Fimmtudagur 2.1.2014 - 22:34 - FB ummæli ()

Uppgjör 2013: Lífsgleðin endurheimt

Fall Íslands haustið 2008 var eitt það allra mesta í sögu hagsældarríkjanna í seinni tíð. Hruni bankanna og tvísýnni stöðu í kjölfarið fylgdi sú tilfinning að ekkert yrði eins á ný – um langt árabil.

Menn spurðu sig hvort lífskjörin á Íslandi yrðu yfirhöfuð aftur boðleg?

Þó áhrifin hefðu mest verið fjárhagsleg (mikil kjaraskerðing, aukið atvinnuleysi og skuldabyrði) þá hrökk hugarfar og sálarró þjóðarinnar einnig verulega af teinunum. Byltingarástand ríkti á götum Reykjavíkur um nokkurra vikna skeið í lok ársins 2008 og fram í byrjun 2009.

Íslendingum var verulega brugðið.

Ánægja með lífið mældist mun lægri strax í kjölfar hrunsins en áður hafði sést frá því nútímalegar mælingar á lífsánægju hófust árið 1984, í svokallaðri “hamingjukönnun Gallup International”.

Við vorum í mikilli lægð.

Botni kreppunnar var náð vorið 2010 og síðan þá höfum við mjakast uppávið. Margt hefur gengið vonum framar, þó margir vildu gjarnan sjá örari endurheimt fyrri efnahags.

Það er því athyglisvert að skoða hvernig lífsánægja þjóðarinnar hefur þróast eftir hrun. OECD hefur nýlega birt gögn um breytingu á lífsánægju aðildarríkjanna frá 2010 til 2012, sem sýnd eru á myndinni hér að neðan (byggt er á svokölluðum Cantril kvarða Gallup International við mat á lífsánægju).

Lífsánægja oecd þjóða 2010 og 2012

Eins og sjá má á myndinni er Ísland árið 2012 komið í 3-4. sæti, samhliða Svíþjóð, en næst á eftir Noregi og Sviss, sem tróna á toppnum. Á hæla okkar koma Hollendingar, Danir, Finnar og Kanadamenn.

Þetta hlýtur að teljast mjög góður staður að vera á í svona könnun – á þessum tíma.

Þarna vorum við gjarnan á áratugunum tveimur fram að hruni. Í hópi þeirra þjóða sem hvað ánægðastar voru með líf sitt. Við vorum að vísu stundum óánægð með fjárhagsafkomuna á hallærisárum, en kunnum samt að meta annað sem gott er hér á landi.

Ef skoðaður er munurinn á útkomunni 2010 og 2012 (dökku og ljósu súlurnar) þá kemur í ljós að aukning lífánægjunnar frá botni kreppunnar til 2012 var langmest á Íslandi. Næst komu Mexíkó, Eistland og Sviss.

Hjá tveimur af hverjum þremur þjóðum í könnuninni minnkaði hins vegar lífsánægjan eða stóð í stað á þessum krepputíma, frá 2010 til 2012. Staðan versnaði. Langmest hjá Ítölum og Grikkjum.

Það er því óhætt að segja, að eftir hið mikla áfall sem þjóðin varð fyrir á árinu 2008 þá hafa Íslendingar endurheimt lífsgleði sína á ný, þó margir kvarti enn yfir þröngum fjárhag.

Það er þekkt að saman getur farið almenn ánægja með lífið og nokkur óánægja með fjárhagsafkomuna. Þannig var það t.d. í fyrstu “hamingjukönnuninni” frá 1984. En við töpuðum einnig umtalsverðum hluta lífsánægjunnar í kjölfar hrunsins og efuðumst um framtíðina. Sá þáttur er nú endurheimtur.

Það er líka athyglisvert að þjóðin hafi verið komin í þessa stöðu þegar á árinu 2012. Vinstri stjórnin getur huggað sig við að hafa náð þessum árangri á stjórnartíma sínum.

Eftir hið mikla áfall og mikið bakfall í lífsánægju endurheimti þjóðin lífsgleði sína á tveimur árum, þrátt fyrir áframhaldandi óánægju með fjárhagsafkomuna.

Leiðtogar vinstri stjórnarinnar geta að sama skapi nagað sig í handarbökin fyrir að hafa ekki sýnt skuldavanda heimilanna nægan skilning. Þess vegna töpuðu þau kosningunum í apríl 2013.

Nýrri könnun Eurobarometer frá maí 2013 sýnir sambærilega niðurstöðu. Ísland var þá líka á toppnum í mati á ánægju með lífið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 1.1.2014 - 14:48 - FB ummæli ()

Uppgjör 2013: Pólitíkin

Þetta var ár Framsóknar – hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Framsókn vann kosningarnar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fékk forystuhlutverk í ríkisstjórn, með Sjálfstæðisflokknum. Það var ekki sjálfgefið.

Framsókn hafði verið í lægð um árabil, eða frá seinni hluta stjórnarsamstarfsins í tvíeyki Davíðs og Halldórs. Fylgið lenti í sögulegri lægð í kosningunum 2007 (11,7%).

Lengst af á síðasta kjörtímabili náði Framsókn sér ekki á strik. Það var svo í kjölfar Icesave-dómsins í byrjun síðasta árs að landsmenn veittu Framsókn brautargengi á ný, fyrir staðfasta baráttu í því máli.

Framsóknarmenn lofuðu svo verulegri skuldalækkun til heimilanna í kosningabaráttunni og sigurinn blasti við.

Það voru mistök vinstri stjórnarinnar að sýna ekki nægilegan vilja til að lækka skuldabyrði heimilanna enn meira en gert hafði verið (sem þrátt fyrir allt var umtalsvert).

Sennilega var ómögulegt að fara í almenna skuldalækkun á þeim tíma, vegna óljósrar stöðu þrotabúa bankanna og mun erfiðari stöðu ríkissjóðs en nú er. En almenningur sá ekki nægan vilja hjá stjórnvöldum til að reyna að finna nýjar leiðir. Samfylkingin bauð t.d. einungis upp á „stöðugleika“ um óbærilega stöðu, með ESB-aðild. Því fór sem fór.

Og hvernig stjórn er svo nýja stjórnin?

Vinstri menn kalla hana hægri stjórn, enda með Sjálfstæðisflokkinn innbyrðis, þó ekki sé hann með forystu stjórnarinnar. Þeir hafa þó forystu í ríkisfjármálunum. Vissulega er mikill þrýstingur á framgang hægri stefnu úr þeirra átt. Það birtist í löngun til að lækka skatta á hærri tekjuhópa, atvinnurekendur og stóreignafólk – og til að auka fríðindi fyrirtækjafólks.

Framsókn hefur hins vegar skilgreint sig sem miðjusinnaðan velferðarflokk með áhuga á eflingu atvinnulífs. Það var einkum velferðarpólitík sem kom Framsókn til valda, mest áherslan á skuldaléttingu heimilanna, en einnig áhersla á almenn velferðarmál, eins og lífeyrismál og húsnæðismál.

Þar sker í odda með stjórnarflokkunum, því Sjálfstæðismenn hafa einkum áhuga á velferð yfirstéttarinnar – eins og almennt er um nýfrjálshyggjumenn. Þeir leggjast gjarnan gegn opinberum velferðarúrræðum en vilja efla gróðasókn einkageirans.

 

Heilbrigð togstreita milli stjórnarflokkanna

Við höfum séð mörg merki togstreitu milli stjórnarflokkanna um velferðarmálin. Þannig settu Sjálfstæðismenn sér að reyna allt hvað þeir gátu til að draga niður efndir loforða Framsóknarmanna í skuldamálum heimilanna. Það var opinbert og augljóst.

Þeir hrósuðu sigri eftirá fyrir að hafa náð að hafa hóf á aðgerðunum og láta heimilin sjálf borga næstum helminginn af úrræðunum (með skattaafslættinum sem þau þegar höfðu fyrir séreignasparnað sinn). Bein höfuðstólslækkun Framsóknar varð því ekki meiri en 80 milljarðar á fjórum árum, í heildaraðgerðum upp á um 150 milljarða. Um 240 milljarða skuldalækkun hafði þó verið lofað, með skýrum hætti.

Síðan vildu Sjálfstæðismenn og hin hægri sinnaða Vigdís Hauksdóttir lækka barnabætur og vaxtabætur, leggja á sjúklingaskatt og draga fyrri úrræði frá nýju skuldaúrræðunum. Það þýðir að þeir sem fengu mestan stuning frá fyrri stjórn (sem voru heimilin í erfiðustu stöðunni) fá lítið eða ekkert í nýju aðgerðunum.

Sjálfstæðismenn geta þakkað sér það – þó þeir segi ef til vill annað!

Þetta gæti þó vakið óánægju á nýja árinu þegar fólk sér hverju úrræðin skila.

 

Vinstri sinnuð hægri stjórn

Þegar litið er á fjárlög næsta árs í heild blasir við minni breyting en hægri menn í Sjálfstæðisflokki væntu. Ríkisbúskapurinn verður hallalaus, eins og vinstri stjórnin stefndi einnig á (eftir að hafa náð gríðarlegum árangri í lækkun hallans úr rúmum tvö hundruð milljörðum niður í um 25 milljarða).

Og þó nýja stjórnin hafi gefið frá sér tekjustofna sem ætlaðir voru í nýsköpunarverkefni í Fjárfestingaáætlun vinstri stjórnarinnar (t.d. nýja veiðigjaldið), breytt tekjuskattinum lítillega í hag hærri tekjuhópa og stefni á verulega léttingu auðlegðarskatta í framhaldinu, þá er heildarmynd nýju fjárlaganna mjög í anda þess sem vinstri stjórnin lagði upp með.

Fjárlögin bera því þrátt fyrir allt mörg merki um stefnu og áform vinstri stjórnarinnar – þó auðvitað vanti nokkuð uppá. Munurinn er þó meira stigsmunur en eðlismunur.

Þetta er því hálf vinstri sinnuð hægri stjórn!

Það má þakka árangursríku mótvægi Framsóknar gegn áformum Sjálfstæðismanna. Sigmundur Davíð tók af skarið í sumu og fór það vel. Hann styrkti sig á árinu, ekki síst með efndum á sviði velferðarmálanna. Eygló Harðardóttir hefur líka haldið merki velferðarinnar vel á lofti og mun þurfa að láta til sín taka í húsnæðismálum á nýja árinu.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, hefur raðað í kringum sig órólegum frjálshyggjumönnum sem ráðgjöfum. Vúdú-hagfræði Hólmsteina í flokknum virðist einnig eiga greiðan aðgang að eyrum hans. Það er miður fyrir jafn geðþekkan mann og Bjarni annars er.

Því má ætla að Sjálfstæðismenn muni setja sér áform um að ná meiri framgangi hægri stefnu á næstu árum, með auknum forréttindum fyrir yfirstéttina – jafnvel á kostnað milli og lægri stétta.

Á hinn bóginn talaði Sigmundur Davíð forsætisráðherra í góðu áramótaávarpi sínu um nauðsyn þess að bæta hag lægri og milli stéttanna á næsta og næstu árum. Sagði kjör lægri hópanna óviðunandi. Hann boðaði einnig nýja áætlun um nýsköpun, í anda Fjárfestingaráætlunar fyrri stjórnar.

Í kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag rifust stjórnarmenn og stjórnarandstaða um hvorir hefðu meiri áherslu á velferðarmál og nýsköpun – og virtist frekar um stigsmun en eðlismun að ræða.

Sigmundur Davíð sagði þar að velferðarútgjöld væru nú meiri en nokkru sinnum fyrr. Ef það reynist rétt (sem á eftir að koma í ljós), þá hafa Sigmundur Davíð og Eygló slegið met Jóhönnu og Steingríms, sem sett var á vinstri árunum 2010 og 2011!

Það má kalla nokkuð vinstri sinnaða hægri stefnu! Eða kanski bara miðju stefnu…

Framsókn mun þó þurfa að hafa sig alla við til að hemja frjálshyggjuóra Sjálfstæðismanna í framhaldinu. Vonandi er að það takist vel, því mikið er í húfi fyrir heimilin.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 31.12.2013 - 00:04 - FB ummæli ()

Hrægammar á Wall Street – í beinni

Mynd Martins Scorcese The Wolf of Wall Street  er sannsöguleg frásögn af starfs- og lífsháttum sem tíðkast í bandaríska fjármálaheiminum. Myndin er nú í sýningarhúsum í Reykjavík. Ég mæli með henni.

Myndin er mögnuð og upplýsandi, en um leið óþægileg, enda að miklu leyti um óhóf, lygar, siðleysi og græðgi. Myndin er vel gerð og vel leikin. Hún varir í þrjá tíma og mér fannst engu ofaukið – en sumum þykir þó nóg um svallveislur fjármálagosanna.

Leonardo DiCaprio leikur braskarann Jordan Belfort, sem skilgreinir hlutverk verðbréfasalans þannig, að honum beri að ná í sparifé fólks og koma því í sinn eigin vasa. Það er samkvæmt forskrift frjálshyggjunnar um eigingirni og sjálfselsku.

Á Íslandi var þetta kallað að “græða á daginn og grilla á kvöldin”!

Ég sé á umfjöllun nokkurra bandarískra netmiðla að myndin hefur gengið fram af sumum þar vestra. Kynlífsorgíur, eiturlyf, lygar og svik eru jú í stóru hlutverki. Myndin þykir því ekki heppileg sem jólamynd, en hún var frumsýnd vestra á annan dag jóla. Þeir hefðu átt að bíða fram yfir áramót…

Samt er myndin almennt og einstök yfirgengileg atriði hennar sannleikanum samkvæm. Frásögnin er öll byggð á minningabókum Jordan Belforts sjálfs og viðtölum við tengda aðila.

Hér má sjá könnun tímaritsins Time á staðreyndagildi sumra yfirgengilegustu atriðanna í myndinni. Nær allt er það sannleikanum samkvæmt og ekki ýkt. Myndin er mögnuð lýsing á mergjuðum veruleika.

Þessi mynd og fyrri myndir um fjármálaheiminn gefa góð innsýn inn í heim ofurríkra fjármálamanna og braskara í Bandaríkjunum. Þetta er heimur hinna gráðugu hákarla sem hafa mestu völdin í nútímanum.

Þetta er heimurinn sem nýfrjálshyggjan dásamar og réttlætir.

Það má læra sitthvað um tíðarandann af slíkum kvikmyndum og sögunum sem þær byggja á.

Við fengum okkar eigin útgáfu af slíkum ævintýrum hér á Íslandi á árunum fram að hruni. Þó ekki vilji ég jafna þeim ævintýrum við það sem gerist í þessari kvikmynd Scorcese, þá er undirliggjandi eðlið hið sama.

Sjáið til dæmis skarpa og rétta lýsingu hins virta fjármálahagfræðings Willem Buiters á óhófi og vitleysu íslensku útrásaráranna hér.

Græðgin er jú ein af höfuðsyndunum, sem leiðir einstaklinga og samfélög afvega…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 29.12.2013 - 14:15 - FB ummæli ()

Græðgi láglaunafólks!

Í tíðaranda nýfrjálshyggjunnar er umhyggja fyrir ríku fólki alls ráðandi og brauðmylsnuhagfræðin helsta von milli og lægri stétta um kjarabætur, þ.e. að molar hrynji niður af háborðum yfirstéttarinnar.

Svo langt nær þessi hugsun að verkalýðsleiðtogar margir samþykkja hana og hafa flestir varla lengur trú á að hægt sé að bæta hag launafólks. Kalla það „lýðskrum“ þegar alvöru verkalýðsleiðtogar vilja hækka kaupið svo máli skipti.

ASÍ-menn kaupa í staðinn  áróður atvinnurekenda í einu og öllu og semja um lítið sem ekkert.

Í Bandaríkjunum hrifsar yfirstéttin til sín sífellt stærri hluta þjóðartekna og þá verður minna til skiptanna fyrir millistéttina og þá sem lægri eru. Þetta er að eyðileggja bandaríska samfélagið. Samt segja frjálshyggjuhagfræðingar þetta gott fyrir „hagvöxt og stöðugleika“.

Það er þó rangt. Hagvöxtur og stöðugleiki var víðast meiri þegar þjóðarkökunni var almennt jafnar skipt, eins og frá 1950 til 1975. Aukinn ójöfnuður eykur einungis óhóf og siðleysi yfirstéttarinnar – og hún kaupir sér svo enn meiri pólitisk völd, til að ná til sín enn meiri auði, koll af kolli.

Góða innsýn í starfshætti og líferni bandarískra fjáraflamanna má sjá í nýlegum kvikmyndum um auðmenn í Bandaríkjunum, nú síðast í frábærri mynd Martin Scorcese Wolf of Wall Street.

Svo segja menn að kröfuharka láglaunafólks sé helsta ógnin við atvinnulífið og stöðugleikann. Svipuð hugsun er uppi hér á landi.

Hér er grátbrosleg mynd af þessum þætti tíðarandans…

Græðgi láglaunafólks

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 24.12.2013 - 13:12 - FB ummæli ()

Dásamlegur kjarasamningur

Jæja, þá liggur kjarasamningurinn fyrir.

Hann býður uppá 2,8% kauphækkun á næsta ári og tæplega 10 þúsund króna uppbót hjá þeim sem eru á allra lægstu launum.

Verðbólgan er nú um 4% og spáin fyrir næsta ár hefur verið 3,6%. Almenna kauphækkunin er vel undir þessu og að óbreyttu myndi það þýða kaupmáttarskerðingu.

Verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5%. Ef svo ólíkleg tekst til að það náist þá gæti kaupmáttur hins vegar aukist um 0,3% með 2,8% kauphækkun.

Launamenn myndu þurfa stækkunargler til að sjá áhrifin af því í buddu sinni. Hins vegar eru mestar líkur á að verðbólgan verði meiri – eins og venjulega. Þá rýrnar kaupmátturinn.

Ríkisstjórnin leggur aðgerðir sínar í skattamálum í púkkið, en þær skila fleiri krónum í efri tekjuhópana. Þær eru þó mjög hóflegar, eða sem nemur einni þunnbotna pizzu á mánuði fyrir meðaltekjufólk og tveimur pizzum fyrir þá sem eru með meira en milljón á mánuði í laun.

Forseti ASÍ er hissa á að menn í verkalýðshreyfingunni séu ekki ánægðir með þetta.

SA-menn hafa hins vegar ástæðu til að fagna. Þetta eru dásamlegir kjarasamningar fyrir þá. Glæsileg jólagjöf!

Hagfræðingar sem tóku þátt í útrásinni og sem mærðu bankana fagna einnig í Mogganum og á Eyjunni.

 

„Aðfararsamningar“ eða „útfararsamningar“?

Þetta eru sagðir “aðfararsamningar” að framtíðarskipan með lágar kauphækkanir, sem eru sagðar eiga að skila stöðugleika og kaupmáttaraukningu – að skandinavískri fyrirmynd.

Kaupmáttaraukning framtíðarinnar á sem sagt einkum að koma af litlum sem engum kauphækkunum. Hugmyndin er sú, að ef menn hækka kaupið minna en verðbólgu nemur þá muni kaupmáttur aukast. Þetta kalla menn nú “kaupmáttarsamninga”.

Forsendan er sú, að áróðurinn í frægu myndbandi Samtaka atvinnulífsins (SA) sé réttur, þ.e. að verðbólgan sé eingöngu of miklum kauphækkunum um að kenna.

Hér áður fyrr hét það kaupmáttarrýrnun þegar kaup hækkaði minna en verðlag.

En við virðumst lifa á tímum þar sem svart er hvítt – og hvítt er svar! Allt gengur.

“Aðfararsamningur” hefði átt að hafa alvöru markmið um að koma okkur betur upp úr feni hrunsins – og síðan hefði skandinavísk launastefna mátt koma í framhaldinu. Slíkur samningur hefði alveg mátt taka lengri tíma en eitt ár.

“Aðfararsamningur” hefði einnig mátt fást við framleiðniaukningu, vinnutíma og upptöku trausts gjaldmiðils til að koma okkur upp á plan Skandinava að öðru leyti. Það er tómt mál að tala um skandinavískar launahækkanir á Íslandi fyrr en aðstæður hér og þar eru betur jafnaðar fyrst.

Með þeirri leið sem nú er mörkuð verður láglaunaástandinu hér einfaldlega viðhaldið til framtíðar.

Kanski “aðfararsamningarnir” væru betur nefndir “útfararsamningar”?

Vonandi hef ég þó rangt fyrir mér um þetta síðasta…

Við eigum samt að vera glöð og kát á jólum. Það er sem betur fer margt annað gott á Íslandi þó launin séu lág .

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 19.12.2013 - 23:35 - FB ummæli ()

Myndir á sýningu – netgallerí

Ný myndasería frá New York er í smíðum í galleríi mínu á netinu. Smellið á myndina hér að neðan til að komast inn í hlýjuna…

Batman

New York Impressions

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 16.12.2013 - 14:25 - FB ummæli ()

Heimurinn – vaxandi áhyggjur af ójöfnuði

Útdráttur: Fræðimenn voru fyrstir til að benda á aukningu ójafnaðar á Vesturlöndum á síðustu áratugum. Síðan tóku hagskýrslustofnanir undir og stjórnmálamenn fóru smám saman að láta sig málið varða. Nú er svo komið að jafnvel auðmennirnir í Davos eru farnir að hafa áhyggjur af auknum ójöfnuði í heiminum, ekki síst innan vestrænna samfélaga. Það er fróðlegt út af fyrir sig, því þeir ríkustu eru sjálfir helsta orsök ójafnaðarins! Þeir geta þá kanski líka orðið hluti af lausninni. Þeir þurfa einungis að sætta sig við minni hluta af þjóðartekjunum í löndum sínum og leyfa öðrum að fá meira. Þá hverfur vandinn! Hér kemur grein um þetta efni:

 

Ójöfnuður tekna og eigna fór að aukast á Vesturlöndum eftir að nýfrjálshyggjuáhrifa fór að gæta í ríkari mæli, frá um 1980. Þessi þróun byrjaði með ríkisstjórnum Margrétar Thatchers og Ronald Reagans .

Hvers vegna tengist aukinn ójöfnuður við nýfrjálshyggjuna?

Jú, það er vegna þess að nýfrjálshyggjan leggur áherslu á stefnu sem styður einkum hagsmuni hátekju- og stóreignafólks, gegn hagsmunum millistétta og tekjulægri hópa. Frjálshyggjan tekur yfirstéttina alltaf fram yfir venjulegt fólk.

Áhersla nýfrjálshyggjunnar á óhefta markaði og gegn lýðræðislegum ríkisafskiptum og velferðarríkinu skilar víðast hvar auknum ójöfnuði.

Í fjármálakreppunni, sem einnig má rekja að stórum hluta til óheftari fjármálamarkaða, eykst ójöfnuður víða enn frekar, því atvinnuleysi leggst með meiri þunga á fólk í lægri stéttum. Síðan er því mætt með niðurskurði bóta og stuðnings frá velferðarríkinu – sem magnar ójöfnuðinn enn frekar.

Á undanförnum árum höfum við séð að þessi þróun er farin að vekja vaxandi áhyggjur, meðal annars hjá stjórnmálamönnum og fræðimönnum.

Við höfum ítrekað séð sérfræðinga OECD lýsa vaxandi áhyggjum sínum um að aukinn ójöfnuður ógni hagvexti og stöðugleika í heiminum. Áður tóku sömu aðilar undir með frjálshyggjuhagfræðingum og sögðu að ójöfnuður væri nauðsynlegur hvati til hagvaxtar! Nú er sem sagt öldin önnur.

Obama Bandaríkjaforseti sagði nýlega að mikilvægasta verkefni samtímans væri að draga úr ójöfnuði og fjölga tækifærum.

Hið hægri sinnaða og íhaldssama tímarit Economist sömuleiðis. Ég hef undanfarið bent á að jafnvel páfinn í Vatíkaninu sé farinn að vara opinberlega við hættulegum áhrifum nýfrjálshyggjunnar, meðal annars varar hann við blekkingum brauðmylsnukenningarinnar.

Vúdú-hagfræði frjálshyggjunnar er víða á undanhaldi.

 

Yfirstéttin í Davos hefur líka áhyggjur af of miklum ójöfnuði

Ný síðast er það svo yfirstéttarsamkoman í Davos sem lýsir áhyggjum af vaxandi ójöfnuði í heiminum. Yfirstéttin í Davos eru topp viðskiptajöfrar heimsins, ásamt stjórnmálamönnum og álitsgjöfum sem þeir hafa á snærum sínum. Þessi ágæti hópur hittist árlega í Davos og ræðir vanda heimsins – sem venjulega er þar skilgreindur sem vandi kapítalismans.

World Economic Forum, sem er heiti samkomunnar, gefur út skýrslur til að ræða á fundum sínum og til að hafa áhrif á heimsbyggðina. Meðal ágætra skýrslna þeirra er Outlook on the Global Agenda.

Í nýjasta hefti þess rits eru stærstu ógnir heimsins útlistaðar. Númer eitt eru vaxandi átök og hætta á frekari stríðsátökum fyrir botni Miðjarðarhafs.

Númer 2 er vaxandi ójöfnuður í heiminum.

Þið fyrirgefið mér hversu mikilvægt – og jafnvel mótsagnakennt – mér finnst þetta vera. Það hefur nefnilega komið fram í helstu rannsóknum á ójöfnuði, að hann hefur einkum aukist vegna þess að ríkasta eitt prósentið og nálægir hópar hafa verið að taka til sín sífellt stærri hluta þjóðarkökunnar í löndum sínum.

Vaxandi ójöfnuður er yfirleitt vegna aukinnar græðgi og óbilgirni þeirra allra ríkustu. Minna verður þá eftir handa hinum. Þessi þróun er svo réttlætt með hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar, m.a. brauðmylsnukenningunni um að molar falli af veisluborðum yfirstéttarinnar niður til millistéttarinnar og svo þaðan til þeirra fátæku.

Vandinn er sá, að lekinn niður af veisluborðum yfirstéttarinnar er nær enginn – auk þess sem hann myndi alltaf skila of litlu, jafnvel þó einhver væri.

Þess vegna segja sérfræðingar OECD að hagvexti og stöðugleika sé nú ógnað af of miklum ójöfnuði. Líka Nóbelsverðlaunahafarnir í hagfræði, Paul Krugman og Joseph Stiglitz.

Vandinn er sá, að almenningur nýtur ekki ávaxta hagvaxtarins. Of mikið rennur til auðmanna á toppnum.

Ef auðmennirnir sjálfir eru farnir að hafa af þessu áhyggjur, þá eru hæg heimatökin. Ef þeir sætta sig við minna þá verður meira til skiptanna fyrir alla hina.

Það með verður vandinn úr sögunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 15.12.2013 - 12:06 - FB ummæli ()

Íslendingar stefna á nýtt met í lágkúru

Nú berast fregnir af því að stjórnmálamenn, bæði af hægri og vinstri væng, vilji knýja Evrópusambandið til að halda áfram að greiða hingað svokallaða IPA aðlögunarstyrki.

ESB tilkynnti nýlega að slíkum styrkveitingum til Íslands yrði hætt.

Ástæðan er sú, að íslensk stjórnvöld hafa stöðvað aðildarsamningaviðræður, leyst upp samninganefndina og jafnframt kynnt þá afstöðu sína að Ísland gangi aldrei í Evrópusambandið. Raunar hafa stjórnvöld lýst megnri andstöðu við þessa IPA-aðlögunarstyrki. Jafnvel kennt þá við “mútur”.

Nú tilkynnir Sjálfstæðismaðurinn Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, að hann vilji þvinga ESB með lögfræðiárás og hártogunum til að halda áfram að greiða þessa styrki!

Prakkarinn Össur Skarphéðinsson tekur undir – til að þrýsta núverandi utanríkisráðherra út í ógöngur.

En ágætu stjórnmálamenn: eru engin takmörk fyrir því hversu lágkúrulegir við Íslendingar eigum að vera á alþjóðavettvangi?

Það er sjálfsagt að berjast fyrir því að staðið verði við gefið loforð um að almenningur fái að kjósa um hvort hann vilji klára aðildarviðræðurnar eða ekki.

En þetta tal um að betla með lögfræðihótunum styrki út úr Evrópusambandinu er fyrir neðan öll mörk siðferðis og heilinda. Og það á sama tíma og við skerum niður framlög til þróunaraðstoðar við fátækustu þjóðir heims.

Kanski er ástæða til að bjóða hæstvirtum þingmönnum upp á námskeið í hagnýtri siðfræði og mannasiðum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 13.12.2013 - 17:19 - FB ummæli ()

Fjárlögin – þrennt gott, eitt slæmt

Eftir klaufalegan útafakstur í frágangi fjárlaga til annarrar umræðu síðustu daga er stjórnin að sigla í höfn, þó ekki verði allir ánægðir.

Margt má segja um fjárlögin, bæði gott og slæmt. Ég ætla þó einungis að nefna þrjú góð atriði og eitt slæmt.

Það er auðvitað gott að ná jöfnuði í fjármálum ríkisins á næsta ári. Vonandi heldur það. Fyrri rikisstjórn lyfti grettistaki er hún lækkaði hallann úr meira en tvö hundruð milljörðum og niður í rúma 20 milljarða. Nú verður lokið við þau ca. 10% af verki vinstri stjórnarinnar sem óklárað var.

Það er auðvitað líka gott að fjárveitingar til Landsspítalans og annarrar heilbrigðisþjónustu skuli auknar um fjóra milljarða eða svo. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra má vel við una, eftir þau miklu mistök sem blöstu við í upphaflegu fjárlagafrumvarpi – og leiddu til afsagnar Björns Zoega forstjóra LHS.

Það er líka gott að ríkisstjórnin ætlar að standa við loforðið um að minnka umtalsvert skerðingar á tekjutryggingu almanatrygginga og ver til þess um fimm milljörðum. Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra má vel við una að halda því inni, í þeim atgangi sem verið hefur.

Það sem mér finnst slæmt er að ríkisstjórnin ætli að lækka vaxtabætur vegna húsnæðisskulda. Það voru að vísu góð umskipti að falla frá hugmyndum Sjálfstæðismanna og Vigdísar Hauksdóttur um að lækka barnabætur, en það er með öllu ótímabært að lækka vaxtabæturnar nú.

Lækkun vaxtabóta vinnur gegn markmiðum nýju skuldalækkunarúrræðanna. Nær hefði verið að gefa svolítið aukalega í vaxtabæturnar.

Kanski verður hægt að draga úr niðurskurði þeirra í þriðju umræðu?

 

Flétta Sjálfstæðismanna

Framsóknarmenn vita að Sjálfstæðismenn hafa alla jafna lítinn sem engan áhuga á auknum velferðarútgjöldum. Þess vegna reyna þeir oft að klípa til baka það sem þeir þurfa að gefa eftir.

Þeir samþykktu með semingi að Framsókn fengi að lækka skuldir heimila um 80 milljarða. En svo líður Sjálfstæðismönnum betur með því að í staðinn sé tekið svolítið af vaxtabótum sem gagnast einkum þeim heimilum sem eru í versta skuldavandanum.

Þetta er dæmigerð flétta Sjálfstæðismanna: gefa með annarri hendi – en taka svo til baka með hinni.

Framsókn þarf að vara sig á þessari taktík Sjálfstæðismanna og sækja fram af festu á velferðarvaktinni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 11.12.2013 - 21:05 - FB ummæli ()

Rothögg páfans virkar vel

Frans páfi er maður ársins að mati tímaritsins Time. Það er til marks um að nýi páfinn hefur vakið athygli og snert taugar margra á örskömmum tíma í embætti.

Eitt af því sem hefur vakið hvað mesta athygli er að páfinn tekur ákveðna afstöðu gegn frjálshyggjunni, sem hefur tröllriðið heiminum á undanförnum áratugum. Frjálshyggjunni fylgdu margir gallar og hún leiddi endanlega til fjármálakreppunnar, mestu kreppu hins vestræna heims síðan Kreppan mikla herjaði á fjórða áratugnum.

Páfinn hafnar helstu kenningum frjálshyggjunnar: einfeldningslegri oftrú á markaðshætti; efnahyggju og peningahyggju; brauðmylsnukenningunnni; auðmannadekri og sinnuleysi gagnvart fátækt og ójöfnuði.

Í staðinn boðar páfinn góðmennsku.

Páfinn hefur veitt frjálshyggjunni þungt högg!

Það skyldi þó ekki vera að tíðarandinn í heiminum sé að snúast gegn frjálshyggjuöfgunum?

Það væri gott fyrir hófsama skynsemihyggju, mannúð og miðjuvegi velferðarsamfélagsins.

Guð gefi frjálshyggjumönnum frí – langt frí!

 

Síðasti pistill: Lítið stutt við fjölskyldur á Íslandi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 11.12.2013 - 12:12 - FB ummæli ()

Lítið stutt við barnafjölskyldur á Íslandi

Vigdís Hauksdóttir segir að vinstri stjórnin hafi haft það markmið að gera alla háða bótum. Hún vill breyta stefnunni og vinda ofanaf bótagreiðslum.

Þetta er sjónarmið sem kemur frá róttækum frjálshyggjumönnum, en fáum öðrum. Flestir stjórnmálamenn á Vesturlöndum – bæði á miðju, vinstri og jafnvel á hægri væng – eru hlynntir fjölskyldustefnu (þar sem barna- og vaxtabætur eru mikilvægur hluti).

Um hvað snýst fjölskyldustefna?

Hún snýst einkum um það að gera ungu fólki kleift að koma sér upp heimili og eignast börn. Það verkefni er eitt það stærsta sem fólk stendur í á ævinni.

Ungt fólk fær gjarnan lægri laun í upphafi starfsferils en síðar verður. Þegar lægri laun og miklar byrðar vegna stofnunar fjölskyldu leggjast saman verða baggarnir gjarnan þungir. Þar kemur tryggingakerfi velferðarríkisins til sögunnar, í formi fjölskyldustefnu.

Tekjustuðningur (bætur og ívilnanir) og þjónusta (leikskólar, heilbrigðisþjónusta) til ungra barnafjölskyldna miðar að því að létta undir á tímabili í lífi fólks sem er fjárhagslega erfitt. Í staðinn greiðir það sama fólk hlutfallslega meira í sameiginlega sjóði þegar það er komið úr barneignum.

Þetta er tekjutilfærsla milli aldurshópa – en ekki ölmusa.

Aðstæður ungra barnafjölskyldna urðu reyndar sérstaklega slæmar eftir hrunið og hækkun vatabóta og barnabóta á síðasta kjörtímabili var til að milda þá óvenju miklu erfiðleika. Það var mikilvægt stoðkerfi, en miðaði ekki að því að gera alla háða bótum.

Slíkur stuningur við barnafjölskyldur hefur þó lengi verið hóflegur hér á landi, í samanburði við mörg grannríkjanna sem eru á svipuðu hagsældarstigi. Samt eru óvenju mörg börn á íslenskum heimilum og því mikil verkefni fyrir öfluga fjölskyldustefnu. Vigdís Hauksdóttir hefði átt að kynna sér það áður en hún lýsti stríði á hendur fjölskyldu- og vaxtabótum.

Í töflunni hér að neðan má t.d. sjá yfirlit yfir fjárhagsstuðning við barnafjölskyldur á Norðurlöndum (stuðningur í Evrum á hvert barn 0-17 ára; annars vegar fjárstuðningur barnabóta -kontantydelser- og hins vegar niðurgreiðsla þjónustu -serviceydelser- eins og leikskóla).

Screen shot 2013-12-11 at 11.50.42 AM

Heimild: Nososko 2012

 

Taflan sýnir að fjárhagsstuðningur (barnabætur) á hvert barn var minni á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum árið 2010 (1589 Evrur á móti 2255 til 2831 Evrur, leiðrétt fyrir ólíku verðlagi).

Þó hér sé tiltölulega mikill stuðningur við leikskóla og fæðingarorlof þá stöndum við frændþjóðunum einnig þar að baki. Jafnvel Færeyingar verja stærri fjárhæðum en Íslendinga á hvert barn, bæði í fjárhagsstuðning og þjónustu.

Stuðningur af vaxtabótum er þó mikill hér á landi, eftir þær hækkanir sem komu á síðasta kjörtímabili. Tilefnið fyrir þeim aukna stuðningi var þó óvenjustórt: stökkbreyttar skuldir í kjölfar um 50% gengisfalls og veruleg lækkun kaupmáttar.

Á heildina litið eru tilefni til öflugrar fjölskyldustefnu meira hér á landi en víðast í grannríkjunum. Það er vegna hrunsins,  vegna meiri fjölda barna á íslenskum heimilum og vegna þess að hér eru í meiri mæli tvær fyrirvinnur á heimili. Álag á ungum íslenskum fjölskyldum er því mjög mikið.

Það var uppörvandi að sjá að Vigdís Hauksdóttir hafði ekki stuðning í þingflokki Framsóknar fyrir róttækum frjálshyggjuskoðunum sínum um þetta. Það er því rétt sem Björn Ingi Hrafnsson sagði, að Framsókn er ekki sem heild hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn. Vigdís Hauksdóttir virðist vera nokkuð ein á báti á þeim slóðum.

Raunar ætti Framsókn að gera fjölskyldustefnu að sínu máli. Það styður við stefnuna í skuldamálum og er almennt gott mál fyrir samfélagið og framtíðina.

Gott fyrir heimilin.

 

Síðasti pistill: Lækkun barna- og vaxtabóta – afleit hugmynd

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 9.12.2013 - 10:21 - FB ummæli ()

Lækkun barna- og vaxtabóta – afleit hugmynd

Nú berast fregnir af því að ríkisstjórnin hyggist lækka barna- og vaxtabætur um nálægt 600 milljónir króna og setja féð í heilbrigðismálin.

Auðvitað er gott að auka fjárveitingar til heilbrigðismála – en að taka það þarna er afleit hugmynd.

Hvers vegna?

Barnabætur eru lágar á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin. Á áratugnum fram að hruni var búið að skera svo mikið af barnabótunum að kerfið var nánast orðið lítils virði.

Fyrri stjórn var of sein að hækka barnabætur eftir hrun, en miðaði þeim enn frekar á allra tekjulægstu hópana í staðinn. Síðan hækkaði fyrri stjórn bæturnar um 30% undir lok kjörtímabilsins. Þó það hafi verið myndarleg hækkun dugði hún varla til að koma barnabótakerfinu á eðlilegt ról.

Það er því af mjög litlu að taka hvað barnabætur snertir. Þeir sem fá barnabætur sem einhverju máli skipta eru ungar barnafjölskyldur með mjög lágar tekjur. Margar þeirra lentu sérstaklega illa í hruninu, eftir að hafa keypt húsnæði á uppsprengdu verði bólunnar eftir árið 2003 – með meiri skuldabyrði en áður hefur þekkst hér á landi.

Hækkun vaxtabóta var afar mikilvægt úrræði fyrri stjórnar til að létta skuldabyrði fjölskyldna. Vaxtabæturnar fóru einkum til þeirra sem voru í verstum skuldavanda, án þess að vera með miklar eignir umleikis eða háar tekjur. Þær skiptu miklu máli, ekki síst fyrir tekjulægri fjölskyldur.

Í hinum nýju skuldaúrræðum eru fyrri úrræði, þ.m.t. sérstakar vaxtabætur, dregin frá, svo þeir sem þeirra nutu fá minna eða ekkert nú.

Með lækkun barna- og vaxtabóta er hoggið í afkomu þeirra sem einna verst standa eftir hrun og sem lítið fá úr nýju úrræðunum.

 

Slæm stefna, einkum fyrir Framsókn

Ég tel að ríkisstjórnin geri mistök með slíkri aðgerð. Nær væri að hækka barna- og vaxtabæturnar og styðja þannig við nýju skuldaúrræðin – eða falla frá því að draga fyrri úrræði frá nýju úrræðunum. Meiri sátt yrði um það. Í staðinn væri hægt að ná í þessar tekjur af erlendum ferðamönnum með eðlilegri hækkun virðisaukaskatts á hótelgistingu, sem átti að skila 1,5 milljarði.

Að höggva í barna- og vaxtabætur er aðgerð sem gæti hugnast Sjálfstæðismönnum, sem gjarnan segja að þeirra kjósendur séu einkum hærri tekjuhópar.

En fyrir Framsókn er þetta sérstaklega hættuleg aðgerð. Framsókn sótti mikið fylgi til tekjulægri hópa í síðustu kosningum, ekki síst vegna fyrirheita um að verja heimilin. Það var velferðarstefnan sem færði Framsókn aukið fylgi.

Lækkun barna- og vaxtabóta heggur skörð í velferðarstefnuna gagnvart þeim sem síst mega við því.

 

Síðasti pistill:  Hólmsteinn hafnar lýðræði

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 7.12.2013 - 22:43 - FB ummæli ()

Hólmsteinn hafnar lýðræði

Ég sé á netinu að menn eru að rifja upp grein sem Hannes Hólmsteinn skrifaði gegn Nelson Mandela árið 1990.

Það þykir fyndið hve rosalega dómgreindin hefur brugðist Hannesi í þessari grein. Hann sagði Nelson Mandela ekki vera frelsissinna og líkti honum við þekkt illmenni!

Hann sagði líka þetta:

„Raunar er ekki mikil hætta á því, að Mandela og menn hans nái völdum í Suður- Afríku. Vegur Mandelas er miklu meiri í vestrænum fjölmiðlum en heima fyrir“.

Gott og vel! Léleg dómgreind – en umfram allt fjandsamleg afstaða til Mandela og baráttu hans.

En það var annað sem vakti athygli mína. Það sem Hannes sagði um lýðræðið.

Það var þetta:

“Lýðræði er ekki lausnarorðið, heldur frelsi einstaklinganna”…

Og þetta:

“En leiðin til frjálsrar Suður-Afríku er ekki fólgin í því að fela Mandela völd í stað de Klerks. Hún er fólgin í því að flytja sem flestar ákvarðanir af vettvangi stjórnmálanna og út á hinn frjálsa markað”.

Hannes vildi ekkert frekar en að stjórn hvíta minnihlutans yrði áfram við völd. Apartheid-stjórnin sem svívirti mannréttindi meirihluta íbúa landsins og fangelsaði Mandela í 27 ár – einmitt fyrir mannréttindabaráttu hans.

Hitt er ekki síður merkilegt að Hannes hafnaði lýðræði og vildi flytja flestar ákvarðanir út á markaðinn. Það er hann enn að segja.

Það er sem sagt ekki pláss fyrir lýðræði í heimi frjálshyggjupáfans. Hann vill bara markað, þar sem máttur peninganna ræður för.

Þeir sem eru rétttrúaðir frjálshyggjumenn hugsa einatt svona. En það er yfirleitt feimnismál fyrir þá að viðurkenna að þeir hirði ekkert um lýðræði. Þeir hafa það almennt ekki í hávegum, heldur amast í staðinn við hvers konar „ríkisafskiptum“ – allan daginn, alla daga.

Þess vegan er gott að fá þetta svona skýrlega upp á yfirborðið hjá Hannesi.

 

Síðasti pistill: Kaupið – SGS tekur forystu

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 6.12.2013 - 20:55 - FB ummæli ()

Kaupið – SGS tekur forystu

Allir hafa tekið eftir því hversu mikill þrýstingur er gegn alvöru kauphækkunum til almennings, ekki síst af hálfu Samtaka atvinnulífsins (SA).

Atvinnurekendur vilja frysta launafólk á botni kreppunnar til lengri tíma. Þeir vilja halda laununum óeðlilega lágum og segja að litlar kauphækkanir bæti hag launafólks mest! Það er öfugsnúið – svo ekki sé meira sagt. ASÍ hefur kallað málflutning SA sögufölsun.

Sjálfir hafa atvinnurekendur margir á bilinu 3 til 10 milljónir á mánuði í heildartekjur (atvinnutekjur og fjármagnstekjur samanlagðar).

Starfsgreinasambandið (SGS) hefur nú tekið forystuna í kjarabaráttunni og leggur fram hóflega og sanngjarna kröfu fyrir launafólk sitt. Hún gengur út á að láglaunafólk fái flata 20 þúsund króna hækkun á mánuði. Aðrir fái hóflega prósentuhækkun.

Vilhjálmur Birgisson á Akranesi vill líka að lægsta fólkið fái 20 þúsund króna hækkun. Hann talar máli almennings.

Þetta er skynsamlegt upplegg hjá SGS og síst of rausnarlegt. Láglaunafólk fær hlutfallslega mest með þessari leið, en aðrir fá einhverja kaupmáttaraukningu.

Menn þurfa að gá að því, að Hagstofan spáir 3,6% verðbólgu næsta árið. Til að fólk fái kaupmáttaraukningu þarf kaupið að hækka meira en þessi 3,6% sem verðlag mun hækka.

Ríkið gerir sjálft ráð fyrir að kaupmáttur hækki um 2,5% á næsta ári (í forsendum fjárlaga). Til að ná því þarf kaup að hækka um 5-6% að jafnaði á árinu.

 

Launþegar hafi vit fyrir atvinnurekendum

 

Samtök atvinnulífsins höfnuðu hófsamri kröfu Starfsgreinasambandsins með afgerandi hætti í dag. Atvinnurekendur geta ekki hugsað sér að hækka megi 200 þúsund króna laun láglaunafólks um 20 þúsund krónur á mánuði!

SGS sleit viðræðum umsvifalaust og búa samtökin sig nú undir að fylgja kröfum sínum eftir með öllum ráðum.

Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindunni. Mikið er í húfi fyrir launafólk.

Raunar væri líka gott fyrir efnahagslífið að almenningur fái aukinn kaupmátt, því það örvar atvinnulífið og hagvöxtinn.

Atvinnurekendur hafa þó ekki skilning á því.

Það bendir til að þeir hugsi af of mikilli þröngsýni um eigin kaup og gróða. Þeim yfirsést að þeir ná auknum hagnaði af meiri umsvifum í hagkerfinu, sem kaupmáttaraukning almennings skapar.

Það væri því gott ef launþegasamtökin gætu haft vit fyrir atvinnurekendum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 5.12.2013 - 10:35 - FB ummæli ()

Enn er bullað um ESB

Andstæðingar ESB-samningaviðræðna hafa verið nær vitstola frá því aðildarumsóknin komst á dagskrá.

Auðvitað mega þeir vera á móti aðild Íslands að ESB.

Það hefur hins vegar verið leiðinlegt að sjá hversu ómerkilegur málflutningur þeirra flestra hefur verið. Þeir hafa iðulega farið offari og fórnað hagsmunum og valkostum Íslands með yfirgengilegu bulli sínu um ESB (sjá hér).

En þessir andstæðingar aðildar unnu umræðuna í kosningabaráttunni, jafn skrítið og það er – því tryggur meirihluti kjósenda hefur viljað ljúka viðræðum og sjá hvað aðild gæti falið í sér.

Að undanförnu hefur bullið um ESB haldið áfram, jafnvel þó málið ætti að vera komið af dagskrá.

Utanríkisráðherra sendi ESB fingurinn fyrr á þessu ári: stöðvaði aðildarviðræður, leysti samninganefndina frá störfum og lýsti yfir að hann vonaðist til að Ísland myndi aldrei gerast meðlimur í þessu “ólýðræðislega” sambandi evrópskra þjóðríkja. Ráðherrann talar fyrir hönd “íslenskra stjórnvalda”.

Í framhaldi af þessari framgöngu Íslendinga stöðvaði ESB nú nýlega greiðslu svokallaðra IPA styrkja, til umbótaverkefna hér á landi er tengjast hugsanlegri aðild. Auðvitað hlaut ESB að skrúfa fyrir þessar styrkveitingar í kjölfarið – það sjá allir.

Þá bregður svo við að utanríkisráðherrann rýkur upp og kallar þetta mikla ósvífni að hálfu ESB, sem sé þeim lítt til álitsauka hér á landi. Þetta segir ráðherrann sem áður lagðist harkalega gegn þessum IPA styrkjum og kallaði þá nánast mútur og aðlögunarstyrki sem ekki ættu rétt á sér.

Það er óvarlegt af íslenskum stjórnvöldum að tala svona opinberlega, ekki síst gagnvart aðila sem skiptir hagsmuni Íslands afar miklu – bæði í bráð og lengd.

Ritstjóri Morgunblaðsins, sem sjálfur hefur verið mikilvirkur í afbökunum og bulli um Evrópusambandið, segir þessi viðbrögð ESB til marks um að sambandið vilji nú slíta viðræðum við Ísland!

Fór það virkilega framhjá ritstjóra Morgunblaðsins að Ísland stöðvaði aðildarviðræðurnar?

Æ hvað það væri gott ef við Íslendingar gætum komist á hærra plan!

 

Síðasti pistill: Rökvillur niðurskurðar í kreppu

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar