Miðvikudagur 30.03.2016 - 09:27 - Lokað fyrir ummæli

„Tapað – Fundið“ hjá vinstri mönnum

Nýjar ,,fréttir“ herma að fjármálaráðherra hafi ,,átt“ eignarhaldsfélag á Seychelles eyjum sem eru um 1.300 km (c.a. 720 sjómílur) undan ströndum Sómalíu, þ.e. undan ströndum Afríku. Einnig segjast menn hafa ,,gögn“ um tilurð ,,félags innanríkisráðherra“ á Bresku Jómfrúareyjum sem eru um 1.000 km (c.a. 558 sjómílur) frá fyrirmyndaríki vinstri manna, þ.e. Kúbu. Allt virðist hafa verið svo um hnútana búið að Landsbankinn hafi stofnað þessi félög í ,,umboði“ framangreindra aðila.

Telja má fullvíst að heiðvirðir íhaldsmenn og konur í húð og hár hefðu aldrei getað treyst sér að eiga eignir svo nálægt þessum ríkjum pírata við Afríkustrendur eða kommaelítu Castro á Kúbu. Það stenst bara ekki skoðun nema um e.k. þvingað úrræði hafi verið um að ræða.

Tapað

Þekkt er öllum að Landsbankinn hafi á sínum tíma tekið fjármuni af reikningum fjölda einstaklinga og keypt fyrir þá skuldabréf í bankum án heimildar. Pistlahöfundur hefur heyrt slíka sögu frjá fjölda fólks sem hefur leitað ráðgjafar hjá honum og kallað jafnvel eftir aðstoð. Eftir situr að flestir þessara einstaklinga áttu reikninga í Landsbankanum í Lúx eins og hann var kallaður í daglegu tali. Flækjustigið við að nýta rétt sinn innan þessa litla vinaríkis Íslands er með ólíkindum. Fyrir liggur að fjöldi fólks hefur tapað umtalsverðum fjármunum eftir að Landsbankinn hafi í ,,umboði“ viðkomandi tekið fjármuni út af reikningi þeirra. Bankinn keypt ónýt bréf fyrir þessa fjármuni sem síðan hurfu til ,,money heaven“ eins og einn ágætur frumkvöðull kom svo vel að orði eftir hrun.

Svo virðist vera, þó óstaðfest sé, að þegar Landsbankinn og eftir atvikum Landsbankinn í Lúx, hafi haft svo vítt umboð að þeir hefðu getað nánast því gert hvað sem er í nafni umbjóðanda síns, jafnvel tekið fjármuni af reikningi viðkomandi og ráðstafað því eftir be-hag. Flestir sem þarna glötuðu fé  og ævisparnaði sínum segja að slíkt umboð hafi aldrei verið veitt og því hafi verið um þjófnað að ræða. Allt bendir til að svo hafi verið.

Þetta er allt tapað fé, horfið úr efnahagsreikningi viðkomandi einstaklings og mun aldrei koma inn í íslenskt hagkerfi. Þetta er allt tapað fé og svo virðist, til að bæta gráu ofan á svart, að vinstri menn hafi ætlað í kjölfarið að nýta sér ,,samningsstöðu“ fyrstu vinstri stjórnarinnar á Íslandi til að auka á skuldir almennings. Þar kom til Icesave Svavarssamningurinn sem er sönnun þess ásetnings vinstri manna á Íslandi.

Svo má ekki gleyma því þegar rætt er um tap að sökum skelfilegrar framgöngu fyrstu vinstri stjórnarinnar á Íslandi hafa vinstri menn tapað miklu fylgi. Líkur eru einnig á að einhverjir þeirra hafi að auki glatað glórunni.

Fundið

Nú hafa fréttahaukar RÚV og aðilar í einkarekstri sem RÚV verslar við sem verktaka í fréttamennsku fundið eitthvað sem þeir telja mjög svo merkilegt. Þeir telja sig hafa fundið höggstað. Þá eru venslamenn og vinir á RÚV kallaðir út af vaktinni og láta ríkistarfsmenn þá halda kvöldmatnum heitum, rétt eins og Landsbjargarmenn í útkalli, á meðan unnið er við að bjarga fréttinni úr prísundinni. Segja má að vopn þessara vinsamlegu vinstri manna séu í ætt við atgeir Þorgeirs Hávarssonar en það gat oft tekið tímann sinn að höggva mann og annan í Gerplu þó svo að höggstaður hafi fundist.

Svo virðist sem Landsbankinn, þ.e. sá gamli, og eftir atvikum Landsbankinn í Lúx hafi ekki aðeins ráðstafað fjármunum fólks í óleyfi heldur virðist sem þeir hafi stofnað félög í gríð og erg út um allar trissur. Þetta virðist Landsbankinn í Lúx, þ.e. í ,,umboði“ fólks, hafa gert án vitundar viðkomandi aðila sem unnið var fyrir rétt eins og þeir gerðu þegar fjármunir fólks voru notaðir til kaupa á handónýtum skuldabréfum. Má því fullyrða að væntanlega hefðu þessir starfsmenn bankans hafa haft álíka vel grundvallaðar heimildir eins og þegar keypt voru handónýt bréf án leyfis eigenda fjársins.

Nú hafa vinstri menn úr að moða máli sem er sjálfdautt og óbrúkhæft í umræðunni enda fyrir löngu búið að fara yfir þetta í fremur illa unninni skýrslu rannsóknarnefndar þar sem stiklað var á stóru. Þetta eru því endurunnin gögn um aflandsfélög sem þýskir eftirlaunaþegar nota til að selja enn verr upplýstari stofnunum á Íslandi eins og RÚV.

__

Hér er ekkert nýtt á ferðinni. Þetta var vel þekkt fyrirbæri varðandi aflandsfélög og það er ekkert nýtt undir sólinni. Jafnvel er vitað að einhverjir lífeyrissjóðir hafi fjárfest í svona strúktúrum og var enginn maður með mönnum á þessum tíma nema að hafa skroppið til Dubai. Sjálfur fór pistlahöfundur þangað á vegum hins gamla Landsbanka en í umboði fjárfestis. Ekki þótti pistlahöfundi mikið til koma enda um n.k. gerviveröld að ræða sem er vissulega áhugavert að sjá. Þannig voru árin fyrir hrun og við höfum öll vonandi lært eitthvað af því, ekki satt?

Eftir stendur að eftir hrun vildu fjölmargir þingmenn, sem vissu betur og áttu að semja betur, fórna Íslenskum hagsmunum með því að setja hundruð milljarða skuldaklafa á íslensku þjóðina í svokölluðum ICEAVE Svavarssamningunum. Ef það hefði gerst hefði Ísland sjálfsagt orðið á Seychelles eyjum norðursins nú eða að Breskum Jómfrúareyjum undir stjórn Gordown Brown. Þar hefðu vinstri menn sjálfsagt aldrei komist til valda.

Svo varð ekki. Þökk sé núverandi stjórnarflokkum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur