Föstudagur 22.02.2013 - 16:41 - Rita ummæli

Bjarni Benediktsson og Samfylkingin

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, stærstu stjórnmálahreyfingar Íslands, var settur í gær og stendur nú yfir næstu daga. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, fjallaði um þau málefni sem efst eru á baugi í bestu ræðu sem haldinn hefur verið á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins um árabil. Óhætt er að segja að hann hafi þar farið með bæði skynsömum hætti og rökföstum yfir þá alvarlegu stöðu sem VG og Samfylkingin hefur komið þjóð sinni í á undanförnum árum.

Aðdragandi hrunsins

Ef litið er til baka og kannað hve margir hafa misst mikið og hve mörgu hefur verið fórnað stendur eftir að Ísland er ekki einsdæmi hvað það varðar. Sérfræðingar, bæði innlendir og erlendir, hafa bent á að hrunið megi m.a. rekja til ótrúlegrar vaxtastefnu bandaríska seðlabankans á árunum eftir 11. september 2001 þegar mjög alvarleg hryðjuverk voru framin í New York.

Þessi vaxtastefna bandaríska seðlabankans leiddi til þess að ódýr, en stutt lán (c.a. 5 ára), buðust hér heima og fjármögnuðu bankar hér útrásina með þeim. Athuga ber að langtímavextir voru hærri og ekkert ósvipaðir þeim sem eru enn í dag en þannig er eðli vaxtaferla bæði til lengri og skemmri tíma að stutti endinn sveiflast meira en sá langi. Þetta nýttu menn sér í samdrættinum enda í þessu fólgin freistni.

Þessi mistök hafa þegar verið viðurkennd fyrir margt löngu síðan.

Hér heima voru hins vegar menn sem vöruðu við þessu og einn þeirra sem mest hamraði á varnaðarorðum var Davíð Oddsson fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins.

Hrunið og fortíðin

Margir, bæði innlendir og erlendir leikmenn og sérfræðingar, töldu á þessum tíma allt vera fært og framtíðin björt. Það voru falskar vonir en meðvirknin var mikil, bæði hér heima og erlendis.

Árið 2004 ritaði pistlahöfundur grein í Morgunblaðið þess efnis að ef ekki yrði tekið á skuldasöfnun væri krónan ,,dauðvona“. Árið 2007 endurtók pistlahöfundur í sama blaði sömu varnaðarorð í grein þar sem Seðlabanki Íslands og stefna hans var gagnrýnd. Haustið 2007 átti pistlahöfundur fund með einum bankastjóra Seðlabanka Íslands og fyrrum samstarfsmanni þar innandyra og lýsti þar áhyggjum sínum á ástandinu hér heima.

  • Grein pistlahöfundar frá árinu 2004 má finna hér á vef mbl.is: Grein A
  • Grein pistlahöfundar frá árinu 2007 má finna hér á vef mbl.is: Grein B

Það var enginn, a.m.k. mjög fáir, að kaupa þessar kenningar á þessum árum sem lýst var að þyrfti að huga að í þeim greinum sem að framan er getið. Hvers vegna ætli það hafi verið? En pistlahöfundur gat ávallt treyst á einn mætan mann sem ljáði þessum kenningum eyra og þær vöktu athygli hans.

Viðskipti eru göfug og þar leynast hættur

Bjarni Benediktsson var eins og svo margir aðrir í viðskiptum og það er göfugt að eiga í viðskiptum, ekkert við slíkt að athuga enda er það grundvöllur atvinnusköpunar að stunda viðskipti og þarf oft kjark til.

Ég verð að segja að ég þekki afar fáa á Alþingi sem hafa stundað viðskipti og tel reyndar að það ætti að fjölga fólki úr atvinnulífinu til muna innan veggja þingsins. Fólk sem ég tel vera ,,úr atvinnulífinu“ er fólk sem hefur starfað sjálfstætt eða rekið fyrirtæki (ekki stofnun), þurft að greiða út laun og eiga fyrir þeim mánaðarlega nú eða hafa unnið í einkageiranum þar sem aga og hagræðingar er krafist uppá hvern einasta dag.

Hér er m.a. átt við sjálfstætt starfandi iðnaðarmenn, bændur, sjómenn, hönnuði, listafólk, verktaka, verkfræðinga, fólk sem starfar í þjónustu, ferðaiðnaði, í fjármálageiranum, í útrás á erlendum vettvangi, fólk sem eru frumkvöðlar, sérfræðingar á sviði hjúkrunar og lækninga, sjálfstæða aðila sem reka skóla, reka heilbrigðisþjónustu og svo fjölmarga aðra. Hér ekki átt við embættismenn, fólk úr stjórnsýslunni, ekki fólk úr háskólasamfélaginu, ekki fólk er tengist opinberum rekstri.

Allir eiga erindi á þing en það vantar fleiri á þing úr atvinnulífinu.

Mest þykir mér um þá sem eru með lítil og meðalstór fyrirtæki enda skila þau oft mestu í þjóðarbúið, skapa mörg störf og eru trygg í rekstri. En það leynast hættur í viðskiptum, fjölmargar hættur.

Fáir nefna þá milljarða sem fólk, hluthafar stórra, lítilla og meðalstórra fyrirtækja, hefur tapað í og frá síðasta hruni. Fólki finnst það bara allt í lagi eða telur það bara hafa verið ,,gott“ á það að hafa tapað því. Þetta eru ekki sanngjarnar yfirlýsingar eða upphrópanir. Upphrópanir af þessum toga lýsa fremur skilningsleysi en skynsemi.

Fjárfestingarfélag fjárfesti eitt sinn í N1 og var fjármagnað af banka

Fjárfestarnir sem fjárfestu í N1, nú eða öðrum rekstri hér heima eða erlendis, töldu á þeim tímapunkti, þegar fjárfest  var, að forsendur, sem bankinn (líklega þá Glitnir banki) er seldi N1 lagði fram, væru réttar, sannar og stæðust skoðun.

Áttum okkur á því að á þessum árum fyrir hrun lifðu bankar nánast aðallega af þóknunartekjum af slíkum ,,dílum“ og seldu grimmt, sameinuðu og sundruðu fyrirtækjum til að hámarka þóknunartekjur og afrakstur vaxtamunar á lánum sem fylgdu með í kaupunum.

Athugið að þau lán voru fjármögnuð ,,stutt“ (þ.e. á stuttum lánum á lágum vöxtum – sbr að ofan) erlendis og lánuð ,,langt“ hér heima (þ.e. lánað til langs tíma hér heima svo það stemmdi við fjárflæðisgreiningu sem ,,seld“ var með dílnum). Svona var nú þetta eignasafn bankanna í grófum dráttum byggt upp og á sandi auðvitað.

Forsendur lagðar fyrir, eigið fé lagt fram á móti lánum

Á þeim forsendum, er bankinn lagði fram og fjárfestar töldu standast, var talið arðbært að fara í verkefnið. Á sömu forsendum keyptu margir nýtt hús, nýjan bíl, nýtt hjólhýsi, jafnvel sumarhús og fóru í fjárfestingar á hlutabréfamarkaði.

Flest ef ekki allt þetta fólk glataði gríðarlegu eigið fé og það gerði Bjarni Benediktsson eins og svo margir aðrir. Hann, eins og aðrir, gátu selt bréf í bönkum þegar menn töldu hættu steðja að og búa menn oft yfir misgóðum og öruggum upplýsingum eða væntingum.

Bjartsýni og brostnar forsendur við Miðjarðarhafið

Pistlahöfundur átti tal við Bjarna á þessum tíma og á þessum árum. Oft fullyrti greinarhöfundur að þetta kerfi væri að fara til fjandans. Bjarni vissi af þessum greinum sem getið er hér að framan. Hann vissi líka af því að undirritaður hafði rannsakað verðlag, sparnað og fjárfestingu í hagkerfinu hér heima og erlendis um langa hríð.

Með því að birta greinarnar var ætlun pistahöfundar að láta þig, lesandi góður, einnig vita af þessum upplýsingum sem margir segja nú að sumir vissu vegna innherjasvika. Innherjasvika? Hvernig getur það verið allt frá árinu 2004 og undirritaður ekki unnið í banka svo nokkru nemi? Þvílíkt og annað eins.

Upplýsingar vina minna og félaga gátu því alveg eins byggst á tuðinu í pistlahöfundi þegar Bjarni ákvað að selja bréf sín í Glitni banka árið 2008 á sama tíma og undirritaður var erlendis með stjórnarmanni úr bankanum og sagði bankann þegar kominn á hliðina með útskýringum á servíettu á bar við Miðjarðarhafið. Hver veit um það og hvernig er hægt að meta það? Það er bara ekki hægt og pistlahöfundur hefur ekki hugmynd um annað en allir hafi virt þessar ábendingar og varúðarráðstafanir allar að vettugi.

Ekki vantaði gagnrýnina á Davíð Oddsson þegar hann las yfir hausamótunum á útrásarhetjum Samfylkingarinnar hér rétt fyrir hrun. Því má ætla að ef lítið var hlustað á hann að ekkert hafi verið hlustað á það sem pistlahöfundur hafi fram að færa.

Hver er þá sekur?

Samfylkingin og falsheitin með VG leppum

En þá var hér flokkur sem dansaði með og það var Samfylkingin sem nú allir telja að hafi bara ekkert gert sem bætti í tap skattgreiðenda hér fyrir hrun. Eitt dæmi er t.d. hvatning fyrrverandi formanns fylkingarinnar til fólks að taka enn meira af verðtryggðum lánum Íbúðarlánasjóðs rétt fyrir hrun.

Þvílíkt hættuspil, þvílík forsjárhyggja og í raun fáviska sem það nú var.

En það var allt í boði Samfylkingarinnar ásamt VG sem átti sinn fulltrúa í Frjálsa fjárfestingarbankanum og svo má ekki gleyma stofnbréfaeigendum innan Samfylkingarinnar sem fengu sína gullnu fallhlíf eftir að núverandi formaður þessarar fylkingar hafði gefið út lögfræðiálit þess efnis að Íbúðarlánasjóður gæti hjálpað til með að stækka efnahagsreikning SPRON ofl. sparisjóða. Ekki að undra að menn vildu fela eitthvað í þeim sparisjóðum og voru tilbúnir að sólunda fjármunum skattgreiðenda til að koma ekki upp um allt sukkið þar innandyra. Jesús, María !

Þannig mátti hækka bréfin fyrir skráningu á markað, markað þar sem spilaborgin hrundi sama ár. Það var gullaldarárið 2007 en hér má sjá umfjöllun um það skelfingarástand á mbl.is: Umfjöllun.

Svo má ekki gleyma stærstu einkavæðingu innan Evrópu síðustu ár þegar VG og Samfylkingin einkavæddu Íslandsbanka og Arion banka til kröfuhafa. Þá var nú lítið um hagsmunagæslu fyrir skattgreiðendur sem höfðu lagt bæði ábyrgðir og fjármuni þar inn. Hver kemur til með að skoða það allt saman?

Bjarni Benediktsson orðinn leiður á Samfylkingunni

Eftir ræðu Bjarna í gær er pistahöfundur sannfærðari en nokkru sinni áður að hann er á réttri leið með Sjálfstæðisflokkinn. Hann er t.d. orðinn leiður á Samfylkingunni. Það eru svo margir orðnir leiðir á þeim flokki, þessari samfylkingu jafnaðarmanna að það er engu lagi líkt.

Ekki er að undra að þegar litið er yfir þinglið og ráðherrahóp þessa flokks að fólk vilji að það yfirgefi sviðið sem allra, allra fyrst og komi sér fyrir á Bifröst eða í borginni í boði Besta, næstbesta eða langbesta flokksins í skærbjartri framtíð.

Samfylkingin er ekki aðeins pólitískt afl. Samfylkingin er afl menntaelítu sem sogið hefur sig fasta á ríkisspena á síðustu árum og misserum. Samfylkingin er með á ríkisstyrkjum og í geymslu fjöldan allan af samfylkingarfyrirbrigðum eins og fyrrverandi bæjarstjóra Hafnarfjarðar sem kennir nú þróunarhjálp afríkuríkjum sem náðu ekki að skuldsetja sig eins og Hafnarfjörður fyrir hrun. Hann er sendur þangað suður til að koma þessu fólki í skilning um hve gott það var fyrir Hafnarfjörð að hafa hann í brúnni. Hvernig er það, fylgir ekki ástandsskoðun þessum kónum sem sendir eru utan í boði íslenska ríkisins?

Já, það er ekkert undarlegt að Bjarni sé orðinn leiður á Samfylkingunni.

Guð blessi Samfóista.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur