Laugardagur 22.09.2012 - 15:21 - Rita ummæli

Þjóðvilji Samfylkingarinnar

Á næstu vikum mun koma út bók eftir heimspekinginn Jón Ólafsson sem fjallar um rannsóknir hans á afdrifum Veru Hertzch, unnustu Benjamíns heitins Eiríkssonar hagfræðings og dóttur þeirra hjóna, Erlu Sólveigar, þá um 1 árs (fædd 1937), sem handteknar voru í viðurvist nóbelskáldsins Halldórs Laxness.

Samkvæmt sagnfræðingnum Þór Whitehead í bók hans Milli vonar og ótta (Vaka-Helgafell, 2. prentun 1995, bls. 65-66) kemur m.a. fram að Benjamín Eiríksson, þá 29 ára sjómannssonur úr Hafnarfirði sem numið hafði hagfræði í Þýskalandi, Svíðþjóð og Sovétríkjunum, hafi hreyft við griðarsáttmálanum sem Hitler og Stalín höfðu gert sín í millum á þessum árum óttans. Fyrir tilstyrk Brynjólfs Bjarnasonar, formanns Kommúnistaflokksins, hafði Benjamín farið til Moskvu á sínum tíma sannfærður kommúnisti og numið ýmis fræði. Síðar gekk Benjamín af trúnni, þó með leynd, eftir reynslu sína af því þegar sovésk ógnarstjórn handtók unnustu hans og nýfædda dóttur og færðu þær í fangabúðir, Gulagið. Gulag fangabúðirnar voru staðir, sem annað nóbelskáld (1970) og reyndar einnig sagnfræðingur, rússinn Alexander Solsjenitsyn, lýsti svo vel í samnefndum bókum sínum. Þar þurfti þessi merki rússi að dúsa í 8 ár fyrir meinta óvirðingu í garð Stalíns. Var hann svo gerður útlægður úr Sovétríkjunum 1974 en snéri aftur sem þjóðhetja 1994.

Fram kemur jafnframt í viðtali við Jón Ólafsson í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins (23. september 2012, bls. 50-51) að nóbelskáldið Halldór Laxness hafi í raun verið sannfærður um að Moskvuréttarhöldin á sínum tíma hefðu verið réttlætanleg. Svo virðist sem tíðarandinn hafi verið sá að rithöfundar, mennta- og listamenn létu ofbeldi og manndráp innan Sovétríkjanna sér í léttu rúmi liggja og drógu frekar fjöður yfir slíkt og réttlættu m.a. hér á Íslandi. Kemur þetta m.a. fram í Rauðu bókinni – Leyniskýrslur SÍA þar sem íslenskir kommúnistar m.a. í A-Þýskalandi vissu um eymd og volæði þess tíma en létu annað í veðri vaka þegar þeir vegsömuðu Sovétríkin í dagblöðum á Íslandi.

Á sínum tíma ætlaði Benjamín Eiríksson að gagnrýna griðarsáttmála Hitlers og Stalíns með skrifum í Þjóðviljann, blað kommúnista á Íslandi en ritstjórarnir, þeir Einar Olgeirsson og Sigfús Sigurhjartarson, reyndu að koma í veg fyrir slíkt en á þessum tíma hafði unnusta Benjamíns verið tekin af lífi eins og kom fram í framangreindu fræðiriti Þór Whitehead frá 1995.

Fyrir tilstuðlan Héðins Valdimarssonar var, eftir fund í miðstjórn Kommúnistaflokksins á Íslandi, þrýst á ritstjóra Þjóðviljans, og að lokum tókst með herkjum að fá heimild til að birta greinina í Þjóðviljanum.

Um þessar mundir hamast margir stuðningsmenn og velunnarar ríkisstjórnar Íslands, eins og t.d. rithöfundurinn góðkunni Hallgímur Helgason, við að rægja fjölmarga menn sem börðust hatrammlega gegn kommúnistum á Íslandi. Hann bendir m.a. á félagskap nokkra þeirra myndrænt á netinu undir heitinu Bandidos og dreifir því um netið ásamt miður sómasamlegum athugasemdum eins og honum er von og vísa. Í bakgrunni vefsetur hans á fésbókinni er svo Halldór Laxness sjálfur hafður í smóking en aðrir merkir íslenskir rithöfundar naktir. Þessu þykir honum sjálfsagt mikill sómi af.

Hallgrímur setur vissulega talsvert niður við þetta enda ekki sómi af þegar brattir rithöfundar telja sig hafa höndlað sannleikann og getað túlkað hann betur en aðrir. Þannig verða t.a.m. til ofsatrúarmenn sem fara oft illa með frelsið og ábyrgðina sem því fylgir.

Sama mætti segja um menntamanninn og háskólaspekinginn Stefán Ólafsson sem ítrekað er að reyna að verja ríkisstjórn sem vill ganga að n.k. griðasáttmálum við Evrópusambandið (ESB) en fyrir þeirri samninganefnd fer gamall kommúnisti. Stefán reynir sitt besta til að sannfæra þjóðina að eymdin í dag, bæði hér heima og innan ESB, sé ekki til staðar þrátt fyrir fólksflótta frá landinu bláa og ömurlegt atvinnuástand. Á landinu bláa eru einnig lög brotin af hverjum ráðherranum á fætur öðrum svo ekki sé minnst á þegar sett var ofan í sjálfan Hæstarétt með ólögum og lagt í pólitísk réttarhöld yfir fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar.

Undir þetta flest tekur svo blessaða Fréttablaðið ásamt fjölmörgum bloggmiðlum, stjórnleysingjum hvers konar og víða í netheimi sem varð til í hinum frjálsa heimi, ekki í heimi kommúnista þar sem Komintern réð ríkjum í einangruðum leyndarheimi. Það var netheimur kommúnismans.

Því er það fagnaðarefni þegar sagnfræðingar stíga nú fram hver á fætur öðrum og sýna okkur hinum, Hallgrími og Stefáni Ólafs hvernig þetta var þegar foreldrar okkar ólust upp og máttu þola áróður af verra taginu þar sem falsrök og sleggjudómar réðu ríkjum.

Í dag er nýr tími en enn eru til rithöfundar og menntamenn sem nýta nútímatækni, rit- og málfrelsi sitt af miklum móð til að sannfæra þjóð að ganga til liðs við ESB og eiga í samningaviðræðum við gamla kommúnista og sósíal demókrata sem hafa vissulega söðlað um rétt eins og þeir sjálfir.

Hverjir hefðu þurft að sæta fangavist á Íslandi fyrir þær sakir sem verstar geta verið og felst í undirróðri og fölskum yfirlýsingum sbr. SÍA skýrslurnar frá A-Þýskalandi? Hún Vera Hertzsch var ekki kona Hallgríms við 1000 gráður heldur kona við alkul í útrýmingabúðum Stalíns ásamt barni hennar og Benjamíns Eiríkssonar.

Þá er hlegið dátt í herbúðum Samfylkingarinnar og VG og sagt: ,,Þetta er ekki svona í dag.“

Flokkar: Menning og listir · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur