Laugardagur 08.09.2012 - 09:37 - Rita ummæli

Ráðdeild og sparnaður hjá ríki og sveitarfélögum

Stjórnmálamenn margir hverjir telja sig þess umkomna að vita vel hvað skattgreiðendur þurfi á að halda og í hvað eyða skuli fjármunum skattborgara þegar kemur á áætlun varðandi útgjöld ríkis og sveitarfélaga á milli kosninga. Þetta á reyndar einnig við um niðurskurð á fjárlögum en yfirleitt reynist þeim erfitt að skera niður á stofnunum sem standa þeim næst.

Á miðju kjörtímabili fara stjórnmálamenn, rétt eins og fuglar við hreiðurgerð að vori, að undirbúa vinsældaframkvæmdir hvers konar sem hugsanlega má nýta fyrir kosningar þar sem klippa má á borða hér og þar. Sjálfsagt er fyrir stjórnmálamenn að sýnast vera miklir atgervismenn og geta sýnt fram á framkvæmdir, dug og styrk. En þegar slíkar framkvæmdir eiga almennt ekki við í miðjum niðurskurði er rétt að staldra við og endurmeta stefnuna þar sem gæta þarf að forgangsröðun verkefna.

Dæmi um þetta er skyndileg hækkun launa hjá einum ríkisstarfsmanni í læknastétt nú nýverið. Undirritaður er almennt fylgjandi hækkandi launum til handa þeim sem það eiga skilið og þá verður vissulega jafnt yfir alla að ganga og að slíkt sé ekki í hrópandi ósamræmi við önnur áform, t.a.m. sársaukafullann niðurskurð innan Landspítala Háskólasjúkrahúss. Svo er það hin hliðin varðandi byggingu hátækni háskólasjúkrahús í túnfæti Ingólfs Arnarssonar á tímum niðurskurðar. Nýtt sjúkrahús er örugglega bráðnauðsynleg framkvæmd og sjálfsagt tímabær en höfum við efni á því og hvernig ber að forgangsraða? Á þessu eru skiptar skoðanir, jafnvel innan flokka og flokksbrota.

Sjálfsagt er að þetta fari allt saman en ljóst er að þarna fer ekki saman hugmyndir um ráðdeild og sparnað hjá ríki og sveitarfélögum enda hvorki ríki né sveitarfélag með ráð á að stuðla að þessum launahækkunum eða framkvæmdum því það er enginn peningur til að ganga til verka. Slíkt þarf að taka að láni með háum vöxtum, þ.e. hárri rentu á peninga enda lánstraustið ekki eins og áður var. Ísland allt er skuldsett og verða því mörg bráðnauðsynleg verkefni undir í samkeppni við önnur, sum öllu ónauðsynlegri og jafnvel gæluverkefni.

Í því efni má nefna hin bráðnauðsynlegu Vaðlaheiðagöng sem sagt er að Eyfirðingar geti ekki verið án þrátt fyrir mikinn rembing milli þeirra og Þingeyinga í aldir. Reikna má með að sá rembingur muni eitthvað minnka ásamt meiri og betri sambúð þessara verðandi sveitunga sem áður vildu vart kannast hvor við annan. En það eitt að eyða þessum rembingi mun kosta skattgreiðendur það að þeim er gert að dekka áhættuna af verkefninu ef illa fer í samskiptum og samgöngum milli þessara góðu granna inní ókomna framtíð.

Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hafa á síðustu árum látið undir höfuð leggjast að koma verðmætasköpun af stað á Íslandi síðustu árin. Það er verðmætasköpun sem getur stuðlað að því að fjármunir fáist til ríkis og sveitar svo hægt verði að standa undir framkvæmdum sem vissulega geta verið nauðsynlegar sem og launahækkanir svo fagfólk fari ekki allt úr landi. Við getum ekki endað á Íslandi með ónýt tæki eða ónothæft húsnæði þar sem ný tæki komast ekki inn vegna þrenginga sbr. vænta byggingu hátækni sjúkráhúss á Íslandi. Við getum heldur ekki stuðlað að hærri launum lækna, verkfræðinga, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, tæknimenntaðra, iðnaðarmanna og annarra stétta nema að skapa hér verðmæti. Eitthvað verður að framleiða.

Því og þess vegna verður ríki og sveitarfélög að stuðla að því að komandi kynslóðir, börnin okkar, líði ekki skort þegar kemur að niðurskurði í skólastarfi. Það verður að gæta þess að þegar ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hefur nú skorið niður svo um munar hjá grunn- og framhaldsskólum landsins og einnig hjá Námsgagnasjóði að metnaðarfull sveitarfélög grípi nú inní og stuðli að því að færa komandi kynslóðum nýjar bækur og þau tæki og tól sem til þarf þegar ríkið hefur ekki efni á því eða forgangsraðar ekki rétt fyrir fólkið í landinu. Í slíku árferði verðum við að standa vörð um að það unga fólk sem nú gengur í gegnum skólakerfið svo það geti t.a.m. tæknimenntað sig og komið þessu landi og þessari þjóð á fætur þó síðar verði.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur