Atburðarás síðustu daga hefur verið hröð. Fjölmargir blaðamenn hafa fjallað um málefni líðandi stundar og sumir þurft að draga blokkina úr rassvasanum án mikils undirbúnings til að hripa niður fréttir sem vart eru ritrýndar. Hið sama má segja um stjórnmálamenn.
Þeir hafa ófáir á vinstri vængnum farið upp í pontu á hinu háa Alþingi, dregið systur sínar og bræður inn á filtteppið hjá ÍNN eða í leðursófasettið hjá RÚV án þess að vinna að greiningavinnu eða n.k. bakgrunnsathugun eins og gert er áður en starfsmönnum Leifstöðvar er hleypt inn til vinnu. Það virðist ekki veita af slíkri úttekt víðar á vinnustöðum eins og hjá RÚV og á hinu háa Alþingi.
Frumvarp til laga
Fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Katrín Júlíusdóttir, mælti fyrir frumvarpi í ráðherratíð sinni í mars 2013 til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda (skattlagnir á lágskattasvæðum og starfsmannaleigum). Á þessum tíma, ef pistlahöfundur man rétt, var helsti ráðgjafi ríkisstjórnarinnar Indriði H. Þorláksson skattasérfræðingur með meiru. Afrakstur þessara breytinga má meðal annars finna í höfuðstöðvum íslenskrar skattheimtu, þ.e. hjá Ríkisskattstjóra.
Áður en þetta fór í gegnum Alþingi í tíð síðustu vinstri stjórnarinnar á Íslandi fór þetta eðli máls samkvæmt í gegnum afgreiðslu efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Var formanni nefndarinnar gert að vera framsögumaður og flutti álit nefndarinnar. Þar segir m.a. í athugasemdum um frumvarpið:
Lagt er til að sérstaklega verði kveðið á um það í 5. mgr. ákvæðisins að tap sé eingöngu hægt að færa á móti hagnaði lögaðila á lágskattasvæði (CFC-félaga) sem eru í eigu íslenskra félaga eða einstaklinga. Hér er um að ræða áréttingu og ítarlegri skilgreiningu á reglu sem ákvæðið felur nú þegar í sér.
Framsögumaðurinn og formaður nefndarinnar, Helgi Hjörvar, nú þingflokksformaður Samfylkingarinnar, mælir hér með því að Íslendingar og íslenskir lögaðilar eins og fyrirtæki, opinber hlutafélög eins og Landsvirkjun og verktakafyrirtæki í múr- og timburverki á Íslandi geti stundað þessa iðju óhindrað um víða veröld. Sama má segja með blikkara, pípulagningarmeistara og aðra meistara víða um land.
Reyndar er ólíklegt, þrátt fyrir þessa löggjöf Samfylkingarinnar og VG, að sjálfstæðir smiðir og múrarar hafi tíma til að koma upp flókinni starfsemi á aflandssvæðum sér til handa. Það vill svo til að það mikið umleikis um þessar mundir hjá þessum frábæru atvinnurekendum sem og verktökum þeim tengdum. Þeir eru a.m.k. að vinna vinnuna sína.
Afgreiðsla nefndarinnar var með þeim hætti að hleypa málinu óbreyttu í gegn og við málinu tók Katrín Júlíusdóttir, núverandi þingmaður Samfylkingarinnar og baráttukona gegn ,,skattaskjólum“ eins og hún kallar þessa óáran í dag.
Aðrir sem unnu þetta innan efnahags- og viðskiptanefndar voru þau Magnús Orri Scram, núverandi formannsframbjóðandi í Samfylkingunni, Árni Þór Sigurðsson frá VG og núverandi sendiherra, Skúli Helgason núverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, Pétur H. Blöndal heitinn og Lilja Mósesdóttir. Þeir sem áttu sæti í nefndinni en voru fjárverandi afgreiðslu málsins voru þau Lilja Rafney Magnúsdóttir frá VG, sem betur hefði átt að mæta í ljósi yfirlýsingar hennar í liðinni viku, Eygló Harðardóttir og Guðlaugur Þór Þórðarsson.
Afgreiðsla málsins
Þann 11. mars 2013 mælti Katrín Júlíusdóttir fyrir þessu máli nr. 629 á 98. fundi 141. löggjafarþings Alþingis Íslendinga. Þar sagði þáverandi ráðherra m.a.:
Miðað var við að á þeim yrði tekið í þessu frumvarpi í þeim tilgangi að uppfylla skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum, en að mati ESA er í umræddum ákvæðum laganna gerður greinarmunur á grundvelli þjóðernis sem felur í sér mismunun sem er ekki í samræmi við grunnreglur EES-samningsins.
Hér gefur að líta að svo virðist sem fyrri löggjöf hafi farið í n.k. manngreiningarálit og ekki staðist ákvæði EES-samningsins að mati ESA. Því varð að koma fram breyting.
Svo segir ráðherran í ræðu sinni:
Lagt er til að sérstaklega verði kveðið á um að tap sé eingöngu hægt að færa á móti hagnaði lögaðila á lágskattasvæði, þ.e. CFC-félaga, sem eru í eigu íslenskra félaga eða einstaklinga. Hér er um að ræða áréttingu og ítarlegri skilgreiningu á reglu sem ákvæðið felur nú þegar í sér.
Þetta ákvæði þýðir að ef Íslendingur á í beinu eignarhaldi frá Íslandi félag á lágskattasvæði getur hann nýtt tap á rekstri á Íslandi gegn hagnaði á lágskattasvæðinu. Hér er ráðherran ekki aðeins að viðurkenna heimildir til að menn eigi félög á lágskattasvæðum heldur er ráðherran að mæla fyrir frumvarpi að lögum þar sem ákveðnu fyrirkomulagi er komið á varðandi skattinnheimtu. Með þessu fyrirkomulagi varð heimilt að færa tap í rekstri á Íslandi á móti hagnaði sem myndast hjá félagi á lágskattasvæði. Hvað þýðir þetta? Jú, þetta þýðir lækkun skatttekna fyrir ríkissjóð.
Ef vinstri stjórnin hefði verið samkvæm sjálfri sér hefði hún lagt til að hagnaður dótturfyrirtækja á aflandssvæðum, og eftir atvikum lágskattasvæðum, yrði skattlögð sér og óheimilt yrði að nýta skattalegt hagræði af tapi móðurfélags á Íslandi. Svo er það skattasnillinga að ráða í hvort þetta stæðist jafnræðissjónarmið og stuðlaði að því að gera Ísland samkeppnishæft á alþjóða mörkuðum.
Hér skal áréttað að pistlahöfundur er ekki á því að farin verði þessi leið sem hér er skotið inn. Slíkt myndi ekki styrkja samkeppnishæfni Íslands.
Samfylkingin bannar svarta lista yfir lágskattasvæði
Það er vel þekkt að skattaundanskot eru tíð á eyjum fjarri Íslandi. Það er reyndar einnig vel þekkt á Íslandi og ef einhver þykist ekki kannast við slíkt er sá hinn sami að segja ósatt. Þetta veit hvert mannsbarn sem hefur sinn feril með því að selja smávarning á tombólu eins yndislegt og það nú er.
Í ræðu þáverandi ráðherra kom eftirfarandi fram:
Lögð er til sú breyting að fella brott skyldu ráðherra til að birta lista yfir þau lönd og svæði sem skattlagning samkvæmt CFC-ákvæðinu tekur til. Svokallaður svartur listi yfir lágskattaríki getur hvorki talist bindandi né tæmandi þar sem endanlegt skatthlutfall þeirra félaga, sjóða eða stofnana sem hafa þar skattalegt heimilisfesti liggur ekki fyrir nema eftir nákvæma yfirferð skattyfirvalda. OECD hefur nú hætt útgáfu skilgreinds lista yfir lágskattaríki enda hafa öll ríki sem áður voru á slíkum lista skuldbundið sig til þess að veita upplýsingar um skattamál á grundvelli samninga.
Hér mælir ráðherra Samfylkingarinnar fyrir því að svartur listi yfir lágskattasvæði verði ekki lengur birtur almenningi. Hvers vegna má það vera að ráðherra Samfylkingarinnar geri slíkt? Dæmi hver fyrir sig.
Kostulega við þetta er og kaldhæðnislegt að í stóli forseta Alþingis, þegar Katrín Júlíusdóttir flutti framangreint frumvarp um frelsi til nýtingar lágskattasvæða á Íslandi, sat núverandi forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson. Hér má horfa og hlýða á innlegg hennar sem ráðherra.
Einn maður tók til máls utan framsögumanna
Umræðan var fremur lítilvæg um þetta mál á þessum tíma fyrir rúmum 3 árum.
Aðeins einn maður tók til máls utan framsögumannanna þeirra Helga Hjörvars og Katrínar Júlíusdóttur frá 1. umræðu til atkvæðagreiðslu eftir 3. umræðu. Það var Pétur Blöndal heitinn. Hann sagði:
Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um breytingu á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þetta frumvarp er til komið vegna athugasemda ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, annars vegar gagnvart fyrirtækjum sem falla undir lágskattasvæði og skattlagningu þeirra og hins vegar varðandi skyldur starfsmannaleigna, að jafngilt sé hvort það eru innlendir eða erlendir aðilar. Þetta eru atriði sem nefndin öll flytur, efnahags- og viðskiptanefnd, og ég á hlut að því og stend að þessu máli og greiði því atkvæði.
Pétur var ærlegur maður, heill og hreinskiptinn. Það þekkir hver Íslendingur. Hann samþykkti þetta frumvarp enda ekkert óeðlilegt við það né framgang þess og leiðbeiningar frá erlendum stofnunum sem Ísland er aðili að. Þetta er einnig í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland hefur undirgengist og ekkert óeðlilegt út frá hlið fjármála og hagstjórnar.
Nú hleypur hjörðin í eina áttina enn. Þau eru nú villuráfandi í því kuldakasti sem RÚV hefur náð að spá fyrir og skapa í senn. Veðurstofa Íslands nær ekki svo langt að geta afrekað þvílíkt og annað eins.
Á mannamáli er allt þetta framferði fulltrúa VG og Samfylkingar kallað hræsni og hræsni skal það kallað.
Atkvæðagreiðslan
Þeir sem greiddu þessu svo atkvæði má lesa úr þessum skammstöfunum sem fengnar eru að láni af vef Alþingis.
AtlG, ÁI, ÁPÁ, ÁÞS, ÁsbÓ, ÁRJ, BirgJ, BJJ, BjG, BjarnB, BVG, GuðbH, GÞÞ, GBS, HHj, IllG, JóhS, JBjarn, JRG, KJak, KaJúl, KÞJ, KLM, LMós, LGeir, MT, MÁ, OH, ÓGunn, PHB, REÁ, SII, SF, SJS, SSv, TÞH, UBK, VBj, ÖJ.
Aðrir voru ekki viðstaddir og geta því borið það fyrir sig hvort heldur sem þeir telji að það henta eða ekki.
Góða helgi !