Þriðjudagur 21.05.2013 - 07:25 - Lokað fyrir ummæli

Frjálsi og Drómi reikna enn vitlaust

Í ár eru vel yfir 4 ár liðin frá hruni og í febrúar 2009 áttum við hjónin fund með Ingólfi, þáverandi lögfræðingi Frjálsa fjárfestingarbankans (núverandi forstjóra Dróma og Frjálsa fjárfestingarbankans), og Kristni Bjarnasyni, þáverandi forstjóra. Við sögðum að þeir reiknuðu lánin sín vitlaust.

Þeir trúðu því alls ekki að þeir væru að reikna vitlaust. Þeir vönduðu jafnvel um fyrir okkur og voru nokkuð kokhraustir.

Á sama tíma vissu margir af Hlyni Jónssyni (núverandi formanni stjórnar skilanefndar SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans) á hlaupum innan Fjármálaeftirlitsins og víða í stjórnkerfinu að ,,passa“ upp á fjármálakerfið.

Þetta var fyrir margt löngu síðan og greinilega farið að fenna yfir minninguna.

Í erindi frá Hlyni Jónssyni, formanni skilanefndar SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans, kom eftirfarandi fram fyrir fáeinum misserum:

Varðandi athugasemd þína um orðsporið þá er illt við það að eiga þegar menn kjósa að flytja einhliða áróður í skjóli þess að lánastofnun er bundin bankaleynd og getur ekki svarað fyrir sig á vettvangi fjölmiðla. Ég held að hugsandi menn sjái í gegnum slíkan áróður og kýs nú frekar að eiga orðspor mitt hjá þeim, heldur en á meðal aðila sem beita óheiðarlegum meðulum.

Flottur !

Óheiðarlegum meðulum?

Það er ansi áhugavert að lesa í þessi orð og sjá hve djúpt okkar fjármálakerfi er í raun sokkið, a.m.k. á meðal fárra sem enn stýra slitastjórnum og skilanefndum. Telja má samt sem áður að mikið sé um vel meinandi fólk að ræða innan banka en hér er til umfjöllunar undantekning frá því.

Ímyndunarauglýsingar bankanna skemmast við svona útspil af hálfu ,,hugsandi manna“ og skiptir litlu að þær hafi verið settar í kæli í fáein ár.

Orðsporið maður, orðsporið og ímyndin!

Hér er talað um ,,hugsandi menn“ og það sé ekki nokkurt vit í annað en að skipa sér í flokk með ,,hugsandi mönnum“. Það má vel vera og í raun mjög skynsamleg ályktun lögfræðingsins.

Nýlega hefur mörgum skuldurum borist endurútreikningur frá Frjálsa fjárfestingarbankanum og Dróma vegna meintra gengistryggðra lána. Sá útreikningur er vitlaus í flestum tilvikum og kemur það reyndar ekkert á óvart enda sprottið úr ,,skrúðgarði“ Hlyns Jónssonar.

Þeir sem greiddu ekki nákvæmlega á gjalddaga en greiddu samt ásamt dráttarvöxtum er gert að bera óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands í sumum tilvikum frá útgreiðsludegi láns. Það gæti átt við í einhverjum tilvikum en ekki öllum.

Þvílík nauðung eina ferðina enn ! Þarna skríða menn upp á fórnarlambið eins og um væri að ræða einbeittan brotavilja viðkomandi aðila.

Bent skal í þessu tilefni á eitt hefti Lagadeildar Háskóla Íslands er ber heitið:

Um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu og þýðing fullnaðarkvittana (Slóð: hér)

Kom þetta hefti út árið 2012 í tilefni dóms Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011. Höfundur þess er Valgerður Sólnes og var það unnið undir ritstjórn Hrefnu Friðriksdóttur dósents við Lagadeild HÍ.

Þar kemur m.a. fram eftirfarandi:

Norrænir fræðimenn hafa í skrifum sínum byggt á meginreglunni um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu úr hendi skuldara, sem ekki efnir skuld sína að fullu, og haldið því fram að sérstakar aðstæður þurfi að vera til þess að hafna slíkri kröfu. Nefnd hafa verið til sögunnar þrjú skilyrði þess að hafnað verði rétti kröfuhafa til viðbótargreiðslu.

Varðandi þessi þrjú skilyrði eru þau reifuð:

  1. Í fyrsta lagi þarf skuldari að hafa verið í góðri trú er hann efndi skuld sína aðeins að hluta. Með því er átt við að skuldari hafi hvorki vitað né mátt vita að greiðsla hans var ófullnægjandi er hann innti hana af hendi.
  2. Í öðru lagi að villa skuldara verði einkum rakin til kröfuhafa, ýmist þannig að háttsemi skuldara sé afleiðing af mistökum kröfuhafa eða vafi leiki á af öðrum ástæðum um fjárhæð kröfu. Í öllu falli eru aðstæður þá með þeim hætti að nærtækara sé að kröfuhafi beri ábyrgð og áhættu þar af, enda er hann að jafnaði í betri aðstöðu til að ganga úr skugga um fjárhæð kröfunnar. Í kenningum fræðimanna hefur því enn fremur verið haldið fram í þessu samhengi að mæla megi gegn því að fallast á kröfu um viðbótargreiðslu þegar villa um fjárhæð kröfunnar stafar af rangri túlkun þeirra lagaákvæða er gilda um kröfuna, t.d. þegar viðtekinni beitingu lagareglu er hnekkt með dómi. Leiðrétting slíkrar rangrar túlkunar í framkvæmd verði hins vegar almennt einungis gerð til framtíðar (l. ex nunc), en ekki með afturvirkum hætti (l. ex tunc).
  3. Í þriðja lagi að mistökin hafi ekki uppgötvast þegar í stað og þau þá þegar leiðrétt með viðbótarkröfu af hálfu kröfuhafa. Eftir því sem lengri tími líður frá efndum og þar til upp kemst að greiðsla hafi ekki verið fullnægjandi, aukast líkur þess að hafnað verði kröfu um fullar efndir og alltént verða í slíkum tilvikum gerðar ríkari kröfur til kröfuhafa hvað varðar eftirfarandi aðgerðir hans í tengslum við mistökin og leiðréttingu þeirra. Verulegt óhagræði getur enda hlotist af því fyrir skuldara að vera krafinn um viðbótargreiðslu þegar hann sjálfur hefur gengið út frá því að hann hafi efnt skyldu sína að fullu.

Ef öllum framangreindum þremur skilyrðum er fullnægt þykir þannig koma til álit að hafna rétti kröfuhafa til viðbótargreiðslu úr hendi skuldara, en á endanum er það þó heildarmat á aðstæðum sem ræður niðurstöðunni í þeim efnum. Við það mat er unnt að líta til atriða á borð við það hvor aðila hafði forræði á útreikningi fjárhæðar kröfu, hví fjárhæðin var röng og hvort viðkomandi aðili hafi leitast við að leiðrétta mistökin innan hæfilegs tíma. Með því móti er unnt að komast að niðurstöðu um hvorum aðila skuldarsambands, kröfuhafa eða skuldara, standi nær að bera hallann af mistökunum

Það er nokkuð ljóst að í tilefni svokallaðra gengistryggðra lána er það Frjálsa fjárfestingarbankans og Dróma að færa sönnur á að þessum skilyrðum sé ekki fullnægt og í slíkum tilfellum sé í kjölfarið augljóst að hafna kröfum slitastjórnar SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans er byggjast á þessum nýju endurútreikningum (ath. þeir eru þó með fyrirvara á því að hugsanlega gætu þeir reiknað aftur síðar vegna hugsanlegrar villu sem leynst gæti í útreikningunum).

Að lokum segir:

Samkvæmt því sem fyrr er rakið er ljóst að til þess getur komið að greiðsla skuldara sem annmörkum er háð eða ófullnægjandi, kunni að verða til þess að krafa falli niður,enda leiði afstaða kröfuhafa til slíkrar niðurstöðu hvort heldur sem er fyrir samþykki hans eða tómlætis sakir.Frávik kunna því að vera gerð frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu úr hendi skuldara, þegar hinn síðargreindi efnir skuld sína ekki að fullu. Sú undantekningarregla, sem helst þarf að líta til í þessu samhengi, varðar fullnaðarkvittun kröfuhafa (d. saldokvittering).

Já, það er einmitt það að þó svo að skuldarar hafi greitt eftir gjalddaga og eindaga, greitt dráttarvexti af fjárhæðum eftir það er um fullnaðarkvittun úr hendi kröfuhafa að ræða. Það má a.m.k. lesa úr efni því sem að framan er tíundað.

Því má ætla að skuldarar Frjálsa fjárfestingarbankans og Dróma verði að stefna enn á ný til að fá úr því skorið að framangreindum 3 skilyrðum sé fullnægt hvað varðar greiðslur sem berast ekki fyrr en eftir gjalddaga og eindaga en greiddust engu að síður með dráttarvöxtum.

Hvers vegna?

Það er vegna þess að Frjálsi fjárfestingarbankinn og Drómi eru að reikna vexti Seðlabanka Íslands frá gjalddögum sem ekki var greitt nákvæmlega á gjalddaga eða fyrir eindaga, vexti sem hækka höfuðstól lánanna meira en efni standa til og reglur heimila eins og að framan er getið.

Er því stjórn Frjálsa fjárfestingarbankans og Dróma að reikna vitlaust en hún skipar sér í flokk meðal ,,hugsandi manna“.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur