Mánudagur 19.11.2012 - 18:49 - Rita ummæli

Samfylkingin og Panama norðursins?

 

Mynd fengin af www.visir.is (sjá frétt: http://www.visir.is/tuttugu-milljarda-krona-fjarfesting-verne-holdings/article/200880226071)

 

Ef við snúum okkur að fjármunum skattborgara á Íslandi, sem Samfylkingin hefur verið að deila út um borg og bý ásamt ríkisábyrgðum, er margt fróðlegt að sjá.

Nú er að poppa upp enn eitt afkvæmi Samfylkingarinnar skv. fréttum dagsins í dag.

Í tilefni þessarar fréttar er rétt að fara örstutt aftur í tímann og rifja upp söguna að baki þessu ævintýri en eins og þið vitið lesendur góðir erum við ansi fljót að gleyma. Því er rétt að fara fyrst aðeins aftur fyrir hrun þegar hér riðu hetjur um héruð með fullt rassgatið af ,,pjéníngum“ og skrautbúin skip fyrir landi er flutu með fríðasta lið, svo vitnað sé í okkar ástkæra skáld, Jónas Hallgrímsson.

En hver var þessi varningur sem þessi skip voru að flytja heim svo enn sé vitnað í ljóð Jónasar? Voru það ekki bara skuldbindingar til handa landanum, engin framleiðsla, aðeins fals, fífldirfska og frekjugangur?

Október 2007:

Áhugaverð ábending frá forstjóra Hibernia.

Í samtali við Morgunblaðið segir Bjarni að ákvörðun um lagningu Danice virðist hafa verið tekin í flýti og byggð á takmörkuðum upplýsingum enda fullyrði viðskiptavinir Hibernia Atlantic, sem séu mörg af stærstu síma- og fjármálafyrirtækjum heims, að strengur Hibernia til Írlands mundi henta þeim jafn vel eða betur en strengur til Danmerkur.

Október 2007:

Hér má sjá frétt varðandi áréttingu frá gjaldkera Samfylkingarinnar og fulltrúa Verne Holding.

Sjá tengingu við frétt í Morgunblaðinu

Verne Holding ehf. hyggst setja upp netþjónabú, eða gagnaver, hér á landi að sögn Vilhjálms Þorsteinssonar stjórnarformanns. Hann sagði að eigendur Verne Holding ehf.

Hér kemur árétting þess efnis frá stjórnarformanni Verne Holding að Danice strengurinn yrði vandaðari strengur.

Var einhver trygging fyrir skattgreiðendur á því að þeir einstaklingar, sem þarna voru í viðskiptum, væru vandaðir, a.m.k. eitthvað vandaðari en Hibernia strengurinn sem aðeins átti að flytja ljós?

Október 2007:

Hér gefur að líta að væntanlegur viðskiptavinur (hver svo sem það var) réð ferðum hvernig sjóðum skattgreiðenda yrði varið þar sem ríkisábyrgð uppá milljarða var veitt og milljörðum dælt í verkefnið frá orkufyrirtækjum eins og Orkuveitu Reykjavíkur sem síðar kom í ljós að var blóðmjólkað fyrirtæki. Ekki má gleyma hlut Landsvirkjunnar í þessu dæmi.

Sjá tengingu við frétt í Morgunblaðinu

Óskir Verne Holding, sem sýnt hefur eindreginn vilja til að setja hér upp netþjónabú, vógu þyngst í þeirri ákvörðun Farice að leggja frekar Danice-fjarskiptastrenginn en að semja við Hibernia Atlantic um afnot af fjarskiptastreng þeirra sem ætlunin er að leggja til Írlands. Þetta segir Steinn Logi Björnsson, en hann er bæði stjórnarformaður Eignarhaldsfélagsins Farice (E-Farice) og Farice.

Maður veltir því fyrir sér að ef viðskiptavinurinn var svo áfjáður, hví ekki að taka ábyrgðir úr hendi hans til að tryggja að ef allt færi úr skorðum að það lenti ekki á skattgreiðendum á Íslandi?

Hver var að gæta hagsmuna skattgreiðenda? Var það Kristján Möller og gjaldkeri Samfylkingarinnar? Hver var það? Var það sá sami og átti að sjá um kaup á Grímseyjarferjunni góðu? Var það sá sem sá um útboðið og áætlanagerð vegna Héðinsfjarðarganganna?

Febrúar 2008

Verne Holding kynnir netþjónabú á Íslandi

Sjá tengingu við frétt á Vísi

September 2008: 

Í þessum mánuði var ljóst að afar hagstæðu tilboði Hibernia í lagninu ljósleiðara, sem hefði tengt Ísland með lágmarks töfum (e. latency) til Evrópu og N-Ameríkju, var ekki tekið af íslenska ríkinu og frekar farið í gríðarlega fjárfestingu í lagningu í átt að smærri markaði en N-Ameríku, þ.e. Danmörku eftir áréttingu m.a. frá gjaldkera Samfylkingarinnar.

Sjá tengingu við frétt í Morgunblaðinu

EIGANDI Hibernia Atlantic og fyrrverandi eigandi Norðuráls á Grundartanga, Kenneth Peterson, segir að það hafi komið sér á óvart þegar íslensk stjórnvöld ákváðu að ganga framhjá tilboði Hibernia um lögn sæstrengsins og leggja frekar Danice-strenginn.

September 2008

Hér segir forystumaður Bjartrar framtíðar, þá aðstoðamaður Kristjáns Möller, að það hefði bara verið ómögulegt að semja við Hibernia því skilmálar um þá ódýru lausn hefðu verið óásættanlegir.

Sjá tengingu við frétt í Morgunblaðinu

Ekki var hægt að ganga að tilboði Hibernia, félags í eigu Kenneth Peterson sem stofnaði Norðurál á sínum tíma, í lagningu ljósleiðara milli Íslands og Evrópu vegna óviðunandi skilmála, segir Róbert Marshall, aðstoðarmaður samgönguráðherra.

Það væri áhugavert að sjá þessa skelfilegu skilmála sem urðu til þess að mun dýrari kostur var valinn án tilsvarandi ábyrgða frá helsta og væntanlega kaupanda á ljósi á milli Evrópu og Íslands. Það gæti verið að Róbert upplýsi það fyrir skattgreiðendum fyrir næstu kosningar til Alþingis.

Febrúar 2009

Í miðju hruninu er svo gengið til samninga um að nýta 80% af Farice strengnum og hinum glæsilega nýja Danice streng sem Kristján Möller mærði eins og Vaðlaheiðagöngin í dag þar sem skattgreiðendur voru látnir taka alla ábyrgð. Í hvaða umboðsvanda voru menn hér?

Sjá tengingu við frétt í Morgunblaðinu

Bíðum nú við: Hvaða tryggingar lágu að baki viðskiptunum sem hér er lýst?

Á blaðamannafundi í dag skrifaði Verne Holding undir samninga við Landsvirkjun, Farice og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar vegna málsins. Farice leigir Verne Holding flutningsrými á Farice-1 sæstrengnum og hinum nýja Danice-streng sem á að leggja á þessu ári. Samtals mun Verne Holdings hafa aðgang að 160 gígabitum á sekúndu eða 80 gígabitum á hvorum streng. Til samanburðar nota allir landsmenn, fólk og fyrirtæki, tæpa fjóra gígabita á sekúndu nú.

Sjá tengingu við þessa  (sjá útdrátt að ofan) frétt á Vísi

Fjáraukalög 2009

Hér kemur fram að ríkið þarf að auka hlut sinn í Farice. Hvers vegna ætli það hafi þurft ef þessir samningar hefðu verið það tryggir og eðlilegar ábyrgðir kallaðar fram og eftir þeim gengið svo að allt lenti ekki á skattgreiðendum? Hvernær verður Samfylkingin spurð að þessu?

Sjá tengingu við vef Alþingis þar sem finna má í fjáraukalögum (sjá 7.24) að ríkið bætir í og það um milljarða að öllum líkindum og tekur yfir alla áhættuna í verkinu. Hvenær verður innt eftir þessu? Fyrir næstu kosningar?

Frétt frá því í dag, 19. nóvember 2012

Jólagjöfin til skattgreiðenda í ár frá Samfylkingunni eru enn meiri greiðslur inní Farice.

Megin ástæðan er sú að Danice strengurinn var svo miklu, miklu betri en Hibernia strengurinn að við, skattgreiðendur verðum að borga miklu, miklu meira því ekki var talin ástæða til að kaupendurnir, nú eða byggjendur gagnaversins, gengust undir ábyrgðir.

Svo má ekki gleyma n.k. ,,gjöf“ ríkisins á húsnæði (enda selt á afar lágu verði og líklega undir markaðsvirði) úti á gamla varnarliðssvæðinu sem ríkið á nú í karpi út af fyrir dómstólum ytra og greiðir umtalsvert fé fyrir þau útgjöld öll, allt úr vasa skattgreiðenda.

Hér má sjá teningu við frétt í Morgunblaðinu í dag

Hvenær lýkur þessu bruðli Samfylkingarinnar?

Ætlum við skattgreiðendur að kjósa eina ferðina enn yfir okkur aðila sem sólunda fjármunum okkar?

Erum við að gefast upp á baráttunni fyrir ráðdeild í ríkisrekstri?

Hvenær verður þetta rannsakað til enda? Munu einhverjir axla ábyrð eða erum við Panama norðursins þar sem geyma má stjórnmálamenn á snaga og taka þá fram síðar og þeir eru þá ,,good as new“?

Það versta við það að innan flestra flokka eru aðilar sem stunda viðskipti af þessum toga og almenningur virðist blindur þegar kemur að prófkjörum og kosningum til Alþingis.

EIR málið er eitt gott dæmi um hugumstóra menn í Sjálfstæðisflokknum sem hafa farið illa að ráðum sínum og skilja ekkert í að svo fór sem fór. Allt gott fólk, sumt saklaust og jafnvel sært, jafnvel dálítið vitlaust.

Það er því mikið mál fyrir stærsta stjórnmálaaflið á Íslandi að gefa ekki þumlung eftir í að verja hag skattborgara í stjórnarsamstarfi við flokka eins og Samfylkinguna og Framsókn eins og dæmin sanna. Þar virðist sólundað með ráðum og af ígrunduðu skipulagi þar sem unnið er markvisst gegn skattgreiðendum. Það er hættulegt, stórhættulegt pólitískt eins og dæmin sanna.

Ísland er greinilega orðið að Panama norðursins enda spillingin enn að koma í ljós þegar mörg ár eru liðin frá hruni.

Þessu er hægt að breyta en það kallar á sterka leiðtoga sem þora að tjá sig, eru séðir, ekki með aumingjaskap og stunda ekki umboðssvik stjórnmálamanns fortíðarinnar.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur