Þriðjudagur 05.03.2013 - 17:23 - Lokað fyrir ummæli

Sr. Halldór Gunnarsson í Holti

Sr. Halldór Gunnarsson

 

 

 

Af Suðurlandi er það helst að frétta er að sr. Halldór Gunnarsson, kenndur við kirkjusetrið Holt undir Eyjafjöllum, sagði af sér öllum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Jafnframt skráði hann sig úr flokknum.

Það hef ég nú líka gert nema aðeins í rétt tæpa tvo mánuði þegar ég óttaðist að ,,vinstriöflin“ tækju völdin þar og vildu fella núverandi leiðtoga flokksins, Bjarna Benediktsson. Ég óttaðist að þá væri verið að eyðileggja Sjálfstæðisflokkinn en því var bjargað fyrir horn með kjöri Bjarna og gekk ég ,,med det samme“ í flokkinn og var mjög sáttur. Gat ég þá ekki sótt landsfund Sjálfstæðisflokksins, því miður. Svona getur mönnum greint á.

Svo er það reynslan þegar maður er kominn út úr flokki eins og Sjálfstæðisflokknum og farinn að sækja fundi samtaka út um borg og bý. Kemur þá berlega í ljós að þar er flestu snúið á haus og manni óar við því hve tætt samfélagið getur verið. Þá borgar sig að finna þann hóp er maður getur unað við að vera innan þrátt fyrir að vera ekki ávallt sammála.

Í þessu samhengi verð ég að benda á að risaeðlurnar í Sjálfstæðisflokknum verða að fara bakka svo þeir kæfi ekki umræðuna. Fremur ætti að hvetja ungt fólk til að tjá sig í blöðum og tímaritum.

Ný forysta flokksins verður að fá frið og ráðrúm til að koma málefnum sínum að í stað þess að svara endalaust fyrir hina og þessa greinastúfa. Þessar risaeðlur eru of fyrirferðamiklar og hafa of mikil áhrif t.a.m. varðandi ESB. Þar er hálfgerður Stalínbragur á en í dag eru nákvæmlega 60 ár síðan að Stalín lést og talið er að það hafi verið n.k. sjálfsmorð því enginn þorði að hlúa að karlinum af ótta við hann. Þann ótta skapaði hann sjálfur með athöfnum sínum. Ekki er verið að líkja mönnum við þennan ógnvald heldur aðeins benda á valdið, óttann og tjónið sem af getur hlotist.

Verður Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, að stíga fram fyrir skjöldu og ýta þessum risaeðlum til hliðar og keyra áfram í kosningar og fá þar ótvírætt umboð til stjórnarmyndunar. Hann er formaður nýrrar kynslóðar og þess kjarna sem ber Sjálfstæðisflokkinn uppi en hinn venjulegi flokksmaður má ekki finna til smæðar vegna fárra risaeðla í allri umræðu.

Sr. Halldór Gunnarsson er mikill öndvegismaður og leitt að hann taki þessa ákvörðun. Tel bara svei mér þá að fyrsta embættisverk hans undir Eyjafjöllum hafi verið að skíra pistlahöfund undir Eyjafjallajökli. Var þar um mikla Guðs blessun að ræða og óhætt að segja að ógnarkraftar hafi verið þar að verki. Hér skal fullyrt að sr. Halldór er búinn öllum þeim kostum sem prýða á góðan sjálfstæðismann. Hann er gott íhald og góðhjartaður maður sem vill vel. Leiðist mér því óskaplega þegar einhverjir kasta nú grjóti á eftir honum en þeir eru sem betur fer afar fáir.

Það sem máli skiptir er að þegar góðir menn yfirgefa góðan flokk er að taka slíku sem áhugaverðu verkefni til framtíðar. Yngri kynslóðir eru að taka við Sjálfstæðisflokknum og þær vilja oft fara aðra vegferð en þeir sem eldri eru. Það er hið besta mál en það er enn í gildi að ungur nemur, gamall temur. Þannig þróast stjórnmálasamtök og aðlaga sig að ungu fólki, fólki sem tekur við og mun aðlagast aðstæðum. Það má samt sem áður  ekki gleyma burðarvirkinu en á því stendur flokkurinn.

Nú eru aðstæður þannig að það þarf fremur að auka aðgengi ungs fólks að Sjálfstæðisflokknum og leita leiða til að veita öllu fólki aðgengi til að starfa innan hans. Það hefur Sjálfstæðisflokkurinn, umfram aðra flokka á Íslandi, gert vel og lengi en lengi má gott bæta. Það þarf að hlúa að eldri borgurum og sýna það í verki. Það þarf að hlúa að fólki í verkamannastétt og einstaklingum sem stunda atvinnurekstur. Sú vinna fórst alveg fyrir á risaeðlutímabilinu en Bjarni Benediktsson hefur blásið nýju lífi í þetta starf. Þökk sé honum.

Vil ég nota tækifærið og þakka sr. Halldóri Gunnarssyni allt gamalt og gott innan vébanda Sjálfstæðisflokksins. Hann vann þar gott og óeigingjarnt starf til fjölda ára. Það á að virða menn ekki fyrir vel unnin verk er dónaskapur.

Við sr. Halldór munum fá tækifæri til að rabba saman fljótlega. Því verður ekki hætt hvað sem á gengur.

Góðar stundir vinur og Guð blessi þig !

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur