Mánudagur 11.04.2016 - 08:26 - Lokað fyrir ummæli

Mestu skattsvik sögunnar

Mestu skattsvik sögunnar áttu sér stað í tíð síðustu ríkisstjórnar vinstri manna, ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Ekki hefur RÚV séð ástæðu til að fjalla um það í Kastljósi sínu.

Þáverandi fjármálaráðherra og aðrir ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar ásamt aðstoðarmönnum þeirra bjuggu til eigið fé í bönkum dagsins í dag með því að hirða fé af skattgreiðendum með ,,hækkun í hafi“ um allt Ísland og jafnvel á erlendri grundu. Margir drukknuðu í þessu syndaflóði vinstri aflanna í landinu en öðrum var bjargað og voru ,,þeir útvöldu“.

Sala fyrirtækja og skipulagt skattaundanskot

Þeir sem að stærsta undanskotinu stóðu seldu fyrirtæki, eftir ormahreinsun, til sömu aðila og áttu þau fyrir hrun. Félögin voru oft seld á háum verðum, utan frjáls markaðar og í stað þess að fella niður lánin sem var eðlilegasti framgangsmátinn m.v. hrun á mörkuðum. Það var ekki gert því annars hefðu fyrirtækin þurft að taka slíkar ,,tekjur“ í gegnum rekstrarreikning félaganna og greiða skatt til samneyslunnar af þessari niðurfellingu áður en leiðréttingin næði inn á efnahagsreikning þessara ,,úrvalsfyrirtækja“. Gerir almenningur sér grein fyrir þessu og hve miklir fjármunir voru þarna í húfi?

Þetta verklag var væntanlega stundað og stjórnað af fjármálaráðherra og formanni VG, núverandi þingmanni VG með stuðningi núverandi formanns VG. Þetta var unnið af núverandi formanni Samfylkingarinnar sem og þeim fyrrverandi í tíð ríkisstjórnar þess hins sama, þ.e. Jóhönnu Sigurðardóttur. Þetta er allt falið í gögnum sem hafa ekki verið birt fyrir almenningi á Íslandi.

Allt tal um afslandseyjar í dag eru hjóm eitt þegar kemur að uppgjöri á okkar eigin aflandseyju, þ.e. Íslandi.

Hverjir voru þessi Pony og Pegasus?

Pony og Pegasus voru flokkar félaga sem hirt voru frá venjulegu fólki og fjárfestum og sumir misstu allt en aðrir fengu allt og jafnvel gott betur. Margir ráðgjafar úr bönkunum, sem unnu að því að ,,aðstoða“ eigendur þessara félaga, hirtu félögin jafnvel sjálfir vitandi vel um fléttuna, aðförina og skepnuskapinn. Fjölmargir fengu skattaniðurfellingu samhliða ormahreinsun í formi n.k. skuldaþvættis á aflandseyjunni Íslandi. Allt var þetta í boði fyrstu vinstri stjórnarinnar á Íslandi. Gæfulegt?

Í Pony flokkinn féllu félög með veltu undir 1 milljarði, hin fóru í Pegasusflokkinn. Svo var valið úr hvert þessara félaga fengu að lifa af og eftir atvikum valdir eigendur sem fengu einnig að lifa af, nú eða ,,deyja“. Fjölmargir tóku jafnvel eigið líf eftir þetta í orðsins fyllstu merkingu.

Félög voru ekki seld á frjálsum markaði, sbr. Borgun á dögunum, heldur unnið með fyrrverandi eigendum til að fela skipulagða skattasniðgöngu. Bankinn skóf af skuldir og afhenti eignir og fyrirtæki sömu einstaklingum og höfðu áður vélað með sömu bankamönnum að gíra sig upp í topp fyrir hrun.

Hví var þetta ekki skattlagt? Varð hér á landi til skattaskjól fyrir útvalda í boði VG og Samfylkingarinnar? Hvers vegna má ekki gera skjöl vegna þess arna opinber?

Skilningsleysið er algjört

Verst er þegar landinn virðist ekki skilja þetta. Þá fýkur í flest skjól.

Fámennur hópur rýkur niður á Austurvöll og mótmælir þeim sem hafa staðið sig best fyrir Ísland. Vissulega á að taka slíkt alvarlega. En verðum við ekki að hafa það fyrir satt sem sannara reynist í aðförinni að almenningi í landinu? Eru vinstri menn að blekkja okkur eina ferðina enn?

Skuldaniðurfelling á verðtryggðum lánum fór í gegnum efnahagsreikning þinn í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs. Hvers vegna fékkstu ekki vaxtabætur á sama ári þar sem tekið var tillit til leiðréttingarinnar? Var það ekki vegna þess að þú fékkst það mikið niðurfellt að það myndaði tekjur? Einhverjir þurftu jafnvel að greiða skatta af leiðréttingunni. Allt var þetta framkvæmt lögum samkvæmt. Hvers vegna átti hið sama ekki við um Pony og Pegasus, útvalin fyrirtæki, úrval manna og kvenna í okkar samfélagi í tíð fyrstu vinstri stjórnarinnar á Íslandi? Hvers vegna !?

Allt tal um aflandseyjar og um siðferði er hjóm eitt þegar siðapostular háskólasamfélagsins eru meðvirkir með vinstri mönnum á Íslandi. Þeir gleyma öllu framangreindu, þeir vilja sleppa að segja söguna eins og hún var og gera almenningi grein fyrir að hann bjó á aflandseyju og býr þar enn á meðan VG og Samfylkingin er ofar fjörs á línu.

Siðapostularnir hafa hingað til verið margir tilbúnir að stökkva á vinsældarvagninn og hafa álíka mikið vit á fjármálum og nef þeirra nær. Þar er einmitt þar sem siðgæði þeirra stoppar, þ.e. við nefbroddinn.

Legið vel og lengi

Það að fréttamenn og verktaktakar RÚV hafi þurft að liggja óralengi yfir þessum Panamagögnum, þ.e. í allt að 10 mánuði, vekur sérstaka undrun. Venjulega nægði nokkuð skynsömum einstaklingi að lesa þetta yfir helgi og sjá að þarna væri um að ræða nokkuð þekkt fyrirbæri og þjónusta sem var auglýst í boði hér á landi um árabil. Þetta var og er þekkt þjónusta í fjármálaheiminum og í flestum tilvikum ekkert við hana að athuga gefi menn þetta allt upp til skatts.

Eru menn að segja að menn hefðu ekki þekkt til Panama?

Sem dæmi auglýsti banki slíka þjónustu sem núverandi formaður Samfylkingarinnar sat í stjórn hjá á sínum tíma. Þá var fjör og þá var gaman en nú safna menn bara skeggi og eru úfnir. Allt er þetta gert til að líta út eins og forseti ASÍ, skapa ímynd byltingarmannsins og baráttumanns almúgans. Selur það virkilega?

Skipulögð aðför að Sigmundi Davíð

Þrátt fyrir að Sigmundur Davíð hefði betur gert gögn sín opinber vekur athygli aðförin að honum og hans persónu. Hún var vel skipulögð. Hvers vegna tók hún svo langan tíma?

Hugsanlegt var að það yrði að undirbúa þjóðina með því að tala niðrandi um forsætisráðherra um nokkurt skeið, efna til andstöðu við hann og ræta hann hressilega fyrir þetta skúbb. Allt þetta var gert til að þóknast valdhöfum vinstri aflanna í landinu. Stór hluti almennings á Íslandi er síðan þvældur fram og til baka og gerður alveg snar ruglaður.  Þá var lagt til atlögu enda lá hann vel við höggi. Það var búið að stilla honum upp eins ógeðfellt og það kann að hljóma.

Á sama tíma virðast engar kröfur hafðar uppi um birtingu gagna um skepnuskapinn og undanskotin sem áttu sér hér stað rétt eftir hrun í tíð síðustu vinstri stjórnar Íslands.

Að eiga reikninga í Lúx eða á Panama var norm – Dulda byltingin

Að eiga reikninga í Lúxemburg virðist ekkert mál. Að eiga þar félög sem fléttast inná Panamastrendur er afar þekkt fyrirbæri og hefur verið það um langa hríð. Íslendingum sem og lögaðilum ber að gefa þetta upp og má reikna með að flestir hafa gert það. Hvað er þá málið?

Sem dæmi er til eyðublað hjá RSK sem fylla má út vegna þess arna.

Hver veit nema að þeir aðilar, sem stóðu að Panamalekanum, hafi undanfarið rakað að sér fé þegar skuldabréfaálag hækkaði vegna lekans? Voru gögnin seld? Voru þessi gögn notuð til kúgunar? Var eytt út nöfnum fyrir velunnara? Vilja menn nú valda enn meiri usla til handa byltingaröflum í landinu?

Já, það eru enn til byltingaröfl, fólk sem vill beita aðra valdi til að komast til valda. Hví ekki að styðjast við stjórnarskránna eins og hún er? Hún hefur komið okkur til góða hingað til og mun koma okkur enn lengra án meiri háttar breytinga.

Kalt í stjórnarandstöðu – Hurfu skuldir Alþýðuflokks og Kvennalista?

Stjórnarandstöðunni er orðið skítkalt í stjórnarandstöðu eftir velgengni ríkisstjórnarinnar á undanförnum misserum en að undanskilinni síðustu viku. Það hlýnaði aðeins í hruninu þegar þessir núverandi stjórnarandstöðuflokkar, utan Pírata, unnu að stærsta skattaundanskoti sögunnar. Það er allt óuppgert, gögn þar óbirt, gögn sem eru í höndum okkar sjálfra hér á Íslandi. Hvers vegna ekki að birta þau og gera það löglega?

Má ætla að gamli Alþýðuflokkurinn og Kvennalistinn hafi fengið ansi mikið niðurfellt en hvernig hurfu þessar skuldir flokka sem voru með allt í ,,skrúfunni“ fyrir hrun? Svo virðist sem enginn hafi lengur áhyggjur af þessum skuldum.

Á sama tíma og á þessu stóð hækkaði allt í landinu, engin leiðrétting á verðlagi fyrr en skuldaleiðrétting ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs kom til og almenningur látinn borga og borga í gegnum lán sín og eignir sem hirtar voru síðan af fólki og fyrirtækjum á þessum tíma. Þetta kallast að ,,blóðmjólka almenning“. Eignir voru hirtar á nauðungarsölum og menn hreinlega skildu ekki hvers vegna heimilt var að bregða fæti fyrir suma en ekki aðra.

Pistlahöfundur gekk eftir þingmönnum VG og Samfylkingarinnar, eftir að hafa ritað skýrslu um nauðungarsölur, en þeir vildu ekkert gera með ,,fullnægjandi“ lagabreytingar þegar lög um nauðungarsölu voru endurskoðuð í tíð vinstri stjórnarinnar. Frumvarp að breytingum fór í gegnum allsherjarnefnd Alþingis og inn til umræðu, þar í gegn og samþykkt sem lög frá hinu háa Alþingi án þess að taka tillit til hagsmuna fólksins í landinu, gæta að eðlilegu jafnvægi á milli gerðarbeiðenda og gerðarþola.

Skipulögð aðgerð vinstri manna á ískaldri ,,Tortólaeyju“ norður við Íshaf

Það myndast ekki þessi hagnaður í bönkum síðustu ára vegna hækkunar á seðilgjöldum til almennings. Það gerðist í með eignaupptöku og skattaundanskoti í formi þess að selja ,,kjötið“ í fyrirtækjum í ný félög og síðan afhenda þessi félög og eignir velunnurum með fléttu sem skapaði engar tekjur fyrir samneysluna.

Hvers vegna fór leiðrétting þessara lána ekki í gegnum rekstrarreikning hinna yfirteknu félaga og þar inn á efnahagsreikning þeirra? Hví var ekki hæstbjóðenda svo boðin þessi félög til kaups á markaði eftir að þau höfðu greitt sína skatta?

Ekki má svo gleyma tilrauninni til að hirða eignir af þeim sem tóku hin gengistryggðu erlendu lán. Það var reyndar gert hjá þeim sem voru vélaðir í e.k. skilmálabreytingar eftir ,,ráðgjöf“ þeirra sem og annað hvort hirtu þessar eignir sjálfir eða höfðu hag að því að véla til skilmálabreytinganna. Var það ekki glæpur út af fyrir sig sem engum hefur verið refsað fyrir? Ekki getur þetta talist til e.k. dugnaðar eða afrakstur áralangrar vinnu með ráðdeild og sparnað í huga. Þetta var eignaupptaka.

Hæstiréttur dæmdi lögum samkvæmt. Þá sluppu margir en ekki allir. Þetta var glæpur, pólitískur glæpur vinstri manna sem þeim ber að svara fyrir en hafa ekki verið látnir gera það því RÚV telur það ekki vera ,,frétt“ en í besta falli leggja þeir þar á bæ ekki skilning í svona ,,flókin“ mál.

Það er því of langsótt að sækja skattaskjólsgögn alla leið til Tortóla séu þau til hér beint fyrir framan nefið á fréttahaukum RÚV. Hvers vegna að sækja vatnið yfir lækinn?

Mestu skattsvikin áttu sér stað á aflandseyjunni Íslandi í tíð vinstri stjórnar

Það var einmitt hér á Íslandi sem mestu skattsvik Íslandssögunnar áttu sér stað. Þetta var og er mesta aðför sem farin hefur verið frá upphafi byggðar á Íslandi gegn hagsmunum almennings í landinu.

Þeir fjármunir sem þar hurfu frá einstaklingum, fyrirtækjum og skattgreiðendum voru gífurlega miklir og gögnin frá Tortóla blikna við hliðina á þessari skelfingu sem fáir virðast opna augun sín fyrir. Hvers vegna eru þessi gögn ekki gerð opinber? Er það vegna þess að það er gjörsamlega óverjanlegt hvaða pólitísku og efnahagslegu glæpaverk voru þar framin gagnvart Íslendingum?

Það er einmitt það sem vinstri stjórnin gerði sem er óverjanlegt með öllu og svik við almenning á Íslandi.

Opnið augun fyrir þessum staðreyndum kæru Íslendingar. Treystum núverandi stjórnvöldum sem hafa komið heil fram gagnvart almenningi, vilja bæta sig, eru tilbúin að fórna því sem fórna ber og koma nú á móts við fólkið í landinu með breytingu á ríkisstjórn Íslands.

Markmið vinstri manna er að láta landa sína deila en drottna sjálfir svo fela megi fortíðina, hylja slóðina.

Ég treysti núverandi ráðherrum og forystumönnum beggja flokka til að ganga í þetta verk og upplýsa þjóð sína um það sem tekið var frá henni í skjóli nætur. Samhliða því að birta gögn um Panama á að birta öll gögn varðandi uppgjör föllnu bankanna sem og önnur gögn sem máli skipta.

Fyrr er ekki von um að sárin grói hjá þessari þjóð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur