á skipulagsvinnunni.

Í sumar óskaði skrifstofa eigna- og atvinnuþróunar eftir heimild borgarráðs til að ganga til samninga við S8 ehf. um lóð, sem merkt er H á Hlíðarendasvæði í stað lóðarinnar, sem dómsáttin nær til, „svo ná megi markmiðum þeim sem sett eru fram í rammaskipulagi fyrir svæði Háskóla Íslands og Vísindagarða.“

Á fundi borgarráðs 13. ágúst sl. var lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 10. ágúst 2015, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að úthluta S8 ehf. umræddri lóð þ.e. 6.594 fermetra lóð við Hlíðarenda merkt H.

Var það samþykkt með 4 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 2 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina Guðfinnu Jóh. Guðmundsdóttur og borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks Halldóri Halldórssyni. Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Áslaug Friðriksdóttir sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Ég og Halldór Halldórsson lögðu fram eftirfarandi bókun:

„Þar sem umrædd lóð er í fluglínu flugbrautar 06/24 er tillagan ekki samþykkt af borgarráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina og borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks Halldóri Halldórssyni.“

Hér má finna frétt á DV frá árinu 2010 um félagið S8 ehf.

http://www.dv.is/frettir/2010/12/8/hus-islenskrar-erfdagreiningar-i-eigu-tortolafelags/

Flokkar: Flugvöllur

Höfundur

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
er lögmaður á Fasteignamál Lögmannsstofu og sérhæfir sig í öllum lögfræðimálum tengdum fasteignum svo sem gallamálum, skipulags- og byggingarmálum, fjöleignarhúsamálum og húsaleigumálum.

https://www.fasteignamal.is/

 
RSS straumur: RSS straumur