Mánudagur 1.7.2013 - 00:20 - FB ummæli ()

Skuldirnar – óvinir heimilanna opinbera sig

Um daginn sendu Samtök atvinnulífsins (SA) frá sér yfirlýsingu þar sem þau lögðust eindregið gegn því að skuldir heimilanna yrðu lækkaðar meira en orðið er. Sögðu það stefna stöðugleika og þjóðarbúskap í hættu. Hagfræðingar Seðlabanka tóku undir, þó með óljósari hætti væri.

Sjálfstæðismennirnir á Viðskiptablaðinu leggjast einnig gegn skuldaafskriftum fyrir heimilin, en hafa alltaf mikinn skilning á þörf fyrirtækja fyrir skuldaafskriftir! Þeir kalla hugmynd Framsóknar „blindgötu“ og „vitleysu“.

Um helgina hvatti svo Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi stjórnarformaður MP banka, til að Framsókn yrði hjálpað við að svíkja kosningaloforð sín um skuldalækkun til heimilanna!

Maður hrekkur auðvitað við þegar svona raddir heyrast. Þetta er svo blygðunarlaust!

Þetta tal er að auki byggt á rökleysu. Skuldalækkun heimila styrkir stoðir efnahagslífsins en veikir þær ekki (sjá hér).

Hugmynd Framsóknar gengur út á að leiðrétta forsendubrestinn sem varð frá 2008 til 2010 og er áætlað að muni kosta hátt í 300 milljarða. Gert er ráð fyrir að fjármagna það með samningum um afskriftir krónueigna kröfuhafa föllnu bankanna og annarra, en ekki beint úr ríkissjóði.

Nú segja þessir óvinir heimilanna að ekki sé hægt að afskrifa svona mikið af skuldum heimila án þess að allt fari úr böndunum í landinu.

En er það líklegt? Nei, hreint ekki. Nú þegar hafa skuldir heimila lækkað um nálægt 300 milljarða – án þess að allt hafi farið úr skorðum!

Skuldir fyrirtækja hafa þegar verið lækkaðar um miklu meira en þetta eftir hrun, eða úr 370% af landsframleiðslu í um 170% (sjá hér). Það gerðist líka án þess að allt færi úr böndunum!

Hvers vegna skyldi þá vera svona erfitt að skera niður skuldir heimilanna um 250-300 milljarða í viðbót? Það er auðvitað ekkert vandamál, ef framkvæmdin miðar að stöðugleika.

Þetta tal um að allt fari til andskotans ef skuldir heimilanna verða lækkaðar er eins og tal atvinnurekenda um kauphækkanir. Þeir telja þær alltaf koma í bakið á launþegum og því sé betra að sætta sig við láglaunastefnuna!

Kanski talsmenn atvinnurekenda og bankamaðurinn Þorsteinn Pálsson séu einfaldlega að hugsa um að auka svigrúm til afskrifta á skuldum fyrirtækja – á kostnað heimilanna?

Kanski er þetta einfaldlega baráttan um skiptingu auðsins á Íslandi – eina ferðina enn?

Nú þegar áhrifamenn í Sjálfstæðisflokki koma svona í bakið á Framsókn í þessu stórmáli er ástæða til að hvetja forsætisráðherrann og lið hans til dáða.

 

Síðasti pistill: Frelsisverðlaun – frá mykjudreifara til hippa

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 30.6.2013 - 10:33 - FB ummæli ()

Frelsisverðlaun – frá mykjudreifara til hippa

Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar voru veitt í gær. Það er alltaf hátíðleg stund þegar Kjartan stígur á stokk og kynnir niðurstöðu sína – fjálshyggjunni til dýrðar.

Kjartan Gunnarsson er auðmaður sem barist hefur fyrir auknum frjálshyggjuáhrifum. Hann var einn stjórnenda Landsbankans fram í hrun og þar á undan framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Kjartan er einn spaugsamasti velgjörðarmaður frjálshyggjunnar á Íslandi.

Í fyrrasumar hlutu mykjudreifari frjálshyggjunnar (AMX-vefurinn) og vúdú-skáldið Hannes Hólmsteinn frelsisverðlaun Kjartans sameiginlega, fyrir framlag sitt á liðnum árum. Það var snjallt, enda mykjudreifarinn og Hannes eitt og sama fyrirbærið!

Samt vekur furðu að AMX-vefurinn hefur ekki borið sitt barr eftir að hafa hlotið verðlaunin í fyrra. Gárungarnir segja að verðlaunin hafi riðið honum að fullu!

Nýr verðlaunahafi er Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri. Gunnlaugur er vænn drengur sem vakti athygli á síðasta ári fyrir hugmyndir sínar um að breyta frjálshyggjunni í eins konar hippahreyfingu – til að fegra ímynd hennar í kjölfar frjálshyggjuhrunsins.

Gunnlaugur lét m.a. hanna nýtt lógó fyrir Frjálshyggjufélagið. Það vakti mikla lukku og þótti sýna hið nýja friðsama eðli frjálshyggjunnar – eða þannig! Hér má sjá nýtt lógó Frjálshyggjufélagsins:

Hippie

                                Freedom man! Peace brother!

Gunnlaugur útfærði sem sagt nýja útgáfu af afskiptaleysisstefnu frjálshyggjunnar í anda innhverfrar íhugunar austurlenskra gúrú-manna, í bland við hugmyndafræði hippanna í Kaliforníu. Nægjusemi, ást, friður og umburðarlyndi eru ný kjörorð frjálshyggjunnar á Íslandi, samkvæmt speki Gunnlaugs Jónssonar.

Þetta þykir frumleg heimspeki hjá Gunnlaugi, enda afskiptaleysisstefna frjálshyggjunnar áður þekkt fyrir allt sem er andstætt þessu: miskunnarleysi markaðarins, fégræðgi, sjálfhverfu og heiftarlega einstaklingshyggju, eins og Ayn Rand boðaði.

Gunnlaugur sýndi líka hvernig frjálshyggjan á samleið með leikritum eðalskáldsins Torbjörns Egner, höfundar Kardemommubæjarins (sjá hér). Ræningjarnir Kasper, Jesper og Jónatan þóttu vera framúrskarandi fyrirmyndir nútímalegra frjálshyggjumanna.

Nýlega hefur Gunnlaugur haslað sér völl sem frumkvöðull á sviði olíuleitar og hyggst bora í Drekasvæðið. Hann hefur enga reynslu á því sviði, en segir frjálshyggjuna verða gott veganesti í þeim leiðangri. Vúdú-hagfræði Hólmsteins mun án efa líka gagnast við útreikning arðseminnar.

Samtökin 78 hlutu einnig frelsisverðlaun frá Kjartani Gunnarssyni að þessu sinni. Það hefur sennilega verið gert til að ljá verðlaununum meiri vikt og virðingu, enda hafa hommar og lesbíur gert alvöru gagn í samfélaginu – ólíkt frjálshyggjumönnum.

Kjartan á heiður skilinn fyrir örlæti sitt og andagift. Vonandi verða verðlaunin viðkomandi til farsældar að þessu sinni – þó illa hafi farið fyrir mykjudreifaranum í fyrra!

 

Síðasti pistill: Veiðigjaldsmál Sjálfstæðisflokksins

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 29.6.2013 - 11:49 - FB ummæli ()

Veiðigjaldsmál Sjálfstæðisflokks

Í aðdraganda kosninganna var ljóst að það voru Sjálfstæðismenn sem einkum lögðu áherslu á að lækka veiðigjaldið. Framsókn og aðrir töluðu mest um að breyta gjaldinu og fínstilla virkni þess.

Nú var að koma könnun sem sýnir mikla andstöðu við lækkunina hjá stuðningsmönnum allra flokka – nema Sjálfstæðisflokks. Um 70% almennta kjósenda vilja ekki lækka gjaldið.

Um 60% stuðningamanna Sfl. eru hins vegar hlynnt lækkun gjaldsins en 60% stuðningsmanna Ffl. eru andvíg því. Lækkun gjaldtökunnar fyrir afnotin af auðlind þjóðarinnar er því einkum baráttumál Sjálfstæðismanna. Um framkvæmd þess var þó greinilega samið í stjórnarmyndunarviðræðunum.

Nú ber svo við að Framsókn fer með sjávarútvegsmálin, sem eru í forsjá Sigurðar Inga Jóhannssonar. Það er því Framsókn sem fær það súra hlutverk að framkvæma lækkunina – gegn vilja þjóðarinnar og gegn meirihluta eigin stuðningsmanna. Og ég vil líka segja gegn almennri skynsemi!

Þetta er auðvitað óskastaða fyrir Sjálfstæðismenn. Þeir geta þjónað auðmönnum í sjávarútvegi, sem er þeirra ær og kýr, en Framsókn tekur á sig óvinsældirnar.

Nú veit ég ekki hver persónuleg afstaða sjávarútvegsráðherra er. Hann þarf í öllu falli að framkvæma það sem um var samið í stjórnarmyndunarviðræðum. Það er hins vegar afar slæmt fyrir Framsókn að Sigurður Ingi birtist almenningi eins og harðasti Sjálfstæðismaðurinn í ríkisstjórninni, bæði í veiðigjaldsmálinu og umhverfisverndarmálum.

Það er mikilvægt fyrir Framsókn að halda sérstöðu sinni sem miðjusinnaður velferðarflokkur sem setur heimilin í forgang. Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar einkum flokkur ríka fólksins (sjá hér).

Það var ekki farsælt þegar Framsókn kokgleypti hráa frjálshyggju Sjálfstæðismanna á stjórnarárum Halldórs og Davíðs. Enginn sýnilegur munur var á stefnu og áherslum flokkanna þá. Biskup frjálshyggjunnar á Íslandi, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, lagði enda til að flokkarnir yrðu sameinaðir!

Í samsteypustjórnum mega flokkar alveg halda sérstöðu sinni og togast á við samstarfsflokkinn. Kjósendur vita að semja þarf um einstök mál. Mikilvægast er að þeir sem eiga góðu málin fái að njóta þeirra  og hinir sem eiga vondu málin ættu að greiða sjálfir kostnaðinn af framkvæmd þeirra.

Kanski Framsókn eigi að huga meira að þessu, því undirróðursmenn Sjálfstæðisflokksins eru víða að verki. Það sannaðist m.a. í vikunni af ómálefnalegri árás Samtaka atvinnulífsins (SA) á hugmyndir Framsóknar um skuldalækkun til heimilanna.

Sjálfstæðismenn vinna oft meira að tjaldabaki en á yfirborðinu – eins og algengt er um reynda valdaflokka yfirstéttarinnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 26.6.2013 - 13:16 - FB ummæli ()

Tímamót hjá lífeyrisþegum

Eygló Harðardóttir, ráðherra félags- og húsnæðismála, stendur við loforðin sem hún gaf lífeyrisþegum og hefur nú lagt fram frumvarp um afnám skerðinga lífeyris sem innleiddar voru 1. júlí 2009. Þetta er mikilvægur áfangi sem fylgt verður eftir með frekari umbótum í haust.

Mikilvægasta skrefið nú er að tekjur frá lífeyrissjóðum skerða ekki lengur grunnlífeyri almannatrygginga. Grunnlífeyririnn er nú um 34 þúsund krónur á mánuði.

Einnig mega ellilífeyrisþegar nú hafa um 110 þúsund krónur í atvinnutekjur á mánuði án þess að það skerði lífeyri frá almannatryggingum, í stað 40 þúsund króna áður. Þarna er réttur eldri borgara jafnaður rétti öryrkja.

Þetta eru mikilvægar breytingar fyrir kjörin en einnig fyrir virkni lífeyriskerfisins. Um 7000 lífeyrisþegar fá strax einhverjar kjarabætur, þar á meðal 2500 sem höfðu ekki lengur neinar greiðslur frá almannatryggingum.

Að því er fundið, t.d. af talsmönnum öryrkja, að þeir sem engar tekjur hafa aðrar en frá almannatryggingum fá nú litla eða enga hækkun. Að því er hins vegar að gæta, að sami hópur var sérstaklega vel varinn af aðgerðum fyrri ríkisstjórnar, með mikilli hækkun lágmarkslífeyristryggingarinnar.

Þeir sem þá sátu eftir, einkum eldri borgarar (sjá hér), fá nú meiri leiðréttingu og þannig er tekið skref frá skerðingaraðgerðum krepputímans.

En þetta er ekki endanlegt því fleiri skref verða stigin síðar á árinu. Þá er stefnt að lækkun skerðingarhlutfalls tekjutryggingar almannatrygginga úr 45% niður í 38,35%, sem mun gagnast öllum lífeyrisþegum (bæði öryrkjum og eldri borgurum).

Þegar allar þessar aðgerðir verða komnar til framkvæmda munu þær kosta um 4,6 milljarða króna á ári, þ.e. frá og með næsta ári.

Umbætur á almannatryggingum sem gerðar voru á árinu 2008 miðuðu að því að auka hvata til atvinnuþátttöku og sparnaðar. Skerðingarnar sem voru innleiddar 1. júlí 2009 hurfu frá þeirri stefnu. Breytingarnar nú og síðar á árinu ná því að umtalsverðu leyti til baka.

Eftir stendur þó að skerðingar vegna fjármagnstekna (af sparnaði) eru enn meiri en var fyrir kreppuna. Það er mikilvægt framtíðarmarkmið að auka svigrúm lífeyrisþegar á því sviði.

Með þessum breytingum félags- og húsnæðismálaráðherra fækkar neikvæðum afleiðingum hrunsins og það er auðvitað fagnaðarefni.

Auk þessara kjarabreytinga eru innleiddar umbætur er varða upplýsingagjöf og viðurlög gegn brotum, sem Tryggingastofnun hefur lengi óskað eftir. Það er einnig mikilvægt framfaramál, sem ætti að stuðla að nákvæmari útreikningi bótaréttinda og hindra of- eða vangreiðslur, sem og að draga úr bótasvikum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 22.6.2013 - 15:22 - FB ummæli ()

Davíð talar um RÚV

Davíð Oddsson er ritstjóri Morgunblaðsins sem flestum er ljóst að gengur erinda eigenda sinna í þjóðmálaumræðunni, berst m.a. kröftuglega fyrir hag útvegsmanna.

Mogginn er líka blað sem berst fyrir hagsmunum Sjálfstæðisflokksins, með kjafti og klóm. Mogginn er ekki hlutlaus fjölmiðill.

Samt telur Davíð sig þess umkominn að leggja hrokafullt mat á vinnubrögð annarra fjölmiðla og saka þá um skort á hlutleysi! Þetta á ekki síst við um RÚV, sem Davíð hefur lengi lagt í einelti.

Í leiðara Moggans í dag segir hann eftirfarandi:

“En nú er fréttastofa »RÚV« orðin þekkt fyrir að vera opinber taglhnýtingur eins stjórnmálaflokks, Samfylkingarinnar. Þetta væri nógu slæmt ef um væri að ræða flokk sem landsmenn almennt flykktu sér um, en þarna er að auki um einsmálsflokk um ESB að ræða, sem fréttastofan hefur að vísu einnig sér í hjartastað.”

Er þetta trúverðug lýsing á RÚV? Það held ég ekki.

Fjarri lagi er að hægt sé að finna þessum ummælum stað í greiningu á fréttum og fréttatengdu efni RÚV.

Að halda því fram að RÚV sé þjónn einhvers eins stjórnmálaflokks eða einhver sérstakur boðberi ESB-aðildar Íslands er fráleitur áburður.

Flestir fréttamenn RÚV og annarra fjölmiðla reyna að gera þjóðmálunum skil á heiðarlegan hátt, eins og tíðkast á málsmetandi fjölmiðlum erlendis, þó minni mannafli og þrengri fjárhagur seti metnaði fjölmiðlamanna oft skorður hér á landi.

Raunar hefur það lengi verið svo á Íslandi að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft langmesta fjölmiðlaaðgengið til að nota í flokkspólitískum tilgangi – og er þá vísað í ritstjórnargreinar frekar en fréttaflutning.

Hvaða annar flokkur en Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú til ráðstöfunar fjölmiðil eins og Moggann sem beitt er af fullum krafti í þágu flokkshagsmuna og gegn öðrum flokkum? Enginn – eftir að hinir flokkarnir hættu útgáfu litlu flokksblaðanna!

Það er leiðinlegt að sjá hversu lágt forsætisráðherrann fyrrverandi og ritstjórinn núverandi leggst í málflutningi. Hann virðist sleginn miklum einstrengingi, heift og hlutdrægni.

Davíð telur allt tal um málefni sem honum eru ekki að skapi vera áróður og virðist vilja banna það.

Slík sjónarmið samrýmast ekki lýðræðislegu umhverfi.

 

Síðasti pistill: Hagnaður sjávarútvegs er á kostnað heimilanna

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 21.6.2013 - 00:10 - FB ummæli ()

Hagnaður sjávarútvegs er á kostnað heimilanna

Í umræðum um veiðigjaldið í sjávarútvegi er stundum spurt um afkomu sjávarútvegs og getu hans til að greiða meira en áður fyrir afnot af auðlind þjóðarinnar.

Flestir Íslendingar vita að þegar gengi krónunnar fellur þá batnar hagur sjávarútvegs um leið og kaupmáttur heimila minnkar.

Við hrunið 2008 féll gengi krónunnar gríðarlega, eða um nálægt helming. Það skapaði fiskveiðum og sjávarútvegi almennt gríðarlega arðvænleg skilyrði. Hreinn hagnaður varð mjög mikill, um eða yfir 20% af veltu.

Þetta má sjá á myndinni hér að neðan, sem sýnir samband milli gengis íslensku krónunnar og hreins hagnaðar í sjávarútvegi (sem % af heildartekjum greinarinnar).

Slide1

Þarna má sjá að hagnaðurinn eftir hrun hefur verið meiri en nokkru sinni áður á tímabilinu frá 1993. Flest bendir til að afkoman hafi einnig verið mjög góð 2012 og verði svo áfram á þessu ári. Hagnaðurinn hefur á síðustu árum verið um tíu sinnum meiri en að meðaltali á árunum 1993 til 2000.

Tvö ár fyrir hrun standa út úr með mikinn hagnað (2001 og 2006), en á báðum þeim árum féll gengi krónunnar nokkuð (aflabrögð skipta þó líka máli fyrir afkomuna).

En hið fordæmalausa hrun krónunnar sem varð 2008 var mikill hvalreki fyrir sjávarútveginn (og líka fyrir áliðnaðinn og ferðaþjónustuna, þ.e. helstu útflutningsgreinarnar).

Hagnaður sjávarútvegs eftir hrun hefur sem sagt verið gríðarlega góður í sögulegu samhengi. En þau sömu skilyrði og sköpuðu sjávarútvegi ofurhagnað urðu heimilunum dýrkeypt, þ.e. gengisfallið. Gengisfallið rýrði kaupmátt heimilanna um nærri 20% að meðaltali og jók skuldabyrðina að auki.

Aukinn hagnaður sjávarútvegs eftir hrun varð sem sagt á kostnað heimilanna!

Þetta er rétt að rifja upp í samhengi við umræðuna um veiðigjöldin. Í reynd færir hið nýja veiðigjald einungis hluta þessa ofurhagnaðar í ríkissjóð til  sameiginlegra nota fyrir almenning.

Ríkisstjórnin  er á hálli braut þegar hún gerir lækkun veiðigjaldsins að forgangsmáli – en lætur heimilin bíða.

Forsætisráðherrann, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, ætti að beita sér fyrir endurskoðun á þeirri herfræði, áður en of mikið tjón hlýst af.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 20.6.2013 - 12:34 - FB ummæli ()

Gjaldtökuvæðing ferðaþjónustu – álitamál

Stjórnarflokkarnir hafa lagst gegn því að hækka virðisaukaskatt á gistinætur úr 7% í 14%. Sú hækkun var sögð geta skilað allt að 1,5 milljarði við fulla framkvæmd.

Nú er í staðinn verið að ræða gjaldtöku á vinsælum ferðmannastöðum sem sagt er að gæti skilað 3 til 5 milljörðum.

Það er sem sagt verið að tala um að heimta tvisvar til þrisvar sinnum meira fé út úr ferðaþjónustunni en gera átti með gistináttaskattinum!

Þeir sem voru á móti hækkun gistináttaskattsins sögðust gera það af tillitssemi við ferðaþjónustuna og samkeppnishæfni hennar. En kemur það ekki við samkeppnishæfnina að rukka sama eða miklu meira fé með beinni gjaldtöku?

Er nú allt í lagi að taka miklu meira fé út úr ferðaþjónustunni bara ef það heitir “gjald” en ekki “skattur”?

Það eru jú ferðamenn sem greiða, hvort sem það heitir virðisaukaskattur eða gjald.

En það eru fleiri hliðar á málinu. Víðtæk og umfangsmikil gjaldtaka breytir virkni og ímynd íslenskrar ferðaþjónustu.

Það verður öðruvísi land að koma til þar sem ferðamenn eru rukkaðir á hverjum markverðum stoppustað í íslenskri náttúru. Svo munu landeigendur ganga á lagið og fara að rukka fyrir minnstu umferð á landi sínu, án þess að nokkuð sé tryggt að þeir leggi féð í umhverfisvernd eða þjónustu á svæðinu.

Setjið ykkur í spor erlendra ferðamanna á Íslandi. Haldið þið að það muni ekki breyta upplifun þeirra af landinu ef gjaldheimtuásóknin verður alltumlykjandi? Ef alls staðar sé verið að plokka af manni fé.

Gjaldtaka á ferðamannastöðum leggst líka á Íslendinga, en gistináttaskatturinn leggst einkum á erlenda ferðamenn.

 

Gullni (peninga)hringurinn

Gullni hringurinn væri þá kanski svona: Þingvellir: 5 þúsund krónur; Geysir: 3 þúsund krónur; Gullfoss: 3 þúsund krónur. Alls 11 þúsund krónur (á mann?) – til viðbótar við gjald fyrir skoðunarferðina. Síðan myndu bætast við fleiri gjöld á öðrum stöðum, t.d. í Kerinu, þar sem landeigendur vilja gjarnan komast í buddu ferðamanna, eins og fram hefur komið.

Þeir sem vilja njóta Íslands í botn munu þurfa að greiða afar mikið í slíkri gjaldtöku – jafnvel þó gjöldin væru umtalsvert lægri en í dæminu hér að ofan (tölurnar um heildartekjur koma frá Greiningardeild Arion banka, en útfærslan er mín)!

Fyrir Íslendinga sem t.d. vilja fara með erlenda gesti sína (kanski fjögurra manna fjölskyldu) í svona skoðunarferð væri gjaldtakan verulegur “skattur” – umfram bensínkostnaðinn. Alger lúxusferð! Margir hefður alls ekki efni á slíku.

Með víðtæku gjaldtökufyrirkomulagi væri íslensk náttúra peningavædd í mun meiri mæli en nú er. Er það góð ímynd og vænleg fyrir aðdráttarafl Íslands?

Er ekki vænlegra að hækka frekar gistináttaskattinn svo hann verði svipaður og í grannríkjum okkar? Hann er jú minna sýnilegur og alls ekki sérstaklega íþyngjandi fyrir gistiþjónustuna, sem greiðir lítinn virðisaukaskatt í dag.

Er hatur hægri manna á „sköttum“ og ást þeirra á „gjöldum“ kanski á villigötum?

 

Síðasti pistill: Stéttaskipting á Íslandi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 19.6.2013 - 13:43 - FB ummæli ()

Stéttaskipting á Ísland

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra talaði á athyglisverðan hátt um stéttaskiptinguna á Íslandi, í ávarpi sínu á þjóðhátíðardaginn. Hann sagði meðal annars:

“Ísland hefur ekki verið stéttskipt á sama hátt og mörg önnur lönd og það er einn af mörgum góðum kostum þess að byggja þetta land.“

Sannleiksgildi þessa er þó svolítið háð því hvað átt er við með “stéttaskiptingu”.

Í þjóðfélagsfræði er greint á milli andlegrar og efnahagsslegrar stéttaskiptingar.

 

Andleg stéttaskipting

Með andlegri stéttaskiptingu er átt við skiptingu þjóða í virðingarhópa (eftir “status”), þ.e. í æðri og óæðri stéttir. Það er eins konar virðingarröðun þjóðfélagshópa, sem skiptir miklu máli í sumum samfélögum – en síður á Íslandi.

Þegar sagt er að Íslendingar “séu allir jafnir”, eins og víkingarnir sögðu forðum, eða að þeir sýni hærra settum ekki mikla lotningu, er vísað til þess að andleg stéttaskipting sé lítil á Íslandi.

Íslendingar fara ekki mikið í manngreinarálit í samskiptum og snobb er almennt illa þokkað hér á landi. Að þessu leyti eru ummæli forsætisráðherra alveg rétt.

Þjóðir sem búa við afar mikla andlega stéttaskiptingu eru t.d. Indverjar (kasta-kerfið, sem er eitt ógeðfeldasta stéttakerfi sem þekkist). Þeir sem eru lægst settir á Indlandi eru álitnir svo lítilfjörlegir að þeir eru kallaðir “hinir ósnertanlegu”, eru taldir vera óhreinir og fá einungis að stunda hin verstu störf.

Andleg stéttaskipting er sem sagt frekar lítil á Íslandi, en það er hún einnig á hinum Norðurlöndunum. Hún er hins vegar meiri hjá Englendingum, Frökkum og Þjóðverjum og í Bandaríkjunum er gríðarleg andleg stéttaskipting milli hvítra og svartra, þar sem þeir svörtu eru álitnir óæðri og njóta takmarkaðri tækifæra.

Hugmyndafræði jafnaðar og mannréttinda vinnur gegn andlegri stéttaskiptingu og við höfum náð ágætum árangri á þeim sviðum á Íslandi.

 

Efnahagsleg stéttaskipting

Ef við hins vegar lítum á efnahagslega stéttaskiptingu þá er átt við mun tekna, eigna og annarra veraldlegra gæða milli þjóðfélagshópa.

Þá erum við farin að tala um tekjuskiptingu og hag starfsstétta, svo dæmi sé tekið.

Fyrir um 30 árum síðan skrifaði ég mikla rannsóknarritgerð um lagskiptinguna á Íslandi. Niðurstaða mín var sú, að á Íslandi væri lítil andleg stéttaskipting en efnahagsleg stéttaskipting væri svipuð og á hinum Norðurlöndunum.

Vegna norræna velferðarríkisins var munur kjara og tækifæra minni á Norðurlöndunum öllum en í flestum öðrum vestrænum löndum. Í samfélögum fyrri tíma var almennt meiri stéttskipting, bæði andleg og efnahagsleg. Það gilti líka um Ísland. Til dæmis var talsverður munum á kjörum ríkra bænda og kjörum hjúa, leiguliða og flækinga á Íslandi miðaldanna.

Á fyrri hluta 20. aldar var mikill munur á kjörum verkafólks og yfirstéttar atvinnurekenda og embættismanna. Eftir hrun varð aukinn munur á kjörum útvegsmanna og almennra launamanna, vegna mjög mikillar gengisfellingar krónunnar.

Stéttaskiptingin getur þannig verið breytileg yfir tíma. Til dæmis jókst ójöfnuður tekna og eigna á Íslandi mjög hratt á árunum eftir aldamótin 2000 og fram að hruni. Þá var efnahagslega stéttaskiptingin að stóraukst frá því sem áður hafði verið hér á landi.

 

Aukinn ójöfnuður eftir 1995

Tekjuskiptingin á Íslandi varð ójafnari frá um 1995 og það sama gerðist raunar á hinum Norðurlöndunum. Hraðinn á ójafnaðarþróuninni varð þó fljótlega meiri á Íslandi og frá 2002 var Ísland komið vel framúr hinum norrænu löndunum í aukningu ójafnaðar. Frá 2002 til 2007 jókst ójöfnuðurinn svo með fordæmalausum hætti hér og var fyrir hrun orðinn talsvert meiri en á hinum Norðurlöndunum (sjá hér).

Það með varð Ísland stéttaskiptara land en áður hafði verið, í efnahagslegu tilliti. Til varð yfirstétt sem var orðin miklu ríkari en áður hafði tíðkast hér á landi. Bil milli ríkra og fátækra hafði aldrei verið meira en þá.

Eftir hrun gekk þessi ójafnaðarþróun að verulegu leyti til baka, bæði vegna minni tekjuuppgripa fjármálamanna og vegna aukinnar jöfnunar fyrir tilstilli skatta- og bótastefnu stjórnvalda.

Nú er spurningin hvað gerist þegar fjármálamarkaðurinn fer að virka á ný. Munu fjármálamenn og atvinnurekendur, hátekjuhóparnir í samfélaginu, skríða aftur framúr öllum öðrum í tekju- og eignaþróun eins og var á árunum fram að hruni?

Ef það gerist mun stéttaskiptingin á Íslandi aukast á ný.

 

Síðasti pistill spurði um áhrif peninga í stjórnmálum – það tengist líka stéttaskiptingu:

Er arðvænlegt að fjárfesta í Sjálfstæðisflokki?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 17.6.2013 - 11:59 - FB ummæli ()

Er arðvænlegt að fjárfesta í Sjálfstæðisflokki?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið helsti málsvari þess að afnema nýja veiðigjaldið. Það var boðað í Mogganum fyrir kosningar og einnig tilkynnt á meðan stjórnarmyndun stóð yfir að gjaldið yrði aflagt, strax á sumarþinginu sem nú situr.

Ákafinn var mikill. Mogginn er auðvitað málsgagn LÍÚ og hefur hamrað á málinu lengi.

Framsókn hefur verið höll undir sjávarútveginn í gegnum tíðina, en hún hefur þó trúlega lagst gegn afnámi veiðigjaldsins í samningum um stjórnarmyndun og fallist í staðinn á breytingu þess og lækkaðar álögur.

Það er málamiðlunin sem nú verður væntanlega framkvæmd.

 

Er hægt að kaupa áhrif í stjórnmálum?

Alþekkt er að auðmenn í Bandaríkjunum ráða mestu í stjórnmálum þar í landi fyrir tilstilli ríflegra fjárframlaga til beggja stóru stjórnmálaflokkanna. Stór framlög fjármálafyrirtækja á Wall Street eru t.d. talin ráða miklu um það, að fáir ef nokkrir stjórnmálamenn fara af krafti gegn hagsmunum fjármálaelítunnar bandarísku.

Sama má segja um áhrif Koch bræðra, sem nota gríðarlegt fjármagn til að greiða fyrir róttæk frjálshyggjuáhrif í bandarískum stjórnmálum, svo sem afreglun, niðurskurð velferðarútgjalda og skattfríðindi fyrir auðmenn (sjá hér, t.d. frá mín. 23-50)

Getur slíkt átt við á Íslandi?

Fyrst mætti t.d. rifja upp 55 milljón króna framlög til Sjálfstæðisflokksins í desember 2006, frá FL-Group og Landsbankanum, sem margir tengdu hagsmunamálum (t.d. REI-málinu).

Nú eru komnar fram upplýsingar um fjárframlög sjávarútvegsfyrirtækja til stjórnmálaflokkanna (sjá hér). Ungur stjórnmálafræðinemi, Hörður Unnsteinsson, tók saman tölurnar í BA ritgerð sinni.

Niðurstöðurnar eru að á fjórum árum, frá 2008 til 2011, fékk Sjálfstæðisflokkurinn um 23 milljónir frá sjávarútvegsfyrirtækjum. Stjórnarflokkarnir tveir fengu samanlagt rúmlega 90% allra framlaga (um 35 m.kr.) frá sjávarútvegsfyrirtækjum, um tveir þriðju fóru til Sfl.

Ef litið er á framlög sömu fyrirtækja til einstakra frambjóðenda í kosningunum í apríl sl. kemur í ljós að frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins fengu um 6,3 milljónir en frambjóðendur allra annarra flokka fengu samanlagt um 12.000 krónur!

Sjálfstæðismenn fengu þannig 99,8% framlaga sjávarútvegsfyrirtækja til einstakra frambjóðenda í síðustu kosningum til Alþingis. Framlög til frambjóðenda annarra flokka voru til málamynda – og varla það!

Sjávarútvegurinn einbeitti sér semsagt að því að fjármagna Sjálfstæðismenn.

 

Ályktanir

Tvennt er athyglisvert við þetta.

Í fyrsta lagi er þetta lítill kostnaður fyrir sjávarútvegsfyrirtækin. Ef þau eru að kaupa sér áhrif með því að fjárfesta í stjórnmálaflokkum þá er það mjög ódýrt.

Í öðru lagi þá skilar fjárfesting útvegsmanna í stjórnmálaflokkum, sérstaklega í Sjálfstæðisflokknum, gríðarlegum ábata – þegar flokkurinn kemst til valda.

Fyrir 35 milljóna styrki til stjórnmálaflokka fá útvegsmenn í ár og á næsta ári um 9.600 milljóna króna lækkun á veiðigjaldinu á tveimur árum.  Það er gríðarleg ávöxtun – á alla mælikvarða! Um 35 milljónir skila um 9.600 milljónum til baka!

Fullvíst má telja að fáir ef nokkrir fjárfestingarkostir í atvinnu- eða fjármálalífinu séu arðvænlegri en þetta!

Engan skyldi því undra að það sé freistandi að hafa áhrif á Sjálfstæðisflokkinn, eða aðra flokka, með smá fjárframlögum, til frambjóðenda og flokksins sjálfs.

Reynslan af veiðigjaldinu sýnir svart á hvítu hversu gríðarlega arðvænlegt það gæti verið.

 

Skipta peningar máli í pólitíkinni?

Er ég kanski að gera of mikið úr gildi þessara fjárframlaga til Sjálfstæðisflokksins? Er málið einfaldlega það að Sjálfstæðismenn hugsa eins og útvegsmenn og að þeir hefðu lagt af eða stórlækkað veiðigjaldið án ríflegra fjárframlaga frá LÍÚ-mönnum?

Það er hugsanlegt.

Hugmyndafræði Sjálfstæðismanna, ekki síst nýfrjálshyggjan, er mjög höll undir atvinnurekendur og fjárfesta og fjandsamleg ríkishlutverki og sköttum. Það var því ekki nauðsynlegt fyrir útvegsmenn að „kaupa“ Sjálfstæðismenn til fylgilags við hugmyndir sínar og hagsmuni.

En eftir sem áður gætu peningar útvegsmanna hafa keypt þeim áhrif í stjórnmálunum. Fjárframlögin til Sjálfstæðisflokksins gerðu flokknum og einstökum frambjóðendum hans kleift að reka öflugri kosningabaráttu. Auglýsa meira og dreifa dýrari og áhrifameiri bæklingum og halda úti stærri hópum einstaklinga sem hringdu í kjósendur til að hafa áhrif á þá.

Þannig gætu fjárframlög hafa greitt fyrir betri útkomu Sjálfstæðisflokksins en ella hefði orðið – og þar með aukið líkur á að flokkurinn kæmist í áhrifastöðu til að framkvæma það sem þjónaði hagsmunum útvegsmanna.

Þeir flokkar sem fá mesta fjármagnið eiga alla jafna betri möguleika á að afla sér meira fylgis– þó fleira komi við sögu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf fengið mest fjármagn frá atvinnulífinu og fjármálamönnum.

Best fjármögnuðu flokkarnir hafa forskot á aðra flokka. Þannig hafa peningarnir óhjákvæmilega áhrif í stjórnmálum.

Stjórnmál snúast ekki bara um lýðræði.

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 15.6.2013 - 14:03 - FB ummæli ()

Vúdú-hagfræðin eykur vanda ríkissjóðs

Ég gagnrýndi málflutning Sjálfstæðismanna um skattamál fyrir kosningar. Sérstaklega varaði ég við þeim hugmyndum að hægt væri að lækka skatta mikið og vænta um leið aukinna skatttekna í ríkissjóð af lægri sköttum, eins og Sjálfstæðismenn höfðu eftir Hannesi Hólmsteini.

Þessi hugmynd um að skattalækkanir borgi sig sjálfar, með hærri tekjum vegna aukinna umsvifa, er það sem kallað hefur verið “vúdú-hagfræði”.

Gamla hagfræðin var sú, að lægri skattheimta leiddi að mestu leyti til minni skatttekna. Hún er meira í takti við veruleikann.

Að vísu er hægt að finna dæmi um framtaksörvandi skattalækkanir sem gætu skilað hluta af hinum töpuðu skatttekjum til baka (það átti t.d. við um átakið “Allir vinna”, sem fyrri ríkisstjórn greip til). En slíkt skilar einungis minnihluta tekjutapsins til baka – og oft á lengri tíma.

Örvunaráhrif af frægum skattalækkunum Bush-stjórnarinnar í USA voru um 10%, þ.e. um 10% af töpuðum skatttekjum komu til baka í aukinni efnahagsstarfsemi.

Um 90% af töpuðum skatttekjum ríkisins voru einfaldlega tapaðar. Þeim þurfti að fylgja samsvarandi lækkun útgjalda eða aukning á skuldum bandaríska ríkisins. Skuldirnar hækkuðu og þykja nú orðnar hættulega miklar.

Nú eru horfur í fjármálum íslenska ríkisins sagðar enn verri en áður hafði komið fram. Hallinn verður meiri en spáð var og jöfnuður á árinu 2014 virðist fjarlægur draumur. Þetta kann að þýða auknar skuldir ríkisins og þar með aukin vaxtagjöld, sem eru ærin fyrir – nema til komi mikill niðurskurður velferðarútgjalda.

Í þessum aðstæðum boða fjármálaráðherra og sjávarútvegsráðherra skattalækkanir (lækkað veiðigjald, afnám auðlegðarskatts og fleira) sem munu þýða enn minni tekjur í ríkissjóð en áður var áætlað. Samhliða eru boðuð aukin útgjöld til góðra mála, þar á meðal velferðarmála.

AGS vara við rýrnun tekna ríkissjóðs við þessar aðstæður og segja veiðigjaldið vel heppnaðan skatt (sjá hér). Sama segir Jón Steinsson hagfræðingur  við Columbia háskóla í USA (hér).

Ég held það sé mikilvægt fyrir ríkisstjórnina að geta staðið við gefin loforð um velferðarumbætur. Tilkynnt skattalækkunaráform draga úr möguleikum á efndum.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mun nú væntanlega læra þá þungbæru lexíu að ríkisfjármálum verður ekki farsællega stjórnað með vúdú-brögðum frá kuklurum frjálshyggjunnar.

Ef skatttekjur minnka þarf fjármálaráðherra (og ríkisstjórnin) að auka skuldir ríkisins eða skera niður vinsæl útgjöld, ef fram heldur sem horfir.

Ef fjármálaráðherrann ætlar að byggja tekjuöflun ríkissjóðs á brellum vúdú-hagfræðinnar þá mun vandinn einungis aukast – skuldir vaxa og þörf fyrir niðurskurð magnast.

Þegar töfrabrögðum sleppir verður valið í heimi veruleikans nefnilega erfitt – og gengið meðal kjósenda fallvalt!

 

Síðasti pistill:

Mesta fífl í sögu íslenskra efnahagsmála?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 14.6.2013 - 12:25 - FB ummæli ()

Mesta fífl í sögu íslenskra efnahagsmála?

Nú er búið að skýra frjálshyggjumanninn Alan Greenspan “Mesta fífl í sögu bandarískra efnahagsmála”.

Greenspan var seðlabankastjóri Bandaríkjanna frá 1987 til 2006 og ber ábyrgð á afreglun og minnkandi eftirliti og aðhaldi gagnvart fjármálageiranum. Þetta gerði hann vegna ofurtrúar á sjálfstýringarmátt markaðarins.

Nú sjá menn að Alan Greenspan var meiri hugmyndafræðingur en hagfræðingur. Róttæk frjálshyggja leiddi hann afvega og hann leiddi samfélagið út í djúpt skuldafen, brask og fjármálakreppu.

Því fylgdi verulega aukinn ójöfnuður, enda er frjálshyggjustefnan einkum í þágu auðmanna og braskara.

Greenspan er á lista tímaritsins Time yfir þá 25 einstaklinga sem bera mesta ábyrgð á fjármálakreppunni. Þar er líka Davíð Oddsson, fv. seðlabankastjóri og forsætisráðherra Íslands.

Davíð var auðvitað í sama hlutverki og Greenspan, sem hugmyndafræðingur frjálshyggju. Raunar gekk hlutverk Daviðs á Íslandi lengra en hlutverk Greenspans í Bandaríkjunum, því Davíð var bæði pólitískur leiðtogi og æðsti embættismaður fjármálakerfisins, sem hrundi til grunna á hans vakt.

Hér voru líka gerð mun stærri mistök en í Bandaríkjunum, enda bæði bólan og hrunið hér miklu stærra og afdrifaríkara fyrir land og þjóð.

Þeir félagar William Black og Egill Helgason gætu því með sömu rökum og gilda um Alan Greenspan útnefnt Davíð Oddsson sem “mesta fífl í sögu íslenskra efnahagsmála”.

Þeir ættu líka að setja helsta ráðgjafa og vin Davíðs á listann, frjálshyggjuskáldið og vúdú-hagfræðinginn Hannes Hólmstein.

Efnislegu rökin fyrir slíkri nafnbót þeirra félaga eru klárlega til staðar.

 

Síðasti pistill: Ísland er háð ESB

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 13.6.2013 - 21:31 - FB ummæli ()

Ísland er háð ESB

Margir eru auðvitað nokkuð hugsi þegar leiðtogar okkar, forseti og ríkisstjórn, sýna Evrópusambandinu fingurinn.

Meirihluti Alþingis samþykkti að óska eftir viðræðum við ESB um mögulega aðild Íslands að sambandinu. Það var ekki ESB sem bað okkur um að koma í liðið. ESB hefur hins vegar tekið málaleitan Íslands vel og af sanngirni og kurteisi.

Nú koma fulltrúar okkar til ESB og segjast vilja hætta við í miðju kafi – án efnislegra röksemda. Afþvíbara!

Það er kanski ekki dauðasök að fresta því að ljúka viðræðum um aðildarsamning sem staðið hafa í nokkur ár.

En þegar það er gert í samhengi við þær umræður sem andstæðingar ESB-aðildar hafa viðhaft á síðustu árum þá er frestunin á vissan hátt til marks um að Íslendingar hafi snúið baki við ESB.

Forysta ESB fær auðvitað allar upplýsingar um hvernig fjallað hefur verið um sambandið á opinberum vettvangi hér á landi og dregur sínar ályktanir.

Í þessu samhengi má líka spyrja hvort við séum ekki að stefna miklum hagsmunum Íslands í hættu?

Aðildarríki ESB eru okkar helstu viðskiptaþjóðir og í þeim hópi ertu jafnframt okkar helstu vinaþjóðir, utan Noregs. Við erum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES), þar sem við höfum allt að sækja til ESB um framþróun þess viðskiptaumhverfis.

Við erum núna á undanþágu sem aðildarríki í EES, vegna gjaldeyrishaftanna. Litlar líkur eru á að þeim verði hægt að aflétta á næstu árum. Óskað hefur verið eftir samstarfi og aðstoð frá ESB til að ná þeim markmiðum. Því var vel tekið, meðal annars í ljósi umsóknar okkar um aðild.

Við eigum ansi margt undir ESB sem skiptir okkur miklu máli.

Við höfum meira að sækja til ESB-þjóða en þær til okkar.

Auðvitað getum við sýnt heiminum fingurinn. Ég held þó að slíkt muni fyrst og fremst skaða okkur sjálf.

Erfitt er að varast þá hugsun að við gætum verið að halda óskynsamlega á málum okkar. Við mættum líka minnast þess að hegðun Íslendinga var ekki beint hnökralaus á síðasta áratug, þegar Íslendingar soguðu til sín lánsfé frá Evrópuþjóðum án tillits til þess hvort hægt yrði að greiða það til baka.

Heilindi og kurteisi gagnvart nágrönnum ættu kanski að skipa hærri sess í framkomu okkar sem þjóðar. Við erum hvorki stórveldi né ómissandi í samfélagi Evrópuþjóða.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 12.6.2013 - 11:32 - FB ummæli ()

Er Orkuveitan andvíg orkuveitu?

Í framhaldi af fréttum af vanda við orkuvinnslu í Hellisheiðavirkjun er nú komið upp hið furðulegasta mál. Fyrrverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Guðmundur Þóroddsson, sakar núverandi stjórnendur Orkuveitunnar um að standa í herferð gegn álverum, í anda róttækra umhverfisverndarsinna.

“Þetta er þáttur í baráttu gegn alþjóðafyrirtækjum á heimsvísu, sem mér þykir öll umhverfisumræða hér lituð af”, segir Guðmundur.

Það hljóta að vera tíðindi ef femínískir umhverfisróttæklingar og óvinir alþjóðafyrirtækja hafa tekið völdin í Orkuveitu Reykjavíkur!

En haldið ró ykkar. Svo er ekki.

Núverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Bjarni Bjarnason, er fyrrverandi forstjóri Íslenska járnblendifélagsins. Þar starfaði hann farsællega fyrir hið alþjóðlega fyrirtæki Elkem. Síðar varð hann stjórnandi hjá Landsvirkjun á sviði orkuframleiðslu og orkusölu til alþjóðlegra álfyrirtækja. Ég þekki til starfa hans og veit að hann er hinn vandaðasti og mætasti maður.

Bjarni og félagar í stjórn Orkuveitunnar hafa haft ærinn starfa af því að koma Orkuveitunni á réttan kjöl aftur, eftir að fyrirtækið var í reynd orðið gjaldþrota, vegna óvarkárni og mistaka í rekstrinum um árabil. Sú leið var meðal annars vörðuð á stjórnartíma Guðmundar Þóroddssonar, sem einnig tengdist REI-málinu óheppilega.

Allur nýlegur fréttaflutningur af málefnum Hellisheiðavirkjunar sýnist mér stafa af eðlilegum áhyggjum og varkárni núverandi stjórnenda vegna erfiðrar stöðu mála og brostinna forsendna fyrri áætlana.

Hinn vandaði og hófsami jarðvísindamaður og fyrrverandi háskólarektor, Sveinbjörn Björnsson prófessor, hefur einnig tjáð sig um málið og segir of hratt hafa verið farið í uppbyggingu fyrri ára og eðlilegar varfærnireglur við þróun orkuöflunarinnar sniðgengnar.

Það er því af miklu kokhreysti sem Guðmundur Þóroddsson fer fram með ævintýralegar og órökréttar ásakanir á hendur núverandi stjórnendum Orkuveitunnar. Orð hans virðast einmitt sanna það sem Sveinbjörn Björnsson bendir á – óvarkárni í starfsháttum.

Fyrri stjórnendur Orkuveitunnar fóru bæði framúr sér og afvega í háttum sínum. Athyglisvert er að sjá nú eindreginn ásetning eins af leiðtogum þeirra um að læra ekkert af fyrri mistökum.

Kjánalegar ásakanir um fjandskap Orkuveitunnar í garð orkuveitu til atvinnurekstrar dæma sig sjálfar.

 

Síðasti pistill: Mikilvægi skuldaafskrifta – sérstaklega á Íslandi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 10.6.2013 - 23:39 - FB ummæli ()

Mikilvægi skuldaafskrifta – sérstaklega á Íslandi

Eitt af því sem fylgir bóluhagkerfum og fjármálakreppum er verulega aukið skuldastig, bæði í einkageira og opinbera geiranum. Þetta hafa fjármálasérfræðingarnir Carmen Reinhart og Kenneth Rogoff sýnt á skýran hátt í tveimur nýlegum bókum, This Time is Different (frá 2009) og Decade of Debt (2010), þar sem þau greina frá miklum rannsóknum á helstu fjármálakreppum heimssögunnar.

Ísland og Írland höfðu þá sérstöðu að eiga heimsmet í hraða skuldasöfnunar í aðdraganda hrunsins og var hraðinn á Íslandi sýnu meiri. Íslenska frjálshyggjutilraunin var ein sú heimskulegasta sem mannkynssagan geymir.

Þó skuldastaða íslenska ríkisins hafi verið góð fram að hruni þá leiddi hrunið sjálft og kreppan í kjölfarið til stóraukinna skulda íslenska ríkisins, eða upp í um 100% af landsframleiðslu. Það þýðir að íslenska ríkið er nú með skuldugustu þjóðríkjum og skuldir heimila og fyrirtækja eru einnig með allra mesta móti (sjá hér og hér og hér).

Nú þegar hefur mikið verið afskrifað af skuldum fyrirtækja og um 200 milljarðar af skuldum heimilanna (vegna gengislánadóma og úrræða stjórnvalda). Það er þó ekki nóg.

Íslenska þjóðarbúið er enn með skuldugustu þjóðarbúum. Því fylgir sú hætta að fjárfesting í atvinnulífinu verði um langa hríð lítil og hagvöxtur hægur. Þeir sem eru á kafi í skuldum halda aftur af sér í neyslu og fjárfestingum, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða heimili.

Það er ekki skortur á fjárfestingarfé sem skýrir litla fjárfestingu á Íslandi um þessar mundir – heldur mikil skuldsetning fyrirtækja og heimila.

Fjármálafræðingarnir heimskunnu, Reinhart og Rogoff, hafa lagt áherslu á mikilvægi þess að þjóðir með ósjálfbæra eða sérstaklega erfiða skuldastöðu fái umtalsverðar afskriftir frá kröfuhöfum sínum. Þau nefna í því sambandi þjóðir eins og Grikkland, Portúgal og Írland.

 

Ísland þarf meiri skuldaafskriftir

Ísland er ekki með skárri skuldastöðu en Írland, á heildina litið. Boðskapur Reinhart og Rogoffs um mikilvægi skuldaafskrifta á því einnig við um Ísland.

Þessir fjármálafræðingar vara auk þess við róttækum niðurskurðaraðgerðum til að bregðast við skuldavandanum. Slíkt getur magnað upp vandann, segja þau. Skuldaafskriftir eiga því að hafa forgang umfram niðurskurð opinberra útgjalda.

Þetta segir okkur að frekari skuldaafskriftir af íslenska þjóðarbúinu eru mikilvægar og réttlætanlegar.

Hugmyndir Framsóknar um afskriftir krónueigna erlendra kröfuhafa með samningum eiga því vel við í þessu samhengi. Ástæða er til að ná sem allra mestum afskriftum þar.

Raunar er einnig spurning hvort afskriftir geti átt við á fleiri sviðum, t.d. varðandi Landsbankabréfið svokallaða. Þar er nú óskað lengri greiðslufrests en ef til vill væri einnig athugandi að leita afskrifta af þeim skuldbindingum. Það bréf er jú að stórum hluta greiðsla vegna Icesave skuldarinnar sem EFTA dómstóllinn úrskurðaði um að Íslendingar ættu ekki að greiða.

Það er því afar mikilvægt að skuldavaktin hjá stjórnvöldum sé vel mönnuð. Á þeim vettvangi þarf að sækja fram af festu og klókindum.

Góður árangur í skuldaafskriftum mun greiða fyrir hagvexti í framtíðinni og kjarabótum fyrir heimilin.

 

Síðasti pistill: Ný sögufölsun frjálshyggjumanna um skuldir þjóðarbúsins

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 9.6.2013 - 16:47 - FB ummæli ()

Ný sögufölsun um skuldir þjóðarbúsins

Eftir hrun hefur orðið til ný atvinnugrein á Íslandi, sem fæst við endurritun sögunnar. Frjálshyggjumenn eru áberandi í þessum hópi skapandi sagnfræðinga, þeirra á meðal ritstjórinn Davíð Oddsson (fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóri) og Hannes Hólmsteinn Gissurarson, hugmyndafræðingur frjálshyggjutilraunarinnar sem Davíð framkvæmdi.

Það sem vakir fyrir þessum söguriturum er að fría þá sjálfa undan ábyrgð á orsökum hrunsins. Flestir fræðimenn á sviði fjármála tengja hrunið einmitt við aukin frjálshyggjuáhrif og lausatök á fjármálamörkuðum, sem gátu af sér óhóflega skuldasöfnun. Óhófleg skuldasöfnun orsakaði hrun krónunnar og bankanna.

Áberandi í málflutningi þessara aðila er sú staðhæfing að skuldasöfnun Íslands hafi ekki byrjað fyrr en eftir 2004. Hannes hefur birt línurit sem hann segir sýna þetta (sjá hér, glæra nr. 44).

Hvers vegna 2004? Jú, þá lét Davíð Oddsson af völdum sem forsætisráðherra og gerðist utanríkisráðherra.

Hannes Hólmsteinn hefur haldið því fram að til 2004 hafi ríkt hér eðlilegur “markaðskapítalismi”, en eftir að Davíð Oddsson lét af völdum hafi tekið við “klíkukapítalismi” sem hafi leitt til hrunsins (sjá hér).

Klíkukapítalismi á sér hins vegar miklu lengri sögu á Íslandi en frá 2004.

Markmið þessarar endurritunar sögunnar er sem sagt að fría Davíð Oddsson og frjálshyggjuna af ábyrgð á óhóflegri og hættulegri skuldasöfnun íslenska þjóðarbúsins.

 

Hvað segja opinberar tölur um skuldirnar?

En hvað segja staðreyndirnar um skuldaþróun íslenska þjóðarbúsins? Það má sjá með skýrum hætti á meðfylgjandi mynd (tölurnar eru frá Seðlabanka Íslands og Þjóðhagsstofnun).

Niðurstaðan er sú, að óhófleg skuldasöfnun hófst frá og með árinu 1998.

Slide1

Tímamótin í skuldasöfnun Íslands urðu frá og með 1998, einmitt eftir að einkavæðing bankanna hafði hafist. Þegar árið 1999 voru erlendar skuldir Íslands orðnar hærri en þær höfðu nokkrum sinnum áður orðið á lýðveldistímanum (frá 1944).

Frá 1999 til 2004 meira en tvöfölduðust erlendar skuldir sem hlutfall landsframleiðslu (úr 81% í 173%). Meira en tvöfölduðust! Það er mjög mikil aukning á alla mælikvarða.

Það sem meira er, árið 2004 var Ísland orðið eitt skuldugasta þjóðarbú heims, eins og tölur Seðlabanka Íslands sýna (hér).

Hvernig er þá hægt að halda því fram að skuldaaukningin hafi ekki byrjað fyrr en eftir 2004? Það er auðvitað ekki hægt nema með því að segja ósatt, blekkja vísvitandi! Enda er það eins ósatt og nokkuð getur verið – og það vita þessir aðilar. Tölurnar sem Hannes birti sýna einnig gríðarlega skuldaaukningu frá 1998 til 2004, þó hann horfi framhjá því í tilraun sinni til að blekkja.

Síðan jukust erlendar skuldir Íslands áfram með stigvaxandi hraða eftir 2004, eins og myndin sýnir. En þá kemur ábyrgð Davíðs Oddssonar aftur til sögunnar.

Frá september 2005 varð Davíð aðalbankastjóri Seðlabankans og átti samkvæmt starfslýsingu að vernda fjárhagslegan stöðugleika Íslands. Of mikil skuldasöfnun er ein alvarlegasta ógnin við fjárhagslegan stöðugleika.

Á vakt Davíðs og félaga í Seðlabankanum fóru skuldir Íslands úr hæstu hæðum í ógnarhæðir – og urðu langt umfram það sem gat staðist. Áhættan jókst á hverjum degi.

Enda hrundi fjármálakerfið á endanum til grunna!

Það þarf talsverða dirfsku til að halda því að fólki að þeir sem stýrðu Íslandi inn í stærsta bóluhagkerfi sögunnar og sem brugðust svo í eftirlitshlutverki sínu er skuldirnar jukust út yfir ystu mörk, hafi ekkert haft með málið að gera.

En þetta reyna menn samt!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar