Fimmtudagur 07.03.2013 - 14:42 - Lokað fyrir ummæli

Lífeyrir og EIR

Vörumerki hjúkrunarheimilisins EIR

 

Í dag, fimmtudaginn 7. mars 2013, fer fram 1. umræða á Alþingi um nýtt lagafrumvarp (mál 636 – sjá slóð) velferðarráðherra varðandi lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegs stuðnings m.a. við aldraða Íslendinga.

Samhliða þessari umræðu á hinu háa Alþingi hefur vistmönnum hjúkrunarheimilisins EIR (sem greitt hafa milljarða fyrir búseturétt) og erfingjum þeirra verið að berast tilboð frá stjórn heimilisins. Þetta tilboð er tilboð um endurgreiðslu vegna búseturéttar í formi skuldabréfs, bréfs sem ekki er vitað hver mun ábyrgjast greiðslur á né vitað hvaða tryggingar standa því að baki.

Einhverjir hafa komið fram í fjölmiðlum sem virðast sætta sig við þessi kjör en fleiri virðast ósáttir með hvernig er í pottinn búið. Heyrst hefur að á erfingja, sem átt hafa rétt á endurgreiðslu frá þessu hjúkrunarheimili, hafi nú verið lagður erfðafjárskattur sem fallinn er í gjalddaga en ekki bólar á þeim skattstofni sem þessi skattur er miðaður við, þ.e. endurgreiðslunni fyrir búseturéttinn.

Fjármunir og sparnaður gamla fólksins er horfinn út í veður og vind því EIR er í raun gjaldþrota eftir fáránlega meðferð á fjármálum heimilisins um árabil. Hver átti eiginlega að gæta að gamla fólkinu og fjármunum þess?

Rétt í þessu fór Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í pontu á Alþingi og bar upp athugasemdir við umræðu 2. varaformanns velferðarnefndar, Jónínu Rósu Guðmundsdóttur (þingm. Samfylkingarinnar). Þar benti hann á að í grunninn skiptist þetta kerfi í ellilífeyri, uppbót og heimilisuppbót. Hafði Jónína Rósa áður fullyrt að með þessu frumvarpi væri ætlunin að einfalda kerfið en Pétur benti réttilega á að sú einföldun er einföldun á flækju sem ríkisstjórnin setti sjálf inn með tilkomu framfærsluuppbótarinnar árið 2009. Að auki benti Pétur á að tekið sé tillit til allra tekna jafnt utan fjármagnstekna og tekna í tengslum við bætur sveitarfélaga eins og barnabætur. Varðandi fjármagnstekjur benti hann einnig réttilega á að þó svo að fjármagnstekjur séu að raunvirði neikvæðar mynda þær grunn til frádráttar lífeyris.

Að því búnu kom Jónína Rósa upp í pontu og sagðist vera jafnaðarmanneskja og sagði orðrétt:

Við ætlum núna að vinna þetta eins og fólk.

Fyrr má nú rota en dauðrota !

Vel þekkt er að blessuðu jafnaðarmennirnir viti lítið sem ekkert um atvinnumál og hvernig á að bæta hag og efla störf í landinu en maður gerði því lengi skóna að jafnaðarmenn viti eitthvað um félagslegt réttlæti í landinu.

Jónína Rósa fjallaði fjálglega um að með þessu frumvarpi væri verið að hvetja til sparnaðar en sagði að vegna þess hve tekjustreymi vegna fjármuna væri flókið væri ekki hægt að reikna út hvort fólk hafi raunfjármagnstekjur eða ekki. Ég sem hélt að við búum á 21. öldinni þar sem skattkerfið er tölvukeyrt og stýrt.

Hún fullyrti að fjármagnstekjur kæmu inn eins og aðrar tekjur en svaraði því ekki að þær tekjur gætu verið neikvæðar tekjur og eyddi umræðunni enda ljóst að hún missti þráðinn og skildi bara ekki meira í þessu.

Það er rétt sem Pétur sagði að þetta frumvarp gerir það eitt að taka upp kerfið eins og það var fyrir 2008 þar sem sama óréttlætið er enn fólgið í kerfinu, órökrétt sem hvetur alls ekki til sparnaðar innanlands í þessu kerfi enda fjöldi ungs fólks að semja við erlend félög sem ávaxtar nú lífeyrir þeirra. Hvers vegna? Jú, það er vegna þess að fólk treystir þessu rugli ríkisvaldsins ekki og tekjuskerðingum þess.

Svo skulum við aftur koma að málefnum hjúkrunarheimilisins EIR. Hví er þetta mál ekki sett í opinbera rannsókn? Þarna er einkaaðili, sem er í raun á vegum sveitarfélaga, er fólk átti að geta treyst. Nei, þarna fór allt á hliðina og ekkert var aðhaldið, engin ábyrgðin. Svikin eru svo augljós að það er sorglegt hve lítið er látið með þetta mál. Hvar eru rannsóknarblaðamennirnir núna?

Hér að framan er getið tveggja megin þátta sem valda því að almenningur er hættur að treysta aðilum hér innanlands fyrir sparnaði sínum. Annars vegar er um að ræða ríkisvaldið og hins vegar sveitarstjórnarstigið (sem samdi við EIR sem dæmi – ath. á ekki við öll sveitarfélög sem mörg stand vel að málum) sem hefur gjörsamlega brugðist. Það er m.a. vegna þesskonar háttalags sem fólk flýr þetta kerfi og það er ekkert krónunni að kenna, það er þeim sem stýra þessu að kenna. Þarna eru stjórnmálamenn í fararbroddi, fylgisveinar þeirra bæði innan embætta og t.a.m. innan byggingafyrirtækja sem fá verkefnin nánast því án útboðs.

Þetta er rotið og treysti ég á að dómstólar taki á þessu og skapi fordæmi sem tryggir að subbuskapur af þessu tagi verði ekki við lýði til framtíðar á Íslandi. Þetta kerfi étur undan sér sjálft og skammsýni getur þarna orðið til þess að grafa undan sparnaði á Íslandi til frambúðar.

Þetta vandamál eiga allir flokkar á þingi skuldlaust !

Ljóst er að vörumerkið EIR er nú handónýtt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur