Miðvikudagur 26.02.2014 - 18:57 - Lokað fyrir ummæli

Karlfyrirlitning á Alþingi

Katrín Júlíusdóttir alþingismaður Samfylkingarinnar

Katrín Júlíusdóttir alþingismaður Samfylkingarinnar

 

Kvenréttindabarátta á Íslandi hefur náð undraverðum árangri í gegnum árin. Þegar konur fengu fyrst kosningarétt voru það karlmenn sem mæltu fyrir slíku og gengu í fararbroddi þrátt fyrir andmæli margra kynbræðra sinna á sínum tíma. Nú hafa konur kjark, þor, dug og vilja til að takast á við erfið og ábyrgðamikil embætti eins og svo oft áður sem lesa má úr fornbókmenntum okkar Íslendinga.  Það er ánægjulegt. Mörgum konum fer þetta afar vel og því ber að fagna að konur ná árangri sem þessum og geti aukið veg og vanda annarra kvenna og stúlkna til lengri framtíðar.

Til er þó önnur mynd af þessu öllu eins og vera ber. Hver man ekki eftir Samönthu í Sex and the City (í. Beðmál í borginni) og ,,leikfangi“ hennar sem hún kallaði ,,my toy boy“ (í. leikfangastrákur) . Þetta var hann Smith Jarred sem fáir muna eftir annað en að vera leikfangið hennar Samönthu. Í þessum vinsæla sjónvarpsþætti var litið á karlmenn sem e.k. kynlífsleikföng eða kjötskrokka konum til skemmtunar eins og Helgi Snær Sigurðsson (helgisnaer@mbl.is) kemst svo vel að orði í pistli sínum á mbl.is þann 5. nóvember 2009.

Við þetta fer maður að horfa á bumbuna á sér og velta vöngum yfir því hvort betri helmingurinn í hjónabandinu sé að fara af límingunum yfir því að maður er ekki eins og þetta vöðvastælta leikfang hennar Samönthu. Hún sagði klúra brandara, svo skelfilega klúra að togarasjómaður á búllu í Hull gæti ekki betur sé vísað í orð Helga Snæ í framangreindum pistli hans.

Nú hefur þessi menning Samönthu greinilega ratað í íslenska pólitík. Í dag fór Katrín Júlíusdóttir alþingismaður mikinn þegar hún kallaði Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsmálaráðherra ,,helvítis dóna“ eftir að hann rétti henni dagskrá í ræðustól Alþingis eftir að hún kallaði eftir því að fá hana. Þurfti Bjarni að fara í ræðustól og útskýra sérstaklega fyrir Katrínu ástæður fyrir því að hann hafi verið að afhenda henni það sem hún var að biðja um.

Eins og þetta leit út er augljóst að Bjarni, sem er einskær séntilmaður, var að gefa henni dagskrá þingsins sem hún hafði beðið um.

Þó svo að konur mæti mótlæti og erfiðleikum með að ná sínu fram, t.d. á þingi, er óþarfi að ganga svo langt að kalla pólitíska andstæðinga dóna sem vilja sýna þeim velvilja. Kvenfólk á margt svo gott með að stjórna skapgerð sinni en þarna fór Katrín, þessi kvenskörnungur, því miður út af sporinu þegar hún sér að hún mun ekki fá máli sínu framgengt á Alþingi. Sjá mátti að Svandís Svavarsdóttir, alþingismaður VG, studdi dátt við bakið á kynsystur sinni sem er hið besta mál og minnir mann óneitanlega á dömurnar í Sex and the City. Þær hefðu sko ekki látið leikfangið komast upp með múður.

Bjarni hafði betur enda séntilmaður.

Ætti Katrín að biðjast afsökunar á þessu upphlaupi sínu á Alþingi Íslendinga.

VIÐAUKI: Í kvöld, eftir að pistill þessi fór í loftið bað Katrín Júlíusdóttir bæði þingheim og þá Bjarna Benediktsson afsökunar á orðum sínum í hans garð á Alþingi í dag. Það er vel og henni til framdráttar að hafa gert það. Sjá slóð á frétt um það HÉR.

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur