Sunnudagur 11.11.2012 - 10:21 - Rita ummæli

Bjarni Benediktsson kemur sterkur fram til forystu

Niðurstöður í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi benda eindregið til þess að þau Bjarni Benediktsson, Elín Hirst og Óli Björn Kárason séu sigurvegarar enda þau sem fá ein bindandi kosningu með yfir 50% atkvæða í sín sæti. Aðrir ná því ekki og eru þetta því sterkustu aðilarnir í sínum sætum á lista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Jón Gunnarsson háðu baráttu um 2. sætið og hafði Ragnheiður betur auk þess að vera með flest atkvæði greidd í prófkjörinu og vinnur vissulega mikinn sigur hvað það varðar. Jón kemur afar sterkur inn í 3. sæti og er að tryggja sig vel í sessi.

Óhætt er að segja að Vilhjálmur Bjarnason hafi átt breiðan stuðning og komið sem nýliði mjög sterkur inn á listann og fór þar í 4. sæti. Elín Hirst kemur inn sem einn sterkasti nýliðinn enda með bindandi kosningu í sitt sæti sem skiptir miklu máli.

Það er áhugavert að sjá hve Sjálfstæðisflokkurinn kemur vel út úr þessu prófkjöri og hve formaðurinn er sterkur þrátt fyrir að að honum hafi verið sótt af ómerkilegum fjölmiðlamönnum sem yfirleitt hafa ósannindi að leiðarljósi og beita lygamörðum sem vopni í sinni baráttu fyrir veikum málstað. Hins vegar sjá Sjálfstæðismenn þetta fyrir og hafa valið sér sterkann mann til forystu sem fyrr.

Ef listi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi er borinn saman við niðurstöðu úr prófkjöri Samfylkingarinnar kemur í ljós mun vænlegri listi hjá Sjálfstæðismönnum en þar var til um helgina á vinstri vængnum.

Listi Samfylkingarinnar er ekki listi Suðvesturkjördæmis heldur Kópavogs eftir að hinum mæta eðalkrata úr Hafnarfirði, Lúðvíki Geirssyni, var ýtt niður um sæti vegna kynjakvóta. Eftir stendur að í efstu sætum lista Samfylkingarinnar í Kraganum eru hvorki eðalkratar né aðrir en hið vænsta fólk úr Kópavogi sem þar skipar nú þrjú efstu sætin.

Kynjakvóti, sem orðinn er afar vinsæll innan Samfylkingarinnar þegar það hentar, virðist hér koma í veg fyrir að Hafnfirðingar fái sinn mann á lista Samfylkingarinnar í vænt þingmannssæti. Heyrst hefur úr herbúðum eðalkrata að nú sé kominn tími til að taka upp kratakvóta svo tryggja megi að þeir fáu eðalkratar, sem eftir eru í Samfylkingunni, fái sæti á fléttulistum framtíðarinnar.

Niðurstaða helgarinnar er því sú að Sjálfstæðisflokkurinn er með mun betri niðurstöðu en Samfylkingin sem kaus sér Kópavogslista í rafrænu og ópersónulegu prófkjöri.

Bjarni Benediktsson er því vel að þessu kominn og tekur nú brátt við stjórn landsmála, sem betur fer.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur