Þriðjudagur 24.11.2015 - 16:23 - FB ummæli ()

Óttasleginn Pírati

Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati er afskaplega óttasleginn maður og hefur það margoft komið fram í umræðu á Alþingi. Síðast í dag lýsti hann yfir ótta sínum vegna þess að undirrituðum varð á að velta fyrir sér hvort ekki væri rétt að skoða hvort herða þyrfti landamæraeftirlit og skoða verkferla í ljósi atburða í nágrannalöndum okkar.

Nú er það svo að flest eða öll Evrópuríki eru að yfirfara slíkt eftirlit og reyna að bæta úr því sem betur má fara. Helgi Hrafn kýs að svara þessu svona: „Það að ætla að svara hryðjuverkaógninni með einhverskonar reiðdrifinni taugaveiklun, það er hættulegur barnaskapur,“ segir hann.

Það að athuga og bæta verkferla hefur ekkert að gera með „reiðidrifna taugaveiklun.“ Ummæli Helga Hrafns Gunnarsson bera hins vegar vott um slíkt, svo ekki sé meira sagt.

Píratar hafa náð athygli út á innantómar yfirlýsingar um landsins gagn og nauðsynjar. Enn einu sinni féll Helgi Hrafn í þá gryfju á Alþingi í dag.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 8.11.2015 - 12:07 - FB ummæli ()

Hver má eiga banka?

Hver er hæfur til að eiga banka á Íslandi?

Umræðan er farin að snúast um það að bankarnir megi ekki falla í hendur óvandaðra manna eða hreinlega siðleysingja. Gott og vel. Flest getum við verið sammála um það.

Spurningin er hins vegar þessi? Hverjum er treystandi til að eiga og og reka banka á Íslandi?  Hverjir standast siðferðis- og hæfisprófið? Sé mark takandi á umræðunni þá skal strax í upphafi loka á alla þá sem á einn eða annan hátt tengdust gömlu bönkunum fyrir hrun. Einnig flesta þá sem mögulega tengdust hrunmálum á annan hátt.

Eru lífeyrissjóðirnir hæfir eigendur?  Á sparistundum er oft deilt á mikil völd þeirra sem stjórna þessum sjóðum. Er rétt að margfalda völd þeirra með því að selja þeim bankana? Þá fyrst verða þeir ríki í ríkinu.

Kannski er niðurstaðan sú að þjóðin getur ekki sætt sig við neinn eiganda. Bloggari hér á eyjunni segir að litlar líkur séu á að bönkunum verði stjórnað af fólki með alvöru bankareynslu og að þetta verði fyrst og fremst vildarvinir lífeyrissjóða og stjórnmálastéttar. Hann skilgreinir hins vegar ekki hvað felst í „alvöru bankareynslu.“

Það er hins vegar rétt að sporin hræða og mikilvægt að vanda valið á nýjum eigendum. Mörg mistök hafa verið gerð við sölu ríkisfyrirtækja. Lærum af því.

Ríkið er í lykilstöðu þegar kemur að tveimur af þremur stóru bönkunum. Spurningin er þessi. Liggur nokkuð á að selja þessa banka? Af hverju má ekki flýta sér hægt.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.10.2015 - 09:32 - FB ummæli ()

Umræða um RÚV á hærra plan

Framtíð Ríkisútvarpsins verður ekki ákveðin nema jafnhliða sé tekin umræða um hlutverk þess.

Höfum eitt á hreinu. Það er ekkert í lögum eða þjónustusamningi  sem bannar fjárveitingavaldinu að skera niður framlög til RÚV.

Vandamál RÚV hefur ekki síst verið að þetta er félag sem hefur viljað vera „allt fyrir alla.“ Slíkt kostar mikla fjármuni. Nærtækast væri að skilgreina hlutverk og starfsemi RÚV frá grunni og þá þarf að huga að nokkrum þáttum. Hér verður aðeins minnst á tvo þeirra, en vissulega eru þeir mun fleiri.

RÚV hefur verið gagnrýnt fyrir að sinna afþreyingu sem einkamiðlar geta séð um. Sé afþreyingarefnið skorið af RÚV verða landsmenn væntanlega að kaupa sér áskrift að einkamiðlum ef þeir vilja slíkt efni (Skár 1 er reyndar í augnablikinu með opna dagskrá). Er áskrift sú framtíðarsýn sem við viljum þegar kemur að afþreyingu? Vissulega borgum við öll gjald til RÚV, en það er mun lægra en einkaaðilar hafa.

Fjölmiðlar í einkaeigu stjórnast af hagnaði, eðli málsins samkvæmt. Þeir bjóða því upp á efni sem er söluvænt, vænlegt til áhorfs og þannig að auglýsendur hafa áhuga á því. Ákveðið efni sem hefur skírskotun til þrengri hópa, t.d. ýmislegt menningarefni, verður því gjarnan afgangsstærð.

Þessu hefur verið svarað með því að fólk geti nálgast slíkt efni á internetinu, eða öðrum stöðum, sé áhugi á annað borð fyrir hendi. Breytt fjölmiðlum og betra aðgengi hafi gjörbreytt landslaginu hvað þetta varðar.  En er það svo?

Er ekki skylda okkar sem þjóðar að leggja rækt við það sem skilur okkur frá öðrum þjóðum, menningu okkar og þjóðararf? Er það ekki skylda ríkisins að sjá til þess að við varðveitum og styrkjum þessa þætti? Og hvað erum við tilbúin til að setja mikla fjármuni í þetta? Kannski er það lykilspurning.

Áhorf á RÚV hefur dregist saman, áhugi almennings hefur minnkað. Ungt fólk horfir varla lengur á sjónvarpið. Hvaða skilaboð felast í því?

Hættum að tala bara um krónur og aura. Í guðs bænum víkkum umræðuna og komum henni á hærra plan.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 16.10.2015 - 08:29 - FB ummæli ()

Er til of mikils mælst….?

Nú eru farin að leka út nöfn vildarvina Arion banka sem fengu að kaupa bréf í Símanum á afsláttarkjörum. Síðast er það nafn framkvæmdastjóra Mílu, sem fékk að vera með í samkvæminu, þó almennir starfsmenn þess fyrirtækis þættu óhæfir til þess af samkeppnisástæðum.

Er til of mikils mælst að gera kröfu til þess að upplýst verði hverjir fengu að kaupa bréf í Símanum á gengi sem var langt undir útboðsgengi?

Er til of mikils mælst að upplýst verði hvað hver og einn fékk í sinn hlut?

Og er til of mikils mælst að krefjast þess að málið verði rannsakað, þannig að tryggt sé að farið hafi verið eftir lögum og reglum þegar kom að þessu forvali á bestu vinum bankans og Símans.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 15.10.2015 - 14:18 - FB ummæli ()

Kafka yfirtekur Arion

Sá súrrealíski farsi sem umlykur sölu Arion banka á hlutum í Símanum til sérvalinna einstaklinga, sem hagnast um 700 milljónir á bixinu,  minnir óneytanlega á skáldskap Kafka.

Kafka brá gjarnan upp tveimur ólíkum heimum. Þessir tveir heimar skilja ekki hvorn annan og allar tilraunir til þess að skapa samband á milli þeirra reynast árangurslausar. Þeir tala hvor framhjá hinum. Umgjörðin um þá báða er hins vegar hin sama. Persónurnar í þeim báðum lifa innan sama umhverfis og það er ekkert sem aðskilur þær í tíma og rúmi, heldur óendanleg fjarlægð í hugsun.

Það er engu líkara en að Kafka hafi haft tengsl yfirmanna Arion og Símans við almenning í landinu í huga þegar hann sat við skriftir

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.10.2015 - 21:28 - FB ummæli ()

Að viðurkenna mistök

Afleiðingar nýrra laga um fasteignasala eru þær að um 250 sölufulltrúar á fasteignasölum standa mögulega frammi fyrir atvinnumissi, þar sem framvegis verða gerðar kröfur um löggildingu til að mega stunda fasteignasölu.  Slíka menntun vantar hjá þessum stóra hópi og verður hann því að fara í nám til fá löggildingu. Uppsagnarbréf eru þegar farin að berast til sölufulltrúa, þar sem í raun er búið að loka á störf þeirra að óbreyttu.

Auðvitað þarf að gera miklar kröfur til þeirra sem hafa oft á tíðum með höndum aleigu fólks. Um það er ekki deilt. Hér hefði hins vegar þurft að gefa umþóttunartíma, þannig að auknar kröfur til fasteignasala tækju ekki gildi fyrr en sölufulltúum hefði gefist tími til að afla sér nauðsynlegrar menntunar.

Þessi mistök hafa nú verið viðurkennd af einstaka þingmönnum og breytingatillaga er boðuð. Það er gott mál. Þingmönnum verða oft á mistök við lagasetningu – í slíkum tilfellum er nauðsynlegt að bregðast skjótt við og lagfæra það sem aflaga fór.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 2.10.2015 - 20:31 - FB ummæli ()

Takk Kristján Þór!

Velferðarráðuneytið mun leggja til að öll börn í einum árgangi í efri bekkjum grunnskóla verði skimuð fyrir kvíða og þunglyndi og að þau sem teljist í áhættu fái úrræði sem felst í námskeiði. Þetta hefur ég fengið staðfest úr ráðuneytinu. Þau sem greinast með þunglyndi verður síðan vísað í meðferð. Þessi aðgerð hefur þegar verið kostnaðargreind, bæði skimunin og námskeiðið.

Þessi ákvörðun er tekin eftir að undirritaður, ásamt nokkrum öðrum þingmönnum, höfum í tvígang lagt fram tillögu um að skimað verði fyrir kvíða og þunglyndi hjá öllum börnum og að þau sem þurfi aðstoð fái hana. Velferðarnefnd þingsins vísaði málinu til ráðuneytisins í sumar, þar sem ráðherra og starfsmenn hafa tekið það upp á sína arma.

Þetta eru frábærar fréttir. Rannsóknir hafa sýnt að jafnvel 10-20% barna á grunnskólaaldri þurfa á aðstoð að halda. Oft duga viðtöl og meðferð. Það er fátt skelfilegra en að sjá börn og unglinga einangrast vegna kvíða og þunglyndis, flosna upp úr skóla, einangrast félagslega og verða jafnvel óvinnufær til framtíðar. Í verstu dæmunum hefur jafnvel verið um sjálfsvíg að ræða.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og starfsfólk hans í velferðarráðuneytinu eiga mikinn heiður skilinn fyrir hvernig tekið hefur verið á þessu máli.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 16.8.2015 - 14:05 - FB ummæli ()

Að selja sálu sína

Það er enginn skortur á stórgrósserum og fylgitunglum þeirra á Íslandi sem eru tilbúnir til að selja sálu sína fyrir aurinn. Tilbúnir til að fórna mannréttindum og lýðræði fyrir stundargróða. Það skiptir þetta fólk engu máli þó að um 7000 manns hafi látið lífið í austurhluta Úkraínu og að milljónir til viðbótar séu á vergangi. Það skiptir engu máli þó alþjóðasamningar hafi verið þverbrotnir og fullveldi Evrópuríkis hafi verið fótum troðið með innrás annars ríkis. Það skiptir engu máli – við skulum fyrst og fremst líta til eigin fjárhagslegra hagsmuna, annað kemur okkur ekki við.

Einn stjórnmálamaður sagði að við ættum ekki í neinum útistöðum við vinaþjóð okkar, Rússa. Það var helst á honum að skilja að það réttlætti að við lokuðum augum og eyrum og héldum áfram góðum bisness.  Óþarfi að láta 7000 mannslíf trufla viðskiptin.

Það er þyngra en tárum taki að hlýða á þessa röksemdarfærslu. Það er ekkert til sem heitir að vera hlutlaus í þeir hildarleik sem á sér stað í Úkraínu. Ísland á mikið undir að alþjóðasamningar haldi, að leikreglur lýðræðis séu virtar og að mannréttindi séu ekki fótum troðin. Að gefa eftir í málefnum Úkraínu væru skelfileg skilaboð. Ef við getum ekki staðið með þjóðum sem búa við ofríki nágranna sinna sem virða ekki alþjóðasamninga, þá skulum við ekki gera kröfur um stuðning annarra þjóða næst þegar við þurfum á slíku að halda.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra á mikinn heiður skilinn fyrir framgöngu sína í þessu máli. Hann hefur sýnt staðfestu, með hag Íslands að leiðarljósi.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.7.2015 - 16:43 - FB ummæli ()

Bankabónusum hafnað

Eitt síðasta verk Alþingis var að hafna hugmyndum um óhefta bankabónusa til handa almennum starfsmönnum fjármálafyrirtækja.

Áfram verður heimilt að miða þessa bónusa við 25%, eins og verið hefur.

Auðvitað hefði verið best að afnema bankabónusa alfarið, en þetta er samt góð niðurstaða. Reglurnar hér eru strangari en víðast hvar í nágrannalöndum okkar.

Við eigum að vera í fararbroddi þegar kemur að góðu og heiðarlegu fjármálakerfi sem hvetur starfsmenn ekki til áhættutöku.

Aðeins þannig getum við lært af hruninu.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.6.2015 - 12:43 - FB ummæli ()

Stjórnarandstaða fær plús

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur unnið kraftaverk með niðurstöðunni í haftamálunum, þar sem hundruð milljarða munu væntanlega skila sér til íslensku þjóðarinnar. Þarna er afskaplega vel að verki staðið og enn ein rósin í hnappagat Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar, sem hafa látið verkið tala svo um munar frá því að þeir tóku við.

Það ber að fagna viðbrögðum stjórnarandstöðunnar í þessu mikilvæga máli. Þar hafa menn nálgast þetta verkefni með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi og ber að virða það.

Það er líka rétt að fyrrverandi ríkisstjórn lagði grunn að því með lagasetningu að hægt var að fara þá leið sem varð ofan á. Því miður tók sú ríkisstjórn málið ekki lengra, þannig að það kom í hlut núverandi stjórnar að finna hagkvæmustu leiðina og framkvæma hlutina. Það hefur nú verið gert með eftirminnilegum hætti.

Tökum þó ekki af Samfylkingu og Vinstri grænum það sem þeim ber.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur