Þriðjudagur 19.04.2016 - 10:39 - Lokað fyrir ummæli

Kvótakerfi Panamaauðlindarinnar

Þeir hjá Reykjavík Media virðast hinir nýju kvótagreifar Íslands. Þeir liggja á auðlind sem flestir ef ekki allir miðlar á Íslandi sækjast eftir. Flestir vilja veiða upp upplýsingar, sinna úrvinnslu afurðanna og koma þeim á markað. En þarna er aðeins einn kvótagreifi og ein vinnsla sem rekin er af ríkinu. Hverju sætir?

Aðgang fyrir alla

Það er margítrekað búið að kalla eftir því að Panamagögnin komi hið fyrsta fyrir sjónir almennings en hið opinbera hlutafélag RÚV situr eitt að þessari auðlind þessa dagana og aðrar vinnslur fá ekki aðgang. Þetta er viðkvæm afurð og þarf að tryggja að hún skemmist ekki, það þarf að hýsa hana vel og vanda úrvinnsluna.

Svo virðist sem hún sé einnig gjöful og úr henni má fá fjölmargar tegundir af mismunandi stofnstærðum. Hvers vegna er ekki gert ráð fyrir auðlindarákvæði í hinni ,,nýju stjórnarskrá“ varðandi þetta mikla hvalrek?

Á móti kvótakerfi en með því þegar þeir eiga í hlut

Það vekur sérstaka undrun að þeir sem standa að þessari útgerð hafa oftar en ekki talað gegn kvótakerfinu ásamt því sem aðilar innan útgerðardeildar RÚV og utan eru beinlínis hatrammir andstæðingar skynsamlegrar stjórnunar á auðlindum hafsins. Nú virðast fjölmargir vinstri menn öðlast nýja sýn á kvótakerfi.

Fjölmargir virðast nú sjá mikilvægi þess að halda í auðlindina sem rak að ströndum Íslands frá Panama þó hún sé í höndum fámennrar ,,klíku“, einnar ríkisrekinnar útgerðar sem fjármagnar þetta og verktaka á hennar vegum sem gengur undir nafninu ,,Reykjavík Media“.

Það virðist eiga að vinna úr henni smátt og smátt til að hámarka afraksturinn en þar sem hún skemmist hratt virðist ekki gætt að nýtingunni með því að hleypa öðrum að með hugsanlega fullkomnari vinnslulínur en ríkisrekið RÚV. Það er eins með fréttir, afurðir og fjármagn að ef of mikið af hvoru um sig er sett á markað í einu rýrnar verðið.

Þetta er lögmál sem stennst tímans tönn.

Léleg framganga í skjóli skattaskjóla

Nú er spurning hvort þessi Panamskjöl valdi allsherjar glundroða. Útspil forseta Íslands um að sækjast eftir endurkjöri er í þá átt að skapa einhverja ró á meðal almennings.

Svo virðist sem um sé að ræða skipulagða aðför að ríkjandi stjórnvöldum og því tekur Ólafur Ragnar Grímsson þessa ákvörðun. Markmiðið er að skapa úlfúð og ófrið með framsetningu þar sem almenningi eru sýnd fyrst aðeins ókræsileg sæskrímsli þessarar auðlindar í stað þess að finna eitthvað jákvætt eins og þorsk og ýsu sem eflaust er að finna.

Tryggingafélag Landvirkjunar á Bermuda, sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar og fyrrum ráðherra VG stofnuðu, er eitt gott dæmi um fremur nytsama tegund og meinlausa með öllu.

Eiturnöðrur

Það þekkja allir að það geta leynst eiturnöðrur í auðlindum, áhætta og ólgusjór. Líkur eru á að í Panamaskjölunum sé eitthvað slíkt. Á meðan fólki er ekki sýndur munurinn á því og afburðagóðu hráefni, sem vel má vera að sé í boði innan um hákarlana, er væntanlega markmiðið að sýna fram á aðeins viðbjóðinn, hættuna og ógn. Svo á að öllum líkindum að bera þetta allt saman við aðrar frábærar afurðir eins og þorsk, ýsu og karfa og segja; ,,…þetta er líka stórhættulegt og óætt!“

Þeir sem þekkja til líkingarsögu heimspekingsins Plató og lærisveins hans Sókretes um fólkið í hellinum skynja mjög vel leið RÚV að markmiði sínu. Það á að blekkja, skemma og taka völd með valdi, útursnúningi og væringum.

Upplýsum alla, opnum á gagnaflæðið handa Íslendingum. Lofum öðrum fjölmiðlum að vinna úr þessum gögnum og myndum heilbrigða samkeppni, ekki einokun RÚV.

Lokað fyrir auðlindina

Vandinn er sá að þegar þessir medía menn loka á gagnamagnið (c.a. 11 milljón skjöl) sitja þeir einir að efninu og dæla því inn á markaðinn eftir því sem þeim hentar. Þetta ber vott um e.k. ,,bíssnesvit“ að hætti vágesta er nýta skattaskjólin til annars en heiðarlegra viðskipta. Hér virðist um að ræða afskaplega takmarkaða samfélagslega ábyrgð gagnvart öðrum miðlum og Íslendingum öllum. Þetta er einokun.

Slík framganga hefur aldrei verið liðin í nýtingu annarra auðlinda á Íslandi sem er sameiginleg þjóðinni, þ.e. að einn aðili sitji að öllu. Á meðan nýtist auðlindin ekki öðrum sem hugsanlega gætu gert eitthvað meira úr þessu, betra, nytsamara og skapað nýliðun í stétt blaðamanna á Íslandi.

Nei, þeir ákveða að sitja einir að þessu öllu saman ásamt ríkisútgerðinni RÚV. Í sama mund og þeir gera slíkt agnúast þessir velunnarar vinstri aflanna á Íslandi út í kvótakerfið í sjávarútvegi. Siðferðið nær ekki lengra en upp að naflanum.

Eru gæðin tryggð sitji RÚV að öllum aflanum?

Ríkisforsjá í ríkisútgerð?

Einokun !

__

Frétt – Sumardaginn fyrsta 21. apríl 2016

RÚV flutti frétt á Rás 1 kl: 08:00 í morgun þess efnis að Kjarninn og Stundin hafi birt frétt í samstarfi við Reykjavík Media varðandi hýsingu á fjármunum og duldar eignir á eyjum út í heimi. Vísa þessir miðlar til þess að hugsanlega sé þar að finna fjármuni og eignir sem slitastjórn Glitnis hefur verið að leita að. Þetta kallar maður betrun og þroskamerki í fjölmiðlaheiminum þó svo að dómur verður ekki felldur um sekt eða sýknu. Ávallt væri betra að stjórnvöld tækju rannsókn að sér og niðurstaða fengist með dómum en helst samningum. Við verðum að gæta að réttarríkinu á Íslandi. Forðumst fordóma.

Með þessu virðist sem RÚV sé að huga að grasrótinni í fjölmiðlaflórunni á Íslandi en þar hefur verið valið úr hver fengi hvað frá Reykjavík Media og einnig hvenær. Svo virðist sem þessir aðilar hafi skilið sneiðina hér í pistlinum og hafa nú greinilega samþykkt frjálst framsal á kvóta eða komið undir sig leiguliðum.

Gleðilegt sumar 🙂

Flokkar: Heimspeki · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur