Mánudagur 29.2.2016 - 21:36 - FB ummæli ()

Öldrykkja barna

En þetta byrjaði allt 1932. Um vorið lagði Jón Auðunn Jónsson alþingismaður fram frumvarp um að leyfa bruggun, sölu og meðferð áfengs öls. Meðflutningsmenn voru Bergur JónssonÓlafur ThorsLárus Helgason og Jónas Þorbergsson. Það sofnaði í nefnd. Sömu þingmenn lögðu frumvarpið aftur fram á næsta þingi. Á þessum árum var bjór og sterkvín bönnuð, en léttvín, svokölluð Spánarvín, höfðu verið á borðum landsmanna frá 1922.

Í greinargerð sagði meðal annars: „það er kunnugra en frá þurfi að segja, að innflutningur og notkun hinna svonefndu Spánarvína fer hraðvaxandi, samhliða því, að óleyfileg bruggun eykst í landinu. Öl verður að teljast meðal hinna meinlausustu drykkja, þeirra, sem áfengi er í, og telja margir líklegt, að ef leyft væri að framleiða hér áfengt öl, mundi það draga úr notkun Spánarvínanna. […] Önnur aðalástæðan fyrir þessu frumvarpi er því að gera tilraun til að draga úr innflutningi áfengra drykkja, en hin aðalástæðan er að bæta úr sívaxandi fjárþörf ríkissjóðs.“

AlthingismennBanner1932aFrumvarpið sætti nokkurri gagnrýni: „Það [hefur] reynst blekking ein, að fiskmarkaðurinn á Spáni yrði Íslendingum hagstæður framvegis, ef leyfður yrði innflutningur Spánarvína. Hitt hefir aftur á móti sannast á sorglegan hátt, sem andstæðingar Spánarvínaflóðsins héldu þegar í stað fram, að fjöldi kvenna og unglinga myndi verða því að bráð og Spánaráfengið verða tálbeita fyrir óþroskað fólk, sem drægi það til nautnar annara sterkari drykkja.“ Skrifaði Guðmudur Ragnar Ólafsson úr Grindavík í Alþýðublaðið.

Afengisflod1933Guðmundur hafði rétt fyrir sér. Það eru fyrst og fremst konur og unglingar sem þarf að hafa vit fyrir. Spakur maður Guðmundur og skipar sér í sveit þeirra sem fengu botnlausa visku og framsýni í vöggugjöf.

Síðar í greininni segir hann: „Á því er enginn vafi, að slíkt áfengt ölflóð myndi verða til þess að kenna fjölda fólks áfengisdrykkju, einkum þó unglingum, í viðbót við ölæði af drykkju þess sjálfs, myndi það tendra upp löngun ósjálfstæðs fólks í aðra sterkari drykki, svo sem reynslan hefir margsannað. Það er hin mesta falskenning, sem flutningsmennirnir halda fram í greinargerð frumvarpsins, að áfenga ölið myndi draga úr notkun annars áfengis, Það myndi þvert á móti, draga til aukinnar notkunar á sterkari drykkjum.“

Fleiri gagnrýndu frumvarpið og var Vilmundur Jónsson landlæknir og alþingismaður atkvæðamestur. Flutti hann vel orðaða ræðu gegn bjórnum undir titlinum „Áhrif öldrykkju á aðra áfengisnautn.“ Sagði Vilmundur að því meira sem drukkið væri af öli, því meira væri drukkið af léttum vínum og líka af brenndum drykkjum. Hann sagði ennfremur að börn myndu drekka bjór ef hann væri leyfður.

TveirMennVilmGudmundurAnnar læknir (og fyrrum alþingismaður), Guðmundur Hannesson staðfesti fullyrðingar stuðningsmanna bjórsins um að ef öl væri leyft myndi neysla annars áfengis minnka. „Frá 1881-1910 hefir þá ölnautn farið stöðugt vaxandi, nálega þrefaldast, vínnautn og neysla brendra drykkja minkað um því sem næst helming. Það verður ekki annað af þessum tölum ráðið, en að landlæknir fari með algerlega rangt mál,“ skrifaði Guðmundur í grein í Morgunblaðinu. Á línuritinu hér fyrir neðan sést þessi þróun vel.

Áfengisneysla-1880-1913NetVarðandi öldrykkju barna sagði Guðmundur að Vilmundur hefði þar einnig rangt fyrir sér: „Jeg hefi verið hjer skólalæknir í fleiri ár áður en bannið kom [1915]. Þó flóði hér allt í öli, en aldrei rakst jeg á eitt einasta barn, sem neytti áfengis svo á bæri.“

Það fór fyrir þessu frumvarpi sama og hinu fyrra, það var svæft í nefnd.

Guðmundur R. Ólafsson og Vilmundur Jónsson lifðu það ekki að sjá afleiðingar þess á börn og unglinga þegar mungát var aftur leyft á Íslandi. Þeir myndu eflaust reka upp stór augu ef þeir sæu hve áfengisdrykkja unglinga hefur minnkað mikið síðan bjórinn var leyfður. Dómur sögunnar er sá að Guðmundur Hannesson hafði rétt fyrir sér, amk. hvað barna- og unglingadrykkju varðar.

UnglingadrykkjaB

Áfengisneysla-Unglinga

Snillingsprófið – bónusspurning

Vildir þú á árabilinu 1932 til 1947 að bjór væri leyfður í landinu?

__ Já.

__Nei.

Ef þú svaraðir neitandi, ertu sannarlega réttu megin í lífinu. Þú ert gæddur miklu innsæi og einnig trú á að það sé hægt að stjórna drykkjuvenjum og öðrum ósiðum samborgaranna. Fyrir það ættirðu að fá orðuna sem kennd er við fálka. Þú ert sannkallaður fálki!

Hafirðu hins vegar svarað bónusspurningunni játandi, ertu vesalingur sem gerir þér enga grein fyrir hve mikilvægt það er að stjórna fíkn annarra, ef ekki með góðu, þá með boðum og bönnum og hörðum refsingum. Svei þér.

Flokkar: Dægurmál · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 26.1.2016 - 04:56 - FB ummæli ()

Vöggugjöfin VI — Mungát?

Þá snúum við aftur að hörmung þeirri þegar mungát var aftur leyft í landinu eftir 75 ára yndislega fjarveru. Þrátt fyrir viðvaranir vitringa og snillinga var það á einhvern óskiljanlegan hátt leyft aftur. Þjóðin, mannlífið og menningin hefur ekki borið sitt barr síðan. Ef við viljum sporna við fótum og forðast frekari hnignun þjóðlífsins (til dæmis ef einkaleyfi ríksins til smásölu á víni verður tekið af því) verðum við að hefja spámennina okkar á þann stall sem þeim ber og fara að leiðsögn þeirra. Framtíð kvenna, barna og gamalmenna þessa lands er undir.

Snillingsprófið – fjórða spurning

Vildir þú á árabilinu 1967 til 1978 að bjór væri leyfður í landinu?

__ Já.

__Nei.

AfstadaThingmanna1978Ef svarið er „nei“ ertu kominn vel á veg með að geta talist ofurmannlegur snillingur sem sérð lengra nefi þínu hvað öðrum fullorðnum og sjálfráða einstaklingum er fyrir bestu. Þú ert sem fyrr í frábærum félagsskap valinkunnra vitringa. Í spurningu sem Vísir lagði fyrir þingmenn 1978 hvort leyfa ætti bjór sagði Bragi Sigurjónsson: „Ég hef alla tíð verið á móti bjór og verð það þar til ég dey.“ Ekki er annað vitað en Bragi hafi staðið við þá fullyrðingu þótt hann hafi dáið eftir að bjórinn var leyfður. Alexander Stefánsson var heldur á móti en þó ekki sáttur við ástandiðÁrni Gunnarsson, Jónas Árnason og Karl Steinar Guðnason voru á móti. Bragi NíelssonEðvarð SigurðssonFinnur Torfi Stefánsson og Friðjón Þórðarson, voru sömuleiðis á þeirri skoðun að bjórlaust Ísland væri betra land. Kjartan Ólafsson sagði málið minniháttar og vildi ekki breytingar á núverandi fyrirkomulagi. Benedikt GröndalMatthías Á. MatthiesenLúðvík Jósepsson, Geir Gunnarsson, Ingvar GíslasonGils Guðmundsson og Vilhjálmur Hjálmarsson voru sem fyrr á móti. Vilhjálmur sagði: „Því fleiri sortir þeim mun verra.“ Matthías Bjarnason virtist hafa skipt um skoðun því hann var með bjórnum á þingi tíu árum fyrr. Einnig voru á móti Oddur Ólafsson, Guðmundur KarlssonEggert Haukdal, Ólafur Jóhannesson, Tómas Árnason, Helgi SeljanÞórarinn Sigurjónsson, Stefán Jónsson, Svava JakobsdóttirStefán Valgeirsson, Jón HelgasonAlbert Guðmundsson og Ragnhildur HelgadóttirJóhanna Sigurðardóttir var á móti bjór en taldi að þjóðin ætti að greiða um það atkvæði (en greiddi þó atkvæði gegn tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu 1988). Ólafur Ragnar Grímsson sagði: „Ég er ákaflega tortrygginn á að leyfa bjór hér á landi. Ég held að það myndi breyta drykkjusiðum til verri vegar, og m.a. leiða til þess að menn drykkju við vinnu.“ Páll Pétursson frá Höllustöðum taldi líklegt að hann yrði á móti.

AlthingismennBanner1978aEf svo óheppilega vill til að svarið er „já“ er farið að halla verulega á ógæfuhliðina. Sömu lánleysingjarnir og þú eru Ágúst Einarsson, Einar Ágústsson, Magnús Magnússon, Ólafur G. Einarsson, Ragnar Arnalds, Geir Hallgrímsson, Steingrímur Hermannsson, Vilmundur Gylfason, Friðrik Sophusson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Halldór Blöndal, Garðar Sigurðsson, Gunnlaugur Stefánsson og Jón G. Sólnes. Í þessum hópi má vart má á milli hvor var meiri kjáni, Jón G. Sólnes eða Vilmundur Gylfason vegna þess að Jón sagði að hann hefði „á undanförnum árum margreynt að fá aðra þingmenn til að heimila bjór hérlendis,“ á meðan Vilmundur lýsti sig meðmæltan bjórfrumvarpi og sagðist myndi flytja það sjálfur ef Jón léti ekki verða af því.

TilBjorsins1978Sumir þingmanna voru hlutlausir eða hölluðust á aðra hvora hliðina án þess að gera afstöðu sína ljósa. Meðal þeirra voru Eiður Guðnason sem var heldur með bjór ef eitthvað er að marka ummæli hans: „Ég [hef] aldrei séð að á því væri neinn eðlismunur að útsölur Áfengisverslunar ríkisins, sem nú selja bæði létt og sterk vín, seldu einnig áfengan bjór.“ Kjartan Jóhannsson, Sighvatur Björgvinsson, Þorvaldur Garðar Kristjánsson, Gunnar Thoroddsen og Jósef Halldór Þorgeirsson voru hlutlausir en Svavar Gestsson sagði: „Ég greiði ekki atkvæði“ sem hlýtur að teljast hlutleysisyfirlýsing. Ellert B. Schram og Halldór E. Sigurðsson lýstu ekki eigin skoðun en vildu leggja málið í dóm þjóðarinnar eins og Jóhanna. Pálmi Jónsson var hlutlaus en af orðum hans — „Ég greiddi á sínum tíma atkvæði með bjórfrumvarpi sem lagt var fram. Hvort ég gerði það aftur ylti á því hvernig slíkt frumvarp yrði úr garði gert“ — má ráða að hann sé fremur röngu megin en réttu. Sama má segja um Hjörleif Guttormsson. Hann lýsti yfir hlutleysi, en taldi þó að áfengt öl myndi ekki „stórspilla frá því sem er.“

Muldraðirðu ef til vill „já“ í barminn? Ekki bugast! Ekki láta hugfallast þótt þú hafir gert þig sekan um að vera ósammála fyrirferðarmestu spámönnum stjórnmálalýðs lýðveldis okkar. Ef þú svarar næstu spurningum rétt gætirðu hugsanlega, mögulega, kannski talist til góða hópsins þar sem botnlaus framsýnin, ofurmannleg skynsemin og takmarkalaus fórnfýsin skín úr hverju andliti.

Visir1978Myndskr

Flokkar: Dægurmál · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 20.1.2016 - 04:46 - FB ummæli ()

Vöggugjöfin V — Kynvitrun

Stundum er sagt að reynslan sé besti kennarinn og er vitaskuld átt við að þín reynsla sé minn kennari. Það er að minnsta kosti mat snillinganna okkar, spakvitringanna, sem vita fyrir vitrun eða meðfædda gáfu — nema hvort tveggja sé — hvað okkur hinum er fyrir bestu, betur en okkur sjálfum.

Fátt er göfugra og virðingarverðara en maður sem af einstakri fórnfýsi tekur af okkur hinum ómakið við að læra af reynslunni. Mér vöknar um hvarma við tilhugsunina. Þakklæti verkar of smátt orð í þessu samhengi, en ég verð að láta það duga.

Margir eiga þakkir skyldar, en þar sem kynferðismál eru í deiglunni langar mig að þakka manni að nafni Charles Kane fyrir það sem hann gekk í gegnum. Reynsla hans er ekki ósvipuð reynslu dæmigerðs alkóhólista sem fórnar alkóhólistalíferni, finnur vöggugjöfina og fær vitrun. Ef eitthvað er færði Charles Kane jafnvel meiri fórn en margur alkinn nokkurn tíma hefur gert. Hvað var það sem Charles Kane fórnaði? Aðeins þeir sem hafa manndóm í sér til að lesa lengra komast að því.

Charles Kane hét reyndar Sam Hashimi framan af ævi (hann er fæddur 1960). Hann er af íröksku foreldri og óx úr grasi í Bagdað. Sam hafði mikinn áhuga á fótbolta og stelpufötum og klæddist kjólum systur sinnar í laumi. Á unglingsárum fluttist hann búferlum til Englands, lærði til verkfræðings, kvæntist breskri konu, Trudi, og eignaðist með henni tvö börn. Um nokkurra ára bil var hann farsæll og umsvifamikill í viðskiptum og fyrirtækjarekstri en svo harðnaði á dalnum og hann lenti í kröggum.

Þegar Sam og Trudi höfðu verið gift í nokkur ár trúði hann henni fyrir því að hann nyti þess að klæðast kvenmannsfötum. Í fyrstu var hún skilningsrík en fljótlega kulnaði glóð ástarinnar og hún fór fram á skilnað. Þótt skilin væru bjuggu þau í sama húsi, en um leið og Trudi kynntist nýju manni rak hún Sam á dyr. Eitthvað hlýtur að hafa gengið á því Trudi fékk á hann nálgunarbann sem kom í veg fyrir að hann nyti samvista við börnin. Hann gerðist brotlegur við bannið og sat um hríð í fangelsi.

Sam átti bágt. Hann var þunglyndur og ráðvilltur. Hann bjó á farfuglaheimili og leitaði félagsskapar á veitingastað sem hommar, lesbíur og transfólk sótti. Þar var honum leitt fyrir sjónir hve sællegt það væri að vera kona, bæði í kynlífi og daglegu lífi. Hann reif sig upp úr volæðinu og í samstarfi við fyrrum viðskiptafélaga setti hann á stofn byggingafyrirtæki. Þegar hjólin voru farin að snúast á ný og nægir peningar komnir í budduna fór Sam á fund Dr. Russell Reids, sérfræðings í kynleiðréttingum, og óskaði eftir að gangast undir slíka aðgerð eins fljótt og auðið væri. Russel lagði blessun sína yfir fyrirætlanir Sams. Í aðdraganda sjálfrar aðgerðarinnar lét Sam gera nefið kvenlegra, stilla sjónina, rétta tennurnar og eyða skeggrótinni. Hann lét fjarlægja barkakýlið, strekkja á raddböndunum og stækka brjóstin. Loks kom að aðgerðinni þar sem kynfærunum var breytt.

Þegar 1998 gekk í garð var Sam orðinn að Samönthu, glæsilegri konu sem vafði karlpeningnum um fingur sér hvar sem hún kom. Hún hélt áfram fasteignaviðskiptunum, titlaði sig innanhússhönnuð og lifði í vellystingum bæði í Bretlandi og Frakklandi.

Sam-Sam-Charles-MyndabannerAð nokkrum árum liðnum var Samantha farin að sjá eftir að hafa látið leiðrétta kyn sitt. Hormónalyfin ollu skapsveiflum og kynlífið var ekki eins ánægjulegt og vonir stóðu til. „Satt að segja fannst mér það að vera kona frekar þunnur þrettándi,“ sagði hún. „Allt snýst um útlitið, annað fellur í skuggann. Ég hafði engann áhuga á búðarrápi. Vinkonur mínar gátu verið klukkustundum saman í tískubúðum. En þar sem ég hafði áður verið karlmaður, vissi ég nákvæmlega hvað það var sem passaði mér og hvað karlmenn höfðu þokka á. Það tók mig ekki nema fáeinar mínútur frá því ég fór inn í fatabúð og þar til ég var komin út með rétta klæðnaðinn. Þar að auki hef ég aldrei haft neinn áhuga á glanstímaritum eða öðrum áhugamálum kvenna. En ef ég reyndi að fitja upp á samræðum við fyrrverandi kynbræður mína um það sem strákar tala helst um, fótbolta, stjórnmál og kvenfólk, gáfu þeir mér hornauga.“

Eftir að upp úr sambandi Samönthu og unnustans, auðugs landeiganda, slitnaði 2004, horfðist hún í augu við að kynleiðréttingin var mistök. Hún dró þá ályktun að kynskiptin hafi ekki stafað af löngun til að verða kona heldur órar gerðir að veruleika. Raunveruleg transmanneskja væri svo staðföst í að verða kvenmaður að hún léti það ekki trufla sig þótt hún „liti út eins og akfeitur vörubílstjóri,“ eins og hún komst að orði. Ennfremur sagði hún að þeir sem teldu sig vera kona fastir í karlmannslíkama væru með alvarlegar ranghugmyndir. „Ég þurfti á ráðgjöf að halda, ekki kynskiptiaðgerð.“ Sökin á mistökunum var að hluta til hjá Russell Reid lækni sem hafi gengið of greiðlega að óskum hennar á sínum tíma þegar hún var í sárum eftir skilnaðinn, gjaldþrot og forræðisdeilur.

Samantha lét breyta sér aftur í karlmann og tók sér nafnið Charles. Ekki leið á löngu þar til Charles kynntist ástinni á ný, konu sem heitir Viktoría. Aðspurður sagðist Charles nýta sér margt af reynslu sinni frá því hann var kona í nýja sambandinu. Hann skilji konur miklu betur en áður.

Með alla þessa óvenjulegu reynslu í farteskinu fékk Charles vitrun; fann sína vöggugjöf eins og stundum gerist hjá áfengissjúklingum sem hætta að drekka og lífskúnstnerum sem hætta að borða sykur. „Eftir allt sem ég hef gengið í gegnum finnst mér að kynskiptiaðgerðir ætti ekki að leyfa heldur banna,“ sagði hann.

Charles Kane vill fyrir enga muni að aðrir gangi í gegnum það sama og hann og vill hindra með öllum tiltækum ráðum. Hætt er við að einhverjum þyki það ósanngjarnt að mega ekki prófa að vera kona um stund ef á því er kostur. En, það er vitaskuld óþarfi. Charles Kane er búinn að gera þetta fyrir okkur. Hann tók að sér að ganga í gegnum reynsluna svo við þyrftum þess ekki. Það er nóg — ekki satt?

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · Lífstíll · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 25.11.2015 - 16:42 - FB ummæli ()

Vöggugjöfin IV — Sykurvitrun

Kunningi minn kom að máli við mig og sagði að þótt að hann teldi sig vita manna best hvað öðru fullorðnu og sjálfráða fólki er fyrir bestu kannaðist hann ekki við að hafa fengið vöggugjöfina góðu í fæðingargjöf. „Hvernig stendur á þessu?“ sagði hann.

Á þessu er einföld skýring. Þótt vöggugjöfin sé meðfædd er ekki þar með sagt að menn opni hana strax við fæðingu. Sumir fara í gröfina án þess að hafa orðið hennar varir og dæmi eru um að gjöfin hafi fundist á fullorðinsárum, jafnvel ofarlega. Það gerist þó aðeins við sérstakar og algjörlega magnaðar aðstæður. Aðstæðurnar eru ekki ósvipaðar þeirri hátíðlegu og kærleiksríku stund á aðfangadagskvöld þegar skipst er á pökkum að lokinni oft strembinni aðventu. Aðdragandinn er hinsvegar ólíkur aðventunni að því leyti að hann er miklu sársaukafyllri og stundum lífshættulegur. Aðdragandinn getur verið langur — jafnvel mörg ár — og hann getur líka verið stuttur — fáeinir mánuðir eða vikur — en hann er alltaf ferðalag. Nú fara flestir í mörg ferðalög á ævinni og snúa heim visku-, fróðleik- og reynslu ríkari. En það er aðeins í undantekningatilvikum að ferðalangar fái vitrun. Vitrunin er að sjá skyndilega skýrt og greinilega hvað öðrum, betur en þeim sjálfum, er fyrir bestu. Vitrunin er vöggugjöfin sem var þarna allan tímann en átti bara eftir að opna.

Þessi kunningi minn misnotaði sykur í mörg ár sér og sinni fjölskyldu til mikils ama en þó aðallega heilsunni. Þegar fokið var í flest skjól sá hann loks að sér og hætti að borða sætindi með aðstoð góðra manna. Eftir það ferðalag fékk hann vitrun. Vitrun sem lýsir sér í því að hann vill leggja háan skatt á sykur og selja hann í sérstökum ríkisverslunum með takmörkuðum opnunartíma og auglýsingabanni. Hann telur sykur vera mesta fjanda mannkyns og vill ekki að ég eigi of auðvelt með að nálgast hann. Það sé mér sjálfum fyrir bestu. Hann sé besta dæmið um það. Ég benti honum á að ég borði ekki sykur í óhófi og hefði ólíkt honum stjórn á sykurneyslunni. Hann sagði það misskilning og sjálfsblekkingu, ég gerði mér enga grein fyrir hve mikinn sykur ég borði og hve mikil hætta mér stafar af honum. „Já, en–“ sagði ég, en hann greip fram í fyrir mér og sagðist vita betur og af því að hann viti betur sé fullkomlega eðlilegt að hann ráði ferðinni í þessum efnum.

Flokkar: Dægurmál · Lífstíll · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 17.11.2015 - 06:15 - FB ummæli ()

Vöggugjöfin III — Einkaútvarp?

Skilvindan heldur áfram að snúast og greinir smátt og smátt að rjóma þessa lands og undanrennu þessa lands. Ert þú meðal hinna útvöldu sem veist fyrir meðfædda náðargáfu betur en ég sjálfur hvað mér er fyrir bestu? Ef þú telur að svo sé — þótt það sé ekki nema óljós fiðringur — taktu þá prófið. Þú gætir unnið bol.

Það óheillaskref sem tekið var þegar einkaleyfi ríkisins á útvarpsrekstri var fellt niður eftir yfir 50 yndisleg ár er gott dæmi um hvílíka ógæfu það getur kallað yfir þjóð þegar ekki er hlustað á spámennina. Það mál, þótt álíka smátt sé og ómerkilegt og bjórbannið, gefur ákveðnar vísbendingar um það hvort betra er að treysta hverjum og einum sauðsvörtum almúgamanni fyrir sér og sinni útvarpshlustun eða snillingunum sem vitið og framsýnina hafa.

Snillingsprófið – þriðja spurning

Vildir þú á árunum 1930 til 1978 að öðrum en ríkinu væri leyft að reka útvarpsstöð?

__ Já.

__Nei.

Ef svarið er „nei“, hefurðu undirstrikað enn á ný að innsæi þitt er gersamlega botnlaust vegna þess að alþingismaðurinn Guðmundur H. Garðarsson lagði fram frumvarp á Alþingi síðla árs 1977 um afnám einkaleyfisins. Guðmundur sagði tilgang frumvapsins vera „að tryggja að eitt af grundvallaratriðum stjórnarskrárinnar, tjáningarfrelsins, sé virt með þeim hætti, að mönnum sé veitt frelsi til að koma skoðunum sínum og hugmyndum á framfæri með þeirri fjölmiðlunartækni, sem fyrir hendi er.“

Fjórir þingmenn tóku til máls um frumvarpið og voru Svava Jakobsdóttir,  Páll Pétursson og Magnús Torfi Ólafsson á móti en Jóhann Hafstein með. Svava sagði að frumvarpið „miðaði ekki að auknu tjáningarfrelsi einstaklinganna heldur að auknu frelsi fjársterkra til að fjárfesta í rekstri fjölmiðils.“ Páll tók í sama streng og óttaðist að „peningafurstar“ myndu reyna að koma skoðunum sínum á framfæri umfram aðrar. Magnús Torfi var á þeirri skoðun að það þyrfti vissulega að endurskoða lögin, en taldi eðlilegast að stofnaðar yrðu sjálfstæðar ríkisútvarpsstöðvar á landsbyggðinni. 

AlthingismennBanner-RikisutvarpEn hafirðu sagt „já“ ertu í verulega vondum málum. Þú ert ekki bara í slæmum félagsskap Guðmundar og Jóhanns, heldur er ákveðin hætta á að þú sért — og haltu þér nú fast — frjálshyggjumaður. Það var Guðmundur að minnsta kosti kallaður af ekki minni spámanni og snillingi en Stefáni Jóni Hafstein sem þá var ungur og upprennandi stúdent í fjölmiðlafræði í London. Stefán skrifaði í Þjóðviljann að „mikil en einhliða umræða“ hefði risið „um svokallaðan frjálsan útvarps- og sjónvarpsrekstur“ og átti við frumvarp Guðmundar. Stefán taldi þennan nývaknaða áhuga „einkum stafa af áhuga ákveðinna manna að útbreiða það sem þeir kalla frjálshyggju.“ Í öðru lagi sagði Stefán áhuga frjálshyggjumannanna stafa af fíkn í skjótfengan gróða og í þriðja lagi af þeirri hugsjón að „hverju heimili beri amk. eitt diskótek eftir öldum ljósvakans.“ Hugsjón frjálshyggjumannanna um að það væri sérstök diskórás (sem eins mætti kalla popprás) á FM kvarðanum sem bæri sig sjálf var náttúrlega alveg hlægileg og sýndi vel hve óraunsæir, grunnhyggnir, inntakslausir og menningarsnauðir þeir voru.

StefanJónHafsteinSkrifarÍ lok þjóðviljagreinarinnar (sem fyllti tvær fallega myndskreyttar opnur) sýndi Stefán Jón Hafstein svo ekki verður um villst að hann hafði ofurmannlegt innsæi, botnlausa djúphygli, óendanlega framsýni, ómældan góðvilja og einstaka fórnfýsi gagnvart þjóð sinni að taka að sér óbeðinn að leiða sauðsvartan almúgann um rétta stigu: „Lýðræðislegum skoðanaskiptum og óheftri listsköpun er ekki borgið undir lögmálum markaðsaflanna. Þvert á móti sannar reynslan að ólýðræðisleg skipting auðsins leiðir einnig til ólýðræðislegrar skoðanamyndunar upplýsingamiðlunar og tjáningar. Listsköpun er drepin í dróma. Raunverulegt valfrelsi er kæft í menningariðnaði og múgmenningu án sérkenna, minnihlutaálits, skírskotunar eða raunverulegs inntaks. Raddir fólksins hljóðna en við tekur einhljóma rödd sem metur allt til gildis samkvæmt reglum auðsins.“

Þeir sem höfðu vit fyrir íslensku þjóðinni í útvarpsmálum höfðu sannarlega siglt framhjá skeri ólýðræðislegrar skoðanamyndunar í krafti auðvalds með því að tryggja að aðeins ein íslensk stöð sendi út; gamla góða ríkisrásin þar sem raddir fólksins fengu að njóta sín, inntakið var raunverulegt, minnihlutaálitið tryggt, markaðsöflin aftengd og ekkert lágkúrulegt frjálshyggjudiskó heyrðist nema í „Lögum unga fólksins“ einu sinni í viku, klukkustund í senn. Ekki satt?

Var diskódrottningin Donna Summer rödd fólksins er hún söng „Í útvarpinu“ eða lágkúruleg múgmenning án skírskotunar og raunverulegs inntaks?

Var diskódrottningin Donna Summer rödd fólksins er hún söng „Í útvarpinu“ eða lágkúruleg múgmenning án skírskotunar og raunverulegs inntaks?

Guðmundur H. Garðarsson gerði athugasemdir við grein Stefáns í Vísi og sagði það vissulega rétt að litlar hömlur væru settar á frelsi manna til að segja skoðun sína í ríkisútvarpinu, „hafi þeir á annað borð komist að“. Hann spurði í framhaldi af því: „Hver á að komast að? Hverjir eiga að ákveða val efnis frétta, hljómlistar, kvikmynda o.sv.frv.? Á að færa ákvörðunartökuna nær fólkinu sjálfu með aðstoð nýrra rekstrarforma sem fela í sér nýja og áður óþekkta valddreifingu á þessu sviði fjölmiðlunar hérlendis? Á víðsýni og framfarahugur að fá að ráða? Eða á að viðhalda stöðnuðu ríkisrekstrarformi, þar sem starfsmenn ráða takmörkuðu en yfir vötnum svífur andi pólitískra hagsmuna?“ Spurning Guðmundar svaraði sér sjálf: Auðvitað áttu hinir vitru og spöku — vöggugjafarþegarnir — að ákveða hvað þjóðin barði eyrum. Dylgjur um pólitíska slagsíðu dæmdu sig sjálfar því eins og allir vita hefur aldrei neitt slíkt verið uppi á teningnum hjá hinum hlutlausa ríkismiðli allt fram á þennan dag.

Ekki voru greidd atkvæði um frumvarp Guðmundar. Það lognaðist útaf í nefnd. Diskóhugsjónin rættist ekki í bili.

VoninEinEr vonin úti eftir þrjú röng svör? Ekki úti, en hún er komin í anddyrið. Er vonin úti eftir tvö röng svör? Nei, þú átt enn möguleika. Er vonin úti eftir eitt rangt svar? Aldeilis ekki. Vonin er góð. Ekki þarf að taka fram að vonin er mjög góð eftir þrjú rétt svör. Ef þú svarar næstu spurningum rétt er vonin ein ekki eftir.

Flokkar: Dægurmál · Menning og listir · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 6.11.2015 - 05:06 - FB ummæli ()

Vöggugjöfin II — Öl?

Fékkst þú þá einstöku náðargáfu í vöggugjöf að vita hvað öðrum, betur en þeim sálfum, er fyrir bestu? Ef þú telur að svo sé — þótt það sé jafnvel aðeins óljós, kitlandi tilfinning — taktu þá snillingsprófið. Líkurnar á að þú sért snillingur og vitringur eru talsverðar vegna þess að hlutfall slíkra virtúósa á Íslandi er með því hæsta í heiminum. Hlutfallið er svo hátt að vísindamenn standa á gati.

Á ráðstefnu sem haldin var nýlega var reynt að finna svör við þeirri ráðgátu sem þetta háa hlutfall er. Margar tillögur komu fram hver annarri kjánalegri. Sálfræðingsræfill frá Sidney taldi hlutfall „snillinga“ (hann gerði gæsalappir með fingrunum) ráðast af því hve langt þjóðir væru komnar í að horfast í augu við sjálfar sig, það er að segja, að hlutfall „spámanna“ væri því hærra sem tvískinnungur, hræsni og yfirdrepsskapur væri útbreiddari. Hann var púaður niður af íslensku fulltrúunum sem voru fjölmennastir á ráðstefnunni (nema hvað).

Önnur tillaga álíka vitlaus kom fram í ræðu monthana frá Montana undir yfirskriftinni „Vesæll er valdalaus vitringur“Hélt hann því fram að mikill meirihluti manna myndi láta visku og speki og tilskipanir og reglur vitringa sem vind um eyru þjóta ef þeir hefðu ekki völd til þess að þvinga þeim upp á þá — og samt vera hamingjusamari, heilsuhraustari og farsælli.

Alvitlausasta kenningin verður þó að teljast vera sú sem danski fulltrúinn Níels Langström setti fram. Í löngu og þvoglumæltu máli hans kom fram að rannsóknir sem hann gerði sýndu að það væri útbreiddur misskilningur á Íslandi, miklu útbreiddari en í heimalandi hans til að mynda, að boð og bönn láti vandamál hverfa. Hann gerði gys að Íslendingum og kallaði þá bláeyga að halda að blá bönn kæmu í veg fyrir alla mannlega lesti og bresti og hvaðeina sem hinir vitru og framsýnu teldu ekki við hæfi. „Hættir hóra að vera hóra við það að plebbi á löggjafarþingi banni vændi eða vændiskaup?“ spurði hann. „Nei, hún leitar skjóls frá hrammi ríkisins hjá þeim sem síst skyldi, dólgnum,“ svaraði hann sjálfum sér. Hann var hrópaður niður af íslensku fulltrúunum sem fóru fram á það við skipuleggjendur ráðstefnunnar að Níelsi væri bannað að fara á þjóðdansasýningu sem skipulögð var fyrir ráðstefnugesti um kvöldið.

Ekki þarf að koma á óvart að lausnin á ráðgátunni kom frá snillingi snillinganna, yfirvitringi hópsins, Guttormi Melsteð frá Enni undir Ennisennisenni. Hann benti ráðstefnugestum og heimsbyggðinni allri kurteislega á það í eitt skipti fyrir öll að náðargáfan væri einfaldlega vöggugjöf mótuð og slípuð af mörgum kynslóðum íslenskra spekinga með ofurmannlegt innsæi. Var þá mikið klappað.

Allt um það. Ekki er eftir neinu að bíða en vinda sér í næstu spurningu.

Snillingsprófið – önnur spurning

Vildir þú á árabilinu 1947 til 1967 að bjór væri leyfður í landinu?

__ Já.

__Nei.

NeiEf svarið er „nei“ hefurðu stigið enn eitt skrefið í rétta átt. Þú ert í virkilega góðum félagsskap margra framsýnna manna vegna þess að Pétur Sigurðsson alþingismaður lagði fram frumvarp 1960 og aftur 1966 um að leyfa bjór. Pétur sagði meðal annars í framsögu að það væri „meira en lítið misræmi að leyfa sölu á eldsterku brennivíni, en banna sölu á veiku öli á þeirri forsendu, að verið sé að vinna gegn áfengisbölinu,“ en meginrökin væru „að slíkt bann sem nú er á áfengu öli sé móðgun við menningarþroska og frelsiskennd íslenzkra þegna.“

Sigurvin Einarsson alþingismaður furðaði sig á þrákelkni Péturs og sagði í ræðu: „Hvar sem öl er bruggað og selt, verður það almenningsvarningur, almenningsneyzla, almenningslöstur. Ölið verður daglegur drykkur meira og minna á vinnustöðum, sem stelur peningum frá mönnum og dregur úr afköstum. Menn þurfa ekki annað en bera saman afköst íslenzkra verkamanna og öll tilþrif á vinnustað við störf starfsbræðra þeirra í nágrannalöndunum, þar sem a.m.k. einn í hverjum hópi hefur nóg að gera að ná í ölföng. Hætt er við, að hér yrði útkoman ekki ósvipuð með ölið og með sígaretturnar, það yrði nautnavarningur, furðu sakleysislegur, en menn mundu kaupa ölið, þegar þeir færu að venjast því, og smám saman gætu þeir ekki án þess verið. Og spariskildingarnir færu til ölkaupa í staðinn fyrir húsbyggingar eða að prýða heimili sín eða í staðinn fyrir góðan mat. Verkamenn nágrannalandanna eiga ekki fé til að byggja fyrir íbúðir eða prýða heimili sin á sama hátt og íslenzkir verkamenn.“ Hér talar sá sem vitið og framsýnina hefur. Íslenskir vinnustaðir nú um stundir eru vissulega nánast óstarfhæfir vegna bjórþambs starfsfólksins daginn út og inn. Ekki satt?

BjorfrumvarpFellt1967Skemmst er frá að segja að frumvarp Péturs var fellt. Á móti voru fyrir utan Sigurvin Einarsson: Axel Jónsson, Ágúst Þorvaldsson, Benedikt Gröndal, Björn Fr. Björnsson, Eðvarð Sigurðsson, Einar Olgeirsson, Eysteinn Jónsson, Geir Gunnarsson, Gísli Guðmundsson, Gunnar Gíslason, Vilhjálmur Hjálmarsson, Halldór E. Sigurðsson, Hannibal Valdimarsson, Ingólfur Jónsson, Ingvar Gíslason, Lúðvík Jósepsson, Matthías Á. Matthiesen, Sigurður Ágústsson, Sigurður Ingimundarsson, Jón Kjartansson og Sverrir Júlíusson.

JáEf svo ólíklega vill til að svarið er „já“ hefurðu því miður færst einu skrefi fjær því að geta talist vera fórnfús og framsýnn snillingur sem ert fær um að vita hvað öðrum er fyrir bestu. Þú ert í félagsskap manna eins og áðurnefnds Péturs Sigurðssonar sem hvatti andstæðinga bjórsins að vera samkvæma sjálfum sér og stuðla að banni á sterku áfengi fyrst bjórinn væri jafn hættulegur og þeir vildu vera láta. Með því að láta það ógert væru þeir að viðurkenna að slíkt bann væri tilgangslaust í nútímasamfélagi með víðtækri bruggkunnáttu og miklum samgöngum við lönd þar sem allar víntegundir væru á boðstólum. Andstæðingar bjórsins væru með öðrum orðum hræsnarar.

Þeir sem vildu leyfa bjór voru: Sigurður Bjarnason, Birgir Finnsson, Bjarni BenediktssonDavíð ÓlafssonEinar Ágústsson, Sigfús J. Johnsen, Gylfi Þ. Gíslason, Jóhann Hafstein, Jón Skaftason, Jónas Pétursson, Jónas G. Rafnar, Óskar E. Levý, Matthías Bjarnason, Pétur SigurðssonRagnar Arnalds og Björn Pálsson sem sagði það „reynslu annarra þjóða að tilgangslaust væri að setja bönn. Að banna innflutning á áfengum bjór væri hliðstætt því að banna innflutning á reyktóbaki en leyfa innflutning á vindlingum. Tilkoma áfengs öls myndi gera talsvert gagn. T. d. myndi ölið sporna við hinu mikla smygli, sem ætti sér stað á áfengu öli, og væri nú ástandið þannig, að hver sá sem hefði vilja til gæti aflað sér áfengs öls.“

Ekki er öll nótt úti enn þótt þér hafi ef til vill fipast á tveimur spurningum vegna þess að þú getur enn sýnt fram á að þú sért gegnheill snillingur og vitringur með því að svara næstu spurningum rétt.

Bruggkutur

Flokkar: Dægurmál · Menning og listir · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 29.10.2015 - 04:25 - FB ummæli ()

Vöggugjöfin I — Mjöður?

Íslenska þjóðin er einstök fyrir það hve marga snillinga hún á. Snillinga sem fengu þá náðargáfu í vöggugjöf að vita miklu betur en ég hvað mér sjálfum er fyrir bestu. Og ekki bara mér, heldur öllum! Raunar væri nær að tala um gáfur frekar en gáfu vegna þess að vöggugjöfin samanstendur af nokkrum haganlega innpökkuðum bögglum sem innihalda m.a. ofurmannlegt innsæi, botnlausa djúphygli, óendanlega framsýni, ómældan góðvilja og einstaka fórnfýsi.

SnillingarFyrirsSumir snillinga okkar eru jafnvel svo fórnfúsir og góðviljaðir að þeir hafa kannað til þrautar skaðsemi óhóflegrar áfengisneyslu á fjölskyldur sínar og sjálfa sig til þess eins að geta haft vit fyrir mér þegar kemur að verslunarfyrirkomulagi og öðru fyrirkomulagi á þessari varasömu en þó löglegu neysluvöru. Það er varla hægt að hugsa sér meira göfuglyndi.

Langflestir þessara snillinga, sem eins mætti kalla spámenn, fæddust þó svo miklir snillingar að þeir þuftu enga glæfraför um vafasamar lendur til að vita allt best. Það er gæfa íslensku þjóðarinnar.

Að sama skapi er það ógæfa íslensku þjóðarinnar hve sjaldan er hlustað á spámennina hennar. Oft og tíðum er skollaeyrum skellt við ábendingum þeirra og viðvörunum þegar í raun réttri þeir ættu að vera leiðtogar, bæði veraldlegir og andlegir.

Bjórmálið svokallaða, þegar bjórinn var aftur leyfður á Íslandi eftir 75 ára bann er gott dæmi um hvílíka ógæfu það getur kallað yfir þjóð þegar ekki er hlustað spámennina. Það mál, þótt smátt sé og ómerkilegt og varla gaum gefandi, gefur ákveðnar vísbendingar um það hvort betra er að treysta hverjum og einum sauðsvörtum almúgamanni fyrir sjálfum sér og sinni gæfu eða snillingunum sem vitið og framsýnina hafa.

AfengisbanniðAIslandiTil að koma í veg fyrir að annað eins óheillaskref verði tekið eins og það þegar bjórinn var leyfður á Íslandi (til dæmis að taka smásölu áfengis af könnu ríkisins) verður að lyfta þessum miklu vitringum á réttan stall og láta rödd þeirra heyrast — og það sem mikilvægast er: að farið verði að leiðsögn þeirra. Gæfa okkar allra er í húfi, ekki síst æskunnar.

Fyrsta skrefið er að skilja kjarnann frá hisminu; finna snillingana sem vita manna best, eins og áður segir, hvað öðrum er fyrir bestu (jafnvel þótt þeir viti ekkert hvað þeim sjálfum er fyrir bestu, en það er eitt af undrum þessarar náðargáfu sem ekki verður farið nánar út í hér).

Leynist til dæmis slíkur vitringur í þér, lesandi góður?

Einfalt eða nei próf getur skorið úr um það.

Snillingsprófið – fyrsta spurning

Í greinargerð með frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi 1947 sagði meðal annars: „Á styrjaldarárunum brugguðu íslendingar áfengt öl fyrir hið erlenda herlið, sem hér dvaldi. Þótti það góð vara, og féll hinum ölvönu útlendingum vel í geð. En sala á því var ekki leyfð til Íslendinga sjálfra.“

Ertu sammála því að rétt hafi verið að leyfa hinum ölvönu útlendingum að drekka íslenskan bjór á Íslandi á meðan hinum alölóvönu Íslendingum var það ekki?

__ Já.

__Nei.

Ef svarið er „já“ hefurðu stigið fyrsta skrefið að staðfestingu á því að þú ert handhafi vöggjugjafarinnar. Þú ert í góðum félagsskap fjölmargra snillinga. Til dæmis áfengisvarnarnefndar Kvenfélaganna á Siglufirði sem ályktaði í blaðinu Mjölni 12. nóvember 1947:

SiglfirskarKonurFsogn„Áfengisvarnanefnd kvenfélaganna í Siglufirði hefur nú sent Alþingi áskorun þess efnis, að fella bjórfrumvarp það, sem þeir Sigurður Bjarnason, Sigurður E. Hlíðar og Steingrímur Steinþórson hafa nýlega borið fram á Alþingi. Ennfremur hefur nefndin snúið sér til þingmanns bæjarins, Áka Jakobssonar, og mælst til þess, að hann beiti sér á móti frumvarpi þessu. Er áreiðanlegt, að Sósíalistaflokkurinn og þingmenn hans munu beita sér af alefli gegn þessu svívirðilega frumvarpi, sem án efa mundi leiða yfir þjóðina nýja drykkjuöld, ef það yrði samþykkt.“

Ef svarið er „nei“ eru nokkrar líkur til þess að þú hafir ekki fæðst með silfurskeiðina í munninum sem gjöfin góða er. Þú ert í miður góðum félagsskap Sigurðanna tveggja og Steingríms sem sögðu m.a. í greinargerð með frumvarpinu: „Líklegt má telja, að Íslendingar geti fljótlega, eftir að þeir hafa hafið ölgerð, hafið útflutning á þessari framleiðslu. Yrði það nýr liður í útflutningsverzlun þjóðarinnar og líklegur til þess að skapa henni nokkrar gjaldeyristekjur, ef til vill verulegar, er tímar líða.“ Óhætt er að fullyrða að skammsýni alþingismannanna var einstök.

Althingismenn1947dÞað er yndislegt til þess að hugsa hve mikla umhyggju og ást ráðandi aðilar á Íslandi sýndu þjóð sinni með því að forða henni frá glapstigum öldrykkjunnar. Það var sannarlega klókt bragð; það mætti jafnvel kalla það hluta af andspyrnuhreyfingunni að láta setuliðið eitt um að þamba bjór. Ég sé vodkavana Íslendinginn ljóslifandi fyrir mér í ullarfrakka og með barðahatt á Austurvelli á stríðsárunum að fá sér sopa af pelanum sínum og glotta háðslega til hermannsins sem kýs heldur hinn stórhættulega bjór til að svala áfengisfíkn sinni. Hermaðurinn var sannarlega á hraðari leið til glötunar en Íslendingurinn, ekki satt?

Hafirðu svarað rangt þessari fyrstu prófspurningu, örvæntu eigi. Þú hefur enn tækifæri til að bæta ráð þitt og sýna fram á að þú ert þrátt fyrir allt handhafi vöggugjafarinnar góðu með réttum svörum við næstu spurningum.

Flokkar: Dægurmál · Menning og listir · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 8.6.2015 - 15:36 - FB ummæli ()

Batavegurinn

Þessi fréttatilkynning var að berast frá heilsuhælinu á Kalkofnsvegi.

Áður en við tökum öndunarvélina úr sambandi þurfum við að setja hana í spennitreyju svo hún fari sér ekki að voða þegar hún vaknar úr rotinu. Ekki er talið rétt að taka af henni hálskragann og skerminn að svo stöddu. Lyfjaskammturinn (róandi, örvandi, geð) verður sá sami og áður. Hún fær að sjálfsögðu að hafa göngugrindina sína, súrefniskútinn og gervinýrað áfram. Auk þessa verður hún undir stöðugu eftirliti sérvalinna sérfræðinga sem geta gripið inní hvenær sem þeim þykir henta. Hún fær sína eigin kjallaraíbúð en til að tryggja frelsi hennar eru útidyrnar hafðar læstar allan sólarhringinn. Það er von okkar að krónunni muni líka vel við hið nýfengna frelsi sitt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 9.3.2015 - 05:38 - FB ummæli ()

Gæfusmiðirnir góðu

Hvað eiga málshættirnir „sjaldan fellur eplið langt frá eikinni“ og „hver er sinnar gæfu smiður“ sameiginlegt?

Báðir eru þeir rangir.

Epli falla iðulega langt frá eikunum vegna þess að þau vaxa á eplatrjám en ekki eikum og enginn getur smíðað gæfu sína án aðstoðar góðu og fórnfúsu mannanna sem hafa tekið það óeigingjarna hlutverk að sér af köllun og djúpri visku. Ég get varla hugsað þá hugsun til enda hverskonar klambur gæfa mín væri ef leiðsagnar og visku þeirra í stóru sem smáu hefði ekki notið við.

Góðu og vitru mennirnir sáu til þess að gæfa mín var reist á klöpp en ekki sandi. Það er þeim að þakka að foreldrar mínir gáfu mér gott og gilt íslenskt nafn. Ef handleiðslu þeirra hefði ekki notið við héti ég eflaust enn smekklausara nafni. Takk góðu menn!

En nú er vá fyrir dyrum.

Vondur maður í stjórnmálaflokki sem kennir sig við framtíðina vill afþakka leiðsögn gæfusmiðanna í mannanafnamálum. Hann segir að þetta standist ekki stjórnarskrána. Hvað er hann að hugsa? Veit hann ekki hvílíka holskeflu þjóðfélagið tók þegar leiðsögn góðu og vitru mannanna var afþökkuð í bjórmálum? Eða útvarpsmálum? Eða sjónvarpsmálum? Eða mjólkursölumálum?

Það er ekki nokkur vafi að ef leiðsögn góðu og vitru mannanna verður afþökkuð í þessu máli mun það marka upphafið að endalokum íslensks samfélags og menningar. Þjóðin hefur ekki á þeim rúmu ellefu hundruð árum sem hún hefur verið til sýnt neina umhyggju fyrir menningu sinni, máli og sögu.

Hafi ég einhverntíma haft þörf fyrir handleiðslu og stýringu var það þegar ég var nýorðinn faðir. Barnið hélt fyrir okkur foreldrunum vöku allar nætur einmitt á þeim tíma sem við völdum nafnið. Við vorum svo vansvefta og rugluð að hver veit nema við hefðum gefið drengnum okkar kvenmannsnafn? Ef engin hefði verið Mannanafnanefndin og lög um mannanöfn þá hefði nafnið kannski verið staðfest í bókum kerfisins. Hræðileg tilhugsun! Takk fyrir að vera til góðu, góðu menn í Mannanafnanefnd og allt hitt vitra fólkið í samfélaginu sem veit hvað mér er fyrir bestu í þessum efnum.

Við villuráfandi sauðirnir erum ekki í minni þörf fyrir að vera stýrt af glapstigum mannanafnavals þegar við komumst á fullorðinsár. Ef engin væru lögin gætu sjálfráða óvitar farið sér að voða. Gott dæmi um það er sjálfráði óvitinn Jón Gunnar Kristinnsson borgarstjórinn okkar fyrrverandi. Hann vildi breyta eftirnafni sínu í hið óíslenska og fáránlega Gnarr. Sem betur fer var það ekki leyft. Hugsið ykkur hve vesalings maðurinn hefði orðið fyrir miklu einelti ef hann fengi að halda þessu nafnskrípi!

Hvað gerir hann þá? Jú, hann fer til útlanda! Til útlanda þar sem smekkleysið og frelsið í mannanafnavali er algjörlega taumlaust! Og eins og sannkölluðum óvita sæmir hættir hann við Gnarr-nafnið og vill nú kalla sig Houston! Hafi Gnarr nafnið verið ljótt er Houston hörmulegt og fellur enganveginn að ritreglum íslensks máls. Það má vel vera að hann sé aðdáandi söngkonunnar Whitney Houston, en fyrr má nú rota en dauðrota.

Hér sést afleiðing þess svart á hvítu hvað myndi gerast ef engar reglur væru um mannanöfn.

Hér sést afleiðing þess svart á hvítu hvað myndi gerast ef engar reglur væru um mannanöfn.

Flokkar: Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 5.3.2015 - 18:15 - FB ummæli ()

Góðu mennirnir

Ég er virkilega þakklátur öllum þeim góðu mönnum sem í gegnum tíðina hafa tekið að sér að hugsa fyrir mig. Þegar ég var ungur var svo vel hugsað fyrir mig að ég þurfti ekki að leggja það á veikburða hyggjuvitið að meta hvort mér þætti bjór góður eða vondur. Góðu mennirnir höfðu ákveðið það fyrir mig. Hann var vondur. Takk fyrir það góðu menn! Ég man hvað það var mikið áfall fyrir mig þegar ég þurfti skyndilega að gera það upp við mig á eigin spýtur. Það voru öfugsnúnir tímar.

Góðu mennirnir hafa hingað til sparað mér ómakið við að meta hvort ég skuli kaupa vín og ost í einni og sömu búðinni. Þeir hafa af sinni einskæru snilli, gæsku og fyrirhyggjusemi ákveðið það fyrir mig að vínið skuli keypt í þessari búð og osturinn í hinni. Takk fyrir það góðu og vitru menn.

En nú er vá fyrir dyrum.

Ábyrgðarlausir og illmeinandi menn vilja nú leggja það á mig að ákveða hvort ég kaupi vínið og ostinn í sömu búðinni. Eru þeir galnir? Vita þeir ekki hvað samfélagið beið mikinn skaða af því þegar leyft var að selja mjólk og brauð undir sama þaki? Hafa þeir ekki orðið varir við hnignunina síðan bjórinn var leyfður? Vilja þeir að ég breytist í áfengissjúkling? Hafa þeir ekkert lært?

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að það eru sömu góðu og velmeinandi mennirnir sem vildu ekki leggja það á herðar mínar að velja milli vodka eða bjórs og vilja ekki leggja það á herðar mínar að burðast með rauðvínsflösku og oststykki í sömu innkaupakörfunni.

Ég er ekki í nokkrum vafa að Ísland væri miklu betri staður að búa á ef það hefði verið farið að leiðsögn góðu og vitru mannanna í einu og öllu. Ef við aðeins hefðum gefið varnaðarorðum þeirra gaum og leyft þeim að ráða hefði hnignun útvarpsins engin orðið vegna þess að við hefðum enn þann dag í dag eina glæsilega, menningarlega og réttsýna ríkisstöð. Ég er ekki í stakk búinn að vita hvaða sjónvarpsstöð hentar mér best og legg allt mitt traust á góðu og vitru og velmeinandi mennina í þeim efnum. Þeir vita miklu betur en ég hvaða sjónvarpsefni ég vil horfa á og eru svo snjallir að þeir koma því öllu fyrir á einni rás! Og síminn væri enn á þeim glæsta stalli sem hann var á áður ef góðu mennirnir hefðu fengið að ráða. Stóraukið framboð af símum og símafyrirtækjum með tilheyrandi gjallanda hefur stóraukið angist mína og valkvíða. Góðu og vitru mennirnir sáu það fyrir og vöruðu við. Það er órækur vitnisburður um framsýni þeirra.

Eins og sagan kennir með bjórinn þá var það reginhneyksli að afþakka dómgreind og forsjá góðu og velmeinandi mannanna í góðu og velmeinandi stjórnmálaflokkunum í því máli. Það sýnir kannski best hvað við kjósendur þeirra erum í mikilli þörf fyrir leiðsögn að það var ekki fyrr búið að leyfa bjórinn en við vorum komnir á krána að skála fyrir því að geta kneyfað öl að víkingahætti. Og það þótt við værum hjartanlega sammála þeim þegar við hlustuðum á röksemdir þeirra í útvarpinu eða lásum greinar eftir þá í blöðum. Það var vitaskuld til of mikils ætlast af okkur að geta upp á eigin spýtur afþakkað sjálf ölið fyrst vitringunum okkar mistókst það fyrir okkur.

Og enn erum við skjólstæðingar og kjósendur góðu mannanna í góðu flokkunum jafn miklir kjánar og áður. Við látum fá tækifæri til að þamba öl framhjá okkur fara. Hræsni okkar og tvískinnungur er kominn langleiðina í þrítugt! Get ég lifað með þessu öllu lengur? Ég get að minnsta kosti fullyrt það að ég vil ekki þurfa að ganga í gegnum aðra holskeflu og þá sem nú á að steypa okkur í með því að leyfa vínsölu í matvörubúðum. Ég get bókstaflega ekki hugsað þá hugsun til enda að maður geti af fullkomnu ábyrgðar- og dómgreindarleysi keypt rauðvínsflösku í Pétursbúð.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur