Fimmtudagur 27.03.2014 - 14:33 - Lokað fyrir ummæli

Skuldaleiðréttingin

Íslandsvinurinn Russell Crowe í hlutverki Robin Hood

Íslandsvinurinn Russell Crowe í hlutverki Robin Hood

Nú hefur ríkisstjórn Íslands spilað út því sem hún lofaði bæði fyrir og eftir kosningar og snýr að viðamiklum leiðréttingum skulda sem almenningur tók á sínum tíma og hækkuðu vegna verðbólguskots eftir hrun fjármálakerfisins árið 2008. Hér er um sanngirnisgjörning að ræða. Þeir sem tóku gengistryggð lán og veðsettu heimilin sín hafa með dómum fengið leiðréttingar sem kom ekki til af góðu. Fólk sem tók gengistryggð lán var blekkt og það ekki einu sinni og ekki tvisvar.

Pistlahöfundur hefur ítrekað bent á að árið 2006, þegar Einar Oddur heitinn Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skildi ekki réttilega í því hvers vegna Seðlabanki Íslands hækkaði vexti mikið og lagði m.a. áherslu á þetta á Alþingi undir umræðum varðandi fjárlagagerðina fyrir árið 2007. Það var ljóst að á þessum tíma fóru fjármálastofnanir, eftir að þær gátu ekki lengur keppt við Íbúðalánasjóð varðandi vexti íbúðalána, að lána gengistryggð lán sem voru ólögmæt enda hafði það verið sett í vaxtalög árið 2001 samhliða breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands og innleiðingu nýrrar peningastefnu.

Bankarnir svindluðu því ekki aðeins á almenningi heldur líka á öllu leikkerfi fjármálaheimsins með þessu útspili. Hafði Seðlabanki Íslands og ríkisstjórn þess tíma leitað til Alþjóðagjaldeyrissjóðins varðandi ráðleggingar í þessu efni og benti sjóðurinn (á árabilinu 1998-2001) á mikilvægi þess að banna lán sem fælu í sér gengisbindingu skuldbindinga í krónum væri ætlunin að fleyta krónunni. Þar að baki lágu gild rök varðandi áhættu á gjaldeyrisáfalli sem Alþingi tók undir, nefndarmenn og aðrir er að málinu komu. Skiptir þar engu eitthvað argaþras varðandi frjálsa flutninga fjármagns innan EES svæðisins enda voru engar hömlur á öðrum gjaldmiðlum en krónu í þessu samhengi enda í lagi að gengistryggja skuldbindingar í öllum öðrum myntum en krónum vildu menn svo við hafa. Þarna lágu gild rök sjálfstæðs og fullvalda ríkis varðandi eigin peninga-, hag- og öryggismál.

Allir vita að bankarnir fóru á skjön við þetta og Fjármálaeftirlitið sem og Seðlabanki Íslands virðast ekki hafa séð nokkurn skapaðan hlut og hækkað bara vexti blindandi á þessum tíma þegar Einar Oddur sá skekkjuna blasa við. Þetta var allt orðið svo órökrétt að hans mati sem og rétt var. Þarna treystu stjórnendur Seðlabanka Íslands þáverandi starfsmönnum bankans sem nú hafa tekið við allri stjórn þessa banka og virðast enn ekki hafa fengið sjónina á ný þrátt fyrir mikið fjármálahrun og rassskellingar af ýmsum toga.

Í gær komu formenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins fram með breytingar á lánum heimila til lækkunar sem áttu aldrei að hafa hækkað. Þetta voru lán sem fólk bjóst við að myndu ekki haggast umfram eðlilega verðbólgu sem ætti að liggja í kringum verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands sem er 2,5% með 1,5% vikmörkum. Vegna þess að bankar, lögmenn þeirra og endurskoðendur, svo síðar kröfuhafar og skósveinar þeirra og dætur, lögðust á almenning gegn lögum og reglum fór sem fór. Var þetta alltaf ætlunin? Var það alltaf ætlunin að eyðileggja krónuna og brjóta lög? Það munum við sjálfsagt seint vita enda virðast engin dómsmál í gangi varðandi þennan lið, þessa ógn og þetta útspil.

Eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók til starfa hóf Samfylkingin e.k. hernað gegn almenningi, fátækum og öreigum til að tryggja framgang kröfuhafa. Stoð og stytta kröfuhafa var reyndar þáverandi formaður Vinstri grænna sem gaf þeim tvo banka og ábyrgð skattgreiðenda í meðlag. Svo var samið við starfsmenn Landsbanka Íslands til að tryggja að þar yrði hamast eins og hægt væri á fátækum sem öðrum svo bjarga mætti bankanum og auka velferð starfsmanna, kröfuhafa og breska ríkisins, sbr. ICESAVE klúðrið allt saman.

Nú kemur formaður Samfylkingarinnar fram og sem og formaður ASÍ. Báðir voru framherjar (þó ekki fremstir væru) í útrásinni, annar með áliti fyrir Íbúðarlánasjóð þess efnis að að lána mætti sparisjóðunum fé og setja þá á hausinn og hinn í gegnum lífeyrissjóði sem voru látnir taka stöðu með krónunni þegar augljóst var að hún var að falla. Þarna var tekið af fátækum og öreigum þessa lands og reikna má með að þarna sé ekki aðeins um íslandsmet að ræða heldur heimsmet í öreigaráni og engar líkur á að Robin Hood geti reddað því.

Þrátt fyrir brúnan vanga og vænan skeggvöxt líta Árni Páll og Gylfi ekkert út fyrir að vera Robin Hood.

Þökk sé XD og XB með þetta verðuga og löngu tímabæra framtak til handa heimilum á Íslandi.

Sigmundur Davíð og Bjarni hafa augljóslega hitt í mark.

Það þola ekki vinstri menn og konur. Það er leitt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur