Laugardagur 29.03.2014 - 10:41 - Lokað fyrir ummæli

Kommúnisminn er víða

Það er ekki lokum fyrir það skotið að kommúnismi þrífist víða í okkar samfélagi. Hann er kannski ekki kallaður ,,kommúnismi“ lengur heldur er honum gefin önnur og snúnari heiti enda ekki lengur í tísku að vera kallaður kommúnisti. Hér eru nokkur heiti og afbrigði sem komið geta til greina;

  1. Evrópusinnar og skrifræðissinnar er telja frelsið felast í því að miðstýrt vald fari betur með fólk og fjármuni en þjóðríkin sjálf;
  2. Andstæðingar gjaldtöku einkageirans á eigin landi til að viðhalda eignum sem ríkið nennir ekki að sinna eða viðhalda þrátt fyrir beint eða óbeint eignarhald;
  3. Umhverfissinnar sem telja að þeir búi í húsnæði á ósnortnu landi og að hitaveitan sé tilkomin vegna kraftaverks og atvinna embættismanna eða listamanna hafi orðið til vegna tilkomu Guðs almáttugs, skapara himins og jarðar;
  4. Embættismenn sem hafa sogið sig fasta við flokk eins og Sjálfstæðisflokkinn og eru sumir í bæjarstjórnum og stjórnkerfi flokksins sem og hins opinbera aðeins til að tryggja eigin framfærslu, stuðla að meira skrifræði og til að varðveita tengslanet sitt;
  5. Mótmælendur sem telja að þeir séu að tala fyrir þjóð sína;
  6. Umbyltingarsinna á sviði skipulags- og samgöngumála er telja að ef flugvöllurinn í Vatnsmýrinni verði látinn fara muni íþróttafélagið Valur hagnast umtalsvert en ekki einhverjir aðrir líka;
  7. Íslenskir meðreiðasveinar og dætur kröfuhafa sem vilja selja land sitt undir Evrópusambandið til þess að tryggja að verðmæti krafna þrotabúa bankanna rýrni ekki;
  8. Þeir aðilar sem styðja aðild að Evrópusambandinu án þess að hafa lesið sig til um að undanþágur við inngöngu eru afar takmarkandi og ef einhverjar þá tímabundnar og renna út fyrr eða síðar;
  9. Flokkar sem aðallega leggja áherslu á 101 Reykjavík;
  10. Forysta Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og ráðgjafar þeirra.

Þetta er sjálfsagt ekki tæmandi listi en er í áttina. Það er hins vegar sjálfsagt mál að þetta ágæta fólk fái tækifæri til að tjá sig og eigi fullan rétt eins og aðrir. Hér er ekki verið að draga í dilka heldur aðeins verið að leitast við að ramma inn staðreyndir um það sem fólk annars vegar telur sig vera og það sem það í raun og veru er með í maganum.

Það má árétta að ekki var allt allskostar vont sem barst með vindum þeim er blésu úr austri. Kommúnisminn varð til þess að svokallaðir hægri menn eða íhaldsmenn tóku upp fjölmarga þætti og gerðu að sínum. Þetta fer vissulega eftir löndum og menningarheimum. Sem dæmi jukust réttindi kvenna umtalsvert í Kína, a.m.k. þeirra sem voru skráðar í Kommúnistaflokkinn. Hinum var slátrað. Lágmarks menntun var gerð aðgengileg fátækum jafnt sem efnuðum sem er hið besta mál og ofurefli nýlenduveldanna var brotið á bak aftur ásamt aðskilnaðarstefnu.

Nú er svo komið að menn og konur virðast leita aftur til byltingahugmynda varðandi þjóðríkið og leita fremur eftir hinu vinsæla sambandsríki sem Evrópusambandið vissulega er. Bretar eru að verða afhuga þessu fyrirkomulagi enda hefur þetta mikla veldi, sem má reyndar muna sinn fífil fegurri, þurft að lúta í gras í fjölmörgum atkvæðagreiðslum fyrir ráðherraráðinu. Rannsóknir sýna að bresk stjórnvöld hafi greitt gegn 55 málum í ráðherraráðinu síðastliðin 18 ár. Öll náðu samt málin fram að ganga þrátt fyrir andstöðu Breta. Svo er verið að segja að við Íslendingar gætum komið í gegnum þetta ráð þeim málum sem annars yrðu stoppuð af embættismannakerfinu í Brussel eða gengu ekki í gegnum Evrópuþingið til verndar hagsmunum Íslendinga.

Vandinn er ekki sá að lítinn kommúnista megi finna í hverjum og einum heldur er vandinn sá þegar litla kommúnistakrílið tekur algjörlega yfirhöndina og skynsemin nær ekki að stýra ferð. Við erum öll breytileg eins og umhverfið okkar og það er jafnvel vottur fyrir kommúnisma í Sjálfstæðisflokknum þegar kemur að ákveðnum málaflokkum og hagsmunum enda flokkurinn uppfullur af embættismönnum sem og vissulega öðru góðu fólki.

Við erum flest ekki á móti Evrópusambandinu, við erum flest meðfylgjandi umhverfisvernd að einhverju marki, við erum öll tilbúin að mótmæla ef réttlætinu er ógnað, við erum öll meðfylgjandi því að ekki sé okrað á okkur, við erum mörg hver embættismenn, við viljum einhverjar breytingar í skipulags- og byggingarmálum, við erum mörg búin að kjósa marga flokka og erum opin fyrir breytingum.

En við erum ekki endilega kommúnistar þrátt fyrir þetta.

Hvers vegna þá að ganga í Evrópusambandið?

Getum við ekki bjargað okkur sjálf?

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur