Fimmtudagur 21.03.2013 - 20:25 - Lokað fyrir ummæli

Skattaheimska Kastljóss

Kastljós hefur tekið upp nokkur áhugaverð og ógnvekjandi mál m.a. á sviði kynferðisofbeldis og tekist vel upp með að upplýsa um glæpi af þeim toga.

Nú hafa sömu menn tekið upp á því að reyna að glæpavæða stjóriðju á Íslandi með atbeina ráðherra í ríkisstjórn Íslands sem hafa ekki fengið nokkra fjárfestingu til landsins enda augljóslega afar sérlundaðir ráðherrar, heimóttalegir og illa inní alþjóðafjármálum og viðskiptum.

Telja þeir mikilvægt að girða enn frekar fyrir þann möguleika að stóriðja geti byggst áfram upp á Íslandi og ræða fulltrúar RÚV í Kastljósi um þetta í mikilli meðvirkni um að líkur séu á að um sé að ræða mikinn skepnuskap að hafa tryggt hér atvinnu um árabil og hátæknistörf sem eru varanleg og afar skapandi störf sem gefa í aðra hönd óbeina skatta svo milljörðum skiptir. Það eru hin raunverulegu verðmæti.

Nú er svo búið að þessi heimska, skattaheimska, sé nú að verða að einhverjum trúabrögðum þeirra sem vilja vera áfram vinstrimenn og eyðileggja ekki aðeins íslensku krónuna heldur einnig orðsbor Íslands á erlendum vettvangi. Hér virðist ætlun þeirra að eyðileggja Ísland sem traust land sem treysta má á pólitíska og lagalega sviðinu. Svo virðist sem að pólitíska óvissan eyðileggi nú framtíðaráætlanir fjárfesta í verkefnum sem þurfa að greiðast upp á 20 til 40 árum og langtíma samningum um sölu á afurðum þeirra. Þetta á nú að eyðileggja orðspor Íslands og bæta við ógnarstefnu VG og Samfylkingarinnar varðandi það að eyðileggja sjávarútveginn með ekki ósvipuðum hætti.

Áhættan er margvísleg við að staðsetja sig á Íslandi. Ein helsta áhættan nú er pólitísk áhætta eins og augljóst er. Svo má nefna efnahagslega áhættu, félagslega áhættu, umhverfisáhættu, tæknilega áhættu og lagalega áhættu. Að auki er Ísland langt frá mörkuðum en best væri að staðsetja álver sem næst orkunni og/eða sem næst kaupendum allt eftir því sem við getur átt.

Svo ef Íslendingar vilja losa sig við alla fjárfesta erlendis frá, þannig að enginn komi gjaldeyririnn fyrir hundruð milljarða eins og síðustu áratugi, er hægt að gera Ísland  enn meira óspennandi með skattaheimsku og umræðu sem er afar villandi sbr. þá sem Kastljós hefur komið í gang. Hví í ósköpunum er verið að agnúast út í lögmæta gerninga og lögmæt fjármál?

Nóg er um að ráðherrar atvinnuvega og fjármála séu að tala niður gjaldmiðilinn. Nú virðast þeir með yfirlýsingum sínum slá um sig fyrir kosningar og samhliða að eyðileggja enn frekar fyrir því að fjárfestar geti séð fyrir sér Ísland sem kost í boði.

Það að aðrar reglur gilda í Þýskalandi og Kanada er ekki samanburðarhæft enda höfum við þurft að byggja allt dreifikerfi frá grunni á meðan þessi samanburðarlönd, sem Ísland er borið saman við, hafa mun þroskaðari markaði og fjárfestar líta á sem mun áhættuminni svæði fyrir margra hluta sakir. Þetta skilur ritstjóri Kastljós örugglega ekki enda ekki allir sem átta sig á áhættu, óvissu og tilsvarandi tengslum við fjármál og fjárfestingu. Sérstaklega er þessi skilningur lítill innan stofnunar sem stendur ekki sjálf við eigin áætlanir.

Hefur það gleymst að hundruð milljarða hafa borist í hagkerfið og hunduð manna unnið t.a.m. við stækkun álversins í Straumsvík svo árum skiptir í miðju hruni og frá hruni? Mér þykir nú afar mikilvægt að þeir sem hafa atvinnu af þessu öllu saman standi upp og bendi á að ekki aðeins er verið að veita atvinnu heldur einnig að borga af virkjunum sem standa hér eftir þó ný tækni verði til þess að hætt verði að nota ál og þá eign barna okkar og barnabarna rétt eins og Búrfellsvirkjun sem nú malar gull og að fullu greidd. Þetta er ekki allt ofan á brauð okkar í dag en þeir sem skammsýnir eru hugsa vissulega allt annað og margir aðeins fram að næsta útborgunardegi launa.

Hví má ætla að Kastljós fjalli ekki um þessi áhrif í hagkerfinu? Hver vegna er ekki fjallað um það hvaða áhrif það hefði haft á Ísland og kratabæinn Hafnarfjörð ef Straumsvík hefði bara lokað? Ástæðan var og er enn sú að m.a. hagstæðir samningar hér á landi og góður rekstur gerði gæfumuninn, m.a. vegna þeirra samninga, sem eru þá væntanlega mun betri en þar sem lokað var, t.d. í öðru landi. Þetta þarf ávallt að tryggja til langs tíma.

Svo er það raforkuverðið til heimila á Íslandi sem er hér lægra en í flestum nágrannalöndum okkar vegna þess að stóriðjur á Íslandi hafa gert þessari þjóð ódýrara að fjárfesta í dýrum virkjunum og dreifikerfi á orku um land allt. Þetta gleymist og það gleymist að á meðan aldraðir Bretar þurfa að sækja í stórmarkaði til að hlýja sér á veturna því þeir hafa ekki efni á að borga gas- og rafmagnsreikninga sína vegna hárra orkureikninga. Í sama mund fjallar forstjóri Landsvirkjunar um orkustreng þangað til þess aðeins að hækka orkuverð á Íslensk heimili og Kastjóshópurinn virðist ekki átta sig á þessu enda ekki pólitískt rétt svo stuttu fyrir kosningar.

Svona er RÚV og Kastljós á Íslandi í dag.

RÚV er sjálfumglöð stofnun sem fer sjálf ítrekað framúr eigin áætlun og skilar tapi ár eftir ár eftir ár. Þarna myndast gat ár hvert sem skattgreiðendum er gert að brúa svo þeir þurfi að hlusta á aðra eins skattaheimsku og nú ríður húsum landsmanna.

Sjálfsagt er að fyrirtæki skili tekjuskatti en vita menn ekki að það hefur t.d. Alcoa gert umfram skyldu sína og að uppsafnað tap gæti t.d. verið vegna þess að þar sprakk og brann spennir utanhúss sem kostaði líklega hátt í virði útvarspshússins við Efstaleiti. Þær fjárhæðir sem álver og stóriðja almennt hefur skapað eru margfallt þær milljónir er tekjuskattur hefði gefið í aðra hönd þeim sem fara illa með skattfé borgara þessa lands m.a. við rekstur á RÚV.

Umræðan er sjálfsögð en þá er rétt að meta samkeppnisstöðu Íslands án afar hagstæðra skattakjara sem núverandi ríkisstjórn hefur verið að hræra í á undanförnum árum og hvaða áhrif útspil hafa á að bæta þá stöðu landsins í hörðum heimi.

Hér á landi er þörf á að byggja upp traust við fjárfesta en ekki að eyðileggja það sjálfum sér til framdráttar svona rétt fyrir kosningar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur