Þriðjudagur 05.04.2016 - 14:12 - Lokað fyrir ummæli

Leikslok

Í dag lauk í raun og sann ferli ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og ekki aftur snúið.

Það að birta innihald fundar með forseta Íslands fyrirfram var ekki skynsamlegt af forsætisráðherra. Það að telja að þingrofið væri alfarið í höndum forsætisráðherra er ekki rétt þó svo að venjan hafi verið með þessum hætti. Þarna hefur orðið viðamikil breyting á eftir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands sagðist ekki veita þessa þingrofsheimild.

Varðandi RÚV og feril málsins frá Kastljóssþætti sunnudagsins er ljóst að RÚV hefur séð til þess eitt og sér að koma þessari ríkisstjórn frá. Ekki má gleyma þeim mótmælendum sem mættu á Austurvöll í gær.

Fjórða valdið hefur hér haft gríðarleg áhrif á stjórn landsins og ábyrgðin er mikil sem þessu valdi fylgir. Þrátt fyrir að öll gögn liggi ekki fyrir í þessum Panamamálum er greinilega hægt með ítarlegum fréttaflutningi og gnægð upplýsinga að koma ríkisstjórn smáríkis frá. Það vekur athygli og það vakna spurningar um hvert þetta leiðir okkur komi í ljós að menn séu alfarir saklausir.

Hins vegar hefur e.k. trúnaðarbrestur átt sér stað en trúnaður og traust er það sem mestu máli skiptir í stjórnmálum. Til að öðlast trúnað og traust verða menn að gæta að því að allt sé uppi á borðum og tryggt að almenningur viti hið rétta í málum og geti treyst því að þau gögn og þær upplýsingar sem eru til staðar séu bæði réttar og tæmandi.

Nú þarf að hafa hraðar hendur og koma stjórn á í landinu þar til kosningar verða haldnar.

Enn og aftur hefur Ólafur Ragnar Grímsson sannað gildi embættis forseta Íslands í stjórnskipun landsins og mikilvægi þess að þar sitji skynsamur einstaklingur með víðtæka þekkingu og óbilað traust.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur