Þriðjudagur 05.04.2016 - 08:02 - Lokað fyrir ummæli

2-0 fyrir RÚV

Tíminn í pólitík er mikilvægur rétt eins og í viðskiptum. Um eða yfir 22 þúsund manns mættu á Austurvöll í gær til að mótmæla eða rétt um 9,25% þeirra sem voru skráðir á kjörskrá fyrir síðustu Alþingiskosningar en um 11,35% þeirra er mættu á kjörstað og kusu. Þetta er hátt hlutfall, mjög hátt. Þá er ekki talinn með sá mannfjöldi sem mætti til að mótmæla á Akureyri.

Ef vika er langur tími í pólitík telur hver dagur sem líður á ögurstundum eins og þeim sem nú eru augljóslega á Íslandi. Þetta er fremur einfalt. Allir sem Kastljós fjallaði um varðandi svokölluð Panamaskjól verða og eiga að birta öll gögn opinberlega og það strax. Því miður er staðan þannig að einhverjar pælingar um að bíða, ráða ráðum sínum eða vona að almenningur gleymi þessu eru ekki lengur hugsanlegar. Íslendingar eru meðvitaðri um stöðu sína og samtakamátt en nokkru sinni fyrr.

Það er einnig mikilvægt að ráðamenn, hverjir sem þeir eru og úr hvaða flokki sem er, verða að koma hreint fram. Þeir sem nú stjórna landinu verða að gera það strax, hnökralaust og með skipulögðum hætti sem getur aukið á trúverðugleika þeirra. Það liggja ekki öll gögn í málunum fyrir sem RÚV fjallaði um í sunnudagsþætti Kastljóss í upphafi vikunnar. Þau gögn, hvort heldur sem þau séu með einum eða öðrum hætti í eigu venslamanna eða annarra, verða að koma fram. Þeir sem leitast eftir að sýna stjórnvöldum á Íslandi skilning og sýna forystumönnum stjórnarflokkanna þolinmæði geta ekki haldið úti lengi. Það er orðið erfitt stuðningsmönnum núverandi stjórnvalda að verja stöðuna sem komin er upp óháð því hvaða skoðanir menn hafa uppi um trygglyndi manna og traust.

Ef svo ber undir að RÚV og verktakar RÚV hafi farið með rangt mál er mikilvægt að það komi fram að svo sé. Hitt er svo annað að ef um hálfkveðna vísu sé að ræða, þ.e. að RÚV hafi komið aðeins fram með ófríða beinagrind að málunum, þarf að botna hana og klára málið af myndarskap.

Verði það raunin að málið sé óljóst, illa fram sett og eykur ekki á trúnað fólks í landinu virðist eina leiðin að sýna auðmýkt, rjúfa þing og boða til kosninga. Til lengri tíma litið getur það verið það sem eykur á traust í samfélaginu. Þó svo að Píratar kunni hér að taka völdin eða aðrir eru þetta þegnar í okkar landi sem kjósa og eiga sinn lýðræðislega rétt til að skipta um stjórn í landinu fáist meirihluti á Alþingi til þess arna. Það má svo deila um pólitík en reikna má með að þjóðin muni sýna nýjum stjórnarherrum og frúm sama aðhald og af sömu festu og nú virðist vera gert. Slíkt eykur á lýðræðislega vitund, byggir upp traust og aðhald til framtíðar, aðhald af öðrum toga en áður. Það kallast þróun.

Menn og konur kunna að vera saklausir af gjörðum sínum en einstaklingshagsmunir stjórnmálamanna vega minna en hagsmunir sem felast í því að skapa traust og trúnað á Íslandi og á meðal íslensku þjóðarinnar til lengri tíma. Færu þessir hagsmunir saman nú á næstunni yrði það besta lausnin en þannig þarf ekki endilega að vera. Það verður að koma í ljós með tíð og tíma.

Hitt stendur þó eftir og er ósvarað hví stendur á því að gengdarlausar árásir síðustu mánaða á forsætisráðherra lítillar þjóðar endaði með þessu útspili RÚV. Það er verðugt rannsóknarefni enda er þessi maður búinn að leysa þjóð sína úr fjárhagslegum fjötrum með slíkum glæsibrag sem ekki þekkist á öðru byggðu bóli í heiminum.

Því skiptir miklu hvaða ákvarðanir eru teknar í dag.

Fyrri hluti síðari hálfleiks er liðinn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur