Föstudagur 28.12.2012 - 21:28 - FB ummæli ()

Ný könnun – Íslendingar bjartsýnastir í Evrópu

Samkvæmt nýrri könnun, sem gerð var fyrir Eurobarometer í nóvember sl. í öllum Evrópuríkjum, þá er niðurstaðan fyrir Íslendinga mjög athyglisverð.

Íslendingar eru nú með allra ánægðustu þjóðum með líf sitt og jafnframt bjartsýnastir Evrópuþjóða á hagfellda þróun á næstu 12 mánuðum. Þetta á við um þróun efnahagslífsins, atvinnuþróun og lífsgæðin almennt.

Hér verða sýndar nokkrar myndir með niðurstöðum úr þessari könnun, sem birt var á vef Eurobarometer nú í desember.

 

Sérstaða Íslands – Botni náð og nú á réttri leið upp

Mynd 1 sýnir svör almennings í Evrópuríkjunum við spurningu um það hvort botni kreppunnar á vinnumarkaði hafi þegar verið náð eða hvort það versta sé enn eftir. Ísland sýnir sig að hafa algera sérstöðu hvað þetta atriði varðar.

Mynd 1: Botni kreppunnar náð eða er það versta eftir? Svör Evrópuþjóða í nóvember 2012 (Heimild: Eurobarometer 78; Capacent á Íslandi)

Um 60% Íslendinga telja að botni kreppunnar á vinnumarkaði sé þegar náð, en einungis um þriðjungur telur það versta eftir. Þetta er mun jákvæðara en í öðrum Evrópulöndum og í mestu kreppulöndunum (Kýpur, Portúgal, Grikklandi) eru um og yfir 80% svarenda sem telja það versta enn eftir.

Næsta mynd sýnir svör við spurningum um hvort aðstæður í viðkomandi landi séu nú að þróast í rétta eða ranga átt. Þar er Ísland einnig með mikla sérstöðu, með mun stærri hluta þjóðarinnar sem telur þróunina í rétta átt en næstu þjóðir (Danmörk og Svíþjóð). Ísland hefur bætt stöðu sína í þessu efni frá því haustið 2011 og vorið 2012 (sjá hér)

Mynd 2: Eru aðstæður í landinu nú á réttri eða rangri leið? Svör Evrópuþjóða í nóvember 2012 (Heimild: Eurobarometer 78; Capacent á Íslandi)

Tæplega 60% svarenda segja Ísland á réttri leið, en næsta landið (Danmörk) er með 46% á sömu skoðun. Meðaltal Evrópuríkjanna er einungis um 24%. Á Írlandi eru einungis um 28% á því að land þeirra sé á réttri leið og meirihlutinn telur Írland á rangri leið. Það er öfugt við niðurstöðuna á Íslandi. Yfirburðir Ísland eru því miklir í þessu efni.

 

Horfur fyrir árið 2013 bestar á Íslandi

Mynd 3 sýnir mat almennings á efnahagshorfum í löndum sínum fyrir árið 2013. Þarna er Ísland aftur í sérstöðu, með mun hærra hlutfall sem segja að efnahagurinn muni verða betri á næstu 12 mánuðum, meira en 10 prósentustigum hærra en hjá næstu löndum (Bretlandi og Danmörku).

Mynd 3: Efnahagshorfur fyrir 2013: betri, svipaðar eða verri? Svör Evrópuþjóða í nóvember 2012 (Heimild: Eurobarometer 78; Capacent á Íslandi)

Eystrasaltslöndin, sem ásamt Íslandi lentu illa í fjármálakreppunni, eru einnig bjartsýn á bata, en ekki nærri jafn bjartsýn og Íslendingar. Aðrar kreppuþjóðir (Kýpur, Portúgal og Grikkland) eru enn mjög svartsýnar og stór meirihluti þeirra spáir versnandi efnahagsstöðu á árinu 2013. Írar, sem lentu í svipuðu áfalli og Íslendingar, eru mun svartsýnni en Íslendingar á efnahagshorfurnar fyrir næstu 12 mánuðina. Hér hefur greinilega gengið betur á endurreisnarbrautinni.

Myndir 4 sýnir mat almennings á horfum í atvinnumálum fyrir næstu 12 mánuðina.

Mynd 4: Telurðu að staða atvinnumála í landi þínu verði betri, svipuð eða verri á næstu 12 mánuðum? Svör Evrópuþjóða í nóvember 2012 (Heimild: Eurobarometer 78; Capacent á Íslandi)

Hér er niðurstaðan svipuð. Íslendingar eru mun bjartsýnni á bata í atvinnumálum en allar aðrar Evrópuþjóðir. Um og yfir 80% íbúa kreppuþjóðanna í suður Evrópu eru frekar á því að staðan hjá þeim versni. Almennt er mikil svartsýni í þessum efnum í Evrópu – nema á Íslandi.

Að lokum má sjá hér hvernig þjóðirnar meta horfurnar fyrir lífsgæðin almennt, á mynd 5. Þar var spurt hvort fólk teldi að líf þess myndi verða betra, svipað eða verra á næstu 12 mánuðum.

Mynd 5: Telurðu að líf þitt verði betra, svipað eða verra á næstu 12 mánuðum? Svör Evrópuþjóða í nóvember 2012 (Heimild: Eurobarometer 78; Capacent á Íslandi)

Þarna eru Íslendingar einungis sjónarmun á undan Svíum, í efstu sætunum. Heldur fleiri Íslendingar eru á því að lífið verði betra, en hjá báðum þjóðunum eru það um 95% almennings sem telja að lífið verði betra eða svipað á næsta ári. Danir og Finnar eru með svipaða niðurstöðu á þann mælikvarða, þó báðar þær þjóðir séu með færri sem segja betra og fleiri er segja svipað.

Innan við 10% almennings í kreppulöndunum Portúgal, Grikklandi og Kýpur telja að líf þeirra verði betra 2013 en nú er. Meirihluti i þessum löndum væntir þess að líf þeirra versni.

 

Niðurstaða

Niðurstaðan er þannig sú, að Íslendingar hafa mikla sérstöðu í hópi Evrópuþjóða. Íslendingar eru með allra hæstu þjóðum hvað snertir ánægju með líf sitt og þeir eru bjartsýnni en aðrar þjóðir á frekari framfarir á næstu 12 mánuðum.

Árið 2013 gæti því orðið Íslendingum gott að mörgu leyti. Íslendingar munu að öllum líkindum saxa á það forskot sem mörg grannríkjanna náðu í lífskjarasamanburði með hruninu hér á landi.

Ísland virðist vera á réttri leið – að mati þjóðarinnar sjálfrar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 26.12.2012 - 10:50 - FB ummæli ()

Ísland er ágætt – þrátt fyrir allt!

Nú þegar jólakyrrðin færist yfir er gott að hugsa um það góða og jákvæða í lífinu.

Þó Íslendingar hafi haft yfir miklu að kvarta eftir hrun og harkalega sé tekist á í þjóðmálaumræðunni, þá eigum við ekki að missa sjónar á því sem er gott og vel gert á Íslandi.

Þrátt fyrir áfall í fjármálum þjóðarinnar er að mörgu leyti gott að búa á Íslandi. Íslendingar eru sér líka ágætlega meðvitaðir um það.

Þetta kom meðal annars fram í könnun sem gerð var í maí síðastliðnum í öllum Evrópulöndum, þar með talið á Íslandi. Capacent Gallup framkvæmdi hér á landi fyrir Eurobarometer.

Spurt var um ánægju með lífið þessa dagana. Við vorum oft mjög ofarlega í svona könnunum fyrir hrun, alveg frá 1984. Síðan hrundum við niður í ánægjustiganum eftir hrunið 2008. En eins og myndin hér að neðan sýnir þá hafa Íslendingar nú endurheimt ánægjustig sitt.

Íslendingar eru nú þriðja ánægðasta þjóðin með líf sitt – í Evrópu allri.

Þetta er enn eitt merkið um að við erum að sigla út úr kreppunni, þó enn gæti víða erfiðleika á heimilum og í atvinnulífi.

Einungis Svíar og Danir eru ánægðari með lífið þessa dagana en Íslendingar. Svíar hafa nær alveg sloppið við kreppuna og Danir lentu ekki í neinu stóru áfalli, þó bankar hafi þar siglt í strand. Kaupmáttur Dana hefur hins vegar haldið sér og jafnvel aukist í kreppunni, enda danska krónan fasttengd Evrunni.

Um 68% Grikkja og 66% Portúgala eru ónægðir með líf sitt þessa dagana. Samsvarandi tala á Íslandi er 4%, samkvæmt könnuninni.

Við Íslendingar þurfum þó vissulega áfram að bæta kjör og skilyrði þjóðarinnar.

Gleymum samt ekki því sem gott er á Íslandi. Flestar þjóðir heimsins hafa fleiri tilefni til að kvarta en Íslendingar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 23.12.2012 - 14:34 - FB ummæli ()

Ævintýri – Djásnið í krúnu Jóskubusku

Jólin eru tími ævintýra. Sagan af frelsaranum sem fæddur var í fjárhúsi er auðvitað eitt áhrifaríkasta ævintýri allra tíma. Þótt kaupahéðnar keppi ákaft við Kristsmenn um yfirráð yfir jólahátíðinni þá tekst þeim ekki til fulls að gera hana að veraldlegri hátíð.

Án töfra og tónlistar guðspjallsins væru jólin bara neysluhátíð.

Ein besta leiðin til að upplifa töfra jólanna er að fara á tónleika í kirkjum landsins á aðventunni. Önnur leið er að fara á tónleika í Hörpu, háborg menningarinnar á Íslandi.

Ég fór um daginn á klassíska jólatónleika Frostrósa í Hörpu, með hinum  stórkostlega Kristni Sigmundssyni og fleiri góðum listamönnum í aðalhlutverki. Með ríflega hundrað manna kór að baki og klassíska hljómsveit að auki hlaut þetta að verða ævintýraleg stund. Sem það sannarlega var.

Þar sem ég sat og naut andartaksins varð mér hugsað til þess hvílíkt ævintýri Harpa sjálf endurspeglar. Í henni kristallast saga þjóðarinnar frá ræningjatíma frjálshyggjunnar til upprisunnar eftir hrunið. Það er mikil saga. Hér kemur hún…

Ræningjar og rummungar höfðu látið greipar sópa um borgina við sundin. Seldu Esjuna og önnur verðmæti landsins og fluttu gróðann í erlendar ræningjaparadísir, svokölluð skattaskjól. Skuldsettu allt sem eftir stóð upp í rjáfur – og létu víxilinn svo falla á almenning.

Jesús Kristur hefði velt borðum þessara víxlara um koll og stuggað þeim á braut, hefði hann verið uppi á þessum tímum!

Leiðtogar víxlaranna vildu byggja monthús fyrir sig og hyski sitt, fyrir lánsfé eins og allt annað sem þeir komu nálægt. Höfðu látið hanna sérstúkur og einkasali í höllinni fyrir yfirstéttina eina. Áttu svo að fá dýrustu lóð borgarinnar til að byggja höfuðstöðvar hrunbankans upp að suðurvegg Hörpunnar.

Þetta skyldi verða háborg mammons – með menningarívafi.

En æðri máttarvöld gripu í taumana og gerðu víxlarana lánlausa. Þá hrundi spilaborgin til grunna, um svipað leiti og beinagrindin að Hörpu var að rísa upp úr jarðveginum.

Almenningur þusti út á strætin og rak ríkisstjórn og bankastjórn rummunganna á braut og sótti Jóskubusku og Steinbrjót til forystu í endurreisnarstjórn. Þeirra beið sviðin jörð fjármálahruns og skuldahelsi að glíma við. Fordæmalaus kreppa í sögu þjóðarinnar.

Ótrauð hófu þau hjúin starfið með liðsmönnum sínum, svokölluðum vinstri mönnum. Höfðu sér til halds og trausts guðspjallamenn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Á undraskömmum tíma tókst að koma böndum á óværuna sem frjálshyggjudraugurinn hafði sleppt lausri úr Pandóruboxi peninganna.

Eitt af afrekum þeirra liðsmanna Jóskubusku og Steinbrjóts var að taka við þrotabúi mammonshallarinnar Hörpu. Í stað þess að láta húsið standa óklárað um áratugi, sem minnisvarða um hégóma, græðgi og heimsku, var ákveðið að klára höllina sem menningarhús íslenskrar tónlistar – án beinnar tengingar við hirðmenn mammons.

Það tókst þrátt fyrir gríðarlegan fjárhagsvanda og erfiðleika í þjóðarbúskapnum. Í fyrra opnaði Harpa svo og hóf starfsemi sína, tónlist og menningu til dýrðar – en án montsala fyrir yfirstéttina.

Svo vel tókst til að undrun vekur um heimsbyggð alla.

Frjálshyggjudindlar og aðrir talsmenn fallinna rummunga láta að vísu enn í sér heyra. Þeir vilja ýmist ekki sjá húsið né þá starfsemi sem þar er, eða beinlínis leggja til að húsið verði notað sem skipaafgreiðsla eða spilavíti, jafnvel hóruhús. Þeir hafa ekki enn látið af mammonsdýrkun sinni og siðleysi. Þeim reynist líka erfitt að skilja að skattar eru verðið sem menn greiða fyrir að búa við siðmenningu.

Ég er að vísu lítill vinstri maður sjálfur, en tek ofan fyrir þeim vinstri mönnum sem endurreistu þjóðarbúið og kláruðu Hörpu á þann glæsilega hátt sem raun ber vitni.

Sómi þeirra er mikill.

Þannig endar ævintýrið vel. Rummungum og ræningjum var stuggað á braut, þjóðin endurreist og Harpa listagyðjunnar kláruð.

Harpan reynist vera eitt dýrasta djásnið í krúnu ríkisstjórnarinnar.

Sumir halda að rummungarnir verði kosnir aftur til valda í vor. Því verður þó varla trúað eftir reynslu liðinna ára.

Það yrði í öllu falli með ævintýralegum ólíkindum!

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 19.12.2012 - 12:38 - FB ummæli ()

Fátækleg frjálshyggja

Birgir Þór Runólfsson, náinn samstarfsmaður Hannesar Hólmsteins og fyrrverandi stjórnarmaður í SpKef, hefur skrifað nokkra pistla um frjálshyggjuvísitölu og lífskjör á Eyjunni undanfarið.

Efnið sem hann er að miðla kemur frá amerísku frjálshyggjuveitunni Frazer Institute, sem er vettvangur hægri róttæklinga á ysta kanti frjálshyggjunnar.

Þessi áróðursveita hefur búið til talnaefni sem virðist sýna jákvætt samband milli frelsisvísitölunnar og fátæktar, sem sé þannig að þar sem frjálshyggjufrelsi sé meira þar sé fátækt minni og lífkjör almennt betri. Þessi samanburður Frazer-manna byggir á því að bera saman hagsælu ríkin á jörðinni við allra fátækustu ríkin. Með því fá þeir það sem kallar er sýndarfylgni (e: spurious correlation). Þetta er einfaldlega blekkingarleikur sem engir fræðimenn á sviðinu né alþjóðlegar hagskýrslustofnanir taka alvarlega.

Í gær fullyrti Birgir Þór að valkostir þjóða snérust um að hafa ójöfnuð og betri afkomu fátækra eða meiri jöfnuð og fátækt allra. Þetta er eins fjarri veruleikanum og hugsast getur. Raunar er það svo að þar sem ójöfnuður er meiri þar er fátækt oftast líka meiri – óháð almennu ríkidæmi þjóða.

Þannig eru þjóðirnar í Skandinavíu með mun jafnari tekjuskiptingu en Bandaríkin og aðrar enskumælandi þjóðir, sem gjarnan eru með háa frelsisvísitölu og meiri ójöfnuð. En samt eru skandinavísku þjóðirnar með góða hagsæld og afar litla fátækt! Það sama á við um margar þjóðir á meginlandi Evrópu.

Bandaríkin eru hins vegar með háa frjálshyggjuvísitölu, mikinn ójöfnuð og afar stóran hóp undir fátæktarmörkum, sem lifir oft við skilyrði sem eiga meira sameiginlegt með löndum þriðja heimsins.

Hvernig er samband frjálshyggjuvísitölunnar og fátæktar í OECD-löndunum, sem vitlegra er að bera saman, enda þjóðir sem eru á sambærilegra þróunarstigi? Niðurstöðuna má sjá á myndinni hér að neðan.

Samband milli hlutfalls íbúa undir fátæktarmörkum 2007 (súlurnar) og frjálshyggjuvísitölunnar (rauða línan). Gögn frá OECD og Heritage Foundation.

Þarna eru notaðar nýjustu tölur OECD um fátækt, sem algengast er að nota í þróuðu löndunum. Fyrir fátækustu þróunarlöndin eru frekar notaðar upplýsingar um fjölda fólks sem hefur minna en 1-2 dollara á dag til framfærslu, en slík mæling hefur litla meiningu í hagsælu ríkjunum á Vesturlöndum.

Eins og sjá má á myndinni er ekkert samband milli frjálshyggjuvísitölunnar og umfangs fátæktar í OECD-ríkjunum (reiknuð fylgni er 0,000 – þ.e. engin!). Því fer fjarri að þjóðirnar sem eru með minni fátækt séu með hærri frjálshyggjuvísitölu (eða “meira frelsi” eins og Birgir Þór kýs að kalla það! Þessi vísitala mælir hins vegar einungis frelsi fjárfesta – en ekkert venjulegt frelsi fólks).

Fátækt í hagsældarríkjunum er raunar minnst þar sem velferðarríkið er öflugast og tekjuskiptingin jafnari.

Bandaríkin, draumaland frjálshyggjumanna, er hins vegar með ótrúlega mikið umfang fátæktar miðað við ríkidæmi þjóðarinnar. Þar fer saman há frjálshyggjuvísitala, mikill ójöfnuður og mikil fátækt. Þetta vita allir (sjá t.d. hér).

Kjör ríka fólksins eru hins vegar afar góð í Bandaríkjunum, ekki síst hinna ofurríku sem taka óvenju stóran hluta þjóðartekna til sín (sjá hér). Þess vegna er minna eftir handa fátækum þar í landi.

Veruleikinn er sem sagt algjörlega öndverður við þann boðskap sem frjálshyggjumaðurinn Birgir Þór kynnir, í boði amerískrar áróðursveitu.

Þannig treður frjálshyggjumaðurinn upp sem falsspámaður – á sjálfri jólaföstunni!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 16.12.2012 - 14:44 - FB ummæli ()

Styrmir í vélarúmi valdsins

Það er mikill fengur að nýrri bók Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, um átök og uppgjör innan Sjálfstæðisflokksins. Þar fæst ómetanleg sýn inn í hin reykfylltu bakherbergi flokksins, þar sem vélað er með valdið í samfélaginu.

Megin erindi bókarinnar er að rétta hlut Geirs Hallgrímssonar í stjórnmálasögunni, en hann hrökklaðist úr formennsku í Sjálfstæðisflokknum og í reynd úr stjórnmálunum, eftir að hafa orðið fyrir nokkrum niðurlægingum á seinni hluta ferilsins.

Bókin nær þó út fyrir þann ramma og reifar ýmis athyglisverð atriði, eins og um eðli og starfshætti Sjálfstæðisflokksins, sem og um uppgjörið við stefnu og starfshætti flokksins frá aldamótum og þátt flokksins í hruninu, sem aldrei var lokið við. Styrmir telur að flokkurinn þurfi að ganga hreinna til verks og horfast í augu við það sem misfórst við frelsisvæðingu athafnalífsins og einkavæðinguna sem flokkurinn framkvæmdi í aðdraganda hrunsins.

Bók Styrmis verður án efa skoðuð í alvöru greiningum fræðimanna á þessu tímabili, vegna þess að hún er innsýn frá þátttakanda úr innsta hring. Styrmir segir að vísu að í bókinni birtist sýn áhorfanda (bls. 12), en við lestur bókarinnar sjáum við hvernig hann var mjög virkur þátttakandi í beitingu valdsins sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði í samfélaginu.

Ritstjórar Morgunblaðsins birtast sem nánir ráðgjafar og samstarfsmenn forsætisráðherra og annarra í flokksforystunni. Raunar gegndu þeir hlutverkum sem eðlilegra hefði verið að framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins gegndi.

Bókin er þó ekki fræðilegs eðlis eða hlutlaus frásögn. Hún er meira eins og dagbók þátttakanda sem vill draga upp „rétta“ mynd af mönnum og málefnum flokksins eða þeim hópi sem hann sjálfur tengdist. Þannig fegrar höfundur mjög formannstíð og störf Geirs Hallgrímssonar, oft á kostnað annarra. Þá er hann stundum afar ósanngjarn gagnvart pólitískum andstæðingum og fer beinlínis með rangfærslur um verk þeirra.

Innsýnin í vélarúm valdsins er mikilvægasta framlag bókarinnar, enda erum við að tala um mesta valdakjarnann í samfélaginu. Það er röstin þar sem mætast forysta Sjálfstæðisflokksins, samtök atvinnurekenda, helstu fjármálamenn og áhrifamestu fjölmiðlar í stjórnmálunum á þeim tíma (Morgunblaðið og Vísir).

Geir Hallgrímsson var, eins og Styrmir segir sjálfur, “höfðingi establishmentsins – hinna ráðandi afla í landinu” (bls. 44). Geir var í senn formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins, atvinnurekndi og áhrifamaður í samtökum atvinnulífsins og einn af stærstu eigendum Morgunblaðsins – raunar  stjórnarformaður þess um langt árabil.

Styrmir lýsir m.a. hvernig hann upplifði merkisafmæli Geirs þannig, að liðsmennirnir voru “komnir til að votta höfðingja sínum virðingu”. Þetta var jú allt “innvígt og innmúrað” í valdakjarnanum, eins og Styrmir sagði í öðru samhengi. Manni verður ósjálfrátt hugsað til senu í einni af Godfather-myndum Coppola!

Óvenjulegt er að stjórnmálamaður sé í svo fjölþættri valdastöðu í okkar heimshluta eins og Geir var, ekki síst á Norðurlöndum. Fara þarf til suður Evrópu eða suður Ameríku til að finna slík dæmi valdasamþjöppunar.

Miðað við lýsingu Styrmis (sem var í senn vinur, stuðningsmaður og skjólstæðingur Geirs) þá var Geir vandaður maður, stefnufastur og heiðarlegur. Hann varð hins vegar fórnarlamb átaka innan flokksins, sem var að sögn Styrmis líkari ormagryfju en lýðræðislegum samtökum (bls. 262).

En um hvað snérust átökin innan flokksins?

Átökin voru fyrst og fremst persónuleg en ekki um ólík viðhorf til málefna. Þetta voru átök manna sem voru málsvarar eigin metnaðar og hagsmuna, segir Styrmir (bls. 226).

Hér á líka við það sem Styrmir sagði við rannsóknarnefnd Alþingis: „ … þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Sjálfstæðisflokkurinn hefur reyndar alltaf talað fyrir einstaklingshyggju og gegn samfélagshyggju. Einstaklingshyggjan virðist hafa náð yfirhöndinni líka í starfsháttum innan flokksins, ef marka má lýsingu Styrmis. Svo slapp hún alveg laus út í óhefta græðgisvæðingu á frjálshyggjutímanum eftir aldamótin 2000, með skelfilegum afleiðingum fyrir þjóðina.  Þetta síðasta er þó útlegging mín, en ekki Styrmis.

Hvað sem líður átökum milli einstaklinga innan flokksins þá horfir Styrmir nokkuð framhjá því að Geir Hallgrímsson var ekki sterkur stjórnmálaleiðtogi. Það gerði hann viðkvæman fyrir samkeppni frá öðrum, eins og Gunnari Thoroddsen, sem hafði augljóslega mun sterkari leiðtogaeiginleika en Geir.

Það má auðvitað segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi valið rangan mann sem formann, þegar valið stóð á milli þeirra Gunnars og Geirs. Geir hafði betur, enda betur tengdur í heimi atvinnurekenda, á Morgunblaðinu og í klíkum ættarveldanna í flokknum. Hann sat hins vegar uppi með skuggann af Gunnari Thoroddsen allan sinn feril. Síðar ógnaði Albert Guðmundsson honum líka, annar sterkur leiðtogi – sem þó var annarar gerðar en Gunnar.

Þegar Geir gerði þau strategísku mistök að afnema kjarasamninga verkalýðshreyfingarinnar (Sólstöðusamningana) skömmu fyrir kosningar 1978 þá hækkaði gengið á keppinautum hans innan flokksins, enda tapaði flokkurinn illa í kosningunum. Illa var líka haldið á stefnumótun fyrir desemberkosningarnar 1979. Staða Sjálfstæðisflokksins veiktist þannig undir forystu Geirs á þessum tíma og á endanum fór Gunnar Thoroddsen fram gegn forystunni og klauf flokkinn með myndun ríkisstjórnar með Framsókn og Alþýðubandalagi í byrjun árs 1980.

Það var meiriháttar áfall fyrir Geir Hallgrímsson og stuðningsmenn hans. Í prófkjöri 1983 höfnuðu flokksmenn síðan formanni sínum. Hann lenti í sjöunda sæti í Reykjavík, tók sætið og féll út af þingi. Lét svo af formennsku í kjölfarið.

Samt tók Geir sæti í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar haustið 1983. Þar sat hann sem utanríkisráðherra uns eftirmaður hans á formannsstóli, Þorsteinn Pálsson, gerði bandalag við aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar um að reka Geir úr ríkisstjórninni 1985, svo Þorsteinn gæti tekið sæti í stjórninni. Enginn hinna ráðherranna vildi víkja fyrir Geir Hallgrímssyni, enda allir alltaf að gæta eigin hagsmuna.

Þetta var auðvitað niðurlægjandi fyrir Geir – jafnvel þó honum væri boðið að setjast í stól seðlabankastjóra, en flokkurinn gat ráðstafað því embætti með þeim hætti, bæði fyrr og síðar.

Síðan ver Styrmir talsverðu rými í umfjöllun um formannstíð Þorsteins Pálssonar (1983-1991), sem hann telur misheppnaða. Það var bæði vegna þess að Þorsteinn hafði ekki vit á að sýna Geir og arfleifð hans næga virðingu (sem hann segir Davíð Oddsson á hinn bóginn hafa gert) og vegna þeirra “mistaka” að reka Albert Guðmundsson úr ríkisstjórninni, þegar upplýstist að hann hafði framið skattsvik sem fjármálaráðherra.

Þó Þorsteinn hafi gert rétt frá siðferðilegu sjónarmiði varð afleiðingin sú, að sérhagsmunagreifinn Albert stofnaði Borgaraflokkinn og fékk um 10% atkvæða í kosningunum 1987, en Sjálfstæðisflokkurinn beið afhroð. Þar með var brautin rudd fyrir formannsframboð Davíðs gegn Þorsteini árið 1991.

Á heildina litið er bók Styrmis vel læsileg og fróðleg. Þrátt fyrir augljósa hlutdrægni og ósanngirni gagnvart sumum sem ekki eru innvígðir og innmúraðir í sömu fylkingu og Styrmir má mikið af bókinni læra.

Þarna sjáum við í skýru ljósu hversu mikil valdasamþjöppunin í kringum Sjálfstæðisflokkinn hefur verið og hvar þræðirnir liggja. Samtök atvinnurekenda, fjármálamenn, fjölmiðlar og flokkurinn spila saman sem einn aðili. Þeir standa saman, þrátt fyrir persónulegu átökin og einstaklingsbundinn metnað.

Að halda völdum er þrátt fyrir allt mikilvægast.

Ritstjórar Morgunblaðsins koma þarna skýrlega fram sem stórvirkir gerendur á sviði stjórnmálanna og taka meðal annars þátt í að falsa fréttir og myndir til að fegra hlut flokksins og halla gegn andstæðingum hans. Þannig var Morgunblaðinu miskunnarlaust beitt sem hluta af flokkskerfinu.

Þetta minnir á stöðu Pravda, málgagns sovétska kommúnistaflokksins, sem gjarnan var gantast með hér á árum áður. Þetta fyrirkomulag er augljóslega enn við lýði á Morgunblaði Davíðs Oddssonar og LÍÚ-manna. Svo harðdræg þjónkun fjölmiðils við stjórnmálaflokk og hagsmunasamtök er auðvitað óvenjuleg í vestrænu samfélagi.

———————————

Í framhaldinu mun ég skrifa tvo styttri pistla um bók Styrmis, annan um það hvernig flokkur Sjálfstæðisflokkurinn er og hinn um áhrif flokksins á þróunina að  hruni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 14.12.2012 - 15:18 - FB ummæli ()

Kjarabarátta ASÍ á villigötum

Ef ég væri í forystu fyrir ríkisstjórninni væri ég búinn að takmarka samstarf við SA og ASÍ all verulega fyrir nokkru síðan.

Samt er ég ekki andvígur því að ríkisstjórnir komi að gerð kjarasamninga með eitthvert innlegg. Hins vegar hefur slík aðild ríkisstjórna farið inn á nýjar brautir á síðustu árum sem eru komnar út úr öllu korti. Stundum súrrealískar. Allt að kröfu aðila vinnumarkaðarins.

Tímabært er því að endurskilgreina samráðskerfið og takmarka aðkomu ríkisstjórna að frágangi kjarasamninga.

Ástæða þess er sú, að kjarabarátta ASÍ er hætt að snúast um að sækja kjarabætur til atvinnurekenda, en gengur í of miklum mæli út á að skrifa langlokur um ástand og horfur í þjóðmálunum í kjarasamninga, sem svo eru túlkaðar út og suður sem “svik” stjórnvalda.

Stöðugleikasáttmálinn 2009 var pakkaður með slíkum hugvekjum og æskilegum markmiðum, sem mörg voru langt utan áhrifasviða aðila samningsins. Til dæmis var þar ákvæði um að stýrivextir skyldu hafa lækkað niður í eins stafs tölu tiltekinn dag nokkrum mánuðum eftir undirritun. Samt gátu samningsaðilar engu ráðin um þá niðurstöðu, heldur Selabankinn einn. Síðar mátti þó nota þetta til að væna ríkisstjórnina um “svik” eða laka stjórn peningamála!

Annað dæmi er ákvæði í kjarasamningum vorið 2011 um fjárfestingu í atvinnulífinu. Þar segir: “Það er markmið stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að (…) fjárfesting verði ekki lægri en 350 ma.kr. á ári.” Ekkert var sagt um hver ætti að fjárfesta – og alls ekki gert ráð fyrir að gjaldþrota ríkiskassinn stæði undir slíkum útgjöldum, enda óhugsandi.

Þegar ljóst varð að þetta markmið náðist ekki að fullu risu atvinnurekendur og forysta ASÍ upp á afturlappirnar og hrópuðu í fjömiðlum að ríkisstjórnin hefði “svikið” samninginn! Þetta var ekki bara ósanngjarnt, heldur beinlínis óheiðarlegt.

Í gær birti ASÍ svo nýja auglýsingu með svikabrigslum. Það sem þar var borið á borð var bæði svo hæpið og ósatt að mann rekur í rogastans!

Lexían getur ekki verið önnur fyrir ríkisstjórnina en að hætta að hleypa aðilum vinnumarkaðarins inn í stefnumótun stjórnvalda eins og gert hefur verið – án þess að þessir aðilar beri ábyrgðina. Sú þróun var hvort eð er komin allt of langt. Valdahroki SA og ASÍ manna er líka orðinn of mikill.

Aðkoma ríkisins að kjarasamningum ætti að vera mjög þrönglega skilgreind og takmörkuð, en ekki fela í sér eins konar ígildi stjórnarsáttmála, eins og tíðkast milli stjórnarflokka.

ASÍ og SA eiga að semja um kjör á vinnumarkaði, en ekki um að senda reikning fyrir hluta samningsins til stjórnvalda. Þeir hafa heldur ekkert umboð frá þjóðinni til að móta stefnu í öllum málum samfélagsins. Þeir geta lýst skoðunum sínum – en ríkisstjórnir hljóta að ráða stefnunni.

Það er líka alveg óþarfi fyrir stjórnvöld að leyfa aðilum vinnumarkaðarins að skreyta sig með því sem ríkisstjórnin gerir vel í störfum sínu og greiðir fyrir. Ekki þurfti t.d. aðkomu SA+ASÍ að áformum um hækkun barnabóta og nýja öfluga fjárfestingaráætlun, sem ríkisstjórnin setur í gang á næsta ári.

Flest af því sem vel hefur tekist og sem ríkisstjórninni hefur verið hælt fyrir erlendis þurfti enga sérstaka aðkomu SA og ASÍ.

  • ASÍ og SA eiga að skemmta hvor öðrum í karphúsinu og takast á, en ekki að fá að þykjast vera eins konar skuggaríkisstjórn. Við þurfum því að breyta samráðskerfinu og ASÍ þarf að skila meðlimum sínum kjarabótum frá atvinnurekendum.
  • ASÍ menn eiga að vera meira en sjóðstjórar lífeyrissjóða og vörslumenn vertryggingarinnar. Þeir eiga að semja um kauphækkanir og styttingu vinnutíma.
  • Þjóðin þarf nú kauphækkun – en ekki síendurtekna áróðursleiki SA og ASÍ forystunnar. Síðasti kjarasamningur fól í sér of hægfara aukningu kaupmáttar.
  • Það ætti einnig að vera mikilvægt markmið fyrir framtíðina, að aðilar vinnumarkaðarins hafi ekki of mikil áhrif á þróun þjóðfélagsins, eins og þeir gerðu fyrir hrun.
  • Samtök atvinnurekenda voru meðal helstu höfunda þeirrar stefnu sem keyrði þjóðarbúið fyrir björg. Þeir virðast enn aðhyllast sömu stefnuna.
  • ASÍ forystan horfði aðgerðalaus upp á þá gríðarlegu ójafnaðar- og óheillaþróun sem reið húsum eftir aldamótin og fram að hruni.
  • ASÍ gerði ekkert þegar barnabætur, vaxtabætur og skattleysismörk lækkuðu ár frá ári, alveg frá 1995 til 2006, sem rýrði verulega kjör félagsmanna launþegahreyfingarinnar, einkum þeirra lægst launuðu.

Menn mættu hafa þetta í huga á jólaföstunni.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 12.12.2012 - 10:33 - FB ummæli ()

Krónan – Evrópumet í kjaraskerðingu

Hrunið á Íslandi var einstakt. Mörg met voru slegin. Stærsta bóluhagkerfi sögunnar brast og við tók stærsta fjármálahrun sögunnar, með nokkrum stærstu gjaldþrotum sögunnar (sjá um það hjá Þorvaldi Gylfasyni).

Eitt metið sem Íslendingar settu hefur þó ekki farið hátt á metorðalistum þjóðanna. Hér varð meiri kjaraskerðing fyrir heimilin en sést hefur annars staðar í kreppunni, raunar fyrr og síðar.  Við getum þakkað íslensku krónunni fyrir það.

Hér eru tvær myndir sem sýna gögn um ráðstöfunartekjur heimila á mann á Íslandi, fyrst með samanburði við hin Norðurlöndin 2003 til 2010, en síðari myndin nær til allra Evrópuríkjanna 2007 og 2010. Tölurnar eru frá Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat) og eru í Evrum.

Mynd 1: Ráðstöfunartekjur heimila á mann frá 2003 til 2010. Norðurlönd og meðaltal ESB. Mælt í Evrum. (Heimild: Eurostat).

Hér má sjá að við vorum á róli með Noregi frá 2005 til 2007, en síðan hrynjum við niður 2008 og 2009. Við fórum úr hæstu meðaltekjum á Norðurlöndum niður í þær lægstu. Vorum samt yfir meðaltali ESB-ríkja 2010. Krónan var of hátt skráð fyrir hrun og ýkti ráðstöfunartekjur okkar þá – en svo refsaði hún okkur svo um munaði.

Það er athyglisvert hvernig ráðstöfunartekjurnar í Noregi vaða áfram uppávið í gegnum kreppuna. Samkeppni okkar og annarra Norðurlanda við Norðmenn er vægast sagt erfið við þessar aðstæður. Undrunarefni að brottflutningur þangað skuli ekki vera enn meiri en raun ber vitni. Hann er þó talsverður.

Það er líka umhugsunarefni fyrir okkur að kreppan lækkar almennt ekki ráðstöfunartekjur heimilanna í Evrulöndunum 17, enda hefur Evran haldið virði sínu í gegnum kreppuna, þrátt fyrir skuldavanda einstakra aðildarríkja.

Evran er augljóslega traust og ver heimilin vel gegn kjaraskerðingum. Þetta má sjá enn betur á næstu mynd sem sýnir stöðuna fyrir kreppu (2007) og svo aftur árið 2010.

Mynd 2: Ráðstöfunartekjur heimila á mann árið 2007 og 2010 í Evrópuríkjum. Mælt í Evrum. (Heimild: Eurostat).

Hér má sjá að Ísland var með hæstu ráðstöfunartekjurnar að jafnaði á árinu 2007, sjónarmun ofar en Noregur. Hrun okkar var þannig hrun úr hæstu hæðum. Þegar við berum okkur saman við tölur ársins 2007, sem voru líklega ósjálfbærar, verður hrunið afar mikið (um 41%), mælt í erlendum gjaldmiðli (Evrum). Mælt í krónum eða með kaupmáttarsamræmingu gjaldmiðla er það minna (um 20% að jafnaði), en mikið samt.

Af myndinni má sjá að hvergi í Evrópu var kjaraskerðingin meiri en hér á landi. Við hrundum úr efsta sæti niður í tólfta sæti. Flestar ESB þjóðirnar hafa haldið ráðstöfunartekjum sínum að mestu leyti og margar hafa aukið þær. Atvinnuleysið er stærsti vandi evrópskra heimila. Aðrar þjóðir sem eru með umtalsverða lækkun tekna heimilanna eru Bretland, Írland, Spánn og Lettland. Eftir 2010 hefur staðan versnað á Írlandi, Spáni,Portúgal og í Grikklandi. Ef miðað er við kaupmáttarleiðrétt gengi er það einungis Lettland sem er á svipuðu róli og Ísland í umfangi kjaraskerðingar.

Við getum þakkað krónunni þetta met, sem virðist án fordæma í yfirstandandi kreppu. Það var gengisfall íslensku krónunnar sem gat af sér stærstu kjaraskerðingu kreppunnar. Gengisfelling krónunnar færir umtalsverðan hluta þjóðarteknanna frá heimilunum til atvinnulífsins.

Ríkisstjórnin gat mildað kjaraskerðinguna fyrir lægri og milli tekjuhópa. Hún varð samt mikil fyrir flesta. Skuldir heimilanna eru nú að jafnaði svipaðar og var fyrir hrun (2006-7) og mikil hækkun vaxtabóta léttir skuldabyrðina. Hins vegar eru ráðstöfunartekjurnar enn miklu lægri en var fyrir hrun. Þess vegna er þetta enn svona erfitt fyrir heimilin.

Íslensk heimili eru leiksoppar þeirra afla sem hafa hag af viðhaldi krónunnar. Gengisfellingarkrónunnar.

Við höfum svo fengið hækkun ráðstöfunartekna á árinu 2011 og 2012, en það er enn alltof lítið miðað við umfang kjaraskerðingarinnar.

Boltinn er hjá aðilum vinnumarkaðarins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 10.12.2012 - 20:49 - FB ummæli ()

Veiðigjald til auðmanna eða þjóðarinnar?

Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður og sérfræðingur í sjávarútvegsmálum Íslendinga, skrifar mjög athyglisverða grein í Fréttablaðið í dag (sjá hér).

Kristinn sýnir á skýran hátt að allt tal útvegsmanna um að hið nýja veiðigjald stjórnvalda sligi rekstur greinarinnar er blekking ein. Sama á við um þær uppsagnir sem einstaka fyrirtæki standa að um þessar mundir. Þær hafa ekkert með veiðigjaldið að gera.

Kjarninn í röksemd Kristins er sá, að útvegsmenn greiða hver öðrum mjög hátt veiðigjald við kaup og sölu kvóta, eða allt að 92% af framlegð greinarinnar. Það er verulega hærra en gjaldið sem ríkisstjórnin ætlar að leggja á greinina.

Nýja veiðigjaldið mun einfaldlega lækka hlut útvegsmanna, sem nemur gjaldinu til þjóðarinnar, en nettó áhrifin á rekstur greinarinnar eru líkleg til að vera lítil sem engin. Hér eru rök Kristins:

“Mikil orrusta stendur yfir um skiptingu arðsins sem fiskimiðin gefa af sér. Sjávarútvegurinn gefur af sér 35-45 milljarða króna árlega svo það er eftir miklu að slægjast. Um 75% af þessari fjárhæð fara til 18 stærstu fyrirtækjanna. Eigendur þeirra eru kannski innan við 200. LÍÚ telur að veiðigjaldið sem Alþingi samþykkti sé fyrirtækjunum ofviða. Kvótinn gengur kaupum og sölum, einkum í gegnum söluskrifstofu LÍÚ, og veiðigjaldið þar er um 92% af framlegðinni og 77% hærra en veiðigjald ríkisstjórnarinnar mun að lokum verða.”

“Útgerðin hefur sjálf myndað sitt eigið veiðigjald með viðskiptum með aflahlutdeild. Verðið á þorskkvóta var í byrjun október um 2.200 kr./kg. Sé miðað við að afnotarétturinn sé til 20 ára eins og útgerðarmenn krefjast er veiðigjaldið 110 kr./kg á hverju ári. Það er 92% af 120 kr. framlegðinni. LÍÚ heldur því fram fullum fetum að þetta veiðigjald sé orðið til á frjálsum markaði og endurspegli getu sjávarútvegsins til þess að greiða fyrir afnotaréttinn sérstaklega til viðbótar við hefðbundinn kostnað við rekstur. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands telur þetta rétt mat í skýrslu frá maí 2010. Viðskiptabankarnir eru á sama máli og lána greiðlega fyrir kvótakaupum á þessu verði.

Veiðigjaldið hefur ekki áhrif á rekstrarafkomu atvinnugreinarinnar heldur breytir skiptingu auðlindaarðsins. Verð á veiðiheimildum milli útvegsmanna mun lækka sem nemur auknum hlut ríkisins. Við það er ekkert að athuga.”

Fróðlegt væri að sjá svör LÍÚ-manna við þessum rökum Kristins H. Gunnarssonar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 8.12.2012 - 15:07 - FB ummæli ()

Sambúð lýðræðis og markaðar

Í þessari grein færi ég rök fyrir því, að aukin áhersla á óhefta markaðshyggju á Vesturlöndum á síðustu áratugum hafi þrengt að lýðræðinu. Þeirri þróun fylgir aukið vald og aukið frelsi peningaafla, ásamt auknum ójöfnuði lífskjara. Hagvöxturinn nýtist yfirstéttinni meira en áður var og reynt er í vaxandi mæli að grafa undan velferðarríkinu. Hagur millistéttarinnar og lágtekjufólks hættir að batna eins og áður var. Aukin samþjöppun peningavalds ógnar þannig almannahag og lýðræði í senn.

Farsælli sambúð lýðræðis og markaðar virðist í auknum mæli vera ógnað. Hér koma röksemdirnar:

 

Lýðræðisskipan stjórnmála og markaðsskipan framleiðslu og viðskipta eru tvær höfuðstoðir vestræna þjóðskipulagsins, lýðræðiskapítalismans. Hvor stoð um sig hefur mikilvægu hlutverki að gegna og saman þurfa þær að vinna og veita gagnvirkt aðhald.

Ef lýðræðið veikist færist meira vald til markaðarins, en þar ræður vald peninganna. Ef of mikil völd færast yfir í stjórnmálin þá getur þrengt um of að markaðinum. Samspil lýðræðis og markaðar er línudans sem þarf að miða að jafnvægi og farsælum útkomum.

Það er áhyggjuefni þegar róttækir markaðshyggjumenn tala af fyrirlitningu um hlutverk og mikilvægi lýðkjörinna stjórnvalda. Það er líka áhyggjuefni þegar auðmenn geta keypt sér völd og áhrif á vettvangi stjórnmála með fjárframlögum til stjórnmálaflokka, eins og er svo algengt í Bandaríkjunum – og reyndar einnig hér á landi.

Það er líka áhyggjuefni þegar þátttakendur í lýðræðislegum stjórnmálum vanda ekki málflutning sinn og virða ekki almannahag, heldur þjóna sérhagsmunum.

Ríkissósíalismi sóvétkerfisins gekk alltof langt í útþenslu ríkisvaldsins og afneitun lýðræðis, sem leiddi einnig til afneitunar markaðsbúskapar. Afraksturinn varð vægast sagt skelfilegur, bæði fyrir mannréttindi og lífskjör almennings.

Óheftur kapítalismi felur í sér hættur, jafnvel þó hann tengist ekki víðtækum mannréttindabrotum eða fjöldamorðum í okkar heimshluta. Helsta hættan af óheftum kapítalisma er sú, að lýðræðið veikist gagnvart peningaöflunum, sem ráða ferðinni á markaðinum.

Eftir 1980 sveiflaðist tíðarandi stjórnmálanna á Vesturlöndum í átt til aukinnar markaðshyggju. Það tengdist bæði breyttu viðhorfi til þjóðmála og hnattvæðingu markaðar og fjármála. Í kjölfarið veiktist lýðræðið, fjármálageirinn varð of valdamikill, brask og skuldasöfnun jókst með aukinni áhættu á fjármálakreppum.

Þegar markaðsöflin verða of sterk í samanburði við lýðræðisöflin, er hætta á að sérhagsmunir yfirstéttar fjármálamanna taki völdin, brjóti niður eftirlits- og aðhaldsstofnanir og grafi undan velferðarríkinu sem þjónar almannahag. Þá eru hagsmunir auðmanna teknir fram yfir hagsmuni almennings.

Þetta er það sem hefur gerst víða á Vesturlöndum í sívaxandi mæli eftir um 1980. Helsta hugmyndarót þessarar breytingar liggur í auknum áhrifum nýfrjálshyggju (neoliberalism). Í þeim hugmyndum er fjandskapur við lýðkjörið ríkisvald höfuðboðskapur.

Allt sem ríkið gerir er sagt slæmt en allt sem einkageirinn gerir er sagt gott, í kreddu nýfrjálshyggjunnar. Slíkur boðskapur hljómar enn á Íslandi, jafnvel þó ekki sé lengra en fjögur ár frá því einkageirinn setti þjóðfélagið á hausinn, með taumlausri græðgi sinni. Það var jú yfirstétt fjármálabraskara og atvinnurekenda sem setti þjóðarbúið í þrot með ofurskuldsetningu.

Millivegurinn (blandaða hagkerfið), með þróttmiklu lýðræði og öflugum samkeppnismarkaði, hefur sýnt sig að vera farsælasta skipan þjóðmálanna. Þannig skipan var víða við lýði á Vesturlöndum á árunum frá um 1950 og fram undir 1980. Það var mesta framfaraskeiðið í sögu mannkyns. Hagvöxtur var mikill og nýttist öllum tekjuhópum og stéttum samfélagsins í svipuðum mæli.

Eftir að róttæk markaðshyggja nýfrjálshyggjunnar varð áhrifameiri frá og með 1980 fór hagvöxturinn að nýtast yfirstétt auðmanna í meiri mæli og almenningur naut ekki framfaranna að sama skapi og áður. Síðan hafa auðmenn víða sótt í sig veðrið og keypt sér aukin áhrif í stjórnmálum og þar með búið enn betur í haginn fyrir sig – oftast á kostnað almennings.

Þetta hefur leitt til aukins ójafnaðar eftir 1980. Slík þróun getur hugsanlega af sér vítahring, með síaukinni samþjöppun auðsins og valdsins í samfélaginu.

Þegar það gerist eru lýðræði og almannahagur í hættu.

Markaðssamfélag án öflugs aðhalds frá lýðræðinu breytist í samfélag þar sem auðmenn einir ráða för.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 7.12.2012 - 14:58 - FB ummæli ()

Hægri róttæklingar herða tökin í USA

Tímaritið Economist, sem lengi hefur verið vel til hægri en hneigist nú meira að hóflegri miðjustefnu, segir frá því nýlega að hægri róttæklingar herði um þessar mundir tökin á áróðurvettvangi bandarískra stjórnmála (sjá hér).

Þannig bendir tímaritið á að í þremur áhrifamiklum hægri áróðursveitum (think-tanks) hafi nýlega verið skipt um æðstu stjórnendur og við taki áberandi róttækari og harðari hægri öfgamenn en fyrir voru. Þó hafa þessar stofnanir þótt vera ansi langt til hægri hingað til!

Þarna er vísað til Cato Institute, Heritage Foundation og American Enterprise Institute.

Fyrir skömmu tók fyrrverandi vellauðugur bankastjóri, John Allison, við Cato veitunni. Hann er sagður mikill aðdáandi Ayn Rand, boðbera hinnar róttækustu einstaklingshyggju, sem vildi því sem næst ekkert lýðkjörið ríkisvald né opinbert velferðarkerfi.

Íslenskir hægri róttæklingar hafa sótt mjög mikið til Cato veitunnar og hafa þeir nýlega hafið útgáfu á þýddum bókum Ayn Rand hér á landi, til að herða róðurinn (sjá hér og hér).

Nýjustu stjórnendaskiptin eru hjá Heritage Foundation. Þar mun setjast við stjórnvölinn einn af róttækari teboðsmönnum Repúblikanaflokksins, Jim Demint. Hann mun sleppa sæti sínu í öldungadeildinni til að einbeita sér að áróðursveitunni.

Hvert sem litið er herða hægri róttæklingar róðurinn í áróðursbaráttunni. Andstæður og óbilgirni bandarískra stjórnmála munu því aukast enn meira – en voru þó miklar fyrir.

Nýjustu fregnir að vestan eru þær að Repúblikanar felldu á þingi tillögu um að Bandaríkin samþykktu sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólk, sem kveður á um að fatlaðir njóti allra mannréttinda og mannfrelsins til fulls og jafns við aðra.

Þetta er sama fólkið og mótar mest viðhorf hægri róttæklinganna í Sjálftæðisflokknum, frjálshyggjufólkið og Eimreiðarhópinn. Beinlínu-samband er til dæmis milli Valhallar, Hádegismóa og Cato Institute.

Með Davíð Oddsson við ritstjórn flokksmálgagnsins ráða þessir hægri róttæklingar för í Sjálfstæðisflokknum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 5.12.2012 - 15:53 - FB ummæli ()

Málþjófar á þingi

Lars Christiansen, hagfræðingurinn glöggi hjá Danske Bank sem sá hvert stefndi á Íslandi strax á árinu 2006, flutti okkur nýja skýrslu um stöðu íslenskra efnahagsmála í morgun.

Niðurstaðan er sú, að vel gangi eftir hið skelfilega frjálshyggjuhrun. Hagvöxtur er meiri en á hinum Norðurlöndunum og við söxum á þau eftir bakfallið. Atvinnuleysi hefur lækkað mun meira en hann átti von á.

Staðan er sem sagt þokkalega góð. Það háir okkur helst að umheimurinn er í basli og við erum með ónýtan gjaldmiðil sem þarf á höftum að halda.

Í þessu samhengi er hlægilegt að fylgjast með málþófi Sjálfstæðismanna um fjárlögin fyrir næsta ár. Allir málsmetandi hagfræðingar umheimsins (AGS, OECD og hinir ýmsu Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, auk Göran Persons og Lars Christiansen) hæla árangri stjórnvalda við að ná tökum á ríkisfjármálunum.

En þá telja vúdú-hagfræðingar Sjálfstæðisflokksins að þeir þurfi að tala mjög mikið um fjárlögin, eins og þeir hafi eitthvað fram að færa! Eða dettur nokkrum manni í hug að svo geti verið?!

Nei, ekki heldur þeim sjálfum, enda hafa þeir ekki lagt fram neinar breytingatillögur við fjárlögin. Bulla bara út í eitt.

Þó kemur í gegn í umræðunni að ástæða fyrir þessu málþófi þeirra er sú, að þeir vilja gerast málþjófar.

Þeir reyna með þessu að eyðileggja áform meirihlutans um að koma nýju stjórnarskránni og nýja kvótafrumvarpinu í gegnum þingið fyrir kosningar í vor. Eru í hagsmunagæslu fyrir auðmenn, eins og fyrri daginn.

Sjálfstæðismenn vilja sem sagt ræna þessum tveimur málum frá þjóðinni.

Þeir eru málþjófar!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 4.12.2012 - 22:53 - FB ummæli ()

Endurreisum Þjóðhagsstofnun

Eygló Harðardóttir, þingkona í Framsóknarflokki, er oft mjög málefnaleg í þingstörfum sínum. Nú hefur hún lagt fram á Alþingi tillögu um að stofnuð verði Þjóðhagsstofa, er starfi í anda Þjóðhagsstofnunar sálugu og heyri undir Alþingi.

Þetta er mikilvægt mál. Stjórnarmeirihlutinn ætti að taka það til alvarlegrar athugunar.

Davíð Oddsson lét leggja Þjóðhagsstofnun niður vegna þess að honum líkaði ekki við sjálfstæði hennar og fagleg vinnubrögð. Hann vildi hafa meiri pólitíska stjórn á upplýsingamiðlun um þjóðmálin.

Mikilvægasta hlutverk Þjóðhagsstofnunar var að leggja óháð mat á þróun þjóðarbúskaparins og helstu þjóðfélagsmála (vinnumarkaðsmál, velferðarmál o.fl.). Þingmenn gátu beint fyrirspurnum til stofnunarinnar og fengið úttektir á staðreyndum deilumála, sem treysti og bætti umræðu og ákvarðanatöku.

Eftir að Þjóðhagsstofnun var lögð niður jókst frelsi óprúttinna áróðursmanna og hagsmunaaðila til að bera á borð ósannindi um mikilvæg mál.

Hér deila menn t.d. um það sem samkomulag er um í öðrum löndum, eins og hvernig skattbyrði og tekjudreifing þróast frá ári til árs. Hvort afkoma sjávarútvegs sé góð eða slæm. Ástæða þessa er sú, að án traustrar faglegrar stofnunar sem úrskurðar í slíkum málum er svigrúm til að ljúga og afbaka of mikið.

Greiningardeildir bankanna, sem voru eins konar auglýsingadeildir útrásarinnar, reyndu að fylla tómarúmið sem skapaðist. Það voru slæm býtti.

Á áratugnum fram að hruni sárvantaði vitræna viðspyrnu fagmanna gegn bulli og vúdú-hagfræði gróðapunga, sem á endanum stýrðu þjóðarbúinu fyrir björg. Reynt var að þagga niður í efasemdaröddum og gagnrýnendum.

Vonandi fær málflutningur Eyglóar Harðardóttur um endurreisn Þjóðhagsstofnunar hljómgrunn að þessu sinni.

Það væri mikið framfaramál.

Mikilvægt er einnig að slík stofnun heyri undir Alþingi, en ekki undir ráðuneyti eins og áður var. Það eflir aðhaldshlutverk Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu og er vel til þess fallið að bæta þjóðmálaumræðuna í samfélaginu – og á þingi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 3.12.2012 - 10:01 - FB ummæli ()

Fjarar undan frjálshyggju?

Það eru tímamót þegar tímaritið Economist kallar eftir miðjupólitík, eins og gerist fyrir skömmu (sjá hér).

Tímaritið hefur lengi verið langt til hægri í pólitík og mikill málsvari frjálshyggju og markaðshyggju, en andvígt velferðarríki og launþegahreyfingu.

Það sem vekur sérstaka athygli við stefnubreytingu Economist er að þeir segja að ójöfnuður í heiminum sé að aukast of hratt. Þeir viðurkenna sem sagt það sem talnagögn og fræðimenn hafa verið að segja, að frjálshyggjusveiflan frá um 1980 hafi leitt til of mikils ójafnaðar í skiptingu tekna og eigna.

Ég sýndi í grein fyrir nokkru hvernig þessi umskipti urðu í Bandaríkjunum eftir að Ronald Reagan komst til valda up 1980, með frjálshyggjupólitík að leiðarljósi. Þá tók ójöfnuður að aukast verulega og alveg fram að fjármálakreppunni (sjá hér).

Um hríð var það partur af röksemdum frjálshyggjuhagfræðinga að ójöfnuður væri góður fyrir hagvöxt. Aukinn ójöfnuður skapaði meiri hvata til framtaks og vinnu sem leiddi til meiri hagvaxtar.

Þetta hefur ekki reynst traust kenning. Hagvöxtur var meiri á áratugunum frá 1950 til 1980 á Vesturlöndum þegar tekjuskiptingin var mun jafnari og hagur millistéttarinnar ört batnandi. Ójöfnuður eykur heldur ekki vinnusemi. Norrænu þjóðirnar sem eru með meiri jöfnuð en Bandaríkin hafa lengi verið með stærri hluta fólks í launaðri vinnu.

OECD (Efnahags- og framfarastofnunin í París) var lengi höll undir kenninguna um að ójöfnuður væri góður fyrir hagvöxt. Meira að segja þeir hafa nú sölsað um eins og tímaritið Economist. Nú talar OECD um mikilvægi hagvaxtar án aukins ójafnaðar (sjá hér).

Þannig eru sífellt fleiri málsmetandi aðilar að draga frjálshyggjuna í efa.

Í Bandaríkjunum sér hins vegar lítið til slíkra efasemda. Þar er róttæk frjálshyggja og markaðshyggja svo rótgróin að fátt fær henni þokað.

Áhrif frjálshyggjunnar í Bandaríkjunum liggja í því, að auðmenn leggja gríðarlegt fé til að viðhalda henni, enda er frjálshyggjan pólitík sem hleður undir hagsmuni auðmanna – og ójöfnuð. Auðmenn kaupa sér pólitísk áhrif með kosningaframlögum sínum og rekstri áróðursveita (t.d. Cato Institute). Þess vegna er frjálshyggja áhrifamikil í báðum stóru flokkunum í Bandaríkjunum.

Fólki er víða að verða ljósara en áður að róttæk frjálshyggja leiðir til ójafnaðar, með fordæmalausu ríkidæmi um leið og hagur millistéttarinnar rýrnar og lágtekjufólki lokast leiðir til að komast áfram í samfélaginu.

Frjálshyggjan leiddi líka til ofurvalds fjármálageirans á kostnað framleiðslugeira samfélagsins á síðustu árum. Flestir fræðimenn kenna frjálshyggjunni að auki um fjármálakreppuna, verstu kreppu heimsins síðan Kreppan mikla reið húsum á fjórða áratug síðustu aldar.

Það er sérstaklega athyglisvert í þessu ljósi, að þrátt fyrir að frjálshyggjan hafi leitt miklar hörmungar yfir íslenskt samfélag með hruninu þá gefa talsmenn hennar ekkert eftir og ætla engu að breyta.

Sjálfstæðismenn voru helstu talsmenn frjálshyggju fram að hruni og þeir eru enn með sömu pólitíkina. Skyldi það vera vegna þess að auðmenn flokksins græddu svona mikið á árunum fram að hruni?

Bíða þeir einungis eftir að hefja leikinn að nýju?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 1.12.2012 - 14:06 - FB ummæli ()

Auðmaður heimtar skjaldborg!

Málefni fyrirtækisins B.M. Vallár vöktu mikla furðu er fyrrum eigandi þess boðaði til blaðamannafundar fyrir nokkrum vikum og bar þungar sakir á Arion banka fyrir að hafa sett fyrirtækið í gjaldþrot. Eigandinn fyrrverandi, Víglundur Þorsteinsson, sakaði einnig ríkisstjórnina um að hafa haft afskipti af málinu og þar með átt þátt í gjaldþrotinu. Sagði fyrirtækið hafa án tilefnis verið sett á “aftökulista”.

Þetta var vægast sagt furðulegur málatilbúnaður.

Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins voru skuldir B.M. Vallár um 10 milljarðar fyrir gjaldþrot og eiginfjárstaðan neiðkvæð um 2,5 milljarða, eða um 35%. Eigendur vildu fá helming skulda afskrifaðan – þar á meðal 2 milljarða frá lífeyrissjóðum – og halda fyrirtækinu áfram. Bankinn hafnaði þessu og héraðsdómur úrskurðaði það gjaldþrota.

Það er erfitt að skilja hvernig steypustöð getur komið út úr ofþensluhagkerfinu með slíkar skuldir. Verkefni við steypusölu voru gríðarleg á árunum fram að hruni, enda var byggt langt umfram þarfir í landinu, auk verkefna við stærstu virkjun landsins. Þetta var einstakt “góðæri” fyrir steypustöðvar!

Flest bendir til að eigendur fyrirtækisins hafi, eins og svo margir aðrir í atvinnulífinu, farið á bólakaf í skuldsett brask og drekkt fyrirtæki sínu með því.

En í málsvörn fyrrum eigandans örlar ekki á neinni sýn á eigin ábyrgð á óförunum. Hann kennir öllum öðrum um, þar með talið ríkisstjórninni, sem hefur enga stjórn á þeim erlendu vogunarsjóðum er eiga Arion banka. Ríkisstjórnin skiptir sér ekki einu sinni af rekstri þess banka sem ríkið þó á, Landsbankanum, en Víglundur taldi að sá banki hefði unnið faglega í málinu!

Nú hefur Fjármálaeftirlitið úrskurðað að ekkert óeðlilegt hafi verið við málsmeðferð og niðurstöðu bankans í máli B.M. Vallár, eftir sérstaka athugun á málinu (sjá hér).

En eigandinn fyrrverandi boðar nú annan blaðamannafund og heldur uppteknum hætti. Gerir ekkert með niðurstöðu FME og ber áfram sakir á aðra.

Honum finnst að hann eigi að fá skjaldborg um sig, þó hann hafi sjálfur rekið fyrirtækið í þrot, á þann hátt sem Viðskiptablaðið greindi frá.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 30.11.2012 - 21:10 - FB ummæli ()

Félagsfræði John Lennons

Smá innsýn…

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar