Mánudagur 24.02.2014 - 20:40 - Lokað fyrir ummæli

Gild rök Bjarna

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra í Kastljósi RÚV 24.2.2014

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra í Kastljósi RÚV 24.2.2014

Óhætt er að segja að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsmálaráðherra hafi fært gild rök fyrir máli sínu í Kastljósi í kvöld þegar hann lýsti því vel hvernig hann tekur pólitíska ákvörðun í ljósi þess m.a. að allir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands eru á móti aðild að Evrópusambandinu (ESB). Þau eru m.a.:

  1. Hvers vegna ætti ríkisstjórn skipuð ráðherrum sem allir eru á móti aðild að ESB að leggja fram þingsályktunartillögu um annað en að hættta viðræðum og að komi önnur ríkisstjórn geti hún efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýjar aðildarviðræður? Þetta eru mjög svo áhugaverð spurning og rétt að stjórnarandstaðan svari því áður en hún fordæmir ákvörðunina.
  2. Ef stjórnarandstaðan, sem var að stærstum hluta í fyrri ríkisstjórn, gat ekki á síðasta kjörtímabili lokið viðræðum og séð um erfiðu kaflana og afgreitt þá fyrst eins og þáverandi formaður VG lofaði, hví ætti ríkisstjórn að véla svo um við ESB að halda áfram viðræðum sem þeir hefðu, er sitja nú í ríkisstjórn, enga trú á? Þetta er mjög svo áhugaverð nálgun og rétt mat sem og gild spurning sem einnig verður að svara.
  3. Það er ábyrgðarhluti að halda viðræðum áfram vitandi að þegar viðræðum lyki ætti núverandi ríkisstjórn, sem er öll mótfallin aðild að ESB eins og pistlahöfundur, að fara í að mæla með samningi eða leggja hann fram þar sem engar undanþágur fengjust varðandi landbúnaðar- og sjávarútvegsmál þjóðarinnar. Það er beinlínis rökvilla að ætlast til þess að núverandi ríkisstjórn gæti farið fram með þessum hætti.
  4. Það er heiðarlegt að afgreiða málin nú á þessu þingi svo að ESB þurfi ekki að eyða frekari vinnu í málið sem er hvort eð er engin samstaða um á meðal þjóðarinnar og líkur á, m.a. vegna þess að engar undanþágur í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum yrðu veittar, að myndi hafna aðild að ESB.
  5. Það að hafa lagt fram á Landsfundi að til þjóðaratkvæðagreiðslu gæti komið varðandi aðild að ESB og síðar í kosningaherferðinni er ekki hið sama og að hafa lagt til að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu nú eins og ríkisstjórn er skipuð. Svo er ekki neinar hömlur settar á að hægt yrði að koma á þjóðaratkvæðagreiðslu síðar ætli stjórnmálaöfl, sem gætu komist til valda og styddu aðild að ESB, fengju brautargengi þjóðarinnar.
  6. Á síðasta kjörtímabili lagði stjórnarandstaðan fram tillögur um að kosið yrði um að farið yrði í aðildarviðrræður við ESB áður en Alþingi hæfi þær. Slíku fyrirkomulagi hafnaði síðasta ríkisstjórn og núverandi stjórnarandstöðuflokkar sem þó voru aðildarsinnar að stórum hluta. Hví ætti þá ríkisstjórn að fara að taka upp slíkt fyrirkomulag þegar allir í ríkisstjórn eru nú  mótfallnir aðild að ESB?

Þetta steinliggur hjá Bjarna. Þarna hefur formaður Sjálfstæðisflokksins sannfært pistlahöfund að það er eina vitið og heiðarlegast pólitískt, sé litið bæði inn á við varðandi íslenska kjósendur og út á við varðandi ESB, að hætta þessum viðræðum. Nýtt afl, er styddi aðild að ESB gæti síðar boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi aðildarviðræður að ESB. Það er meingallaður áróður af hálfu stjórnarandstöðunnar að ætlast til þess að núverandi ríkisstjórn svona skipuð geri eitthvað sem reyndist ómögulegt þegar þeir sátu sjálfir í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili.

Varðandi frjálslynt framsóknar- og sjálfstæðisfólk verður að gæta að því að tvístra ekki flokkum vegna eins máls eins og ESB. Mun betra og þjóðhagslega hagkvæmara er að leita leiða til að ná sáttum innan vébanda flokka enda miklar líkur á að Íslendingar muni hafna viðræðum við ESB þó síðar verði. Gefum núverandi ríkisstjórn tækifæri til að taka til í ríkisfjármálunum en formaður Sjálfstæðisflokksins hefur boðað umbætur í því efni. Þá er aldrei að vita nema að vel til takist og við siglum út úr þessum gjaldeyrishöftum. Það eru sterkar líkur til þess og allar tölur gefa slíkt til kynna.

Gleymum því heldur ekki að verðbólguskotið fyrir hrun var af mannavöldum og vegna þess að margir þeir er vilja nú ganga í ESB fjármögnuðu viðamikla útrás sbr. banka og fyrirtæki og því miður oft án mikillar fyrirhyggju. Við búum mörg á þessu landi og mikilvægt að taka tillit til allra þegar kemur að stjórnmálum. Ekki er séð að ESB hafi leyst vanda allra þrátt fyrir aðild margra ríkja hafi skapað fyrirtækjum svigrúm en það þarf að líta á þann styrk sem sjálfstæði þjóðar veitir til lengri framtíðar.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur