Laugardagur 11.1.2020 - 19:48 - FB ummæli ()

Strákarnir ævintýralega góðir!

Leikurinn við Dani í dag var alger draumaleikur.

Danir eru bæði Ólympíu- og heimsmeistarar í handbolta.

Þeir eru með eitt albesta lið heimsins um þessar mundir.

Þeir töpuðu ekki vegna þess að þeir hefðu brugðist eða verið lélegir.

Nei, þeir töpuðu vegna þess að íslenska liðið var frábært.

Sigur hefði svo sem geta fallið á hvorn veg sem var.

Það er út af fyrir sig gott fyrir Ísland.

En strákarnir náðu að sigra, sem er enn betra.

Voru frábærir út í gegn.

Fyrir Guðmund þjálfara, sem gerði Dani að því meistaraliði sem þeir eru, er þetta einstakur sigur.

Mér sýnist að þessi leikur fari mjög framarlega í sögubækurnar.

Og mikið rosalega var gaman að horfa á hann – frá byrjun til enda…

 

Og ekki var það síðra í Rússaleiknum…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 30.12.2019 - 11:51 - FB ummæli ()

Skattar lágtekjufólks lækka um áramótin

Það var ein af mikilvægustu forsendum Lífskjarasamningsins að stjórnvöld myndu lækka tekjuskatt láglaunafólks um a.m.k. 10.000 krónur á mánuði, eða um 120 þúsund krónur á ári.

Nú um áramótin kemur þriðjungur þessarar lækkunar til framkvæmda.

Í byrjun næsta árs verður lækkunin svo að fullu komin til framkvæmda.

Verkalýðshreyfingin lagði ríka áherslu á þetta.

Enda er þetta mikilvæg kjarabót, einkum fyrir lágtekjufólk, og raunar mun verðmætari en tíu þúsund króna launahækkun (af henni tekur ríkið strax staðgreiðslu uppá minnst 37%).

Í kjarasamningunum sem gerðir voru árið 2015 var samið um ágætar launahækkanir en þá rýrði ríkið persónuafsláttinn, árlega allan samningstímann (2015 til 2018).

Þetta jók skattbyrði allra, en þó langmest hjá þeim sem voru á lægstu laununum (sjá hér).

Þannig tók ríkið umtalsverðan hluta af kaupmáttaraukanum sem átti að renna til lágtekjufólks.

Slíkt mun ekki gerast á samningstíma Lífskjarasamningsins (2019-2022).

Þvert á móti bætist alvöru skattalækkun við kauphækkanir og aðrar kjarabætur sem í samningnum eru.

Mest kemur í hlut þeirra lægst launuðu. Skattalækkunin minnkar svo með hækkandi tekjum og skilar litlu sem engu til þeirra sem hafa meira en milljón í tekjur á mánuði.

Þannig er Lífskjarasamningurinn jafnaðarsamningur.

Tekjuskiptingin á Íslandi mun því jafnast á næstu þremur árum, að öðru óbreyttu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 10.12.2019 - 20:01 - FB ummæli ()

Æðsta ósk Sjálfstæðismanna að skaða RÚV

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp sitt um stuðning við einkarekna fjölmiðla.

Eftir því hefur lengi verið beðið, enda er staða þessara fjölmiðla erfið.

Þegar þessum áfanga er nú náð vekur mikla athygli að Sjálfstæðismenn beita sér af krafti gegn framgangi málsins, og segja það jafnvel andvana fætt.

Hvers vegna skyldi það vera?

Ekki er það vegna þess að Sjálfstæðismenn séu andvígir því að ríkið styðji við einkarekstur af ýmsum toga. Slíkt hafa þeir sjálfir gert nær linnulaust í áratugi og í ýmsum myndum – frá landbúnaði til sjávarútvegs og ferðaþjónustu, svo örfá dæmi séu nefnd.

Nei, það er ekki þess vegna – og þeir tala alveg skýrt um raunverulegu ástæðuna.

Hún er sú, að þeir ætla að nota sér einhvers konar samningsstöðu um þetta mál til að veikja RÚV stórlega.

Helst vilja þeir taka RÚV alveg af auglýsingamarkaði og alls ekki bæta því tekjumissinn.

Þeir vilja sem sagt skera RÚV niður við trog og helst losna alveg við það.

Þetta segja þeir tæpitungulaust.

Hatur margra forystumanna Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins á RÚV hefur auðvitað ekki farið framhjá neinum.

Og ekki hafa uppljóstranir um Panama- og Samherjaskjölin dregið úr þeirri afstöðu Sjálfstæðismanna.

 

Hvað vill almenningur?

Það að Sjálfstæðismenn skuli vera reiðubúnir til að taka hið ágæta mál Lilju í gíslingu af þessari ástæðu segir margt.

Ekki er þetta gert í þágu almennings.

Nei! Almenningur vill gjarnan hafa öflugt RÚV með fjölþætt hlutverk.

Almenningur vill líka hafa þróttmikla einkarekna íslenska fjölmiðlaflóru, þ.m.t. vandaða netmiðla eins og t.d. Kjarnann, Vísi og Stundina.

Leið Lilju er að efla þá einkareknu núna en halda RÚV á svipuðu róli.

Hún vill styrkja íslenskt fjölmiðlaumhverfi almennt gegn samkeppni frá erlendum efnisveitum, sem taka nú sífellt stærri hluta af auglýsingatekjum sem héðan koma. Með leið Lilju er íslensk menning efld.

Það er örugglega sú leið sem flestum kjósendum hugnast.

Þetta er líka sú leið sem samtökum auglýsingastofa hugnast.

Sjálfstæðismenn eru hins vegar ekki að vinna fyrir almenning í þessu máli.

Tilgangur þeirra er allur annar og skuggalegri.

 

Síðasti pistill: Ójafnaðarmenn vega að Piketty

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 3.12.2019 - 14:16 - FB ummæli ()

Ójafnaðarmenn vega að Piketty

Breska tímaritið Economist sagði frá því í grein í síðustu viku að meðal fræðimanna sem rannsakað hafa ójöfnuð tekna og eigna á Vesturlöndum séu uppi deilur um einstakar mælingaraðferðir og að rætt sé um að slíkt geti breytt niðurstöðum sem hingað til hafi verið teknar sem gildar.

Því er sérstaklega slegið fram að niðurstöður Thomasar Piketty og samstarfsmanna hans um aukningu ójafnaðar í nútímasamfélögum séu ýktar og jafnvel ýjað að því að þær standist ekki.

Tímaritið bætir að vísu við fyrirvara um að raddir gagnrýnenda Pikettys og félaga séu ekki endilega réttar.

Hér uppi á Íslandi tók Morgunblaðið kipp og birti grein og svo leiðara um að nú stæði ekki lengur steinn yfir steini í niðurstöðum Pikettys og félaga og reifaði einnig þá skoðun að ójöfnuður gæti verið mjög gagnlegur í samfélaginu.

Mest er þetta þó stormur í vatnsglasi.

Sú umræða um álitamál í mælingum sem Economist segir frá er hvorki ný né heldur hefur hún velt neinum björgum í niðurstöðum rannsókna á ójöfnuði tekna og eigna.

Allar megin niðurstöður Piketty og félaga stranda lítt haggaðar.

 

Um hvað er rætt?

Um er að ræða eðlilegar tilraunir og umræðu um mælingar og athuganir í rannsóknarheiminum sem hafa komið upp á yfirborðið í kjölfar þess að hin áhrifamikla bók Pikettys, Capital in the Twenty-First Century, kom út árið 2014.

Menn velta fyrir sér hvort einstakar mælingaraðferðir séu þær heppilegust eða að einhverju leyti takmarkaðar og menn velta fyrir sér áreiðanleika gagna. Svo prufa menn aðrar aðferðir og önnur gögn og rýna niðurstöður upp á nýtt. Öll er slík endurskoðun sjálfsögð og af hinu góða.

Ef ekki væri tekið á svo áhrifamiklum rannsóknarverkum eins og Piketty og tugir samstarfsmanna hans um allan heim hafa komið fram með frá um 1993 til þessa árs þá væri eitthvað að í rannsóknarheiminum.

Það er jú ein af grundvallarforsendum hinnar vísindalegu aðferðar að menn sannreyni mælingar og niðurstöður hvers annars. Traustar niðurstöður þurfa til lengdar að standast slíkar gagnrýnar athuganir frá vísindasamfélaginu.

Allt hefur þetta þó verið samkvæmt áætlun. Efasemdaraddir og nýjar tilraunir hafa komið fram en meginmynstur niðurstaðna standa þó lítt breytt, þó annað megi ætla af umfjöllun  Morgunblaðsins.

Raunar hafa bæði Piketty og félagar og aðrir sérfræðingar á þessu sviði lengi fjallað um áhrif mismunandi mælingaraðferða og mismunandi gagna sem til grundvallar eru lögð.

Piketty og félagar hafa bæði svarað sumum af þessum atriðum sem Economist nefnir og jafnvel lagt til ýmis frekari nýmæli í rannsóknaraðferðum á allra síðustu árum (t.d. svokallaða „distributional national accounts“), sem fela í sér framfarir og aukinn áreiðanleika í þjóðhagsreikningaskilum og rannsóknum á tekjuskiptingu.

Þá hafa þessir aðilar lagt fram mikið af nýjum gögnum um áhrif skattkerfa og skattaskjóla á tekju- og eignadreifingu (einkum Gabriel Zucman og Emmanuel Saez), sem sömuleiðis auka áreiðanleika og skilning.

Ágætt yfirlit um almennar niðurstöður um þróun ójafnaðar í heiminum má finna í World Inequality Report 2018 (hér).

Rétt er líka að halda til haga að þó samstarfsmenn Pikettys séu stór hópur þekktra sérfræðinga á sviðinu frá öllum helstu löndum jarðarinnar, þá hafa aðrir marktækir aðilar og stofnanir komist að svipuðum niðurstöðum, til dæmis OECD, Congressional Budget Office í USA (óháð úttektarstofnun bandaríska þingsins), Luxembourg Incomes Study stofnunin (LIS) og Eurostat, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Mikið þarf því til ef takast á að snúa niðurstöðum Piketty og félaga á haus!

 

Tæknileg atriði

Skoðum lítillega atriði sem nefnd eru í ofangreindri grein í Economist.

Sagt er að með mismunandi tekjuhugtökum fáist ólíkar niðurstöður. Til dæmis mælist minni aukning ójafnaðar í sumum löndum ef miðað er við ráðstöfunartekjur eftir skatta og bætur en með heildartekjum fyrir skatta og bætur.

Flestir rannsakendur á sviðinu skoða hvoru tveggja og raunar fleiri tekjuhugtök (sjá t.d. bókina Ójöfnuður á Íslandi: Dreifing tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi, sem út kom 2017). Þetta hefur því alltaf verið inni í myndinni, bæði hjá Piketty og flestum öðrum.

Sagt er að öllu breyti hvort miðað sé við fjölskyldur eða einstaklinga, vegna breyttrar hjúskapartíðni í seinni tíð. Þetta hefur einnig alltaf verið inni í myndinni hjá mörgum rannsakendum (sjá t.d. umfjöllun um þetta í Ójöfnuður á Íslandi).

Sagt er að taka eigi tillit til velferðarþjónustu (t.d. Medicaid í USA). Það er að vísu ekki sjálfgefið að jafna eigi velferðarþjónustu við árlegar tekjur, en tilvist opinberra velferðarkerfa dregur úr ójafnaðarstigi í flestum löndum. Það breytir þó ekki meginmynstrum ójafnaðar. Sjá t.d. umfjöllun um þetta í bókinni Ójöfnuður á Íslandi.

Sagt er að skattaleg meðferð ólíkra tekjuþátta og eigna hafi áhrif. Þetta hefur alla jafna verið inni í rannsóknum á skiptingu tekna og eigna. Sjá t.d. ítarlega umfjöllun um þetta í tilviki Íslands í bókinni Ójöfnuður á Íslandi.

Sagt er að skattaundanskot og notkun skattaskjóla skipti máli fyrir ójafnaðarmælingar. Það er vissulega rétt og fáir hafa gert meira til að varpa ljósi á þessa þætti en samstarfsmenn Pikettys (einkum Zucman og Saez). Þau göt sem þessu tengjast fela reyndar oftast í sér mestar líkur á vanmati ójafnaðar því þeir tekjuhæstu og eignamestu eru helstu notendur skattaskjóla.

Sagt er að horft sé framhjá því í rannsóknum á tekjuskiptingu að tekjur fólks breytist yfir starfsferilinn og að fólk færist upp tekjustigann í samfélaginu. Rannsóknir á ójöfnuði draga sérstaklega fram mun milli efstu, mið og lægstu tekna. Breidd og einkenni skiptingarinnar á hverjum tíma. Því fylgir þó engin forsenda um að sömu einstaklingarnir séu á svipuðum stað í tekjustiganum til lengri tíma, þó það eigi reyndar við um flesta.

Raunar eru helstu tíðindi af hreyfanleika um tekjustigann þau, að úr tækifærum til að vinna sig upp hefur dregið mikið í Bandaríkjunum og Bretlandi í seinni tíð. Norrænu velferðarríkin koma betur út sem „lönd tækifæranna“ nú til dags.

Sagt er að niðurstöður um eignaskiptingu séu veikari og bjóði ekki upp á eins ábyggilegar niðurstöður og tekjugögn. Það er rétt og þess vegna þarf ætíð að hafa meiri fyrirvara um ójöfnuð eigna en ójöfnuð tekna, en enginn sérfræðingur á þessu sviði efast um að ójöfnuður eigna er mun meiri en ójöfnuður tekna.

Fáir hafa betur gert grein fyrir þessum tæknilegu vandamálum en einmitt Thomas Piketty og félagar. Um leið hafa þeir unnið þrekvirki í að auka aðgengi að mikilvægum opinberum gögnum um bæði tekjur og eignir, ekki síst gögnum um langtímaþróun ójafnaðar.

 

Niðurlag

Tímaritið Economist er gamalgróið og hefur lengst af átt samleið með fjármagnseigendum í skoðunum sínum. Það hefur í senn verið íhaldssamt og hægri sinnað í pólitík.

Það kom því á óvart fyrir nokkrum árum, í kjölfar fjármálakreppunnar sem hófst 2008, að tímaritið fór í auknum mæli að fjalla um neikvæð áhrif ójafnaðar á hagvöxt og mikilvægi þess að stemma stigu við auknum ójöfnuði.

Meðal annars birti tímaritið óvenju jákvæðan greinaflokk um farsæla sambúð jafnaðar og hagsældarþróunar í norrænum samfélaglögum.

Nú virðist gamli tíminn þó vera að snúa til baka hjá Economist tímaritinu.

Sennilega ræður mestu um það að nú eru vaxandi kröfur um aukna skattlagningu hæstu tekna og mestu eigna í Bandaríkjunum og Bretlandi og víðar. Þetta er oft réttlætt með tilvísunum til niðurstaðna um gríðarlegan vöxt ójafnaðar – og koma nöfn Pikettys og félaga þar oft við sögu.

Til dæmis vísa Bernie Sanders og Elisabeth Warren gjarnan til þessa í stefnumálum sínum fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.

Hjarta Economist slær augljóslega enn að mestu til hægri. Umhyggjan fyrir hagsmunum fjármálaaflanna og elítunnar sem fleytt hefur rjómann ofanaf hagvaxtarkökunni á síðustu áratugum er augljóslega enn til staðar á ritstjórnarskrifstofum Economist (og Morgunblaðsins).

Flest af því sem nefnt hefur verið sem gagnrýni á niðurstöður Pikettys og félaga og annarra aðila á sviði ójafnaðarrannsókna hefur verið til umfjöllunar og breytir litlu sem engu um megin niðurstöður.

Þeir sem una því illa að almenningur í vestrænum löndum amist við vaxandi ójöfnuði þurfa að bíða þess að raunveruleg þróun tekjuójafnaðar snúist við áður en að þeim verður að ósk sinni um að ójöfnuður verði tekinn af dagskrá stjórnmálanna.

Ritstjórar Economist virðast átta sig á þessu, því undir lok greinar sinnar segja þeir, að jafnvel þó ójöfnuður hafi aukist eitthvað minna en Piketty og félagar segja, þá sé bilið milli ríkra og fátækra „óþægilega“ mikið og margt sé vissulega að í kapítalisma samtímans sem taka þurfi á.

Já, það hvessti aðeins í vatnsglasinu í síðustu viku, en engin alvöru viðvörun var þó gefin út!

Allir haldi því ró sinni og yfirvegun á aðventunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 24.11.2019 - 13:43 - FB ummæli ()

Kvótakerfið er bara fyrir stóra útvegsmenn

Það er ekki umdeilt að kvótakerfinu fylgdi aukin hagkvæmni.

Með því að fækka útvegsaðilum og stækka hlut hvers af heildarveiðum þá batnar hagur þeirra fyrirtækja sem fá að veiða.

Það segir sig sjálft.

Þetta fólst í kvótakerfinu.

Með því myndaðist mikill auður sem safnaðist hefur á sífellt færri hendur á tíma kvótakerfisins (1984 til nútímans).

Örfáir eigendur stærstu útvegsfyrirtækja fara í dag með meirihluta veiðiheimildanna.

Þetta er miklu meiri samþjöppun en nokkurn óraði fyrir við upphaf kvótakerfisins.

Kvóti hefur flust frá fjölda byggðarlaga sem liggja vel við sjósókn – með tilheyrandi tjóni fyrir íbúa og samfélag (sjá t.d. hér).

Á sama tíma hefur mikil auðsöfnun stærstu útvegsmanna aukið vald þeirra stórlega.

Eignamyndun og arðgreiðslur út úr sjávarútvegsfyrirtækjum hafa verið svo miklar eftir hrun að útvegsmenn eru í stórum stíl að kaupa upp áhrifamikil fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum (olíufélög, flutningafyrirtæki, verslanir, fjölmiðla o.fl.).

Með sama áframhaldi munu fáir útvegsmenn eignast flest sem máli skiptir í íslensku samfélagi – ásamt nokkrum fjáraflabröskurum (sjá t.d. hér).

Slík samþjöppun auðs og valds grefur undan lýðræði og eykur spillingu.

Þannig sprettur mikið ójafnvægi og óréttlæti af kvótakerfinu (sjá t.d. hér).

Það var hannað til að fáir einstaklingar gætu fengið stærri hluta af auðlindarentunni – og orðið vellauðugir.

Á þetta var bent á fyrstu árum kerfisins og það hefur svo sannarlega gengið eftir.

Þetta kallar á grundvallarbreytingar sem færa ávinning kvótakerfisins mun betur til þjóðarinnar en nú er.

Þrengja þarf að frelsi útvegsmanna og auka frelsi almennings.

Þrengja þarf að auðsöfnun útvegsmanna og bæta hag fjöldans.

Kvótakerfið í núverandi mynd er bara fyrir stóra og vellauðuga útvegsmenn.

 

Síðasti pistill: Samherji rannsakar sig sjálfur!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 15.11.2019 - 12:14 - FB ummæli ()

Samherji rannsakar sig sjálfur!

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum stjórnenda Samherja eftir að óvænt innsýn í starfshætti þeirra birtist almenningi í vandaðri umfjöllun Kveiks og Stundarinnar.

Fyrstu viðbrögð Samherja komu reyndar fram áður en gögn Kveiks og Stundarinnar birtust, í formi yfirlýsingar frá fyrirtækinu (sem augljóslega vissi hvað var í vændum).

Þau voru hvorki stórbrotin né veigamikil.

 

Fyrstu viðbrögð

Í yfirlýsingu Samherja var reynt að telja fólki trú um að uppljóstrarinn hefði verið einn að verki og bæri einn ábyrgðina á því ef eitthvað kynni að hafa misfarist í Namibíu.

Rétt eins og hann hefði haft heimildir til að greiða sjálfur út af reikningum Samherja hundruð milljóna króna inn á reikninga mútuþega í Dúbaí – án þess að stjórnendur Samherja tækju eftir slíkum sjóðaleka út úr fyrirtækinu!

Þetta gat aldrei orðið trúverðugt.

Birt gögn frá fundum forystumanna fyrirtækisins og tölvupóstum sáu um það.

Ekki bætti svo úr skák að mútugreiðslurnar héldu áfram af fullum krafti allt fram á þetta ár, löngu eftir að uppljóstrarinn hugrakki hafði verið rekinn frá fyrirtækinu.

Þetta var sem sagt misheppnuð magalending – beinlínis brotlending!

Skilaði fyrirtækinu engu og því ljóst að teikna yrði upp nýjan varnarleik.

 

Næstu viðbrögð

Þá var gripið til þess að leigja norska lögfræðistofu til að „rannsaka“ málið innan Samherja. Stjórn fyrirtækisins „myndi sjá til að það yrði gert“ og niðurstöður kynntar almenningi.

Þetta er auðvitað kostulegt. Að ætla að rannsaka sekt sína sjálfir!

Lögfræðistofur, hvort sem þær eru norskar eða íslenskar, eru ekki sjálfstæðar og óháðar rannsóknarstofnanir.

Menn kaupa þjónustu lögfræðistofa til að gæta hagsmuna sinna.

Þetta er sem sagt hönnun málsvarnarinnar – en ekki óháð úttekt.

Svo láta menn í fjölmiðlum eins og að þannig verði málið afgreitt og vona að með því takist að koma hneykslinu úr augsýn aftur.

Lægja öldurnar – eins og forstjórinn segir.

Þetta er væntanlega gert á forsendum langrar reynslu Samherja, sem hefur haft mikið vald og áhrif á stjórnvöld, hvort sem er í Namibíu eða á Íslandi.

Þeir reikna með að komast upp með þetta.

 

Fyrir hvern vinna stjórnvöld nú?

Maður óttast að vegna mikils áhrifavalds stórfyrirtækja eins og Samherja þá muni þetta mál hafa lágmarksafleiðingar í íslensku samfélagi.

Stjórnvöld eru nú að lækka veiðileyfagjöldin um nærri helming milli ára – þrátt fyrir að þau hafi verið alltof lág á gríðarlegum veltiárum sjávarútvegs eftir hrun.

Samherji og önnur stór sjávarútvegsfyrirtæki hafa byggt upp svo miklar eignir frá hruni að fyrir þeim liggur að kaupa smám saman allt sem máli skiptir á Íslandi.

Er það trúverðugt að stjórnvöld sem þannig beygja sig undir peningahagsmuni eigenda stórfyrirtækja muni tryggja faglega og ákveðna úttekt á mútugreiðslum og skattsvikum sem þessir aðilar stunda?

Ég nefni bara eitt dæmi til viðbótar um linkind stjórnvalda gagnvart slíkum aðilum eins og Samherji er.

Um árabil hefur kvóti Samherja og skyldra fyrirtækja verið yfir lögbundnu leyfðu hámarki heildarkvóta (sem lögum samkvæmt er í eigu þjóðarinnar).

Þetta hefur verið látið viðgangast í kyrrþey – eins og ekkert sé.

Fjölda skyldra dæma um linkind stjórnvalda má auðvitað nefna: óeðlileg verðmyndun á lönduðum afla; brottkast; brot á kjarasamningum; notkun erlendra skattaskjóla, óeðlilega lág skattheimta af fjármagnstekjum, o.s.frv.

Mikið mun þurfa til að á þessu hneyksli Samherja verði tekið á heilbrigðan hátt hér á landi.

Kannski Namibíu-menn taki fastar á þessu sín megin en við hér á Íslandi?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 6.11.2019 - 15:27 - FB ummæli ()

Ratcliffe felur eignarhald sitt

Breski stóreignamaðurinn Jim Ratcliffe á um það bil helmingi fleiri laxveiðijarðir en áður var talið.

Þetta kom í ljós við athugum rannsóknarblaðamanna Kveiks á RÚV.

Menn vissu auðvitað að Ratcliffe hefur verið atkvæðamikill á norðaustur landi og töldu það að mestu bundið við Vopnafjörð.

Nú er sem sagt komið í ljós að hann er kominn mun lengra í uppkaupum hlunnindajarða en menn töldu, með um 40 jarðir á sínum vegum.

 

Hvers vegna er eignarhald jarða falið?

Það er sérstaklega athyglisvert að Ratcliffe felur eignarhald sitt, með því að skrá jarðir sínar í félög eða keðjur félaga.

Hann á nú nálægt 1,5% af Íslandi. Hugsanlega á hann enn meira, sem einfaldlega á eftir að koma úr felum.

Sú staðreynd að erlendur stóreignamaður skuli fela eignarhald sitt á íslenskum jarðareignum vekur auðvitað alvarlegar spurningar.

Hann virðist átta sig á því að þjóðin gæti haft eitthvað við mikla uppsöfnun landareigna á fáar erlendar hendur að athuga.

Það er að segja ef þjóðin vaknar áður en of langt er gengið…

 

Hverjir eiga Ísland í dag?

Stóreignamenn, erlendir sem innlendir, kaupa auðvitað jarðir víðar en á Vopnafjarðarsvæðinu.

Við vitum bara lítið um það hvernig eignarhaldi á Íslandi er nú háttað.

Kanski vöknum við upp við það eftir nokkur ár að fámennur hópur stóreignamanna eigi allt það sem álitlegast er á Íslandi.

Þjóðin gæti orðið landlaus leiguliði í því sem áður var land íslensku þjóðarinnar!

Aðstæður eru nú þannig að slíkt getur gerst á tiltölulega skömmum tíma.

Pælið í því!

Væri slík þróun ekki ógn við frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 26.10.2019 - 10:35 - FB ummæli ()

Samgöngusáttmálinn: Arður af Landsbankanum dugir

Landsbankinn hefur greitt ríkinu 142 milljarða í arð á síðustu 7 árum (sjá hér).

Á aðeins 7 árum.

Samgöngusáttmálinn fyrir höfuðborgarsvæðið, sem kynntur var í síðasta mánuði, á að kosta 120 milljarða – samanlagt á 15 árum (sjá hér).

Ef Landsbankinn hefði áfram svipaðan arð af starfsemi sinni næstu sjö árin myndi samanlagður arður af honum þau árin gera gott meira en að greiða áætlaðan kostnað við samgöngusáttmálann (arður á 7 árum um 140 milljarðar; samgöngusáttmáli 120 þarf milljarða á 15 árum).

Pælið í þessu!

Pælið mjög vel í þessu!!

Erum við galin?

Hvers vegna skyldum við leyfa Sjálfstæðisflokknum að selja Landsbankann til vildarvina sinna og gefa frá okkur hagnaðinn af honum sem gæti skilað öllu þessu?

Hvers vegan ættum við að gera það og samþykkja um leið að greiða nýjan óréttlátan skatt í formi veggjalda til að fjármagna þennan samgöngusáttmála?

Hvers vegna?

Við gætum látið arðinn af Landsbankanum greiða þetta allt – og miklu meira en það!

Svo höfum við líka ágætan arð af Íslandsbanka, sem einnig er í eigu ríkisins (okkar). Við gætum notað hann til að stórbæta heilbrigðiskerfið.

Við, íslenska þjóðin, þurfum að vera stjörnugalin til að láta bjóða okkur slíka afarkosti – að gefa frá okkur risavaxnar arðgreiðslur frá ríkisbönkunum.

Stjörnugalin.

Erum við það?

Það er efinn…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 17.10.2019 - 23:59 - FB ummæli ()

Fyrsta ár nýs kjarasamnings: Mesta hækkunin hjá lágtekjufólki

Hagstofa Íslands hefur birt tölur um launabreytingar á almennum markaði frá síðasta ári fyrri kjarasamnings (desember 2018) og til maí 2019, þ.e. eftir að fyrsta launahækkun lífskjarasamningsins er gengin yfir.

Niðurstöðuna má sjá á meðfylgjandi mynd.

Hækkunin er mest hjá launalægstu hópunum (5,2% til 5,5%) og fer svo minnkandi þegar litið er til launahærri hópa. Minnst er hækkunin hjá sérfræðingum og stjórnendum (1,5% til 2%).

Launahækkanir samkvæmt lífskjarasamningnum eru föst krónutala og hærri fyrir þá sem eru á strípuðum töxtum. Þetta þýðir að hlutfallsleg hækkun og kaupmáttaraukning almennt er mest hjá þeim tekjulægstu.

Margt annað í lífskjarasamningnum skilar sér best til lægstu launahópanna, til dæmis skattalækkanir sem koma í janúar nk. og svo aftur í janúar að ári. Það sama á við um hækkun barnabóta og aukinn húsnæðisstuðning, til dæmis í formi stofnframlaga og væntanlegra nýrra lánamöguleika, sem enn á þó eftir að útfæra (sjá yfirlit hér um kjarabætur á samningstímabilinu öllu).

Þegar litið er til sögunnar þá hefur það oft reynst erfitt að fá meiri hækkanir í lægstu launahópunum, jafnvel þó yfirlýstur vilji hafi staðið til þess.

Reynslan af lífskjarasamningnum til þessa bendir til að það muni takast vel nú, en að vísu er enn ósamið við opinbera starfsmenn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 20.9.2019 - 15:15 - FB ummæli ()

Veggjöld eru óréttlátur skattur

Nú virðast stjórnvöld ætla að fjármagna nauðsynlegar vegaframkvæmdir með veggjöldum, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Það er í senn óréttlát og óhagkvæm leið til tekjuöflunar.

Veggjöld eru óréttlát vegna þess að þau leggjast með mestum þunga á lágtekjufólk, sem þarf að nota bíl til að sækja vinnu og koma börnum á leikskóla og í frístundastarfsemi.

Veggjöld eru flöt krónutala sem er mun hærra hlutfall launa hjá 350 þúsund króna launamanni en hjá hálaunafólki, þar sem það er hverfandi.

Hálaunamenn (stjórnendur, atvinnurekendur og fjárfestar) aka oft á fyrirtækjabílum og þurfa þá ekki sjálfir að greiða slík gjöld.

Láglaunafólk sem flytur í úthverfi til að komast í ódýrara húsnæði mun tapa ávinningi af ódýrara húsnæði þar með því að veggjöldin leggjast með miklum þunga á þau, þegar þau aka til vinnu á álagstíma (ekki síst ef gert er ráð fyrir hærri gjöldum á álagstímum).

Í lífskjarasamningunum 2019 var samið um 10 þúsund króna skattalækkun til lágtekjufólks. Veggjaldaálagning gæti falið í sér 20 til 40 þúsund króna kostnaðaukningu á mánuði (skv. mati FÍB).

Það tæki þá umsamda skattalækkun til baka – og vel það. Slík niðurstaða hlyti að teljast gróf svik á lífskjarasamningnum, jafnvel hnífstunga í bakið!

Veggjaldaleiðin flytur í reynd byrðar af fjármögnun innviðaframkvæmda af hátekjufólki yfir á lægri og milli tekjuhópa.

 

Aðrar leiðir til að fjármagna átak í vegaframkvæmdum

Veggjöld eru einnig óhagkvæmari tekjuöflun en notkun tekjuskattskerfisins. Veggjöldum fylgir mikill stofnkostnaður eftirlits- og rukkunarkerfis, auk umtalsverðs nýs rekstrarkostnaðar á hverju ári.

Fjármögnun í gegnum tekjuskattskerfið felur hins vegar ekki í sér neinn viðbótarkostnað.

Þannig væri bæði hagkvæmt og eðlilegt að fjármagna vegaumbætur með t.d. hækkun fjármagnstekjuskatts (sem er óvenju lágur hér á landi).

Þá eru ónefndir miklir tekjuöflunarmöguleikar ríkisins með hærri auðlindagjöldum, komugjöldum á ferðamenn (sem eru mjög fyrirferðamiklir á vegunum), auðlegðarskatti og loks með því að taka duglega á skattaundanskotum, sem nema um 100 milljörðum á ári hverju.

Loks má einnig nefna að ef ríkið myndi til dæmis selja lífeyrissjóðunum Íslandsbanka gæti það losað allt að 200 milljörðum króna – meira en nóg til að fjármagna fyrirhugaðar auka vegaframkvæmdir á næstu 10-15 árum.

Það er því engin sérstök þörf fyrir veggjöld innan höfuðborgarsvæðisins eða annars staðar.

Ástæða er einnig til að vara stjórnvöld við þeirri leið, því hún verður óhemju óvinsæl.

Auk þess getur almenn álagning veggjalda leitt til uppsagnar lífskjarasamningsins strax á næsta ári, því hún myndi fela í sér umtalsverða kjaraskerðingu launafólks og bein svik á loforðum stjórnvalda um skattalækkun til lágtekjufólks.

 

Fyrst birt í tímaritinu Mannlíf, 20. september.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 12.9.2019 - 08:57 - FB ummæli ()

Skattalækkun: Efling vill ganga lengra

Eftirfarandi er umsögn Eflingar-stéttarfélags um fyrirhugaðar skattkerfisbreytingar stjórnvalda, sem er athyglisverð og sýnir skýra stefnu til framtíðar:

 

„Efling lagði mikla áherslu á umbætur í skattamálum fyrir lágtekjufólk í tengslum við kjarasamningana á síðasta vetri.

Meðal annars lét Efling vinna ítarlega úttekt á stöðu og þróun skattbyrðar lágtekjufólks og tillögur um breytingar í átt til sanngjarnara skattkerfis (sjá skýrslu Stefáns Ólafssonar og Indriða H. Þorlákssonar, Sanngjörn dreifing skattbyrðar). Sýnt var hvernig fjármagna mætti umtalsverðar breytingar á skattkerfinu án þess að raska fjárhagsstöðu hins opinbera, og auðfær leið að 20.000 krónu lækkun skatta á mánuði fyrir lægstu tekjur útlistuð.

Í skýrslunni var einnig áréttað að arður, leigutekjur og hagnaður af spákaupmennsku njóta hér óvenju mikilla skattafríðinda. Í raun væri „eina réttláta viðmiðið“ að skattleggja fjármagnstekjur „eins og aðrar tekjur“. Skattaívilnunin sem ríkt fólk býr nú við sé enda „í raun mun verðmætari en það sem ríkið greiðir t.d. í barna- og vaxtabætur til almennings.“

Á grundvelli þessarar vinnu var farið fram á umtalsverða lækkun á skattbyrði láglaunafólks, sem hluta af lífskjarasamningi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. ASÍ sameinaðist síðar um kröfu í sama anda sem þó gekk ekki jafn langt og tillögur Eflingar hvað kostnað og umfang skattalækkana til lægri hópa varðar.

Nú hafa stjórnvöld kynnt efndir sínar á loforðum um skattalækkanir í fjárlögum fyrir næsta ár.

Í megindráttum er komið til móts við kröfur verkalýðsfélaganna um lægra fyrsta álagningarþrep sem færir þeim tekjulægstu um 10.000 króna skattalækkun á mánuði þegar allt verður fram komið, þ.e. á næstu tveimur árum. Skattalækkunin er mest hjá þeim sem hafa mánaðartekjur á bilinu 325.000 til 375.000 króna, en fjarar svo út með hærri tekjum. Þeir sem fá mest fá nálægt 120.000 krónum á ári í lækkun tekjuskatts.

Stjórnvöld höfðu áður, þann 19. febrúar 2019, kynnt hugmyndir sínar um skattalækkun, að hámarki 6.750 krónur, sem kæmi til framkvæmda á þremur árum.

Verkalýðshreyfingin náði því betri niðurstöðu en útlit var fyrir í febrúar. Því má fagna. En lengra þarf að ganga.

Tvöfalt skattkerfi

Tillögurnar í fyrrnefndri skýrslu Stefáns Ólafssonar og Indriða H. Þorlákssonar gerðu ráð fyrir því að lækka skatta umtalsvert meira fyrir lág- og millitekjuhópa. Það mætti fjármagna að hluta með því að hækka álagningu á hæstu tekjur og að skattleggja fjármagnstekjur til jafns við launatekjur, eða að minnsta kosti jafn mikið og að meðaltali á hinum Norðurlöndunum.

Einnig voru útfærðar í skýrslunni margvíslegar umbótatillögur um eðlilegri skattheimtu, svo sem með því að draga verulega úr skattaundanskotum.

Við höfum búið við tvöfalt skattkerfi, þar sem eignafólk hefur notið mun lægri álagningar á fjármagnstekjur en launafólk og sloppið við að greiða útsvar af þeim. Auk þess hefur álagning á hæstu tekjur verið lægri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum.

Stjórnvöld hafa á síðustu áratugum einnig reynt ítrekað að færa skattbyrði af þeim sem fá háar tekjur og eiga mikinn auð yfir á þá sem vinna fyrir lægst laun. Ekki er tekið á þessu í fyrirhuguðum skattkerfisbreytingum núna.

Sú niðurstaða sem nú er orðin sýnir þó að hægt er að ná umtalsverðum árangri í að lækka skattbyrði láglaunafólks án þess að raska fjármálum hins opinbera á nokkurn hátt – og það jafnvel á samdráttartíma eins og nú er.

Ef farið hefði verið að tillögum Eflingar um frekari tekjuöflun með hátekjuskatti, eðlilegri fjármagnstekjuskatti, auðlegðarskatti, hærri auðlindagjöldum og virkari aðgerðum gegn undanskotum þá hefði vissulega mátt ganga mun lengra í að bæta kjör lægri og milli tekjuhópa.

Efling leggur áherslu á að þetta verði áframhaldandi verkefni í skattaumbótum á komandi árum og mun leggja sitt af mörkum til að ná því fram. Efling hafnar einnig öllum hugmyndum um nefskatta, svo sem veggjöld, og aukna greiðsluþátttöku í velferðarkerfinu, sem leggst alla jafna með mestum þunga á þá sem hafa lægri tekjur. Með réttlátu skattkerfi er hægt að efla velferðarkerfi fyrir alla og stemma stigu við samfélagi sem býður hágæða þjónustu fyrir hálaunafólk, en lágmarksþjónustu fyrir þau tekjulægstu.

Nú hefur náðst áfangi á þessari leið, sem eflir trú okkar á að hægt sé að ganga mun lengra í átt til sanngjarnara skattkerfis fyrir alla. Útrýma þarf sérstökum fríðindum til tekjuhárra og eignamikilla einstaklinga eins og núverandi kerfi býður upp á.“

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 1.9.2019 - 20:53 - FB ummæli ()

Orkan okkar tapar orrustunni – en vinnur stríðið

Ég held að Frosti Sigurjónsson og félagar hans í Orkunni okkar hafi rétt fyrir sér um orkupakkamál Evrópusambandsins.

Þó ímynd Miðflokksmanna sé mjög neikvæð eftir Klausturmálið þá hafa þeir einnig að mestu rétt fyrir sér um orkupakkana.

Orkupakkar 1 og 2 fóru í gegn án umræðu, í skjóli sinnuleysis. En þeir voru skaðlegir hagsmunum íslensku þjóðarinnar (sjá hér).

Almenningur hafði takmarkaðan skilning á málinu og fjölmiðlar stimpluðu andstæðinga þessara tilskipana frá ESB fljótlega sem “íhaldssama” og “gamaldags”.

Það gerði baráttuna erfiðari.

Menntamenn eru margir mjög hlynntir Evrópusambandinu og telja sér trú um að alþjóðavæðing óheftra markaðshátta sé “frjálslynd” og “framsækin”.

Það er hins vegar mikil blekking.

Alþjóðavæðing óheftra markaðshátta er skipan sem þjónar fyrst og fremst hagsmunum þeirra allra ríkustu, fjárfesta og braskara, en sniðgengur að miklu leyti hagsmuni almennings.

Bæði hér og erlendis.

Hættan á því að við töpum forræði yfir auðlindum okkar er mikil. Þetta mun smám saman verða flestum Íslendingum ljósara.

Sinnuleysi almennings er þó enn alltof mikið – en það mun breytast þegar málið skýrist betur.

 

Sinnuleysið sigrar á morgun

Stór meirihluti þingmanna mun á morgun samþykkja innleiðingu tilskipanar ESB um 3ja orkupakkann.

En þau sem það gera munu einungis fagna sigri í einni orrustu, því stríðinu er ekki lokið.

Það heldur áfram og málið verður skýrara og andstaðan árangursríkari þegar fjórði orkupakkinn kemur á dagskrá – og enn frekar þegar sá fimmti lítur dagsins ljós.

Markmið ESB er að samþætta orkumarkaði allra Evrópuríkja, með tengingum milli landa og einkavæðingu opinberra orkufyrirtækja, í nafni óheftra markaðshátta og gervisamkeppni – undir forræði evrópskrar stjórnsýslustofnunar.

Ef við festumst í þessu neti mun orkuverð til heimila og smærri fyrirtækja hér á landi hækka mikið.

Framvinda málsins á meginlandi Evrópu mun smám saman skýra hvað er í húfi.

Aþjóðavæðing óheftra markaðshátta hefur almennt gengið of langt – meðal annars á vettvangi Evrópusambandsins.

Gallar þeirrar þróunar munu smá saman verða öllum ljósari.

Frosti og félagar munu því hrósa sigri í stríðinu – þó síðar verði.

 

Síðasti pistill: Eignarhald banka: Sjálfstæðismenn gegn þjóðinni

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 6.8.2019 - 10:43 - FB ummæli ()

Eignarhald banka: Sjálfstæðismenn gegn þjóðinni

Sjálfstæðismenn keyra nú á þeirri stefnu sinni að selja Íslandsbanka að fullu og einnig meirihluta ríkisins í Landsbankanum. Vilja drífa í þessu áður en fólk áttar sig á hvað er að gerast.

Sjálfstæðismenn vilja að ríkið verði einungis áhrifalítill minnihlutaeigandi Landsbankans.

Þjóðin er á allt annarri skoðun.

Í könnum sem nefnd fjármálaráðherra um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið lét gera í fyrra kom fram að um 81% almennings eru jákvæð gagnvart ríkiseign banka (sjá hér).

Í könnun Fréttablaðsins sem birt var í síðustu viku kemur fram að um 60% almennings vilja auka eða halda óbreyttu eignarhaldi ríkisins á bönkunum.

Einungis um 5,1% vilja að ríkið selji alla hluti sína í bönkunum og rétt rúmlega þriðjungur vill minnka hlut ríkisins eitthvað (sjá hér).

Þetta er skýrt: Stór meirihluti almennings vill að ríkið eigi áfram eða auki eignarhald sitt á bönkunum.

 

Reynslan: Mikil áhætta af einkaeign banka

Þetta er skynsamlegt hjá þjóðinni.

Því Íslendingar hafa óvenju slæma reynslu af einkaeign banka.

Ríkið átti Landsbankann farsællega í 117 ár, fram til 2003 er hann var að fullu einkavæddur.

Það tók einkaaðilana þá um 5 ár að reka Landsbankann og bankakerfið nær allt í risagjaldþrot – með gríðarlega neikvæðum afleiðingum fyrir lífskjör almennings.

Nú segir nýfrjálshyggjumaðurinn Óli Björn Kárason að „ríkið eigi ekki að taka áhættu af því að eiga bankana“.

En áhætta ríkisins af einkaeign bankanna er miklu meiri!

Miklu meiri!

Það kennir tíu ára gömul reynsla okkar af hruninu.

Ríkisrekinn Landsbankinn er þar að auki að skila betri rekstrarafkomu nú en hinir tveir bankarnir, þar á meðal hinn einkarekni Arion banki (sjá hér).

 

Mikill ábati er af ríkiseign banka.

Þjóðin fær ekki einungis meira öryggi af ríkiseign banka.

Hún hefur fengið um 207 milljarða í arðgreiðslur af eignarhaldi sínu á Landsbankanum og Íslandsbankanum á síðustu 5 árum (til 2018).

Pælið í því!

Pælið aftur í því!

Sjálfstæðismenn vilja nú koma þessum mikla arði af ríkisbönkunum í vasa einkaaðila, fárra auðmanna sem eru Sjálfstæðisflokknum þóknanlegir og sem munu styrkja flokkinn sérstaklega fyrir vikið.

Um þetta snýst málið.

Þjóðin þarf að grípa í taumana og gæta hagsmuna sinna.

Það er ekki bara í orkupakkamálinu sem Sjálfstæðisflokkurinn gengur gegn vilja og hagsmunum þjóðarinnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 29.7.2019 - 15:19 - FB ummæli ()

Ömmi stóð gegn landakaupum erlendra auðmanna

Þegar Ögmundur Jónasson var innanríkisráðherra setti hann reglugerð sem takmarkaði heimildir útlendinga til landakaupa hér á landi.

Skilyrðið var að viðkomandi landakaupandi gæti sýnt fram á búsetu eða áform um atvinnurekstur hér á landi.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda á ný (2013) afnam eftirmaður Ögmundar, Hanna Birna Kristjánsdóttir, reglugerð hans umsvifalaust. Sagði hana hafa verið á gráu svæði (sem var þó auðvitað út í hött – sjá hér).

Síðan þá hafa hér átt sér stað viðamikil uppkaup erlendra auðmanna á landi, ekki síst tengt veiðihlunnindum (sjá hér). Margir hafa áhyggjur af þessari þróun (sjá hér).

Breski auðmaðurinn Jim Ratcliffe hefur á stuttum tíma keypt um 1% af Íslandi! Sumt af slíkum eignum er skráð í draugafélögum í skattaskjólum.

 

Stefnubreyting?

En nú segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að ríkisstjórnin vilji innleiða slíkar takmarkanir á ný. Um það sé „þverpólitísk samstaða“.

En vilja Sjálfstæðismenn það eitthvað frekar nú en áður?

Þeir hafa alltaf verið andvígir því að takamarka frelsi auðmanna, hvort sem er til landakaupa eða til að braska með fjöregg þjóðarinnar…

Spurningin er því hversu langt Katrín fær að fara með þessu áfrom sem hún talar um.

Nær hún að fara jafn langt og Ögmundur gerði í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms?

Ástæða er til að ætla að Sjálfstæðismenn muni vilja þynna málið út og gera að sýndarbreytingu sem engu máli skiptir …

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 3.7.2019 - 12:16 - FB ummæli ()

Óráðshjal alþingismanns um lífeyrismál

 

Óli Björn Kárason, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar æsta grein í Morgunblaðið í dag um það sem hann kallar “tímasprengju” í lífeyrismálum (sjá hér).

Þar leggur hann út af þeirri lýðfræðilegu staðreynd að hlutfall eldri borgara muni fara vaxandi á Íslandi á næstu áratugum – líkt og í öðrum nútímalegum samfélögum.

Segir hann þjóðina ekki hafa efni á svo mikilli fjölgun eldri borgara.

Fólk verði að vinna lengur til að vega á móti þessu. Að öðrum kosti verði að skerða lífskjör þeirra sem eru á vinnumarkaði – eða hækka skatta stórlega.

Allt er þetta hin mesta firra.

Þessar ályktanir Óla Björns eru ýmist á sandi byggðar eða alveg út í hött!

 

Ellilífeyrisþegar framtíðarinnar borga sinn lífeyri sjálfir

Fyrir það fyrsta er fjölgun eldri borgara ekkert sérstakt vandamál hér á landi, því þeir greiða nú þegar stærstan hluta lífeyris síns sjálfir, með söfnun lífeyrisréttinda í lífeyrissjóðunum.

Á næstu áratugum mun sá skyldusparnaður sem í lífeyrissjóðunum er standa undir langstærstum hluta útgjalda þjóðarinnar til ellilífeyris.

Eldri borgarar framtíðarinnar munu að mestu borga sjálfir sinn lífeyri.

Það þarf engar skattahækkanir vegna fjölgunar eldri borgara.

Því síður þarf að skerða kjör vinnandi fólks vegna þessa.

Þetta tal þingmannsins um tímasprengju í opinberum útgjöldum er því alveg út í hött.

Það getur einungis átt við um samfélög þar sem lífeyrir er að mestu fjármagnaður með gegnumstreymiskerfi sem byggir á skattlagningu samtímatekna og þar sem starfsævin er almennt mun styttri en hér á landi.

Öldrunarvandi er nefnilega miklu minna mál á Íslandi en annars staðar.

Sjóðasöfnun lífeyrissjóðakerfisins leysir þann vanda að mestu leyti.

 

Byrði ríkisins af ellilífeyri er minnst á Íslandi meðal OECD-ríkjanna

Það er annað sem þingmaðurinn ætti frekar að huga að í þessu sambandi.

Það er óeðlilega lítið framlag hins opinbera til greiðslu ellilífeyris í gegnum almannatryggingakerfið.

Hvergi í OECD-ríkjunum ber ríkið minni byrðar vegna ellilífeyrismála en á Íslandi.

Ástæðan er óhóflegar skerðingar í almannatryggingakerfinu vegna greiðslna lífeyris úr lífeyrissjóðum.

Þegar lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóðanna hækka (vegna aukinna réttinda nýrra lífeyrisþega) þá lækkar framlag almannatrygginga, líka til lágtekjufólks. Sú skerðing er alltof mikil (sjá t.d. hér).

Þetta er stór ástæða þess að lífskjör núverandi lífeyrisþega eru ófullnægjandi.

Hinar óhóflegu skerðingar almannatryggingakerfisins gera það að verkum að útgjöld ríkisins til ellilífeyrisgreiðslna eru jafn lág og raun ber vitni.

Þetta má sjá á myndinni hér að neðan, sem sýnir útgjöld hins opinbera til ellilífeyris meðal OECD-ríkjanna.

Mynd 1: Útgjöld hins opinbera til ellilífeyrisgreiðslna, sem % af landsframleiðslu 2015 til 2017.

 

Ísland (rauða súlan) er með langlægstu útgjöldin, eða rúmlega 2% þegar meðaltal OECD-ríkjanna er 7,5% og fer hæst í um 16%.

Þegar þróun útgjalda ríkisins til ellilífeyris er skoðuð yfir tíma þá hefur hlutfallið rokkað í kringum 2% af vergri landsframleiðslu (sbr. Hagstofa Íslands).

Þrátt fyrir umtalsverða fjölgun eldri borgara á síðustu tveimur áratugum þá hefur byrði ríkisins af slíkum útgjöldum ekki aukist að neinu ráði.

Allt tal um mikla byrði ríkisins af framfærslu eldri borgara í dag og hræðsluáróður um mikla aukningu slíkrar byrði á næstu áratugum er því út í hött.

Íslendingar vinna lengur fram eftir aldri en aðrar þjóðir – svo um munar. Ræða má um hækkun lífeyristökualdurs samhliða hækkun meðalaldurs – en í allt öðru samhengi en Óli Björn gerir.

Ellilífeyrisþegar borga þegar stærstan hluta eigin ellilífeyris sjálfir og munu gera það í enn ríkari mæli á næstu áratugum.

 

Nýfrjálshyggjuórar eða leiftursókn gegn lífskjörum?

Spyrja má hvað þingmanninum gengur til með svo villandi málflutningi?

Óli Björn Kárason er þekktur sem talsmaður nýfrjálshyggju í Sjálfstæðisflokknum.

Er þetta hluti af einhvers konar herferð til að skerða kjör lífeyrisþega eða launafólks, líkt og einkennt hefur hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar á liðnum áratugum?

Kanski eldri borgarar í Sjálfstæðisflokknum ættu að lesa Óla Birni pistilinn og koma honum á réttara ról?

——————————————

Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands og starfar í hlutastarfi sem sérfræðingur hjá Eflingu – stéttarfélagi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar