Eftir að hafa ritað talsvert um leka frá Panama, mótmæli við Austurvöll, stjórnmál á Íslandi og kosningar stendur eftir eitt. Það sem stendur eitt eftir er að rita um það hvort það sé eðlilegt og forsvaranlegt að eiga og geyma fjármuni í skattaskjólum.
Frjálst flæði fjármagns og samneyslan
Það verður að gæta að því að fjármagn geti flætt á milli landa og heimsálfa. Það verður einnig að gæta að því að þeir sem stunda slíka iðju tryggi að skattar séu greiddir af fjármunum í heimalandi sínu og að gjöld séu greidd sem eiga þar að greiðast til samneyslunnar.
Umfjöllun fjölmiðla
Eftir að hafa hlýtt og horft á YouTube útgáfu ABC Australia sem og þætti um sama efni á RÚV er ljóst að valdhafar, fjármálafólk og fyrirtæki geta skapað gríðarlegt ójafnvægi bæði í fjármálum heims og gagnvart lýðræðislega kjörnum einstaklingum með athæfi sínu af þessum toga, þ.e. að fara á skjön við lög og reglur. Siðferðið spilar þarna einnig stóran þátt þar sem í grunnin verður að líta til þess að einstaklingum og fulltrúum fyrirtækja er farið að finnast þetta í stakasta lagi. Það er það ekki.
Skert samkeppnisstaða bæði fólks og fyrirtækja
Ef fólk gefur upp alla fjármuni í sínu heimalandi og tryggir að öll gögn séu uppi á borðunum varðandi þessa fjármuni er ljóst að viðkomandi er að fara að lögum. Birting slíkum gögnum getur myndað tækifæri á því að kjósendur sem og samkeppnisaðilar á markaði, þ.e. varðandi fyrirtæki, geti fengið innsýn í hvort viðkomandi sé að spila heiðarlegan bolta eða ekki.
Slík birting ætti að vera valkvæð þeim sem málið varðar en upplýsingar um að viðkomandi eigi reikning á lágskattasvæði skal vera opinbert. Sé viðkomandi stjórnmálamaður, fyrirtæki eða sjóður í viðskiptum við hið opinbera skulu gögnin vera gerð opinber og samið um slíkt. Því er samkeppnisaðstaða frambjóðenda og fyrirtækja ekki hin sama ef menn geta spilað með aðrar reglur sér að baki en mótherjinn sem enga hugmynd hefur um hvort viðkomandi sé sá sem hann segist vera. Það er ósanngjarnt með öllu en gæta ber að persónuvernd í alla staði og gæta að frelsi einstaklingsins og huga að mikilvægi frjálsra viðskipta.
Löggjöf
Það verður að setja löggjöf og/eða breyta löggjöf á Íslandi til þess að tryggja að skattayfirvöld fái aðgang að þessum skjölum varðandi Ísland. Þau hafa lögin en hafa ekki gögnin og það þarf að tryggja betur svo gögnin fáist afhent. Það þarf að meta hvort að opin rannsókn fari fram og að allir sem málið varðar verði gert að gefa upp og afhenda gögn sem máli skipta.
Sjálfstæðisflokkurinn og hlutverk hans
Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur alla stétta og það skal hann áfram vera. Með því að ganga fremstur í flokki varðandi þessi mál stendur hann undir nafni. Það að tryggja ekki framangreint er sóun á verðmætum í þróun fyrirtækja og hæfileikum fólks sem telur sig spila heiðarlega en fær ekki framgang vegna óheiðarleika hver sem hann svo kann að vera, dulinn eða ekki. Sjálfstæðisflokkurinn á ekki og má ekki þola óheiðarleika og skiptir litlu hvort það sé í knattspyrnu, fjármálum eða stjórnmálum.
Ekki er séð að núverandi forysta flokksins hafi gert nokkuð annað en að sýna af sér heiðarleika og farið að lögum. Það þarf samt sem áður að birta öll gögn og fara yfir málin í heild sinni og tryggja gagnsæi. Það er óverjandi að nöfn forystumanna Sjálfstæðisflokksins hafi birst í þessum gögnum og með þeim hætti sem raunin varð. Þetta átti að hafa legið fyrir. Úr slíku verður að bæta til framtíðar.
Fólkið í flokknum – Trúnaður og traust
Við sem styðjum Sjálfstæðisflokkinn verðum að vera opin og vera í forsvari fyrir því að flokkurinn tryggi sig enn frekari í sessi í framvarðarsveit þeirra sem vilja treysta á lýðræðið, frelsið og stuðla að enn frekari framförum á Íslandi. Notum tækifærið og opnum flokkinn frekar, tryggjum trúnað og traust.
Fyrr náum við ekki vopnum okkar sem lýðræðislega þroskaður flokkur fyrir lýðræðislega þroskaða þjóð.
Annað er óverjanlegt.