Mánudagur 3.9.2012 - 11:27 - FB ummæli ()

Davíð og Jóhanna – samanburður leiðtoga

Það er fróðlegt að bera saman áhrif og árangur tveggja stjórnmálaleiðtoga okkar Íslendinga, Davíðs Oddssonar og Jóhönnu Sigurðardóttur.

Davíð er sá forsætisráðherra sem lengst hefur setið á valdastóli. Hann var sterkur og áhrifamikill leiðtogi. Ríkur þáttur í styrkleika hans var góð ræðumennska og örugg framkoma, auk hnyttinna tilsvara á köflum.

Jóhanna hefur setið lengi á þingi, oftast í stjórnarandstöðu. Hún er ekki jafn góður ræðuflytjandi og Davíð og ekki fræg fyrir hnyttni í tilsvörum. Styrkleikar hennar liggja meira í vinnusemi, heiðarleika og einurð en í leikrænni framkomu.

Davíð tók við á samdráttartíma, bæði í heimsbúskapnum og þjóðarbúskap Íslendinga, upp úr 1990. Frá 1995 naut hann hins vegar almennrar uppsveiflu í heiminum sem skapaði Íslandi hagstæð ytri skilyrði, nema árin 2001-2, er smá samdráttar gætti á Vesturlöndum. Davíð hafði mikil tækifæri til að hafa áhrif.

Jóhanna varð forsætisráðherra eftir hrun, þegar þjóðarbúið hafði steytt á skeri. Þjóðin hafði orðið fyrir gríðarlegu fjárhagstjóni og miklir erfiðleikar blöstu við, mun meiri en nokkrum sinnum fyrr í sögu lýðveldisins. Möguleikar hennar til að hafa áhrif voru því mun takmarkaðri en möguleikar Davíðs.

En hvaða árangri skilaði stjórnartími þeirra, hvors um sig?

Árangur Davíðs

Davíð innleiddi frjálshyggjustefnuna í vaxandi mæli frá 1995. Það var mikil breyting í íslenskum stjórnmálum. Frjálshyggjunni fylgdi aukið frelsi, einkum fyrir atvinnurekendur og fjárfesta. Einnig veruleg skattfríðindi fyrir þessa sömu aðila. Frjálshyggjan færði almenningi hins vegar fátt sem máli skipti. Hún var og er hugmyndafræði yfirstéttarinnar.

Stjórnarstefna Davíðs og framkvæmd hennar mistókst hins vegar illa. Hann stýrði þjóðinni inn í stærsta bóluhagkerfi sögunnar. Síðan er hann settist í stól aðalbankastjóra Seðlabankans gerðist hann æðsti stjórnandi íslenska peningakerfisins. Þar átti hann, samkvæmt starfslýsingu, að vernda stöðugleika fjármálakerfisins.

Fjármálakerfið hrundi hins vegar á hans vakt, næstum til grunna. Það var vegna gengdarlausrar skuldasöfnunar banka og fyrirtækja, sem var afleiðing bóluhagkerfisins sem Davíð hafði stýrt okkur inní. Seðlabankinn sjálfur endaði í gjaldþroti. Davíð var sakaður um alvarlega vanrækslu í starfi af Rannsóknarnefnd Alþingis.

Stjórnartími Davíðs er þannig tengdur miklum mistökum sem kostuðu þjóðina gríðarlega fjármuni. Byrðar og skuldir hrunsins munu fylgja okkur um langa framtíð.

Árangur Jóhönnu

Jóhanna hefur alla tíð lagt mikla áherslu á velferðarstefnu, með það megin markmið að bæta hag þeirra sem verr standa í samfélaginu. Að draga úr fátækt og auka jöfnuð kynja og tækifæra hefur verið hennar aðalsmerki. Það er öndverð stefna við frjálshyggjuna sem Davíð aðhylltist.

Jóhanna og lið hennar tók við stjórnartaumum þegar gríðarlegur vandi var skollinn á og hætta á þjóðargjaldþroti blasti við. Ríkissjóður sjálfur var með halla upp á vel yfir 200 milljarða króna og ljóst að erfitt yrði að taka á vanda þjóðarinnar samhliða því að vinna bug á hallanum á ríkisbúskapnum. Kjaraskerðing heimila vegna hruns krónunnar árið 2008 var gríðarleg.

Nú rúmum þremur árum eftir valdatöku ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms er ljóst að mikið hefur áunnist, þrátt fyrir gríðarlegt mótlæti. Þjóðargjaldþroti var afstýrt, ríkisbúskapurinn er að verða sjálfbær á næstu misserum, hagvöxtur er öflugur, kaupmáttur batnandi, atvinnuleysi minnkandi og þjóðin almennt að rétta úr kútnum.

Í samanburði við aðrar þjóðir sem fóru illa út úr kreppunni er árangur Íslands áberandi betri, t.d. í samanburði við Írland, þjóðirnar við Eystrasalt og í Suður-Evrópu. Hér tókst að hlífa lægri og milli tekjuhópum við verstu afleiðingum kjaraskerðingarinnar. Það var í samræmi við langtíma áherslur Jóhönnu og samstarfsfólksins í ríkisstjórninni.

Samanburður

Að þessu leyti má segja að stefna og stjórnarathafnir hafi verið mun árangursríkari hjá Jóhönnu og stjórn hennar en hjá Davíð og liði hans, bæði í ríkisstjórn og Seðlabankanum.

Jóhanna er þannig með pálmann í höndunum, en Davíð er leiðtogi sem brást. Samt var hann sterkur persónuleiki og ágætlega listhneigður einstaklingur. Hann var hins vegar með slæma stefnu og slæma ráðgjafa. Hann leiddi þjóðina í ógöngur.

Í ljósi þessa er leiðinlegt að sjá hvernig Davíð Oddsson fjallar um menn og málefni almennt í nýju hlutverki sínu sem ritstjóri Morgunblaðsins, m.a. um eftirmenn sína í landsstjórninni. Þar ráða systurnar lágkúra og lítilmennska för. Stuðningsmanna sinna og þjóðarinnar vegna ætti Davíð hins vegar að rísa upp úr þeirri lægð sem hann nú er í.

Hann ætti að viðurkenna alvarleg mistök sín, biðja þjóðina afsökunar á þeim og leggja endurreisn þjóðarbúskaparins lið frekar en að rífa linnulaust niður það sem vel er gert.

Davíð yrði án efa vel tekið ef hann sýndi þá auðmýkt og heilindi sem honum væri sæmandi. Hann var jú þjóðarleiðtogi okkar um hríð.

Þó margt hafi misfarist á stjórnartíma Davíðs sveigðist þrátt fyrir allt sumt annað til betri vegar. Fólk mun örugglega vilja fyrirgefa honum mistökin, setja punkt við það liðna og horfa til framtíðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 2.9.2012 - 23:31 - FB ummæli ()

Kreppur kapítalismans í samhengi – myndband

Hér er fróðleg umfjöllun David Harvey um kreppur kapítalismans. Hann fjallar um helstu tegundir skýringa á kreppum og síðan sérstaklega um fjármálakreppu nútímans.

Sjónarhorn Harveys einkennist af gagnrýni á óhefta markaðshyggju. Myndbandið er skýrt og greinargott og gagnlegt hvort sem menn eru sammála sjónarhorni höfundar eða ekki.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.9.2012 - 11:28 - FB ummæli ()

Hættuleg einfeldni frjálshyggjunnar

Frjálshyggjumenn eiga það sameiginlegt með marxistum að trúa á eins konar lögmál um mannlífið. “Lögmálin” eru altækar kenningar sem einfalda veruleikann og veita forskrift sem iðuglega er einföld og einstrengingsleg. Ef “lögmálinu” er fylgt út í æsar fer iðuglega illa, því mannlífið lýtur ekki föstum einföldum lögmálum.

Joseph Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, sagði í viðtali árið 2008 að fall Wall Street og fjármálakreppan sem því fylgdi væri dauðadómur yfir frjálshyggjunni, líkt og fall Berlínarmúrsins var yfir kommúnismanum.

Kommúnistar hafa almennt orðið hægt um sig. Frjálshyggjumenn gefa hins vegar hvergi eftir. Viðurkenna enga annmarka á lögmálum frjálshyggjunnar og hins óhefta markaðar. Sækja frekar í sig veðrið, vel vopnaðir styrkjum frá auðmönnum, sem kunnar að meta þau fríðindi sem framkvæmd frjálshyggju iðuglega færir þeim.

Í Fréttablaðinu í dag er grein um frjálshyggju og Milton Friedman, sem er gegnsýrð af þessari einfeldni sem rétttrúuðum lögmálsmönnum er svo hætt við. Þar rekur Guðmundur Edgarsson málmenntafræðingur fjórar leiðir til ráðstöfunar peninga, að hætti Friedmans, og dregur djarfar ályktanir.

1. Að eyða eigin peningum í sjálfan sig er best (sérhyggja og eigingirni). 2. Að eyða eigin fé í aðra er næst best (góðgerðarstarf). 3. Að eyða annarra fé í sjálfan sig er forskrift að bruðli (nýta t.d. risnuheimildir). 4. Og loks að eyða annarra fé í þriðja aðila er versta ráðstöfun fjár, en það tengir hann við stjórnmál eingöngu (ráðstöfun ríkisins á skattfé).

Nú er þessi framsetning trúverðug í augum flestra, þ.e. sú trú að menn fari jafnan best með eigin fé og viti best hvernig beri að verja því. Hins vegar horfir framsetningin framhjá því að svo er ekki sjálfkrafa né alltaf.

Væntanlega er þó mörgum ljóst að margir eru til sem fara illa með eigin fé, hafa hvorki ráðdeild til skemmri né lengri tíma. Ef ekki væri t.d. skylduaðild að lífeyrissparnaði eða almannatryggingakerfi myndu margir trassa að leggja til hliðar fyrir óvæntum áföllum og framfærslu í ellinni. Stæðu óvarðir fyrir algengum áföllum og fyrirséðum þörfum framtíðar.

Leiðir 2 til 4 geta einnig vel verið í góðu lagi, m.a. fyrir áhrif siðferðisvitundar, skýrra leikreglna, eftirlits og aðhalds hvers konar sem víða er að finna í mannlífinu, ekki síst í opinbera kerfinu.

Allar þessar fjórar leiðir geta því bæði tekist vel eða illa. Það er yfirleitt undir mörgu komið hvernig farnast. Sumar leiðir eiga betur við á einu sviði, aðrar á öðru.

En teknar á hinn einfeldningslega máta, eins og hinum trúuðu lögmálsmönnum er hætt við, þá verða forskriftirnar undarlegar og villandi – jafnvel hættulegar.

Þessi framsetning frjálshyggjumanna, að stjórnmálamönnum einum sé hætt við að fara illa með fé, t.d. bannar nánast lýðræðisleg stjórnmál eða gerir veg þeirra sem minnstan. Í staðinn vilja frjálshyggjumenn veg markaðarins sem mestan, en þar ráða auðmenn oftast för. Stefna frjálshyggjumanna magnar upp vald auðmanna en hamlar lýðræðinu.

En er ráðstöfun stjórnmálamanna alltaf verri en fésýsla einkaaðila?

Tökum dæmi. Í Bandaríkjunum er heilbrigðisþjónusta einkum rekin af einkaaðilum, en í Skandinavíu er slíkt kerfi að mestu rekið af opinberum aðilum fyrir skattfé. Bandaríska kerfið er um 50% dýrara en þau skandinavísku en skilar samt lakari árangri en þau á flesta mælikvarða tryggingaverndar og heilbrigðis þjóðanna. Þarna er dæmi um að ráðstöfun stjórnmálamanna á skattfé tekst mun betur en ráðstöfun einkarekstraraðila á forsendum markaðarins.

Greinarhöfundur sagði að ráðstöfun á annarra fé til þriðja aðila (leið 4) sé bundin við stjórnmál ein og vegna óskynsemi stjórnmálamanna beri að takmarka svigrúm þeirra eða jafnvel úthýsa þeim. Samt er meira aðhald með ráðstöfun opinberra fjármuna en fjármuna í einkageira. Um það má fræðast ítarlega í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

En þessi ágæti frjálshyggjumaður horfir framhjá því hversu algengt er á almennum markaði að leiðir 3 og 4 séu farnar, þ.e. að ráðstafa annarra fé til sjálfs sín eða til þriðja aðila. Risna er t.d. miklu meiri í einkageira en opinbera geiranum.

Tökum fleiri dæmi. Útrásarvíkingar voru iðuglega að ráðstafa lánsfé (annarra fé) til sjálfra sín eða fyrirtækja sinna. Lögðu nær aldrei fram umtalsvert eigið fé heldur bröskuðu mest með lánsfé. Kúlulánin eru skýrasta birtingarmynd þessa.

Bankamenn ráðstöfuðu annarra fé (erlendu lánsfé) til þriðju aðila (atvinnurekenda og braskara). Stór hluti af því sem fram fer á óheftum fjármálamarkaði er af þessum toga og er í reynd ein af stóru áhættunum sem honum fylgja.

Þess vegna er aðhald og eftirlit svo mikilvægt á fjármálamörkuðum. Frjálshyggjumenn vilja hins vegar sem minnst eftirlit. Þeir vilja óheft frelsi til brasks með annarra fé – jafnvel þó því fylgi miklar áhættur fyrir samfélagið allt.

Óheft frelsi fjármálaheimsins var ein af stærstu orsökunum fyrir alþjóðlegu fjármálakreppunni. Sama frelsið bjó til íslenska bóluhagkerfið sem hrundi. Það sýnir veikleika óheftra markaðshátta, bæði í fjármálum og á öðrum sviðum.

Fjármálamenn frjálshyggjunnar hugsuðu djarflega um eigin hag – og stefndu með því þjóðarhag í voða. Ósýnilega höndin (guð frjálshyggjunnar) kom okkur ekki til bjargar, heldur sýnileg hönd ríkisvaldsins.

Svart-hvítur heimur frjálshyggjumanna er því miður of mikil einföldun – líkt og marxisminn var.

Hættuleg einföldun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Föstudagur 31.8.2012 - 09:29 - FB ummæli ()

Síminn – misheppnuð einkavæðing

Nú berast fregnir af því að skuldir séu að sliga félagið Skipti sem er eignarhaldsfélag Símans. Félagið tapaði nærri tveimur milljörðum í fyrra og tapið á fyrri helmingi núverandi árs er 2,6 milljarðar.

Forstjóri Skipta segir að þetta gangi ekki upp til lengri tíma og skuldirnar skerði samkeppnishæfni og fjárfestingargetu félagsins. Megnið af skuldunum er sagt vera vegna kúlulána sem tekin voru til að fjármagna kaup á Landssímanum við einkavæðingu hans árið 2005. Þau á að greiða upp á næstu tveimur árum!

Einkavæðing félaga í eigu ríkisins var trúaratriði á frjálshyggjutíma Davíðs og Hólmsteins – og er enn hjá Sjálfstæðismönnum og mörgum öðrum.

En rifjum aðeins upp rökin fyrir einkavæðingu Landssímans. Helstu rökin voru sú trúarsetning hægri róttæklinga að einkaaðilar (auðmenn) geri allt betur en ríkið. Því eigi að skera ríkið niður eins og hægt er og komu öllu verðmætu sem þar er í hendur auðmanna.

Landssíminn var hins vegar gott fyrirtæki, með tækni í fremstu röð, ágæta þjónustu og símagjöld sem voru með þeim lægstu í Evrópu.

Halló! Tókuð þið eftir þessu?

Landssíminn var með ein lægstu notendagjöld fyrir símaþjónustu í Evrópu fyrir einkavæðingu og hafði lengi verið. Flest verð á Íslandi eru með þeim hæstu í heimi. En ekki símagjöldin hjá Landssímanum. Þau voru óvenju lág!

Auk þess skilaði Landssíminn ágætum hagnaði af rekstri á hverju ári í ríkissjóð og hafði gert um langt árabil. Þetta var fyrirtæki í eigu þjóðarinnar og ágætlega rekið af fagmönnum.

Þetta var sem sagt afhent auðmönnum og bröskurum sem tóku kúlulán til að greiða kaupverðið. Nú ræður reksturinn ekki við skuldirnar og er ekki samkeppnishæfur. Stefnir í þrot árið 2013 nema hægt verði að endurfjármagna kúlulánin til langs tíma.

Skuldirnar eru innan rekstrarins og því greinilega gert ráð fyrir að rekstur Símans borgi kaupverðið. Viðskiptavinum Símans var ætlað að greiða kaupverðið fyrir “eigendurna”.

Þetta er það sem kallað var “algjör snilld” af bröskurum Sjálfstæðisflokksins í áramótaskaupinu eftirminnilega.

Gott fyrirtæki sem þjóðin hafði byggt upp með viðskiptum sínum á löngum tíma var afhent auðmönnum til að braska með í spilavítum. Þeir lögðu ekkert til en græddu vel.

Nú, sjö árum eftir einkavæðingu, blasir kaldur veruleikinn skýrlega við.

Einkavæðing Landssímans voru gríðarleg mistök. Hagsmunum þjóðarinnar var fórnað fyrir skammtímagróða auðmanna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Fimmtudagur 30.8.2012 - 00:14 - FB ummæli ()

Hroki og furðutal útvegsmanns

Guðmundur Kristjánsson í Brimi fer mikinn í viðtali við Útvegsblaðið. Hann segir tal þeirra sem gagnrýna skipan sjávarútvegsmála byggjast á öfund, lýðskrumi og fávisku, svo nokkuð sé nefnt. Hann segir sjávarútveg vera vel rekinn og farinn að skila hagnaði núna. Því sé fásinna að breyta nokkru.

Hann nefnir þó ekki að nærri 50% gengisfelling krónunnar frá 2007 til 2009 hafi bætt afkomu útgerðarinnar stórlega. Það er sama gengisfellingin og rýrði kaupmátt ráðstöfunartekna heimilanna um 28% að meðaltali frá 2008 til 2010. Hagnaður útvegsmanna var tap heimilanna.

Vel rekinn sjávarútvegur, sagði hann? Útvegsmenn juku skuldir sjávarútvegsfyrirtækja um nálægt 500 milljarða á áratugnum fram að hruni, en fjárfestu í greininni fyrir rétt um 90 milljarða. Hin gríðarlega aukna skuldsetning fór sem sagt að mestu í annað en endurnýjun greinarinnar, t.d. fjárfestingu í öðrum greinum, eignabrask hér og erlendis. Það þýðir væntanlega að gríðarlegt fé hafi verið dregið út úr greininni en skuldir skildar eftir. Er það góður rekstur?

Gengisfellingin sem rústaði afkomu heimilanna gerði sem sagt að verkum að nú er afkoman góð. Útvegsmenn þakkar sér það! Svo fengu þeir líka ríflegar afskriftir skulda sinna hjá bönkunum. Mun meira en heimilin. Hann gleymir því!

Guðmundur kallar líka arfavitlausar þær aðgerðir sem ríkisstjórnin er að gera, með nýju veiðileyfagjaldi og breytingum á stjórnkerfi fiskveiðanna. Þó er bara lítill hluti af gengisgróðanum tekinn til baka með hinu nýja veiðileyfagjaldi. Raunar of lítill. Hagnaður verður samt verulegur áfram.

Svo segir hann stjórnvöld hata sjávarútveg! En þau eru einungis að bregðast við langvarandi óánægju meirihluta þjóðarinnar með óeðlilega skipan sjávarauðlindarmála. Fara þó hóflega, sigla milli skers og báru og gæta þess að útvegsmenn haldi samt miklu af fríðindum sínum.

Sennilega eru stjórnvöld of tillitssöm við útvegsmenn, því þeir vilja ekki miðla málum né koma neitt til móts við þjóðina. Það hafa þeir ítrekað sýnt með hroka sínum og yfirgangi.

Svo vilja þeir auðvitað ekki lofa þjóðinni að leita leiða til að losa sig við krónuna og þær áhættur sem henni fylgja fyrir heimilin. Leggja stórfé til útgáfu áróðursdagblaðs til að halda þjóðinn í helgreipum sínum og krónunnar. Vilja nánast banna að aðrar leiðir séu skoðaðar.

Loks toppar Guðmundur sjálfan sig með fullyrðingu um að enginn eigi fiskinn í sjónum. Fiskurinn eigi sig sjálfur! Ég læt teiknarann snjalla, Halldór Baldursson, um að svara þeirri fullyrðingu.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Miðvikudagur 29.8.2012 - 09:53 - FB ummæli ()

Svar Neytendasamtakanna

Í gær skrifaði ég pistil um afnám verðmerkinga á unninni matvöru hér á landi. Þar kvartaði ég yfir sinnuleysi Neytendasamtaka, Neytendastofu, Talsmanns neytenda og launþegafélaga gagnvart því að ekki sé farið að lögum um að verðmerkingar söluvöru skuli vera skýrar og aðgengilegar fyrir neytendur.

Þuríður Hjartardóttir framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna sendi mér eftirfarandi athugasemd við skrif mín:

„Sæll Stefán

Þó ég hafi lítið skipt mér af bloggfærslum á vefmiðlum hingað til, þá er
ég knúin til að svara þeirri gagnrýni í nýjustu bloggfærslu þinni á mig og
samtökin sem ég starfa fyrir.

Eins og þú kannski sjálfur veist þá er óhjákvæmlegt að fréttaviðtal sé
klippt í búta og ég saknaði þess í fréttaviðtalinu sem þú vísar í að klippt
var út þar sem ég ítrekaði að vissulega er ekkert sem bannar verslunum að
verðmerkja þessar vörur með endanlegu verði og Neytendasamtökin teldu það
ávalt vera besta kostinn. En það er eitthvað sem ekki kom fram og þú gast
ekki vitað það.

En í blogginu þínu segir: Hún sagðist hafa óljósar hugmyndir um að
samkeppni milli framleiðenda hefði aukist eftir að verðmerkingar voru
aflagðar og verðkannanir ASÍ virtust einnig benda til þess. Kemur það í
staðinn fyrir verðmerkingar?
Þarna er fréttamaður að fjalla um viðbrögð Samkeppniseftirlitsins við því
að Hagar og nokkar kjötvinnslur voru dæmdar fyrir verðsamráð með
forverðmerkingum á kjötvörum.  Samkeppniseftirlit setti blátt bann við  að
framleiðendur myndu ákveða verð og merkja vöruna, heldur ættu smásalar að
ákveða verð og merkja þær sjálfir. Eina sem ég sagði var að
Neytendasamtökin hefðu ekki kannað það sérstaklega hvort samkeppnin væri
virkari eftir þessar aðgerðir en við sæjum ekki ástæðu til að rengja
greiningu Samkepniseftirlitsins úr verðkönnunum ASÍ  og þeir hafa komist að
þeirri niðurstöðu að samkeppnin á kjötmarkaði er orðin virkari
(http://www.samkeppni.is/utgafa/pistlar/nr/1988). Það var nú allt og sumt
sem ég sagði um það og ég skil ekki spurningu þína um hvort virk samkeppni
komi í staðinn fyrir  verðmerkingar? Ég bara veit ekki hvað þú ert að
meina. Skýrar verðmerkingar eru forsendur fyrir virkri samkeppni.

Svo segir þú: Framkvæmdastjórinn segir að fólk sé að venjast verðskönnum
og gefur sér augljóslega að þetta sé komið til að vera – og bara í fínu
lagi. En ég sé nær aldrei nokkurn mann nota skannana í þeim búðum sem ég
versla við!
Ég sagði hvorki að þetta sé í fínu lagi né að það sé komið til að vera. Ég
sagði að holskefla kvartanna barst til Neytendasamtakanna í upphaf þessara
breytinga en hefur fækkað (jú fólk er kannski að venjast þessu, hvað veit
ég?). Sjálf leita ég frekar eftir kílóverði en stykkjaverði á þessum vörum
og það er í reglum að einingaverð á að sjást við alla vörur. Það getur vel
verið að þú sjáir aldrei neinn nota þessa skanna, en þá vil ég vita sást þú
einhvern tímann neytendur burðast við að draga frá í huganum auglýstan
afslátt af verðmiðanum sem kjötvinnslan setti á vöruna fyrir smásalann, hér
áður? En hlutirnir voru ekki í lagi og ég er ekki endilega að segja að
hlutirnir séu komnir í lag þó það fækki kvörtunum til okkar.

Að lokum segir þú: Stefnan er sem sagt sú, að festa þessa ófremd í sessi
og auka vinnu og óþægindi neytenda við innkaupin. Neytendasamtökunum er
greinilega alveg sama þó matvæli séu óverðmerkt.

Fleiri kjötvörur eru nú orðnar staðlarar í þyngd þar sem eininga og
stykkjaverð eiga að vera merkt við vöruna en það er vissulega vandamál
varðandi kjötvörur í mismunandi þyngd. Kílóverð verður samt að sjást við
vöruna og rétt eins og þegar keypt er kjöt yfir borðið, þá eru kílóverð þær
upplýsingar sem neytandinn fær og hann sér ekki endanlegt verð fyrr en
kjötkaupmaðurinn hefur vigtað vöruna.  Það var leitað leiða til að koma til
móts við seljendur án þess að kostnaður yrði það mikill að það bitnaði á
verði til neytenda og ég tel að það hafi verið rétt að gera þessa tilraun.

Neytendasamtökin eru á vaktinni og fylgjast með hvernig málin þróast.  Við
leggjum ekki blessun okkar á lélegar eða engar verðmerkingar og höfum
aldrei gert.  Það er og hefur alltaf verið krafa samtakanna að verslanir
fari eftir reglum og hafi verðmerkingar í lagi. Sjá m.a.
http://www.ns.is/ns/ns/frettir/frettir_2011/?ew_news_onlyarea=Content&ew_news_onlyposition=4&cat_id=81332&ew_4_a_id=379381
og það eru ótal fleiri fréttir á ns.is sem sýna það.

Þannig að mér finnst þetta ósanngjörn skrif og endurspegla ekki það sem
kom fram í fréttinni.

kveðja
Þuríður Hjartardóttir
Framkvæmdarstjóri Neytendasamtakanna“

„Það er og hefur alltaf verið krafa samtakanna að verslanir
fari eftir reglum og hafi verðmerkingar í lagi“, segir Þuríður. Ég rengi þetta ekki og tek fram að ég met starf Neytendasamtakanna mikils.

En spurningin er þó áfram þessi: Á að gera eitthvað til að fá fram verðmerkingar sem eru í samræmi við lög og reglur?

Flokkar: Lífstíll · Viðskipti og fjármál

Þriðjudagur 28.8.2012 - 14:42 - FB ummæli ()

Gagnslaus neytendavernd?

Um daginn skrifaði ég um þá furðulegu þróun að verðmerkingar unninna matvæla eru að leggjast af í verslunum hér á landi. Í staðinn er neytendum ætlað að setja vörur í skanna og finna þannig út hvert verðið er.

Þetta er bæði óaðgengilegt og tímafrekt og hamlar eðlilegum neytendaháttum. Fólk þarf að geta séð í flýti hvert verðið er.

Öll vara er merkt með límmiða með upplýsingum um viðkomandi stykki. Þar eru upplýsingar um innihald, lýsing vöru, einingaverð og strikamerki – allt nema söluverðið sjálf á viðkomandi stykki. Hvers vegna má ekki láta tölvuna setja söluverðið inn á miðann?

Sumir neytendur þurfa að geta haldið útgjöldum sínum í skefjum. Ef það á að vera hægt með góðu móti þarf að vera auðvelt að sjá verðið á hverju stykki í hillunum. Er það ekki augljóst?

Þarf ekki að efla verðskyn neytenda? Gerist það með því að leggja beinar verðmerkingar af? Eða er markmiðið að deyfa verðskyn neytenda?

Framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna var í sjónvarpinu í gær að tala um þetta.

Hún sagðist hafa óljósar hugmyndir um að samkeppni milli framleiðenda hefði aukist eftir að verðmerkingar voru aflagðar og verðkannanir ASÍ virtust einnig benda til þess. Kemur það í staðinn fyrir verðmerkingar?

Framkvæmdastjórinn segir að fólk sé að venjast verðskönnum og gefur sér augljóslega að þetta sé komið til að vera – og bara í fínu lagi. En ég sé nær aldrei nokkurn mann nota skannana í þeim búðum sem ég versla við!

Stefnan er sem sagt sú, að festa þessa ófremd í sessi og auka vinnu og óþægindi neytenda við innkaupin.

Neytendasamtökunum er greinilega alveg sama þó matvæli séu óverðmerkt. Samt eru lögin skýr:

“Grundvallarreglan er að allar vörur og þjónusta sem seldar eru neytendum skuli verðmerkja þannig að auðvelt sé að sjá verðmerkinguna (mín undirstrikun). Ein af forsendum þess að neytendur geti fylgst með verðlagi og eflt verðskyn sitt eru verðmerkingar. Góðar verðmerkingar gefa neytendum þannig mikilvægar upplýsingar til þess að þeir geti verið virkir þátttakendur á hinum frjálsa markaði” (III. kafla laga nr. 57/2005).

Hvers vegna sætta Neytendasamtökin sig við að ekki sé farið eftir neytendalögum í matvöruverslunum?

Er þörf fyrir neytendavernd sem er svona sinnulaus um stóra hagsmuni neytenda?

Hvað segja ASÍ, Talsmaður neytenda og Neytendastofa?

Flokkar: Lífstíll · Viðskipti og fjármál

Mánudagur 27.8.2012 - 00:27 - FB ummæli ()

Réttlæti Sjálfstæðismanna

Frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum hafa um árabil talað fyrir breytingum á tekjuskatti einstaklinga og fjölskyldna. Þeir vilja flatan 20% skatt á alla og enga frádrætti (þ.e. skatturinn yrði án persónuafsláttar eða skattleysismarka, barnabóta, vaxtabóta o.s.frv.).

Allir myndu greiða sama hlutfall tekna sinna, óháð því hveru háar tekjurnar eru.

Pétur Blöndal var í síðdegisþætti Bylgjunnar um daginn og boðaði fagnaðarerindið. Sagði að það myndi einfalda skattkerfið. Gott væri að losna við alla þessa frádrætti og ekki ætti að nota skattkerfið til að endurdreifa tekjum, með meiri álagningu á hærri tekjur.

Þetta fannst Pétri Blöndal réttlátt, sniðugt og tímabært. Þáttastjórnendur tóku fagnandi undir.

En hvað myndi felast í svona breytingu á skattkerfinu?

Jú, skattbyrði lágtekjufólks myndi stórhækka og skattbyrði hátekjufólks myndi lækka verulega. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan. Allir myndu færast á 20% línuna bláu.

Mynd 1: Beinir skattar sem % heildartekna fjölskyldna (raunverulega greiddir skattar að teknu tilliti til álagningar og allra frádráttarliða). Gögn Ríkisskattstjóra.

Ef allir myndi greiða 20% flatan skatt án frádrátta myndi skattbyrði lágtekjufólks (lægstu 10% heimila) hækka úr -3%, eins og nú er, í +20%.

Í stað þess að sumt lágtekjufólk á vinnumarkaði, t.d. einstæðar mæður, lágtekjuhjón með mörg börn og öryrkjar fengju endurgreitt frá skattinum (í barna- og vaxtabótum), þá þyrftu þau að greiða full 20% af tekjum sínum í beina skatta.

Meira að segja millitekjufólk myndi fá á sig hækkun úr 19% í 20%. Í reynd myndi skattbyrði meira en helmings allar fjölskyldna hækka, mest hjá þeim tekjulægstu.

En allra tekjuhæsta fólkið myndi fá lækkun úr 33% í 20%.

Þetta væri sem sagt breyting sem færði stóran hluta af skattbyrði hátekjufólksins yfir á lágtekjufólkið. Þetta yrði mun meiri breyting til sömu áttar og framkvæmd var á Davíðstímanum, frá 1995 til 2004. Það var bara forsmekkurinn – eins konar æfing.

Þáttastjórnendur á Bylgjunni gætu hugsanlega fengið á sig skattahækkun við svona breytingu!

Þetta er sem sagt hugmynd Sjálfstæðismanna um réttlæti. Hlífa breiðu bökunum en leggja byrðarnar á þá sem minnst hafa.

Þetta er reyndar svo róttæk hugmynd að hún hefur hvergi verið framkvæmd, eins og Pétur Blöndal viðurkenndi. Raunar er hún óvíða til umræðu nema hjá allra róttækustu frjálshyggjumönnum. En þetta er á dagskrá í Valhöll.

Milton Friedman, sem líka var frjálshyggjumaður, hefði ekki skrifað upp á slíka róttækni. Hann vildi hlífa lágtekjufólki með skattleysismörkum sem væru jafn há og lágmarkslaun. Hugmyndin um flatan 20% skatt gengur meira að segja í berhögg við hugmynd Adams Smiths um eðlilega skattbyrði. Hann vildi leggja meiri byrðar á þá sem breiðu bökin hafa.

Frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum eru þannig komnir út á yzta væng hægrisins í heiminum. Umdeildar skattalækkanir Bush-stjórnarinnar til auðmanna í USA eru bara barnaleikur í samanburði við þessar hugmyndir Sjálfstæðismanna.

Vonandi áttar almenningur sig á því hver stefna Sjálfstæðismanna er.

Þeir ætla að flytja skattbyrðina af hátekjufólki yfir á lágtekjufólk – og munu kalla það “skattalækkanir”.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Laugardagur 25.8.2012 - 14:56 - FB ummæli ()

Mistök Lilju

Lilja Mósesdóttir tilkynnti í vikunni að hún ætli að snúa baki við flokknum sem hún stofnaði. Hún ætlar ekki að vera í framboði til formennsku og mun einbeita sér að þingstörfum fram að kosningum.

Hún virðist sem sagt ekki ætla að einbeita sér að kosningabaráttunni fyrir hönd Samstöðu.

Þetta er auðvitað dauðadómur yfir Samstöðu. Flokkurinn sem kallaði sig “Samstaða um lýðræði og velferð” nær sér ekki á strik og endar sem “Samstaða um sundurlyndi”.

Gott og vel.

Þetta var hvort eð er slæm hugmynd hjá Lilju og félögum frá byrjun. Lilja gerði reginmistök er hún sagði sig úr VG. Þar á hún sitt eðlilega pólitíska heimili.

Mistök Lilju voru þau að vera of óþolinmóð og setja sig upp á móti formanni flokksins. Hún virtist móðgast yfir því að Steingrímur hlustaði meira á hagfræðinga Alþjóða gjaldeyrissjóðsins en hana. Samt gat hún alveg gert sig gildandi í umræðunni, stundum með ágæta punkta. Tíminn hefði unnið með henni.

Hún hafði líka AGS fyrir rangri sök, áður en hún vissi fyrir hvað þeir myndu standa hér á landi. Þeir hafa reynst Íslendingum afar vel, ólíkt því sem segja má um sum fyrri verka þeirra.

Svo kann Lilja einnig hafa verið fórnarlamb daðurs frá hægri mönnum, sem iðuglega reyna að stýra vinstri mönnum til klofnings. Styrmir, Björn Bjarna, Mogginn o.fl. hömpuðu Lilju í sífellu á meðan hún var í stjórnarmeirihlutanum og hugsanlegur kandídat til að kljúfa þá fylkingu.

Henni var þannig sérstaklega mikið hampað í hægri miðlunum og með því fékk hún talsverða sérstöðu um tíma. Sama gilti um Ásmund Daðason, Atla Gíslason og Ögmund Jónasson.

Allt bullið um “aðlögunarferli að ESB”, sem hægri menn fundu upp til að sá eitri inn í raðir VG-manna, hafði áhrif á suma, ekki síst Ásmund og Atla.

Þau þrjú sem fóru úr VG eru hins vegar nær ósýnileg núna í hægri miðlunum. Lilja kennir því m.a. um fylgistap Samstöðu. Jón Bjarnason, sem enn er innanbúðar í VG en súr eftir að hafa misst ráðherrastól, á hins vegar góðu gengi að fagna í hægri pressunni. Hann gæti enn glatt hægri menn með klofningi eða óþægilegu tali um formanninn og ESB málið! Ef hann klýfur missa þeir svo áhuga á honum í kjölfarið. Þannig er það alltaf.

Þau sem klufu sig út úr VG munu öll enda sinn pólitíska feril í lok þessa kjörtímabils. Lilja stimplaði sig út nú í vikunni. Atli er þegar horfinn og Ásmundur mun ekki ná öruggu þingsæti í forvali hjá Framsókn. Ef þau hafa enn áhuga á stjórnmálum þá voru það stór mistök hjá þeim að yfirgefa VG. Fleira kemur líka til.

VG-fólk sem stóð vaktina og studdi sitt fólk í rústabjörguninni eftir frjálshyggjuhrunið mun hins vegar uppskera eins og það sáði. Það hefur tekið þátt í að vinna gott verk við óvenju erfiðar aðstæður og almenningur mun smám saman sjá það betur í aðdraganda kosninga. VG fær án efa meira fylgi þá en kannanir gefa nú.

Sagan verður síðan á bandi stjórnarflokkanna ef fram heldur sem horfir, hvort sem þeir ná að vera áfram við völd eftir kosningar eða ekki.

Árangurinn af góðu starfi mun ilja stjórnarliðum VG um hjartarætur það sem eftir er, en flóttafólkið hefur fyrst og fremst vonbrigðin í pólitísku farteski sínu.

Klofningur á vinstri vængnum hefur aldrei gert vinstri mönnum neitt gott, en iðuglega tryggt Sjálfstæðisflokknum óeðlilega mikil völd. Það er dómur reynslunnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 24.8.2012 - 14:48 - FB ummæli ()

Hafa lífskjörin virkilega skánað?

Í gær birti ég niðurstöður úr fjölþjóðlegri könnun frá nóvember síðastliðnum, sem sýndi svör almennings við spurningunni um hvort land þeirra væri á réttri leið, almennt séð.

Ísland var í næst efsta sæti með fjölda svarenda sem segja landið vera á réttri leið, næst á eftir Svíþjóð og fyrir ofan hina hagsælu Lúxemborg.

Athyglisvert var að sjá ummæli við pistlinum, því nær allir voru efins eða neikvæðir. Bölmóðurinn á sér greinilega marga og sterka talsmenn. Auðvitað er það líka svo að margir hafa undan ýmsu að kvarta eftir hrunið, sem vissulega lék þjóðina grátt.

Er þá ástæða til að efast um að umtalsverðar framfarir hafi orðið?

Varla. Nær allir helstu hagvísar sýna jákvæða þróun á áunum 2011 og 2012. Þjóðarkakan stækkar, kaupmátturinn eykst á ný, einkaneyslan vex umtalsvert, atvinnuleysi minnkar og úrræðin til að létta skuldabyrðina eru í meiri mæli að skila sér til heimilanna.

Ein athyglisverð vísbending um hag almennings er könnun sem Capacent Gallup hefur gert reglulega hér á landi á lífsánægju fólks. Könnunin var fyrst gerð í sumarbyrjun 2010 og síðan vikulega.

Niðurstöðurnar sýna stærð þeirra hópa svarenda sem eru mjög ánægðir eða óánægðir með lífið og bjartsýnir eða svartsýnir fyrir framtíðin. Þeir ánægðustu eru kallaðir fólkið sem “dafnar”, þeir sem eru óánægðastir eru kallaðir fólk “í þrengingum” og hinir sem eru hvorki ánægðir né sérstaklega óánægðir eru sagðir “í basli” (mælikvarðinn er skýrður nánar hér að neðan).

Myndin sýnir stærð þessara hópa á þremur tímapunktum (sumarbyrjun 2010, nóvember 2011 og nú í ágúst 2012).

Mynd 1: Kannanir Capacent Gallup á lífsánægju Ísendinga

Niðurstöðurnar eru mjög sláandi.

Þeir sem dafna (eru mjög ánægðir með lífið og bjartsýnir á framtíðina) voru 43% svarenda 2010 en eru nú 65%. Þeim hefur fjölgað um meira en 50%.

Þeim sem eru í basli (hvorki ánægðir né óánægðir) fækkaði á sama tíma úr 53% í 32% svarenda. Þeir sem eru í verstu stöðu (í þrengingum) voru um 5% í byrjun könnunartímans en hefur fækkað í tæplega 3% núna.

Í nóvember þegar könnun Eurobarometer, sem ég kynnti í gær var gerð, þá voru þeir sem dafna um 59% og hefur staðan því batnað frá þeim tíma til dagsins í dag. Sú könnun væri væntanlega með betri útkomu fyrir Ísland ef hún væri gerð aftur í dag.

Allt ber því að sama brunni. Íslandi hefur miðað verulega áfram.

Hrunið var hins vegar svo gríðarlegt að meira þarf til. Mikilvægt er því að stjórnvöld haldi fast við þá stefnu sína að bæta einkum hag milli og lægri tekjuhópa, t.d. með hækkun barnabóta á næsta ári. Það mun líka styrkja hagvöxtinn.

Niðurskurðarstefna sem hægri menn vilja er stærsta ógnin við kjör almennings við núverandi aðstæður.

 

Skýring Gallup á mælingunni: „Mælikvarði lífsmats byggir á svörum við tveimur spurningum Cantril Lífsánægjustigans. Fólk er beðið um að ímynda sér stiga með þrepum sem eru númeruð frá 0 neðst í stiganum, sem lýsi versta mögulega lífi og upp í 10 efst í stiganum sem lýsir besta mögulega lífi. Í flokkinn „Dafna“ eru þeir sem sjá sig fyrir sér í 7. þrepi eða ofar og áætla að eftir 5 ár muni þeir muni standa í þrepi 8 eða ofar. Í flokknum „Í þrengingum“ eru þeir sem núna sjá sig fyrir sér í þrepum 0 til 4 á Cantril Lífsánægjustiganum og búast við að vera í þrepum 0 til 4 eftir 5 ár. Þeir sem hvorki „Dafna“ né eru „Í þrengingum“ eru sagðir vera „Í basli“. Spurningarnar eru lagðar fyrir í netkönnun hjá Viðhorfahópi Gallup þar sem um 400 manns eru spurðir í viku hverri.  Niðurstöður byggja á rúllandi 2 vikna meðaltali.“

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.8.2012 - 09:25 - FB ummæli ()

Ísland á réttri leið – ný könnun

Í nýlegri fjölþjóðlegri könnun, sem gerð var í nóvember síðastliðnum fyrir Eurobarometer, var fólk m.a. spurt hvort það teldi land sitt almennt séð á réttri eða rangri leið, um þessar mundir?

Niðurstöðurnar eru mjög athyglisverðar og uppörvandi fyrir Ísland.

Ísland er í öðru sæti á eftir Svíþjóð hvað snertir fjölda sem telur að landið sé á réttri leið, af öllum Evrópuríkjunum. Í flestum landann segir meirihlutinn að land þeirra sé á rangri leið (sjá mynd 1).

Mynd 1: Er land þitt á réttri leið? Mat almennings í einstökum Evrópulöndum á framvindu þjóðmála. (Heimild: Standard Eurobarometer 76 (nóvember 2011). Hlutfall íbúa 18 ára og eldri.)

Svíþjóð og Lúxemborg, sem eru á svipuðu róli og Ísland í könnuninni, hafa hvorugt fundið fyrir fjármálakreppunni svo heitið geti. Þetta er því góð einkunn fyrir Ísland, í ljósi hins óvenju mikla hruns sem hér varð.

Ef við lítum sérstaklega á þau ríki sem lentu illa í fjármálakreppunni þá er sérstaða Íslands enn meiri (sjá mynd 2).

Í flestum kreppuríkjunum er mikill meirihluti sem telur land sitt á rangri leið.

Í Grikklandi, á Ítalíu og Spáni segja frá 7% til 9% íbúa að landið sé á réttri leið en frá 65% til 80% segja að það sé á rangri leið. Á Íslandi eru hlutföllin 47% (rétt leið) og 41% (röng leið).

Mynd 2: Er land þitt á réttri leið? Mat almennings í helstu kreppulöndunum á framvindu þjóðmála. (Heimild: Standard Eurobarometer 76 (nóvember 2011). Hlutfall íbúa 18 ára og eldri.)

Á Írlandi eru aðeins 26% sem segja landið á réttri leið en 48% segja það á rangri leið og margir eru óvissir.

Af kreppuríkjunum helstu er það einungis Eistland sem nálgast Ísland.

Ísland kemur því óvenju vel út úr þessu mati þjóðarinnar sjálfrar á framvindu mála í landinu, í nóvember síðastliðnum, í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir.

Það er hins vegar athyglisvert að þjóðin skuli meta aðstæður og framvindu með svo jákvæðum hætti, samanborið við önnur Evrópuríki, í ljósi hinnar mjög svo neikvæðu umræðu sem hér hefur tíðkast. Einnig í ljósi lítils stuðnings við ríkisstjórnina.

Þýðir það að ríkisstjórnin hafi algerlega tapað áróðursstríðinu í þjóðmálaumræðunni? Hafa stjórnarandstaða og málgögn hennar verið svona miklu sterkari en málsvarar stjórnvalda?

Það er fróðleg spurning…

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.8.2012 - 22:35 - FB ummæli ()

Verðmerking matvæla leggst af

Í kjölfar úrskurðar Samkeppniseftirlitsins á síðasta ári er verðmerking ferskrar matvöru að umtalsverðu leyti að leggjast af.

Hakk, kjötfars, lambalærissneiðar, lambakótilettur, nautakjöt í ýmsum útgáfum, svínakjöt í ýmsum útgáfum, kjúklingakjöt í ýmsum útgáfum, álegg, pylsur, ostar o.m.fl. er ekki lengur verðmerkt. Þetta eru allt þær vörur sem fólk kaupir mest af í daglegum innkaupum sínum.

Að vísu er hægt að fara með einstök matvörustykki að verðskanna, sem iðuglega er spölkorn frá vörunni, og reyna að lesa á hvert verðið er.

Sumir hafa þó engan áhuga á að auglýsa í verslunum að þeir séu að pæla í verðinu. Kanski það hafi þau áhrif á neytendahegðun?

Ég sé að minnsta kosti nær aldrei nokkurn mann nota þessa verðskanna. Enda er það óþægilegt og verulega aukin vinna við innkaupin ef maður ætlar að gera alvöru verðsamanburð milli framleiðenda sömu vöru, milli misstórra stykkja af sömu vöru, eða milli einnar tegundar vöru og annarar. Maður þyrfti að vera eins og jó-jó milli hillanna og skannans, með fangið fullt ef vel ætti að vera. Slíkt gengur augljóslega ekki.

Neytendur búa sem sagt við það stórfurðulega ástand að sú matvara sem þeir kaupa oftast er óverðmerkt í öllum venjulegum skilningi.

Samt stendur eftirfarandi í lögum um neytendavernd:

“Grundvallarreglan er að allar vörur og þjónusta sem seldar eru neytendum skuli verðmerkja þannig að auðvelt sé að sjá verðmerkinguna (mín undirstrikun). Ein af forsendum þess að neytendur geti fylgst með verðlagi og eflt verðskyn sitt eru verðmerkingar. Góðar verðmerkingar gefa neytendum þannig mikilvægar upplýsingar til þess að þeir geti verið virkir þátttakendur á hinum frjálsa markaði” (III. kafla laga nr. 57/2005).

Það er að vísu leyft að nota verðskanna í lögum, en fullnægir það forsendu laganna um að “auðvelt sé að sjá verðmerkinguna”.

Nei, því fer fjarri. Þetta fyrirkomulag sem nú tíðkast er stór hindrun gagnvart eðlilegu neytendaaðhaldi.

Það sem verra er, lausung í verðmerkingum virðist einnig hafa aukist í tengslum við þessa þróun á síðasta árinu, a.m.k. í þeim verslunum sem ég nota reglulega. Enda býður þetta upp á slíkt.

Smám saman er að slokkna á neytendaaðhaldinu í matvöruverslunum. Svo breiðist þetta auðvitað út.

Menn fá að vísu enn fréttir af því að Jóhannes sé með lægsta verðið og geta farið til hans. Það er þó varla fullnægjandi fyrir markaðinn í heild.

Nú höfum við Neytendastofu, Neytendasamtök, Talsmann neytenda og viðamikla launþegahreyfingu (ASÍ), sem öll ættu að vera að verja hag neytenda. Þetta hljómar eins og mikil varnarsveit fyrir neytendur – enda fjármagnað af neytendum.

Hvernig má það þá vera að neytendur séu svona illa varðir á Íslandi í dag? Hvers vegna gat þessi niðurstaða orðið, að hætta beinni verðmerkingu unninna matvara, þegar galli kom fram á framkvæmd forskráðrar vöru með leiðbeinandi verð? Var ekki önnur leið nærtækari?

Bann við notkun leiðbeinandi verðs framleiðenda var sagt gert til að auka samkeppni milli fyrirtækja. En útkoman er sú, að hagur neytenda var fyrir borð borinn.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.8.2012 - 13:18 - FB ummæli ()

Frjálshyggjan er vandamálið – ekki lausnin

(Ath! Hér er lítillega breytt útgáfa af greininni „Fjárfestar eru vandamálið – ekki lausnin“. Hún er eiginlega betri svona).

Frægt var þegar Ronald Reagan, þá nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, sagði að ríkið væri vandamálið – ekki lausnin.

Menn eiga ekki að biðja ríkið um að leysa vandamál, sagði hann. Brýnna væri að minnka umsvif ríkisins og auka frelsi markaðsaðila, sem hann taldi að myndi færa meiri hagsæld. Hann vildi líka lækka skatta, einkum á auðmenn (fjárfesta). Reagan var frjálshyggjumaður.

Þetta var í árdaga hins nýja frjálshyggjutíma í vestrænum samfélögum, upp úr 1980. Síðan þá hefur heimurinn í auknum mæli lotið leiðsagnar frjálshyggjustefnu, með áherslu á aukið hlutverk markaðar, einkavæðingu, aukið frelsi á fjármálamörkuðum, afnám reglna og eftirlits og lægri skatta á fyrirtæki og fjárfesta. Frelsi fyrir fjárfesta varð lykilatriði.

Allt sem ríkið gerir er slæmt – allt sem einkageirinn og markaðurinn gera er gott, sögðu frjálshyggjumenn.

Mantran varð sú, að fjárfestar ættu að fá það sem þeir vildu. Frelsi til að græða sem allra mest. Fjárfestar og bankamenn urðu aðalsstétt nútímans. Ríkisstjórnir þjónuðu þeim, veittu þeim forréttindi – og jafnvel afhentu þeim völdin. Sátu veiklaðar eftir og fylgdu afskiptaleysisstefnu – slepptu öllu lausu. Óvíða gekk þetta lengra en á Íslandi.

Hver var svo uppskeran? Eftir þrjá áratugi af frjálshyggjustefnu getum við lagt dóm á reynsluna.

Tímabilið eftir 1980 hefur víðast á Vesturlöndum einkennst af því, að hagvöxtur hefur verið minni en á gullaldarárum blandaða hagkerfisins (1950 til 1975). Kaupmáttaraukning almennings sömuleiðis.

Í Bandaríkjunum hefur megnið af ávinningi hagvaxtar eftir 1980 runnið til að hækka tekjur auðmanna, en kaup lægri og millistétta hefur lítið hækkað eða staðið í stað. Vinnutími þeirra hefur aukist til að vega á móti litlum kjarabótum. Skuldir heimila hafa einnig aukist, til að halda uppi lífskjörum millistéttarinnar í Bandaríkjunum.

Umfram allt einkennist þetta tímabil frjálshyggjunnar af auknum ójöfnuði tekna og eigna. Auðmönnum gekk allt í haginn – öðrum ekki.

Frelsið á fjármálamörkuðum og víðar stórjók svo skuldasöfnun, brask og spákaupmennsku, með tilheyrandi áhættu í mörgum löndum, sem leiddi endanlega til fjármálakreppunnar.

Frelsið á fjármálamarkaði einkageirans rak þannig fjölda samfélaga í ógöngur. Hvergi var það hrikalegra en einmitt á Íslandi, sem setti heimsmet í skuldasöfnun vegna brasks og spákaupmennsku fjárfesta einkageirans.

Nú er heimurinn í fjármálakreppu sem leiddi af frjálshyggjufrelsinu. Ríkisstjórnir fjölmargra landa hafa þurft að bjarga einkareknum bönkum og fyrirtækjum og taka á sig gríðarlegar skuldir til að endurreisa hagkerfin, sem fjárfestar einkageirans lögðu í rúst.

Í kreppunni varð ríkið ekki lengur vandamálið – það varð allt í einu bjargvætturinn sem blés lífi í markað einkageirans sem brást!

En um leið og fjárfestarnir og einkageirinn fóru að draga andann á ný, þá tóku þeir upp fyrri hætti. Hófu að syngja síbyljuna um að ríkið væri vandamálið! Hægri róttæklingarnir taka undir. Þeir vilja enn meiri og róttækari frjálshyggju en fyrr!

Nú segja þeir að ríkin séu búin að steypa sér í miklar skuldir (og  passa sig að nefna ekki hvers vegna). Þá verður að skera niður útgjöld til velferðarmála og samneyslu, segja þeir. Þeir vilja róttæka niðurskurðarstefnu.

Þetta er uppskeran, það sem frjálshyggjan færði okkur.

Fjárfestar einkageirans eru auðmennirnir, ríkasta 1% fólksins. Þeir fengu frelsi frjálshyggjunnar, mökuðu krókinn og fluttu þjóðarauðinn úr landi í erlend skattaskjól. Skildu eftir botnlausar skuldir sem hin 99% þjóðarinnar þurfa að greiða – til að koma samfélaginu aftur í lag.

Frjálshyggjan er vandamálið – ekki lausnin.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 19.8.2012 - 10:58 - FB ummæli ()

Fjárfestar eru vandamálið – ekki lausnin

Frægt var þegar Ronald Reagan, þá nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, sagði að ríkið væri vandamálið – ekki lausnin.

Menn eiga ekki að biðja ríkið um að leysa vandamál, sagði hann. Brýnna væri að minnka umsvif ríkisins og auka frelsi markaðsaðila, sem hann taldi að myndi færa meiri hagsæld. Hann vildi líka lækka skatta, einkum á auðmenn (fjárfesta). Reagan var frjálshyggjumaður.

Þetta var í árdaga hins nýja frjálshyggjutíma í vestrænum samfélögum, upp úr 1980. Síðan þá hefur heimurinn í auknum mæli lotið leiðsagnar frjálshyggjustefnu, með áherslu á aukið hlutverk markaðar, einkavæðingu, aukið frelsi á fjármálamörkuðum, afnám reglna og eftirlits og lægri skatta á fyrirtæki og fjárfesta. Frelsi fyrir fjárfesta varð lykilatriði.

Allt sem ríkið gerir er slæmt – allt sem einkageirinn og markaðurinn gera er gott, sögðu frjálshyggjumenn.

Mantran varð sú, að fjárfestar ættu að fá það sem þeir vildu. Frelsi til að græða sem allra mest. Fjárfestar og bankamenn urðu aðalsstétt nútímans. Ríkisstjórnir þjónuðu þeim, veittu þeim forréttindi – og jafnvel afhentu þeim völdin. Sátu veiklaðar eftir og fylgdu afskiptaleysisstefnu – slepptu öllu lausu. Óvíða gekk þetta lengra en á Íslandi.

Hver var svo uppskeran? Eftir þrjá áratugi af frjálshyggjustefnu getum við lagt dóm á reynsluna.

Tímabilið eftir 1980 hefur víðast á Vesturlöndum einkennst af því, að hagvöxtur hefur verið minni en á gullaldarárum blandaða hagkerfisins (1950 til 1975). Kaupmáttaraukning almennings sömuleiðis.

Í Bandaríkjunum hefur megnið af ávinningi hagvaxtar eftir 1980 runnið til að hækka tekjur auðmanna, en kaup lægri og millistétta hefur lítið hækkað eða staðið í stað. Vinnutími þeirra hefur aukist til að vega á móti litlum kjarabótum. Skuldir heimila hafa einnig aukist, til að halda uppi lífskjörum millistéttarinnar í Bandaríkjunum.

Umfram allt einkennist þetta tímabil frjálshyggjunnar af auknum ójöfnuði tekna og eigna. Auðmönnum gekk allt í haginn – öðrum ekki.

Frelsið á fjármálamörkuðum og víðar stórjók svo skuldasöfnun, brask og spákaupmennsku, með tilheyrandi áhættu í mörgum löndum, sem leiddi endanlega til fjármálakreppunnar.

Frelsið á fjármálamarkaði einkageirans rak þannig fjölda samfélaga í ógöngur. Hvergi var það hrikalegra en einmitt á Íslandi, sem setti heimsmet í skuldasöfnun vegna brasks og spákaupmennsku fjárfesta einkageirans.

Nú er heimurinn í fjármálakreppu sem leiddi af frjálshyggjufrelsinu. Ríkisstjórnir fjölmargra landa hafa þurft að bjarga einkareknum bönkum og fyrirtækjum og taka á sig gríðarlegar skuldir til að endurreisa hagkerfin, sem fjárfestar einkageirans lögðu í rúst.

Í kreppunni varð ríkið ekki lengur vandamálið – það varð allt í einu bjargvætturinn sem blés lífi í markað einkageirans sem brást!

En um leið og fjárfestarnir og einkageirinn fóru að draga andann á ný, þá tóku þeir upp fyrri hætti. Hófu að syngja síbyljuna um að ríkið væri vandamálið!

Nú segja þeir að ríkin séu búin að steypa sér í miklar skuldir (og  passa sig að nefna ekki hvers vegna). Þá verður að skera niður útgjöld til velferðarmála og samneyslu, segja þeir. Þeir vilja róttæka niðurskurðarstefnu. Annars muni fjárfestar ekki hafa trú á viðkomandi landi. Fara bara annað með fjárfestingar sínar – sem voru þó mest teknar að láni!

Þetta er uppskeran, það sem frjálshyggjan færði okkur.

Fjárfestar eru ríkasta 1% fólksins. Þeir fengu frelsi frjálshyggjunnar, mökuðu krókinn og fluttu þjóðarauðinn úr landi í erlend skattaskjól. Skildu eftir botnlausar skuldir sem hin 99% þjóðarinnar þurfa að greiða – til að koma samfélaginu aftur í lag.

Nú segja samtök atvinnulífsins og hægri menn í pólitík að við þurfum að ná fjárfestingunni upp á ný. Í orðunum liggur að nú þurfi að fara að dekra aftur við einkafjárfesta. En þurfum við mikið á þeim að halda?

Vissulega þurfum við fjárfestingu. En við höfum líka lífeyrissjóði almennings, sem eru alla jafna stærstu fjárfestar hér á landi og hafa alvöru fé. Ekkert útrásarverkefni frá Íslandi var farið í án þátttöku lífeyrissjóða, sem oft voru einu aðilarnir sem lögðu til eigið fé. Útrásarvíkingar voru bara með lánsfé.

Eru lífeyrissjóðirnir ekki miklu mikilvægari en einkafjárfestar? Er ríkið ekki líka mikilvægt sem fjárfestir í grunngerð samfélagsins og nýsköpun (samgöngum, sjúkrahúsum, skólum, orkuöflun, menningu o.fl.)?

Sjálfsagt þurfum við að einhverju leyti á fjárfestum einkageirans að halda. Þeir eru þó ekki nærri jafn mikilvægir og menn héldu fyrir hrun. Þeim þarf að setja mörk sem tryggja að þeir geti ekki aftur stefnt þjóðarhag í voða. Ríkisstjórnir þurfa að hafa bein í nefinu til að veita fjárfestum alvöru aðhald.

Fjárfestar einkageirans brugðust hrikalega. Þá þarf að hemja í framtíðinni.

Þeir eru vandamálið – ekki lausnin.

Það er vinna og framtakssemi almennings sem oftast er lausnin og mikilvægasta uppspretta framfara, ekki brask auðmanna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Föstudagur 17.8.2012 - 09:31 - FB ummæli ()

Heimsmet í skattpíningu?

Í gær sagði góður maður á bloggi mínu að Ísland ætti næstum því heimsmet í skattpíningu.

Það er kanski ekki nema von að menn segi þetta, því þessu hefur verið slegið fram af aðilum sem ættu að vera vandir að virðingu sinni, eins og ýmsum samtökum atvinnulífsins og nokkrum stjórnmálamönnum.

En hvað segja staðreyndirnar um þetta?

Algengasta mæling á skattbyrði samfélaga er mæling OECD samtakanna á heildarskattbyrði, sem eru allar skatttekjur hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga) sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þessa mælingu má sjá á mynd 1.

Mynd 1: Heildarskattbyrði í OECD-ríkjum 2007 og 2010 (heimild: OECD).

Þessi mæling OECD er hin venjulega mæling á heildarskattbyrði þjóða og er iðuglega vísað til hennar sem slíkrar.

Myndin sýnir að Ísland var árið 2010 í þrettánda sæti af þessum þjóðum, rétt fyrir ofan meðallag OECD-ríkjanna. Allar norrænu þjóðirnar eru með meiri skattbyrði en við og margar þjóðanna á meginlandi Evrópu.

Skattbyrðin hér hafði lækkað mikið frá árinu 2007, eða úr um 41% í rúmlega 36%, eins og sjá má líka á myndinni.

Það eru einungis minna þróaðar þjóðir sem eru með minni skattbyrði en við og svo Bandaríkin og nokkrar enskumælandi þjóðir, sem þekktar eru fyrir lága skattheimtu og veikburða velferðarríki.

Það er því verulega ofmælt að segja að Ísland eigi heimsmet í skattpíningu.

Annað sem er líka staðreynd er það, að heildarskattbyrðin á Íslandi var meiri fyrir hrun en núna. Bæði gætti þar áhrifa af skattastefnu (rýrnun skattleysismarka frá 1995 til 2004 jók til dæmis skattbyrði hér verulega, þrátt fyrir lækkaða álagningu á hærri tekjur) og áhrifa af breytilegri stærð skattstofna.

Þessa þróun skattbyrðarinnar á Íslandi má sjá á mynd 2, ásamt samanburði við meðalskattbyrði OECD-ríkjanna.

Mynd 2: Þróun heildarskattbyrði á Íslandi og í OECD-ríkjum frá 1995 til 2010 (heimild: OECD).

Heildarskattbyrðin á Íslandi hafði verið vel undir meðallagi OECD-ríkjanna i marga áratugi þar til á árinu 1998 og síðar. Rýrnun skattleysismarka, barnabóta og vaxtabóta átti mikinn þátt í þeirri þróun, enda jók það skattgreiðslur venjulegs fólks eins og ég sýndi í fyrri færslun (sjá hér). Skattbyrði hátekjufólks lækkaði hins vegar á árunum fyrir hrun (sjá hér).

Ísland var vel fyrir ofan meðaltal OECD-ríkjanna til 2001-2 og síðan aftur frá 2003 til 2008. Eftir hrun dróst skattbyrðin hins vegar mikið saman og varð aftur jöfn meðaltali OECD-ríkja á árinu 2009, en hækkaði síðan lítillega 2010.

Rýrnun skattstofna, lægri tekjur og minni neysla í kreppunni áttu stóran þátt í minnkaðri skattbyrði eftir hrun, en hækkun skattleysismarka og annarra frádráttarliða (ekki síst vaxtabóta) dró einnig úr skattbyrðinni hjá heimilum með lægri og milli tekjur. Um 60% heimila á Íslandi fengu í reynd lækkaða skattbyrði eftir hrun.

Skattpíningin á Íslandi er því alls ekki sú hæsta sem þekkist í heiminum. Öðru nær.

Heildarskattbyrðin eftir hrun varð umtalsvert minni en áður hafði verið. Hún hafði hins vegar hækkað verulega frá um 1990 til 2007. Það segja ábyggilegar tölur OECD og Hagstofu Íslands.

Almenningur þarf að varast áróður hagsmunaaðila um skattamál, eins og samtaka atvinnulífsins og hægri róttæklinga. Þeir aðilar ýkja iðuglega mikið og afbaka staðreyndir.

Alþjóðlegar hagskýrslustofnanir, eins og OECD, vinna hins vegar vandaðar upplýsingar sem hægt er að treysta á.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar