Fimmtudagur 11.10.2012 - 11:56 - Rita ummæli

Hið opinbera, skjaldborgin og skólinn

Telja má fullvíst að víðtækasti og veigamesti óskrifaði samfélagssáttmáli hvers ríkis sé að standa vörð um börnin og tryggja að hægt sé að koma þeim til manns.

Menntamálin eru sett í öndvegi í ríkjum sem telja þennan málaflokk skipta máli. Hjá slíkum ríkjum er tryggt að þó allt fari á versta veg séu börnunum ávallt tryggð menntun og að hún sé fyrsta flokks enda þurfa þau að geta staðist harða samkeppni þegar út í atvinnulífið er komið.

Samfélagið okkar allt er hér undir til lengri framtíðar.

Eftir hrun þurfti vissulega að skera niður en þeir sem skáru niður gleymdu því að það var einingin sem þeir standa helst vörð um, æðsta stjórn hins opinbera, sem var ekki skorin niður í þá stærð sem hún var í árið 2005 og fyrir þann tíma.

Það er afar mikilvægt ,,elskan mín“ og kostnaðarsamt að sækja um ESB aðild þó enginn vilji þar inn. Einnig er mikilvægt að kjósa um breytingu á stjórnarskrá ,,elsku hjartað mitt“, stjórnarskrá sem stóðst álagið þegar mest á reyndi. Um að gera að spandera í þetta og þenja út æðstu stjórn hins opinbera ,,ástin mín kæra“…DÖ!

Æðsta stjórnsýsla hins opinbera stendur nú í útgjöldum sem nema um 8,4% af vergri landsframleiðslu (VLF) en það var stigið sem útgjöld til menntunar stóðu í sem hlutfall af VLF árið 2005. Það ár tók æðsta stjórnsýsla ríkisins til sín einungis um 5% af VLF.

Svo virðist því að á meðan skorið er til menntamála vex æðsta stjórnsýslan umfram allt sem teljast má eðlilegt í rétt yfir 300 þúsund manna samfélagi. Nú er ráðuneytum fækkað en það virðist allt vera „blöff“ og ætlað til markaðssetningar á ímynduðum sparnaði í æðstu stjórnsýslunni rétt fyrir kosningar næsta vor eða fyrr.

 

 

Hið opinbera vex og vex en börnin eru látin sitja á hakanum því æðsta stjórnsýsla ríkisins er frek á fóðrum. Að auki er öryggismálum öllum stefnt í voða á Íslandi.

Ef litið er til öryggismála og löggæslu er um að ræða útgjöld sem nema aðeins um 1,4% af VLF sem ráðstafað er til þess málaflokks. Ekki er hægt að finna eins lága tölu fyrir árabilið 1998 til 2011.

Því er ljóst að ekki hefur eins lítið hlutfall af VLF runnið til löggæslu og öryggismála á Íslandi um árabil. Því eru börnin okkar ekki einu sinni örugg þegar út úr skólanum er komið. Hvað þá með fjölskylduna alla í yfirveðsettri fasteign? Það versta er að nútíma glæpahundar kunna ekki að stela skuldabréfinu af fasteigninni.

Í dag eru leikvellir um borg og bí ekki þrifnir né slegnir því starfsmenn sveitarfélaga leggja hugsanlega ekki í að sinna þessu sem skildi vegna sprautunála á víð og dreif. Hvers konar samfélag er þetta að verða?

 

 

Það er orðið tímabært að foreldrar taki höndum saman og mótmæli þessu framferði hins opinbera harðlega og beiti sér fyrir því að úr þessu verði bætt og að stjórnmálamenn fari að huga að skólanum og hætti að sinna gæluverkefnum sínum. Það er kominn tími til.

Stöndum vörð um börnin okkar og komandi kynslóðir því hið opinbera virðist hafa gjörsamlega gleymt lögbundnu hlutverki sínu og sinnir því illa.

Flokkar: Skólamál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur