Sunnudagur 10.03.2013 - 10:09 - Lokað fyrir ummæli

Símtal Davíðs og Geirs

 

 

Þegar RÚV rekur trippi ríkisstjórnarflokkana og heldur þeim á beit situr fjósamaður einn heima í hlaði og bíður eftir einni stuttri og tveimur löngum.

 

__ ______ ______

 

Þessi fjósamaður hefur enn ekki mætt til mjalta, ekki mokað flórinn og lætur þess í stað RÚV sjá um ómakið enda stofnun rekin af sveitarsjóði þar sem hinir bæirnir í sveitinni og bændur borga brúsann.

Vegna meðfæddrar forvitni og frekjugangs vill fjósamaðurinn á Bakka fá að vita hvað Davíð í Drangsnesi og Geir á Gilsbakka voru að ræða varðandi afdrif sveitarsjóðs eftir að honum hafði verið eytt í uppkaup á tuskubúðum í London. Höfðu fáir bændur í þessari sveit komið til London en einhverjir pörupiltar frá Bakka höfðu keypt sér flugmiða þangað og skrifað allt á blessaðan sveitarsjóðinn.

Hvað ætli að bændur eigi þá til bragðs að taka?

Fjósamaðurinn á Bakka hefur lengi beðið eftir þessu símtali og á stundum rokið til að hlera en aðeins fengið sögur af framhjáhaldi innan VG og Samfylkingarinnar og öðrum slíkum undirmálum sem algeng hafa verið síðustu 4 ár.

Kýrnar á Bakka hafa verið afskiptar um árabil eða þar til að Matvælastofnun taldi RÚV henta betur til mjalta og reka trippi fyrir hjúin á bænum enda synir þar á bæ og dætur hálfgerðir ónytjungar og gerpi. Reynslan hefur sýnt fram á slíkt síðustu 4 ár og það vita allir í uppsveitunum þó svo að sumir tali í hljóði eða ofan í bollan sinn og neftóbaksbauk.

Frá þessum bæ hefur einnig afar lítið kjöt borist og mjólkin uppfull af gerlum langt umfram þau mörk sem teljast almenningi heilsusamleg enda flestar kýrnar hrjáðar af langvarandi júgurbólgu.

Á meðan skrifar RÚV uppá búskapinn sem eigin væri.

Nú þegar vorar og sauðburður hefst munu bændur í uppsveitum Atlandshafs ganga til kosninga og vonandi í kjölfarið taka yfir búreksturinn á Bakka enda um að ræða skelfilegan rekstur þar sem hjúin á bænum hafa hvorki náð að sinna búfénaði né börnum. Sem betur fer virðist sem sveitarsjóður sé að ná sér þó svo að talsvert sé óunnið varðandi uppgjörið eftir uppkaupin á tuskubúðunum í London.

Líkur eru því á að fjósamaðurinn verði að sitja í hlaðinu þar til sauðburði er lokið. Fullreynt er að fjósamaðurinn látið eitthvað verða að verki á Bakka annað en hanga í hlaðinu eins og liðið á Hrísbrú hér í Mosfellsdal á öldum áður og nóbelskáldið lýsti svo vel í Innansveitakróníku.

Nú skal ganga til verka og gera bændum og búaliði kleift að fá frið fyrir þessum ólátabelgjum á Bakka.

Kjósum rétt, eigi órétt !

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur