Sunnudagur 17.03.2013 - 10:24 - Lokað fyrir ummæli

Snjóskaflinn

 

Nú um helgina standa Kýpurbúar í röðum við hraðbanka að taka út peningana sína en þeir eru ,,kröfuhafar" bankanna sem innistæðueigendur.

Nú um helgina standa Kýpurbúar í röðum við hraðbanka að taka út peningana sína en þeir eru ,,kröfuhafar“ bankanna sem innistæðueigendur. (Af fréttavef BBC – Mynd frá REUTERS)

 

Allt frá hruni íslenska hagkerfisins hefur verið fjallað um snjóhengju sem ætlað er að geti fallið yfir íslenskt hagkerfi og Íslendinga. Lýsingar af þessum toga hræða og skelfa en líklega er það markmið þeirra sem ætla að hræða og skelfa að nota þvílíkt orðalag.

Þetta er rangnefni á eðli vandans sem um er að ræða.

Snjóskaflinn

Við Íslendingar höfum oft lent í því að þurfa að moka okkur út úr snjóskafl þar sem fólk festir sig á bifreiðum sínum. Einnig hafa Íslendingar lent í snjóflóðum og þar deyja margir og sorglegar sögur má segja af því en samstaðan skiptir þá öllu og samtakamáttur þjóðarinnar.

Var ætlunin að virkja þennan samtakamátt undir fölskum formerkjum?

Svo virðist vera og hafa stjórnvöld hér á landi, núverandi ríkisstjórn, stuðlað að þessari hugsun og ranghugmyndum, gengið mjög svo nærri íslenskum heimilum og fyrirtækjum að vart þekkist þvílíkt og annað eins fordæmi í hinum vestræna heimi.

Þau virkilega reyndu en dómskerfið stóð þarna eins og klettur.

Hér er ekki um snjóhengju að ræða, hér er um snjóskafl að ræða sem ein bíldrusla stendur föst, rúta full af kröfuhöfum sem hafa aldrei áður til Íslands komið og lögðu sjálfir í þessa vegferð með vonlausa rútubílstjóra úr íslenska einkarekna bankakerfinu ásamt matsfyrirtækjum sem hafði prentað út vegahandbækur og veðurspákort.

Hvað er þetta?

Til að einfalda þetta er um að ræða að fjölmargar erlendar lánastofnanir lánuðu íslensku bönkunum í von um að fá ,,dúndur“ vexti á Íslandi sem og að erlendir einstaklingar lánuðu líka í formi innlána einnig í leit á ,,dúndur“ vöxtum.

Það vita allir að þeir sem leita eftir ,,dúndur“ ávöxtun (þ.e. mjög háum vöxtum m.v. sem dæmi þeirra eigin markaðssvæði) taka líka ,,dúndur“ áhættu. Þannig var það einmitt með Ísland rétt fyrir hrun og jafnvel strax í kringum 2004 og 2005 þegar íslensku bankarnir fóru í samkeppni við Íbúðarlánasjóð sem hafði þá boðið 90% lán með viðbóarlánum (svokölluðum félagslegum lánum sem áttu að koma í stað félagslega íbúðakerfisins sem var lagt niður). Um þetta ferli og þátttöku Samfylkingar og Framsóknar í því er hægt að skrifa margar doktorsritgerðir.

Þegar bankakerfið hrundi í október 2008 urðu peningar þeirra sem lánuðu bönkunum eftir á Íslandi eðli máls samkvæmt enda var lokað á útstreymi þessara peninga með neyðarlögunum sem samþykkt voru á Alþingi í kjölfar hrunsins.

Snjóskaflinn sem þessir erlendu kröfuhafar óku í á rútuferðalaginu er að ,,rúmmáli“ 1.141 milljarður króna og skiptist gróflega í eftirfarandi:

  • 400 milljarðar króna í aflandskrónum – ríkistryggð skuldabréf og bankainnistæður
  • 221 milljarður króna í eignahlutum í bönkunum
  • 309 milljarður króna í erlendum skuldabréfum Landsbankans
  • 211 milljarður króna í öðrum krónueignum

Hræðslan er sú að hinir erlendu kröfuhafar, sem eiga þessar eignir í krónum, felst í því að ef höftum á fjármagnsflutninga verði aflétt selji kröfuhafar þessar eignir fyrir t.d. evrur og dollara og fari með þá heim til Bretlands, Þýskalands eða Bandaríkjanna.

Það sem gerist við það er að krónan gefur eftir, innfluttar vörur hækka gríðarlega í verði og verðbólgan fer upp úr öllu valdi.

Í þessu er hver sjálfum sér næstur og því verðum við að gæta að hinum ,,litla“ kröfuhafa sem og hinum ,,stóra“ sem getur nýtt sín tæki og tól, fjármuni og styrk til að fara fyrr út en ,,litli“ kröfuhafinn. Að þessu verður einnig að gæta og því helst sama yfir alla kröfuhafa að ganga á leið sinni út.

Hræðslan, áróðurinn og ESB pakkinn

Nú er búið að vera að hræða almenning á Íslandi og hafa flestir ef ekki allir fjölmiðlar tekið þátt í því eins og meðvirkir fylgisveinar kröfuhafa. Það er afar undarlegt háttarlag enda ljóst að það eru kröfuhafar sem hafa ekið, allir enn uppáklæddir í jólasveinabúninga eftir skemmtanir fyrir Jólin 2008, beint og blindandi í íslenskan snjóskafl á Hellisheiðinni enda var rútubílstjórinn og farastjórarnir allir innanbúðamenn í bankakerfinu, þ.e. hinu einkavædda bankakerfi.

Nú um helgina berast slæmar fregnir frá miðjarðarhafseyjunni Kýpur, sem árið 2004 gekk í Evrópusambandið (ESB). Nú fá Kýpurbúar brátt að ,,kíkja í“ björgunarpakka sambandsins sem felst í 9,9 % skatti á allar innistæður yfir 100 þúsund evrum en 6,75% sem eiga fjármuni á bankabók undir þeirri fjárhæð. Ætlunin er því að skattleggja innistæður gríðarlega nú strax eftir helgi. Ekki að furða að Kýpurbúar standi nú í biðröðum við hraðbanka á Kýpur og taka út peninga sína.

Sjá nýlega frétt frá BBC: BBC frétt

Aðgerðir og leiðir út úr skaflinum fyrir kröfuhafa

Það sem á að gera fyrir þessa ágætu kröfuhafa er að kalla út okkar ástkæru björgunarsveitir og aðstoða þá út úr þessum skafli á heiðinni.

Það hangir engin snjóhengja yfir okkur heldur eru þessir kröfuhafar að frjósa í hel í þessari rútu þarna uppá Hellisheiði og rétt að koma þeim til hjálpar sem fyrst og lofa þeim að fara heim. Þeir verða þá að þiggja hjálpina.

Því lengur sem þeir dveljast þarna uppfrá því meiri áhætta fyrir þá. Sem dæmi má benda á fjölgun fordæma innan ESB sem geta leitt til þess að kjörin, sem þeir fá á þessum fjármunum, verði öllu verri á morgun en þau voru fyrir helgi. Það breytist allt vegna ,,markaðsaðstæðna“ ef svo má að orði komast.

Gætu því kjörin ráðist á ,,markaði úrlausna“ sambærilegra mála sem í boði er hjá alþjóðastofnunum eins og ESB og AGS (Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn – e. IMF).

Það er af mörgu að taka en hér koma fáeinir punktar inní vænta aðgerðaráætlun:

  • Bjóða kröfuhöfum lausnir til 5, 10 og 20 ára varðandi fjárfestingar innanlands;
  • innheimta a.m.k.. 50% ábyrgðargjald vegna ríkisábyrgðar sem lögð var fram þegar bankarnir voru framseldir til kröfuhafa (legðist t.a.m. á eignahlut í íslensku bönkunum);
  • krónueignir sem yrðu greiddar skulu greiddar innanlands og miðast við álandsgengi;
  • nýta fordæmi ESB og Kýpur að einhverjum hluta við að skattleggja fjármuni sem leita úr landi en ganga ekki eins hart fram og ESB og Kýpur þessa dagana. Hér yrði um tímabundna aðgerð að ræða og með undanþágum til þeirra sem eru í rekstri;
  • kalla eftir kjörum á hlutum bankanna sem myndi uppfylla ávöxtunarkröfu íslenskra lífeyrissjóða og selja bankana til þeirra að fullu eða að lang stærstum hluta.

Hér er aðeins um fáein atriði að ræða sem hvert og eitt getur verið sniðið að hverjum og einum kröfuhafa.

Hjálpum þeim

Við Íslendingar erum ekki að gera þetta af einhverjum skepnuskap, þ.e. að bjarga þessum kröfuhöfum úr sínum skelfilegu aðstæðum uppi á Hellisheiði. Þeir komu sér sjálfir í þessar aðstæður og við ætlum að hjálpa þeim.

Vandinn með ,,markaðssetninguna“ hingað til er að íslenskir fjölmiðlar hafa rætt um snjóhengju sem gæti fallið á íslenska þegna. Það er bara ekki rétt. Við erum með krónuna, við ráðum okkur sjálf og hvernig við stýrum þessu ferli. Einnig verðum við að gæta fyrst og fremst að eigin þegnum og fyrirtækjum sem rækta hér á landi sitt korn.

Hefur því krónan verið að styrkja samningsstöðu okkar á meðan Kýpurbúar verða skattlagðir uppfyrir rjáfur í því sjónarmiði að borga þar kröfuhöfum inn í framtíðina.

Því er fullvíst að raddir um snjóhengju koma úr ranni þeirra hér innanlands sem virðast vilja evruna, tala niður krónuna og það stýritæki sem nú kemur okkur vel sem varnarveggur og hitaveita á meðan kröfuhöfum kólnar á ferðalagi sínu um óbyggðir í óveðri sem spáð hafði verið.

Við erum velviljað og hjálpsamt lýðræðisríki sem ætlast til þess að verða virt sem slíkt. Því ber okkur að aðstoða þessa kröfuhafa eins og kostur er við að búa til verðmæti úr eignum þeirra án þess þó að brenna íslenska akra og bæi.

Hjálpum þeim !

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur