Nú í morgunsárið (9. maí 2014) hlustaði pistlahöfundur á Virka morgna á Rás 2.
Voru þáttastjórnendurnir að selja gítar Heiðars ,,Leðju“, eins af Pollapönkurunum. Verið er að selja gítarinn til styrktar Framtíðarsjóði barna hjá Hjálparstarfi kirkjunar.
Óhætt er að segja að þar fór vandaður hópur fagfólks með tónlist og þáttastjórnendur tóku undir. Dægurlög voru flutt og var sérstök áhersla lögð á eurovisionlög. Þar komu fram þau Friðrik Ómar Hjörleifsson, Regína Ósk og Kristján Grétarsson gítarleikari. Þarna tóku þau nokkur gömul eurovisionlög ,,live“ eftir pöntun og lögðu hlustendur til þau lög sem flutt voru í beinni.
Ekki ætlar pistlahöfundur að vera e.k. auglýsingarpési hér á Eyjunni en setur hér samt slóð á skemmtistaðinn SPOT í Kópavogi enda munu þau, ásamt öðru góðu listafólki, slá upp eurovisionballi á SPOT á laugardagskvöld.
Í gærkvöldi (8. maí 2014) ,,droppaði“ pistlahöfundur við á SPOT og hlustaði á aðra og ólíka tónlist.
Gengu inn í salinn Fræbbblarnir í allri sinni mynd með góðkunningja pistlahöfundar, Valgarð Guðjónsson, í broddi fylkingar. Þá um klukkan 18 voru að hefjast tónleikar með Fræbbblunum, Q4U og Glen Matlock. Stoppaði pistlahöfundur stutt við en óhætt er að segja að þarna voru frábærir listamenn að koma fram með fyrrum meðlimi Sex Pistols, Glen Matlock. Algjör snillingur sá maður þrátt fyrir að honum hafi víst verið ,,hent úr“ Sex Pistols vegna þess að hann ,,hafi líkað of vel við Bítlana“. Það er nú önnur saga og brosleg.
Já, pönkið er klassískt. Þungarokkið er það líka.
Þetta sýnir okkur Íslendingum að við eigum fagfólk á fjölmörgum sviðum tónlistar. Það er einnig mikið gleðiefni að sjá fólk sýna fordæmi með gjöfum. Þökk sé stjórnendum Virkra morgna á Rás 2 fyrir líflegan og fjölbreyttan þátt og frumkvæði sem þau sýna okkur hinum með framkomu sinni til hjálpar börnum og listafólki almennt. Einnig má þakka Hjálparstarfi kirkjunar og því góða fólki sem þar starfar og auðvitað svo pollapönkaranum honum Heiðari sem gefur gítarinn sinn til styrktar börnum sem vilja læra á hljóðfæri, njóta tónlistar og fá tækifæri.
Það er sælla að gefa en að þiggja og skiptir litlu um trú eða vantrú þegar málstaðurinn er góður.
Allir geta sameinast um að hjálpa og það kenna listamenn okkur að virða.