Miðvikudagur 03.04.2013 - 08:31 - Lokað fyrir ummæli

Norður Kórea og Ísland

Margir Íslendingar þekkja til þess að í hruninu og rétt eftir það var haft í flimtingum að Ísland gæti orðið Kúba norðursins eða Norður Kórea. Mikið var skrafað og gert grín með þetta allt saman. Vinstrimenn af hvaða kyni sem er hlógu að og supu af ríkisstyrktum kaffibollum sínum og borðuðu evrópustyrkta súkkulaðisnúða.

Sjálfum þykir mér afar vænt um það fólk sem hefur þurft að búa við kommúnistastjórnir og á vini frá Kúbu, ættingjar konunnar vinna í Norður Kóreu sem erindrekar annars ríkis og gamlir skólafélagar okkar hjóna frá Pekingháskólaskólaárunum starfa í Suður Kóreu. Síðan á maður vini sem hafa verið ættleiddir eftir áralangt stríð og erfiðleika á Kóreuskaganum þar sem barist var á banaspjótum um frelsi annars vegar og helsi hins vegar. Einn uppáhaldsrétturinn minn er hið kóreska kimchi sem við hjónin eigum hér í krúsum og kunnum orðið að búa til úr kínakáli og chili.

Hinni hreint ágæti dósent við Háskóla Íslands, Birgir Þór Runólfsson, hefur ritað um fátækt og velmegun í frjálsum ríkjum til mótvægis við vin minn og galdrakarlinn Stefán Ólafsson prófessor sem er oftar en ekki á öndverðum meiði við Birgi. Vegna þessarar afstöðu Birgis Þórs hefur ríkisstarfsmaðurinn á RÚV, Egill Helgason, séð ærna ástæðu til höggva í Birgi sem og auðvitað Stefán og nú DV.

Þykir manni miður að þegar vinstri elítan kann ekki lengur að svara fyrir sig bregst hún ávallt með óhróðri, manndrápum eða fangelsunum af litlu tilefni. Nóbelskáldið var nú vitni af einu slíku atviki í Moskvu hér á árum áður.

Við þekkjum slíkt enda virðist stefnt hraðbyr að allt öðru samfélagi en nú er ríkjandi á Íslandi. Hafa færustu skáld og miklir rit- og ræðusnillingar verið kallaðir til verka, fólk með hreint hjarta en skort á skynsemi. Það fer ekki alltaf saman og því getur tilraun af þessum toga leitt til eymdar. Þar er Ísland ekki undanskilið.

Frá landamærunum við frísvæðið Kaesong í Norður Kóreu (Mynd fengin af vefsetri BBC)

Frá landamærunum við frísvæðið Kaesong í Norður Kóreu (Mynd fengin af vefsetri BBC)

Í því tilefni skal bent á að BBC greinir frá í frétt sinni að nú hafi Norður Kórea lokað aðgangi verkafólks frá Suður Kóreu að frísvæðinu Kaesong sem er sameiginlegt atvinnusvæði sem samið var um á friðartímum milli systurríkjanna árið 2004.

Milljarðar dollara verða þarna til en munurinn á því er að verkafólkið frá Suður Kóreu greiðir c.a. 20 til 30% (fyrirvari settur hvað þetta varðar) af tekjum sínum í tekjuskatt en verkafólkið frá Norður Kóreu greiðir 100% í tekjuskatt í ríkissjóð.

Á Íslandi í dag stefnir í að flokkur sem mælir með einkaframtakinu, frelsi einstaklingsins og lágum sköttum verði undir í samkeppni við þekktan vinstriflokk, þ.e. Framsóknarflokkinn. Það er vel þekkt að þegar Íslendingar veita Framsóknarflokknum brautargengi nær spilling hærri hæðum en áður, vinstri stjórnir verða myndaðar þar sem vinstrimenn ganga frjálslega um sameiginlega sjóði skattborgara og sóun eykst í hagkerfinu. Tilraunir varðandi draumsýn formanns Framsóknaflokksins, fyrrum fréttamanns af uppeldisstöðinni RÚV, munu kosta mikið, mjög mikið.

Ef fram heldur sem horfir mun nýja vinstristjórn Framsóknaflokksins geta valdið því að skattprósenta á Íslendinga geti nálgast óðfluga þá prósentu sem verkafólk Norður Kóreu er gert að greiða til ríkisstjóðs þar í landi. Reikna má með að hinn mæti maður Indriði H. Þorláksson muni þá væntanlega mæta og sjá um útdeilingu á þeim fjármunum.

Ætla má að í kjölfarið muni ekki nægja gjaldeyrishöft heldur má reikna með skertu ferðafrelsi þegar fólk fer að flytjast frá landinu, draumalandi vinstrimanna. Í næstu kosningum getur fólk því kosið um frelsi eða helsi. Þitt er valið kjósandi góður.

Sporin hræða.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur