Mánudagur 31.03.2014 - 17:58 - Lokað fyrir ummæli

LÖGmundur frá LÆK

Maður einn er kallaður LÖGmundur og er frá Læk. Hann gekk því til liðs við Vinstri græna enda alinn þar upp er allt var talið vænt sem vel er grænt nema blóðrautt sé. En svo vildi til að LÖGmundur var mikill óreiðupési og gekk um aðra bæji eins og hann ætti þá, ráðskaðist með börn og búalið bænda til sveita og taldi sig hafa vit á öllu þannig að hvorki sýslumenn né hreppstjórar höfðu roð í hann og hans röksemdafærslu. Þetta var enda LÖGmundur og enginn annar sem reið um héruð og kom alla leið frá 101 Reykjavík, hvorki meira né minna.

Einkunarorð LÖGmundar eru:

Við borgum ekki neitt, gerum ekki neitt og látum aðra um að borga fyrir mig.

LÖGmundur var kjörinn á Alþingi Íslendinga fyrir um tveimur áratugum síðan og var hann talsmaður öreiga og þeirra sem minna máttu sín. Hann var talsmaður verkalýðshreyfingarinnar og opinberra embættismanna á Íslandi og hafði áður verið að útvarpa visku sinni og váfréttum auðvaldsins um árabil. Umfram allt var hann nú talsmaður búmanna á Læk. Nú hefur hann verið mjög lengi á Alþingi og er það talinn mannkostur að vera frá Læk og skiptir litlu hvernig menn þaðan líta út eða hvað þeir hafa gert af sér. Á þetta sérstaklega við LÖGmund sem vill lögleiða bönn af margvíslegum toga sbr.:

  • bann við Kínverjum og öðrum útlendingum
  • bann við peningum
  • bann við hagnaði
  • bann við ávöxtun lífeyrissjóða í vegagerð
  • bann við frjálsum fjölmiðlum
  • bann við Bandaríkjamönnum
  • bann við alþjóðasamvinnu
  • bann við gjaldtöku við Geysi í Haukadal
  • bann við framhjáhaldi utan hjónabands
  • bann við kirkjurækni
  • bann við bjór
  • bann við launahækkunum í einkageiranum
  • bann við beitingu lögregluvalds gegn sér og öðrum vinstri græningjum
  • bann við bólförum án eftirlits

LÖGmundur hefur verið mjög afkastamikill þingmaður og hefur tekist að þvæla þingheim í fjölmörg mál sem tekið hefur aðra þingmenn fjölda ára að leysa úr og þá sérstaklega eftir að hann hafði verið ráðherra. Já, hann komst einmitt í ráðherrastól og lokaði fyrir fjárfestingu í landið með uppblásnu herskipi sem komið var fyrir við Skjálfanda á síðasta kjörtímabili.

Nú er svo við komið að menn sem töldu hið opinbera lítið sinna bústörfum sínum úti á landi tóku uppá þeim óskunda að innheimta gjald fyrir þær allt að milljón ær sem hafa verið sendar á beit frá Læk yfir á næstu bæji. Töldu menn á Læk að grasið væri grænna hinum megin lækjarins rétt eins og LÖGmundur taldi vera varðandi hina vænu Vinstri græna. Nú hafa ærnar á Læk verið á beit á næstu bæjum án þess að greitt hafi verið fyrir. Vegna þessa hefur búmönnum á Læk, fyrir áeggjan LÖGmundar, tekist að tvöfalda bústofn sinn fyrir lítið fé og hafa því tvöfaldað beitina og rúmlega það.

Túnin á næstu bæjum eru útspörkuð og hafa eigendur verið að leitast við að semja við hið opinbera að fá eitthvað fyrir sinn snúð sökum ofbeitar og áeggjan LÖGmundar sem hefur komið þessu skelfilega skipulagi á. Ríkið, sem er nokk sama nema um skattfé sitt, nennir ekki og vill ekki halda eignum sínum við sem liggja svo fjarri kjósendum sínum í Reykjavík og nágrenni og lítið ber á. Þarna eru bara ær frá ættmennum LÖGmundar að bíta gras og fá að gera það ókeypis. Svo er nú óþarfi að gera LÖGmund pirraðan og aðra sem telja sig vinstri græna enda líkur á að það þurfi að nota slík auðsótt gjafasæði í hrossakaupum í framtíðinni innan vébanda Alþingis.

Því er lokum fyrir það skotið að fá þingheim, þar sem LÖGmundur er vel þekktur í ræðustól, til að átta sig á því hve tún bænda í uppsveitum Árnessýslu eru illa farin eftir ágang bændanna frá Læk en LÖGmundur er lögerfingi þeirra. Nú hefur LÖGmundur brugðið á það ráð að leggja það til við aumt framkvæmdavaldið að kalla til lögreglu þvert ofan í hefðbundið stjórnskipulag á Íslandi og þrískiptingu ríkisvaldsins. Þeir sem gerst þekkja til telja að þarna séu komin fram sú vel þekkta stjórnkænska sem kennd hefur verið við Læk. LÖGmundi, manni sem hefur verið kennt að pína auðvaldið og beita á tún annarra, er því augljóslega ofboðið ætli bændur á næsta bæ við Læk að innheimta fyrir ofbeit svo rækta megi upp svaðið eftir fé það er ættbogi LÖGmundar stríðelur á kostnað nágranna sinna og náttúru landsins.

Nýlega úrskurðaði hinn geðþekki sýslumaður Árnesinga að sauðaþjófnaður, ofbeit og upprekstur um annarra manna lönd sé óheimill nema að slíkur óbeinn eignaréttur sé tíundaður í bókum embættisins. Mega því eigendur nú sem fyrr innheimta fyrir beit annarra manna fjár á þeirra eigin landi, kæra þjófnað og misnotkun.

LÖGmundi virðist fátt um slíkt auðvaldshjal finnast enda alinn upp á Læk þar sem ekki er tekið mark á svona löguðu. Því hefur LÖGmundur tekið upp málið í óundirbúnum fyrirspurnum á hinu háa Alþingi Íslendinga. Hann kallar þar eftir því að lögreglan verði kölluð til svo að innheimta á gjaldi fyrir ofbeit búmanna á Læk verði stöðvuð hið fyrsta. Lögmundur er alls ekki af baki dottinn.

Hér er því ekkert nýtt á ferðinni enda vita flestir að LÖGmundur gerir flest allt fyrir LÆK.

Flokkar: Heimspeki · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur