Föstudagur 09.11.2012 - 11:20 - Rita ummæli

Allratap miðju- og vinstrimanna

Jón Steinsson, dósent í hagfræði, ritaði nýlega áhugaverðan og málefnalegan pistil undir yfirskriftinni Frelsi og hagsæld hér á Eyjunni. Var þá tími til kominn enda hefur Stefán Ólafsson, prófessor, riðið um netheima með allt annað en málefnalegar greinar og pistla varðandi frelsið, velsæld og jöfnuð.

Í pistli sínum vísar Jón m.a. í ræðu sem Gunnlaugur Jónsson flutti á aðalfundi Frjálshyggjufélagsins fyrir skömmu en megininntak hennar var að frjálshyggja væri ekki öfgastefna heldur ,,hin sanna miðjustefna“.

Í dæmi sínu fór Jón yfir það að í frjálsu kerfi innan heilbrigðismála myndi sá sem ræki einkatryggingakerfi ávallt lenda í því að sitja uppi með sjúkustu einstaklinganna sem síðar munu ekki hafa efni á að greiða fyrir þjónustu sem yrði mjög dýr og því fælist ekki jöfnuður í slíku kerfi. Hins vegar játar Jón því að í mörgum tilvikum fer aukið frelsi vel við aukna hagsæld. Ekki var talið hér á árum áður nokkut vit í því að auka frelsi og þannig velsæld neytenda t.a.m. með frjálsum fjölmiðlum. Spruttu margir vinstri- og miðjumenn upp til að mótmæla því sem og afléttingu bjórsölubanns á Íslandi svo fáein dæmi séu nefnd. Við hægri menn kölluðum þetta og köllum enn forsjárhyggju enda er þetta ekkert annað.

Eitt sem gleymist hjá Jóni er umfjöllun um umframbyrði, þ.e. það sem oft er kallað allratap. Það sem Jón á að vita, en velur að upplýsa lesendur sína ekki um, er að þegar einokun ríkir verður til óskilvirni á framboði og eftirspurn eftir vöru eða þjónustu og er kjörstöðu því ekki náð (svokallaðri Pareto-kjörstöðu). Því kaupir fólk vörur eða þjónustu en hlýtur ekki ábatann þegar aðili í einokunaraðstöðu, eins og RÚV ofl., beitir sér á markaði eða nýtir ríkisvaldið til að þvinga þegna sína og fyrirtæki til að greiða skatt sem nýttur er til niðurgreiðslu á lélegri rekstrareiningu, t.a.m. innan ríkisins. Hvers vegna bendir Jón ekki á þetta? Líkur eru á að það geri hann ekki frekar en Stefán því slíkt hentar greinilega ekki málstaðnum eða þeim hagsmunum sem skrifað er fyrir.

 

Mynd fengin úr glærusafni hagfræðideildar Háskóla Íslands

 

Miðju- og vinstrimenn eru því tilbúnir að leggja á skatta sem almenningur og fyrirtæki greiða til ríkisins, ásamt umtalsverðum eftirlitskostnaði og yfirbyggingu, svo halda megi upp einokun gegn þeim sjálfum. Í fyrsta lagi verður þetta til þess að neytendaábatinn er minni en ella og allratap (þ.e. það sem allir tapa á og er umframbyrði vegna markaðsbrests) er í hámarki.

Það sem hægri menn vilja er að hámarka ábata neytenda og lágmarka alltratap. En svo virðist sem bæði Jón og Stefán vilji einmitt lágmarka ábata neytenda og hámarka allratap.

Ef við bætum aðila á markaðinn í samkeppni við hinn sem fyrir er má sjá umtalsverða breytingu. Benda má lesendum á að þetta efni er kennt í fyrstu kúrsum í hagfræði við alla háskóla heims en virðist talið óþarft að benda á í þessu samhengi af hálfu bæði Jóns og prófessors Stefáns.

 

Mynd fengin úr glærusafni hagfræðideildar Háskóla Íslands

 

Hér má sjá að vegna áhrifa samkeppninnar á markaði eykst neytendaábatinn og allratap er lágmarkað auk þess sem verð sambærilegrar vöru og þjónustu, sem kemur ný á markaðinn, lækkar verð. Því vekur það furðu að þegar litið er á tölfræðiútlistun Jóns Steinssonar hagfræðings virðist hann fremur hallur undir ofbeldið af hálfu miðju- og vinstrimanna sem einkennist af því að auka skattlagningu og hámarka allratap samfélagsins.

Það sem einnig gleymist hér er að neytendur láta ekki að sér hæða og hafa fundið fyrir þessu síðustu árin eftir miklar skattahækkanir ríkisstjórnar Íslands. Þeir þekkja því vel orðið ofbeldið frá vinstri.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur