Eurostat er hagstofa Evrópusambandsins og tekur saman gögn um margvíslega þætti er varðar rekstur sambandsins rétt eins og Hagstofa Íslands. Nýlegar tölur varðandi atvinnuleysi innan sambandsins sýna að aldrei áður hafi atvinnuleysið mælts hærra en nú. Stendur það í 12% innan evrusvæðisins um þessar mundir og öllu hærra á því svæði en í sambandinu í heild sinni.
Hér má svo sjá skýrslu Eurostat um þetta skelfilega ástand innan ESB: Skýrsla Eurostat um atvinnuleysi innan ESB
Ekki hlakkar í pistlahöfundi yfir þessu enda um að ræða alvarlegt ástand sem hefur áhrif á fjölda fólks og fyrirtæki. Þetta hefur áhrif á Ísland enda gæti þetta stuðlað að færri ferðamönnum til lengri tíma, verri stöðu útflutningsgreina og svo á Samfylkinguna sem barist hefur fyrir aðild Íslands að ESB og gerir enn.
Rétt er að heimila þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður sem miðast að því að ganga í samband þar sem atvinnuleysi hefur náð hæstu hæðum. Ekkert lát virðist á erfiðleikum innan ESB sem við gætum ,,lent í“ ef aðeins yrðu kjörnir á Alþingi menn og konur sem vilja þjóð sinni sambærilega framtíð og nú er staðreynd hjá þessu blessaða sambandi. Hvar sem menn standa í flokkum eða hvaða hugsjón sem menn kunna að hafa er rétt að þeir hinir sömu meti áhættuna sem aðildinni fylgir, kostnaðinn sem bæði er beinn og óbeinn í formi óvissu sem örðugt er að mæla.
Það er ekki hægt að skrifa sig út úr atvinnuleysi sem þessu hversu góðir pennar og skáld kunna að vera.
Ekki má gleyma því þrátt fyrir allt að innan ESB er unnið að mörgum góðum málefnum t.a.m. er varða neytendur og réttindi þeirra. Vonandi þróast ESB til betri vega en þetta ástand nú er mjög alvarlegt.
Þeir sem hrópa á ESB verða að svara fyrir þetta bæði til lengri og skemmri tíma. ESB á langt í land en það er skiljanlegt að Þjóðverjar vilji aga margar þjóðir innan vébanda þess en er ekki rétt fyrir smáríkið Ísland að hinkra eftir að uppeldið taki enda?