Fimmtudagur 28.01.2016 - 09:27 - Lokað fyrir ummæli

Séreignastefnan, verðtrygging, lífeyrir, vextir og lán

Fyrirsögn þessa pistils bendir til að það er mikið um að vera í þessum pistli og þar sé af mörgu að taka. Í raun og sann hangir þetta allt saman. Í nýlegum pistli (Pistill Egils Helgasonar – Silfur Egils) á Eyjunni var fjallað um hve gamaldags það væri að eiga séreign, t.d. fasteign. Best væri að leigja íbúðarhúsnæði en að eiga var innihaldið pistilsins í grunninn og þess getið að séreignastefnan væri úr sér gengið fyrirbæri. Er ekki bara verið að drepa gullgæsina, þ.e. séreignastefnuna? Þar ganga menn hart að fólki í landinu, bæði frá vinstri og hægri.

Mikilvægi séreignastefnu í hverju landi

Sú kynslóð sem ekkert ætlar að eignast, engu ætlar að safna og markar sér ekki aga til að spara er kynslóð sem mun bæði taka umtalsverða áhættu og þarf að treysta á að samfélagið taki við að sinna henni láti eitthvað undan þegar heilsan brestur, hagkerfið hjaðnar eða samdráttur verður í launum, atvinnu og viðurværi þjóðar. Ríkið mun aldrei ráða við að bjarga öllum, það má lesa úr sögunni.

Þetta þekkja íslensku hagamýsnar en þetta virðist hins vegar vefjast fyrir andstæðingum séreignastefnunnar. Eignasafn almennings er metið að verðleikum þegar litið er á styrk hvers hagkerfis fyrir sig og getu þess að takast á við áföll, áhættu og skipbrot. Þá skiptir litlu hvort slíkt á sér stað í lífi viðkomandi einstaklings eða kynslóðar þegar á bjátar.

Verðtryggingin

Verðtrygging er af mörgum toga. Dæmi um ágæta verðtryggingu er að fara snemma og versla inn þegar vænta má skorts á nauðsynjarvöru, þ.e. að vera á undan og ná sér í vöruna áður en hún ríkur upp í verði vegna skorts. Til að hamla þessu hafa framleiðendur og dreifingaraðilar gætt að því að tryggja stöðugt vöruframboð, tryggja dreifileiðir og þannig verðstöðugleika. Því liggur í hlutarins eðli að það væri erfitt að banna að fólk fengi að vera forsjált hvað þetta varðar.

Það þarf því ekki að vera þörf á að banna verðtryggingu í formi tengingu lána við þróun á vísitölu neysluverðs en það má takmarka framboð á slíkum lánum. Megin rök fyrir því að takmarka slíkt framboð er að sé of stór hluti slíkra lána á efnahagsreikningi fjármálafyrirtækja á Íslandi er hætta á að stýrivextir Seðlabanka Íslands miðlist ekki vel í okkar agnarsmáa hagkerfi (*sjá skýringu neðst). Því bíta stýrivextir seint og illa, verðbólgan lækkar ekki jafn hratt og því hanga vextir of háir of lengi eða eftir atvikum of lágir of lengi. Hættan af þessu er sú að erlendir fjármagnseigendur stundi vaxtamunaviðskipti í kjölfarið.

Gengistryggingin

Gengistrygging er eitt form verðtryggingar. Nú eru áform uppi um að heimila gengistryggingu skuldbindinga í íslenskum krónum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varaði sérstaklega við í skýrslu árið 2001 um það leyti þegar Alþingi gerði Seðlabanka Íslands sjálfstæðan og fleytti krónunni. Hefur enginn af sitjandi þingmönnum lesið þá skýrslu?

Eftir lestur gagna nefndar um breytingu á vaxtalögum frá þessum tíma, sem aflað var frá einu ráðuneytanna, kemur greinilega í ljós að sú nefnd tók leiðbeiningum um að banna yrði gengistryggingu af þessum toga alvarlega og urðu þessi drög að núgildandi vaxtalögum. Sjá nánar hér skýringamynd (Figure 1) úr skýrslu AGS sem gefin var út 2001 og fjallaði um Ísland, fleytingu króunnar, nauðsyn nýrra vaxtalaga og sjálfstæðan seðlabanka.

Skýringamynd af gjaldeyrisáfalli á Íslandi sem varað var við yrði gengistrygging gerð heimil og óvarin slík lán gætu valdið miklum fjármálaóstöðugleika og skapað hættu

Skýringamynd af gjaldeyrisáfalli á Íslandi sem varað var við yrði gengistrygging gerð heimil og óvarin slík lán gætu valdið miklum fjármálaóstöðugleika og skapað hættu

 

Vextir og lán

Leiða má sterkum líkum að því að vextir á Íslandi eru svo háir sem raun ber vitni vegna þess að við erum ekki búin að þróa hagkerfið. Við erum því með vanþróað hagkerfi þar sem lífeyrissjóðir búa við e.k. niðurgreiðslu í formi laga og reglna þar sem ávöxtunarkrafa á þá yfirbyggingu sem þar er hefur umtalsverð áhrif, þ.e. sú krafa sem kennd er við 3,5% (** sjá skýringu neðst). Það er ekki nema von að fólk átti sig ekki á þessu kerfi þegar þingmenn og ráðherrar ár eftir ár koma fram og segja ekki sannleikan um þetta kerfi okkar sem er ekki að vinna með fólkinu í landinu. Því koma fram skoðanir um það, eins vanhugsaðar og þær eru, að séreignastefna sé úrelt og það sé ekki lengur skynsamlegt að spara í formi húsnæðis.

Að lokum skal á það bent að ekki er heimilt fyrir fólk að nýta fjármuni sína úr lífeyrissjóðum sem þar sitja fastir á lágum vöxtum til að borga upp húsnæðislán sín á sem eru á hærri vöxtum. Slíkar hömlur og takmarkanir á aðgengi fólks að eigin fjármunum, sem vissulega eru bundir skv. samningum þar um, er ekki í anda þeirrar hugsjónar að fólki eigi að treysta fyrir eigin hag, eigin fjármunum og hagsæld.

  • Á meðan þingmenn og ráðherrar ætla að fara að heimila gengistryggð lán (þrátt fyrir e.k. virkt eftirlit á tekjustreymi einstaklinga í erlendri mynt sem efast má um að verði virkt út lánstíman sem gæti verið 20 til 30 ár) er hætta á ferðum.
  • Ef sömu aðilar ætla ekki að takmarka verðtryggð lán fjármálastofnana (tryggir þá sjóði sem geta ekki verið með virka áhættustýringu á lánastabba með óverðtryggðum vöxtum) til að tryggja miðlun stýrivaxta eru þeir ekki að mæla fyrir virkari hagstjórn á Íslandi.
  • Á meðan þingmenn og ráðherrar ætla að niðurgreiða fjármálastofnanir með hagstæðum lagabálkum í stað þess að stuðla að virkri samkeppni mun almenningur þurfa að borga hærri vexti og lúta lögum eins og nauðungarsölulögum þar sem fjármálastofnanir geta keypt eign á 1 milljón sem er virði 10 er ekki í anda þeirra laga sbr. greinargerð með frumvarpi sem varð, með breytingum í nefnd, að þessum lögum.
  • Á meðan ofvaxin sveitarfélög (sum hver nokkuð spillt) selja lóðir dýrum dómum, lóðir sem áður var úthlutað af kostgæfni svo duglegt fólk gæti byggt yfir sig og fjölskyldur sínar er ekki von á góðu. Það virðist lítil von um að virkja megi dugnað landsmanna á þeim vettvangi og svo tryggja megi að fólk geti byggt sjálft á hagkvæmu verði og skapað verðmæti í hagkerfinu og fyrir framtíð sína. Fjármagnið virðist allt sogið fyrirfram út úr lóðunum til að halda uppi mikilli yfirbyggingu, yfirskuldsettum sveitarfélögum og illa reknum.

Villur í lögum og reglum, sem stuðla að því kerfi sem við búum við, valda því að ranghugmyndir um séreignastefnu skjóta upp kollinum. Það er því við þingmenn og ráðherra að sakast breyti þeir ekki rétt í þessu efni.

Með því að auka völd fjármálafyrirtækja með niðurgreiðslu lagabálka til handa þeim, með því að koma ekki á virkri samkeppni til handa almenningi, skapar ekki hagstæð skilyrði fyrir virka miðlun stýrivaxta. Að heimila gengistryggð lán sem og óheft verðtryggð lán er verið að stuðla að því að völd fari frá almenningi yfir til einhvers annars en fólksins í landinu. Þannig geta menn einmitt grafið undan séreignastefnunni og undan allri trú almennings á ríkjandi stjórnvöld.

Það er þess vegna sem vextir eru of háir á Íslandi, það er þess vegna að smásöluaðilar eru með hæstu álagningu á vöru en í öðrum ríkjum, það er þess vegna að yfirbygging fjármálafyrirtækja er enn of mikil, það er þess vegna að smásalan er með stóra yfirbygginu og að olían sem og bensín er of dýrt á Íslandi. Við verðum því sjálf að kalla eftir breytingum og verða virkari í stjórnmálum á Íslandi. Þetta gerir enginn fyrir okkur nema að við vinnum öll stétt með stétt að þessum breytingum.

Sumir sjá þetta ekki, því miður.

Þessu vilja Íslendingar breyta.

 

__

(*) Skýring fyrir lesendur:

Verðtryggð lán bregðast ekki við stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands eins og óverðtryggð lán. Hækki stýrivextir Seðlabanka Íslands hefur slíkt áhrif á vaxtastig lána, þ.e. óverðtryggða vexti sem eru breytilegir, ekki fastir. Því mun hækkandi stýrivextir fara beint inn í greiðsluseðil óverðtryggðs lán á breytilegum vöxtum og þá tekur lántakandinn strax við að borga hækkunina og þeir fjármunir sem fóru í þessa hækkun fara þá ekki t.d. til að borga fyrir nýtt sjónvarp. Neysla dregst því saman eða á að gera það. Þetta kallast að stýrivextir eru farnir að ,,bíta“ og hafa þannig áhrif á minnkandi neyslu sem dregur úr verðbólgu.

Hins vegar með verðtryggð lán þá eru það oftar en ekki fastir vextir en höfuðstóll hækkar ef vísitala neysluverðs hækkar og því kemur vaxtahækkun Seðlabanka Íslands ekki fram í slíkum lánum (eða fremur seint) og greiðsluseðillinn hækkar ekki um leið. Hins vegar og þess í stað hækkar verðlagið og vísitalan mælir það sem svo fer á höfuðstól lánsins, þ.e. lántakandinn greiðir ekki strax með greiðslu næsta greiðslueðils eftir stýrivaxtahækkun og tekur þannig ,,höggið“ af stýrivaxtahækkun ekki strax. Þess í stað fer þetta inná höfuðstól lánsins og hækkar hann. Svo þarf að borga verðbætur af þessari hækkun sem annars þyrfti ekki ef menn tækju ,,höggið“ strax með því að greiða strax og vextir Seðlabanka Íslands hækka.

Því getur sá sem er með verðtryggt lán keypt sjónvarpið og er því í raun ekki að spara, heldur eyða meiru, auka neyslu sína. Þannig er þessi munur, þ.e. óverðtryggða lánið virkar betur við að minnka neyslu og draga úr verðbólgu en hið verðtryggða veldur því að stýrivextirnir miðlast ekki og draga þannig ekki úr verðbólgu eins og annars væri, þ.e. ef allir yrðu með óverðtryggð lán. Svo er það greiðslubyrðin, hún er vissulega meiri til skamms tíma á óverðtryggðu láni en því verðtryggða. Hins vegar er fólk fyrr að safna í fasteign sinni með því að vera með óverðtryggð lán.

(**) Skýring fyrir lesendur:

Þegar litið er til 4. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða ásamt áorðnum breytingum má sjá á einföldum útreikningi að raunávöxtunarkrafa lífeyrissjóða verður að liggja á bilinu 3 til 4%.

Ef við gerum ráð fyrir 0% launahækkunum, 0% verðbólgu og vöxtum þar sem einstaklingur er með kr. 500.000 í mánaðarlaun mun sá einstaklingur, með vísan í lögin, eiga (500.000×12%x12x40)=28.800.000 við lok tímabilsins og byrjar að fá út lífeyri. Samkvæmt lögunum ber að greiða (500.000×56%)= kr. 280.000 á mánuði frá viðkomandi lífeyrissjóði þangað til einstaklingur fellur frá.

Eftir rétt rúm 8 ár er þessi sjóður uppurinn en hann er langt undir lífaldri Íslendinga í dag. Því er augljóst að þessi sjóður verður að fá raunávöxtun á sjóði sína til að ná endum saman. Væntur lífaldur við upphaf töku lífeyris á Íslandi er um 20 ár sem þýðir að lífeyrissjóðurinn verður að ná um 2,85% ávöxtun á fé sitt til að eiga fyrir væntum útgreiðslum í framtíðinni og svo lengi.

Ef við bætum við um 3% launahækkunum á ári við þetta er ljóst að það kallar á um 3,1% ávöxtunarkröfu ef gert er ráð fyrir 0% verðbólgu. Svo ef tekið er tillit til kostnaðar við rekstur sjóðsins má ætla að lögin í raun og veru setja um 3 til 4% raunávöxtunarkröfu á lífeyrissjóði landsins.

Heimild: Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða ásamt áorðnum breytingum.

Flokkar: Heimspeki · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur