Þriðjudagur 11.09.2012 - 08:58 - Rita ummæli

Seðlabankastjóri í vanda

Með grein í Morgunblaðinu í dag, 11. september 2012, svarar seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, Birgi Ármannssyni alþingismanni, sem birti grein í sama blaði 5. september sl., er fjallaði um stöðu seðlabankastjóra og hlutleysi hans gagnvart þjóð sinni í tengslum við setu sem formaður í samningahópi um gjaldmiðlamál í viðræðum um aðild að ESB.

Í grein sinni reynir seðlabankastjóri að réttlæta setu sína sem formaður gjaldmiðlahóps sem er í viðræðum við ESB, eins og hann kallar hópinn sem hann er í forsvari fyrir. Telur hann að einu sérfræðingar landsins á þessu sviði starfi innan Seðlabanka Íslands. Hann telur að um gjaldmiðlamál gætu líklegast ekki aðrir vélað nema hann og fáeinir starfsmenn bankans og vísar m.a. til laga varðandi bankann sjálfan varðandi ráðgjöf til ríkisstjórnar. Ætli að slík ráðgjöf eigi ekki fremur við um ríkisfjármál almennt og fjármögnun en ekki fordæmalausar viðræður ríkisstjórnar, pólitískar viðræður, við yfirþjóðlegt vald sem ESB er sem sama ríkisstjórn hefur einsett sér að ganga til samninga við í óþökk þorra landsmanna?

Sérfræðingar Seðlabanka Íslands, utan seðlabankastjóra, eru aðilar sem verða að njóta hlutleysis Seðlabanka Íslands og það er óábyrgt af seðlabankastjóra að setja þá alla í þá erfiðu stöðu sem hann gerir með setu sinni í umræddum gjaldmiðlahóp og ekki síður ef hann er formaður hópsins sem stendur í viðræðum við ESB. Hvert er þá hlutverk bankans gagnvart íslenskri þjóð þegar kemur að því að gæta hagsmuna hennar í viðræðum við ESB varðandi gjaldmila- og peningamál síðar og vera ráðgefandi sbr. 14. gr. laga um Seðlabanka Íslands?

Birgir Ármannsson hefur mikið til síns máls þegar hann hefur reifað réttilega umboðsvanda þann sem seðlabankastjóri er í þegar hann situr í forsvari í samningaviðræðum við ESB, er seðlabankastjóri í banka sem mun gefa út bókina Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum sem er í prentun og þarf svo síðar, vegna skorts á sérfræðingum á þessu sviði á Íslandi að eigin sögn, að koma fram og dæma hvoru tveggja sem bæði eru hans eigin gjörðir.

Seðlabankastjóri er bankastjóri sjálfstæðs banka skv. lögum nr. 36/2001 um bankann sjálfan og með því að blanda sér í pólitískar viðræður við ESB skerðir hann þetta sjálfstæði bankans og setur starfsmenn sína alla í afar hæpna stöðu svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Reyndar má ætla að þetta sé brot á framangreindum lögum einmitt vegna þess umboðsvanda sem bankinn er nú í til að geta veitt óháða ráðgjöf til ríkisstjórnar, sem reyndar vill ólm ganga í ESB, um gjaldmiðlamál með vísan í 2. mgr. 14. gr. framangreindra laga.

Hvernig getur svo ný ríkisstjórn, sem tekur væntanlga við eftir næstu kosningar, treyst á ráðgjöf Seðlabanka Íslands varðandi gjaldmiðlamál þegar þar situr bankastjóri sem ekki er vitað hvar stendur og er ekki óháður í ráðgjöf sinni sem og allir hans starfsmenn? Eiga menn að treysta á Guð og lukkuna í þeim efnum þegar þar að kemur?

Það veit hvert mannsbarn að seðlabankastjóri er uppfullur af umboðsvanda í þessu máli öllu saman, vanda sem reifaður var ítarlega í siðferðiskafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem greinarhöfundur telur hafa verið einn vitrænasta hluta skýrslunnar og mest á byggjandi til framtíðar. Verst er þó að seðlabankastjóri hefur einnig sett alla starfsmenn sjálfstæðs seðlabanka í sömu stöðu með setu sinni í viðræðuhóp vegna samninga við ESB. Hugsanlegt er, en ekki fullyrt, að hann gæti hafa fengið formennskuna til að drýgja laun sín en það réttlætir ekki þá pólitísku áhættu sem hann setur þjóð sína og banka hennar í.

Seðlabankastjóri er þarna rammfalskur í grein sinni í Morgunblaðinu í dag og varpar skýrara ljósi en áður á hlutverkavanda sinn eins og allir gera sem telja sig búa yfir yfirnáttúrlegri þekkingu en hafa ratað villu vega.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur