Um þessar mundir áformar ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins að leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis að leggja niður samningaviðræður við Evrópusambandið (ESB) varðandi aðildasamnings Íslands að sambandinu. Samningar hafa staðið lengi en í desember 2009 skipaði þáverandi utanríkisráðherra tíu samningahópa til að annast undirbúning aðildarviðræðna við ESB.
Með þingsályktunartillögu og eftir álit frá þáverandi utanríkismálanefnd Alþingis var þáverandi ríkisstjórn Íslands falið að sækja um aðild að Evrópusambandinu.
Samkvæmt skýrslu, sem ber heitið Umsókn Íslands og kom út hjá Utanríkisráðuneytinu í Apríl 2013, hafa 11 kaflar verið opnaðir og lokaðir til bráðabirgða og þeir eru: (1) 2. kafli um frjálsa för vinnuafls, (2) 6. kafli varðandi félagarétt, (3) 7. kafli varðandi hugverkarétt, (4) 8. kafli varðandi samkeppnismál, (5) 20. kafli um fyrirtækja- og iðnstefnu, (6) 21. kafli varðandi samevrópskt net, (7) 23. kafli varðandi réttarvörslu og grundvallarréttindi, (8) 25. kafli varðandi vísindi og rannsóknir, (9) 26. kafli varðandi menntun og menningu, (10) 28. kafli er snýr að neytenda- og heilsuvernd, (11) um utanríkis-, öryggis- og varnarmál.
Þeir kaflar sem opnaðir hafa verið en viðræðum ekki lokið eru 15: (1) 1. kafli um frjálsa vöruflutninga, (2) 5. kafli um opinber innkaup, (3) 9. kafli um fjármálaþjónustu, (4) 10. kafli um upplýsingasamfélagið og fjölmiðla, (5) 14. kafli varðandi flutningastarfsemi, (6) 15. kafli um orkumál, (7) 16. kafli um skattamál, (8) 17. kafli er snúa að efnahags- og peningamálum, (9) 18. kafli um hagtölur, (10) 19. kafli er snýr að félags- og vinnumálum, (11) 22. kafli varðandi byggðarstefnu og samræmingu uppbyggingarsjóða, (12) 27. kafli varðandi umhverfismál, (13) 29. kafli um tollabandalag, (14) 32. kafli um fjárhagslegt eftirlit, (15) 33. kafli um framlagsmál.
Síðan koma þeir kaflar sem ekki hafa verið opnaðir en þeir eru 6 talsins: (1) 3. kafli um staðfesturétt og þjónustufrelsi, (2) 4. kafli um frjálsa fjármagnsflutninga, (3) 11. kafli varðandi landbúnað og dreifbýlisþróun, (4) 12. kafli um matvælaöryggi og dýra- og plöntuheilbrigði, (5) 13. kafli varðandi sjávarútveg, (6) 24. kafli um dóms- og innanríkismál.
Þá er það upp talið.
Kaflarnir eru því 33, af þeim hafa 11 verið opnaðir og lokaðir til bráðabirgða, 15 opnaðir en ekki lokaðir og 6 óopnaðir.
Sé gripið niður í 17. kaflann er snýr að efnahags- og peningamálum segir í skýrslunni varðandi samningsmarkmið Íslands m.a.:
Hugsanlega þyrfti að ræða hversu mikinn stuðning væri hægt að fá til að draga úr gengissveiflum. Þá var skýrt að enda þótt skuldir hins opinbera væru hærri en 60% af landsframleiðslu, sem eru viðmiðunarmörk Maastricht-sáttmálans, þá væri skuldastaða Íslands lækkandi og sjálfbær.
Varðandi málefnasviðið í þessum kafla segir einnig:
Markmið þessa er að viðhalda gengisstöðugleika og njóta ríkin til þess stuðnings Seðlabanka Evrópu.
Ekki er að sjá samkvæmt þessu að sjálfstæði Seðlabankans aukist við þessa málaleitan eins og ríkulega hefur verið kallað eftir þegar hreyft var við þeirri hugmynd að fjölga seðlabankastjórum úr einum í þrjá og það sagt draga úr sjálfstæði Seðlabanka Íslands. Var þá rætt um að íslenskir stjórnmálamenn væru að hóta og leggja stein í götu sjálfstæðs banka á meðan hinir sömu leggja í raun til að betur sé að Seðlabanki Íslands lúti stjórn frá Seðlabanka Evrópu í stað þess að vera sjálfstæður banki hér innanlands með þremur valkinkunnum einstaklingum í forystu bankans og einn aðalbankastjóra.
Í Evrópusambandinu eru eftirtalin lönd og sjá má hér aðildarár og skuldir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu: Austuríki (1995, 74%), Belgía (1952, 99,8%), Búlgaría (2007, 18,5%), Króatía (2013, 55,5%), Kýpur (2004, 86,6%), Tékkland (2004, 46,2%), Danmörk (1973, 45,4%), Eistland (2004, 9,8%), Finland (1995, 53,6%), Frakkland (1952, 90,2%), Þýskaland (1952, 81,0%), Grikkland (1981, 156,9%), Ungverjaland (2004, 79,8%), Írland (1973, 117,4%), Ítalía (1952, 127,0%), Lettland (2004, 40,7%), Litháen (2004, 40,5%), Lúxemborg (1952, 21,7%), Malta (2004, 71,3%), Holland (1952, 71,3%), Pólland (2004, 55,6%), Portúgal (1986, 124,1%), Rúmanía (2007, 37,9%), Slóvakía (2004, 52,4%), Slóvenía (2004, 54,4%), Spánn (1986, 86,0%), Svíþjóð (1995, 38,2%) og Bretland (1973, 88,7%) [heimild: www.tradingeconomics.com og www.europa.eu]
Samkvæmt sömu heimildum standa skuldir íslenska ríkisins í 96,2% af vergri landsframleiðslu.
Nú er spurt hvort við eigum að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið eða slíta þessum viðræðum og fórna þeirri vinnu sem unnin hefur verið af þeirri nefnd er fyrri ríkisstjórn skipaði. Einnig hafa aðildarsinnar, þ.e. þeir sem vilja fara inn án þess að skoða í ,,pakkana“, þ.e. fara blindandi inn, mótmælt því harðlega að setja inn tvo seðlabankastjóra í viðbót við núverandi bankastjóra því að slíkt myndi skerða sjálfstæði Seðlabanka Íslands. Þetta er í mótsögn við það að þeir vilja að Seðlabanki Evrópu taki í raun yfir alla stjórn peningamála á Íslands. Við aðild að ESB skerðist sjálfstæði Seðlabanka Íslands fullkomlega og evrópusinnum bent á það svo ekkert fari þar á milli mála.
Svo eru það skuldirnar. Ekki er séð annað en að innan ESB sé verið að safna skuldum og sé tekið mið af stærstu aðildarríkjunum eru skuldir hins opinbera langt fyrir ofan 60% skuldamarkið, sem eru viðmiðunarmörk Maastricht-sáttmálans og lagt er upp með í aðilarviðræðum við Ísland en hér heima stendur skuldahlutfallið í 96,2%. Á meðan ESB safnar skuldum er sett það mark að lækka skuldir fyrir tilstuðlan Seðlabanka Evrópu sem ræður ekki við skuldir dagsins í dag. Er þetta trúverðugt? Nei !
Varðandi stjórnmálin eru það tveir flokkar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, sem eru við stjórnvölin í dag á Íslandi og sögðust báðir ætla að leggja það fyrir íslenska þjóð hvort halda ætti viðræðum áfram eða slíta þeim. Pistlahöfundur telur eðlilegt að staðið verði við þessi pólitísku loforð en þau ekki brotin. Verður því að lofa þjóð að kjósa þó síðar verði sbr. þingsályktunartillöguna.
Telur pistlahöfundur, þrátt fyrir allt, afar mikilvægt frjálslyndu fólki í Sjálfstæðisflokknum og almennt í landinu (sbr. fjölda framsóknarfólks sem styður aðildarviðræðurnar einnig), ekki gott að stjórnmálamenn standi ekki fyllilega við þetta loforð sitt. Það má vel treysta íslenskri þjóð að meta stöðu eins og bent hefur verið á hér að framan þó síðar verði og fjölmarga aðra þætti sem deila má um og menn geti verið sammála um.
Varðandi leikjafræðina má benda á að það er ekki alltaf klókt að eiga ekki kost í boði þegar rætt er um stöðu Íslands í dag. Hins vegar verða menn að koma heiðarlega fram í pólitík og það gera menn með því að fylgja sannfæringu sinni. Það er ekki alltaf klókt að kasta á glæ valkostum þó svo að menn geti verið ósáttir við aðild en oft brýtur nauðsyn þá reglu m.a. ef menn hafa enga trú á ESB. Það gæti hugsast að þessi valkostur reynst vel í öðrum samningaumleitunum þó svo að aldrei verði aðild að ESB samþykkt af Íslendingum.
Pistlahöfundur vill fá sinn rétt til að greiða atkvæði um aðildarviðræður við ESB síðar þrátt fyrir að líkur séu á, eins og málin standa í dag a.m.k., að hann hafni aðild þó síðar verði.
Skorað er á XD og XB að heimila þjóð sinni að kjósa um hvort fara eigi í viðræður við ESB síðar. Svo virðist að það sé gert með þeirri þingsályktunartillögu er liggur fyrir á Alþingi.