Mánudagur 04.04.2016 - 00:30 - Lokað fyrir ummæli

1-0 fyrir RÚV

Eftir Kastljós kvöldsins hafa gögn komið í ljós sem dreift hefur verið víða. Ekki hefur sarpurinn verið tæmdur. Gögnin virðast áreiðanleg en engu að síður á eftir að fylla talsvert í gögnin. Það vantar því talsvert kjöt á beinin.

Ekki hafa lögbrotin í þessu Wintris máli komið í ljós og svo virðist sem forsætisráðherra Íslands haldi sjó hvað yfirlýsingar hans varðar. Það er samfella í yfirlýsingum hans frá upphafi og eru þær í fullu samræmi við það sem fram kom í umdeildu viðtali við erlenda blaðamanninn Sven Bergmann.

Eftir stendur aðförin að ráðherra út frá siðferði fjölmiðlamanna, þ.e. að tæla menn í gildru sem var greinilega ætlunarverk verktaka RÚV. Allir viðmælendur í þættinum eru þekktir vinstrimenn og miklir ,,skattavinir“ ef svo má að orði komast. Eftir stendur að forsætisráðherra hafi gefið upp í skattskilum sínum það sem gefa bar upp. Hann hefði sjálfsagt átt að tilgreina þessi tengsl en hvaða skyldur hafði hann? Það á eftir að kryfja betur.

Umfjöllunin og samanburður á manninum Sigmundi Davíð við afar vafasama einstaklinga og/eða trilljónamæringa er augljóslega gert með því augarmiði að sverta nafn forsætisráðherra Íslands eins mikið og kostur var. Þarna var ráðherra íslensku þjóðarinnar litaður, hengdur upp á þráð og það viljandi.

Einnig stendur eftir að ekkert nýtt bættist við að ráði í þessum Kastljóssþætti frá því sem þegar hafði komið fram fyrir þáttinn nema hugsanlega drungaleg kvikmyndatónlist sem um glæpaþátt hafi verið að ræða.

Varðandi heilindi ráðherranna allra, sem fram komu í þættinum, samþykktu þeir og greiddu götu svo að kaupin á skattaskjólsgögnum til handa Skattrannsóknarstjóra gengu eftir. Það lýsir vilja til að hafa allt uppá borðinu og lýsir heilindum í garð þjóðar sinnar. Réttast hefði verið að geta þessara upplýsinga fyrr en er það lögbrot að hafa ekki gert það með þeim hætti sem verktaki RÚV og viðmælendur hans virðast telja vera ,,best practice“?

Sven Bergmann tekur viðtal við forsætisráðherra sem endaði illa og minnti mig á óneitanlega á viðtalið við Guðna Ágústsson sem Sverrir Stormsker tók við hann á sínum tíma á Útvarpi Sögu ef pistlahöfundur man rétt. Guðni gekk út úr stúdíóinu eftir að Sverrir hafi ítrekað spurt hvort Guðni væri ekki bara trúður. Guðni nennti bara ekki að taka þátt í svona. Sven Bergmann gekk nærri ráðherra með festu og það að forsætisráðherra Íslands hafi gengið út úr viðtalinu er skiljanlegt í ljósi þess að honum fannst að komið hafi verið aftan að sér.

Svo virðist sem blaðamennska á Íslandi sé að breytast talsvert. Hvort það sé til góðs eða ills skal ósagt látið en eftir stendur að staðan er 1-0 fyrir RÚV eftir Kastljóssþátt kvöldsins út frá pólitískri stöðu málsins.

Að svo komnu máli virðist ekkert í þessu sem krefst afsagnar ráðherranna enda virðast lögbrot ekki hafa verið framin. Þessi mál virðast ekki í anda þess lögbrots sem fyrrverandi forsætisráðherra síðustu vinstri stjórnarinnar á Íslandi var uppvís að. Þar var um að ræða brot á jafnréttislögum sem hún sjálf mælti með, lagði fram og samþykkti á hinu háa Alþingi. Óteljandi önnur mál má nefna frá fyrri ríkisstjórn en það bætir ekki böl að benda á annan. Hins vegar virðist sem þessir ráðherrar allir hafi staðið betur vörð um hagsmuni Íslendinga en ríkisstjórnir síðustu ára.

Hinkrum og sjáum til hvernig fer í síðari hálfleik.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur