Síðustu ár hefur mikið verið rætt um stjórnarskránna. Einhverjir hafa fjallað um ,,nýju stjórnarskránna“ sem getur ekki annað en verið núgildandi stjórnarskrá með síðari breytingum en síðast var stjórnarskrá lýðveldisins breytt með lögum nr. 91/2013.
Gildandi stjórnarskrá er ,,nýja“ stjórnarskráin
Það að halda því fram að hin ,,nýja stjórnarskrá“ sé eitthvað plagg sem fáeinir einstaklingar skrifuðu upp eftir að hafa verið skipaðir af vinstri ríkisstjórn á Alþingi í kjölfar þess að Hæstiréttur, sem er sjálfstæður í störfum sínum sbr. V. kafla stjórnarskrárinnar, sagði flesta kjörna með röngum hætti í ólögmætum og illa undirbúnum kosningum til svokallaðs Stjórnlagaþings árið 2010.
Ekki er séð að þeir sem dróu upp þetta plagg hafi séð ástæðu til þess að fara að gildandi stjórnarskrá. Má draga þá ályktun að þeir hefðu að öllum líkindum ekki heldur farið að því skjali sem þeir hafa nú dregið upp sjálfir og básúna nú að sé ,,nýja“ stjórnarskráin. Óvíst má þykja að menn gætu staðist freistinguna á að brjóta efnistök í eigin skjali væru hagsmunir þeirra í húfi sbr. brotið sem var framið opinberlega. Þetta var brot á stjórnarskrá sem þjóðþingið samþykkti lögum samkvæmt á tveimur þingum eftir kosningar þar á milli.
Stjórnarskrárbrot sem fáir hafa fjallað um
Þar sem menn sáu hve auðsótt væri, þ.e. væru menn við völd, að brjóta stjórnarskrá Íslands var gengið lengra í því efni. Í 1. mgr. 65. gr. VII. kafla stjórnarskrárinnar segir:
Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Í 1. mgr. 72. gr. í sama kafla stjórnarskrárinnar segir:
Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
Þessar setningar getur hvert mannsbarn skilið. Skiptir litlu hvaða lagabálkar eru búnir til sem heyra undir stjórnarskránna og þessi ákvæði. Stjórnarskráin er rétthærri öðrum lögum. Öll önnur lög, sem gera það að verkum eða leitast við að þynna út framangreind ákvæði, eru til þess gerð að koma eignum eða óbeinum eignaréttindum frá einum til annars eða auka rétt ríkis og sveitarfélaga til inngripa. Það að fara á skjön við þessi ákvæði stjórnarskrárinnar er vandasamt og er einnig ákveðin ógn við réttarríkið, frelsið okkar, þjóðina og framtíð okkar allra.
Hvers vegna voru eignir teknar af fólki án laga og aðeins einstakir aðilar látnir fá sínar eignir aftur en aðrir voru ,,teknir af lífi“ á árunum 2008 til 2013?
Nýskipaður utanríkisráðherra kom fram nýlega og tjáði almenningi að efnahagslífið væri sterkt, eiginfjárstaða bankakerfisins til fyrirmyndar og framtíðin væri björt. Þetta má til sannsvegar færa. En á hvaða grunni byggist þetta? Jú, þetta byggist m.a. á eignaupptöku á framangreindu tímabili.
Hvers vegna bregst enginn við?
Í skýrslu sem pistlahöfundur vann varðandi nauðungarsölur á Íslandi var komið að umfjöllun um að 57. grein nauðungarsölulaga nr. 90/1991. Þar kom fram að þessi grein er ekki að virka sem vörn fyrir gerðarþola. Hún segir í stuttu máli að úrræði gerðarþola, þ.e. til að leita réttar síns hvort eignin hafi verið seld á markaðsverði í nauðungarsölu eða endursölu frá gerðarbeiðanda síðar, kviknar þegar gerðarþoli hefur misst eign sína og oftar en ekki aleiguna.
Í þeim tilvikum sem voru skoðuð og fjallað er um í þessari skýrslu frá því í janúar 2010 tók það um 6 ár eftir nauðungarsölu og alla leið upp í Hæstarétt til að fá úrlausn slíks máls. Í öllum tilvikum, þar sem málum var ekki beinlínis vísað frá, úrskurðaði rétturinn að ekki hefði tekist að ,,sanna“ að eign hafi verið seld undir markaðsverði af hálfu gerðarbeiðanda. Skýrslan inniheldur upplýsingar um eignir sem voru seldar nauðungarsölu talsvert fyrir hrunið og til ársins 2009.
Þetta nákvæmlega sama virðist hafa komið upp þegar fyrirtæki, eignir og húsaskjól fólks var selt ofan af því eftir hrun og í miðju hruni. Fyrirtæki voru yfirtekin í gífurlegu gengisfalli og haldið á bókum banka svo lengi þar til viðkomandi aðilar og fyrrum eigendur urðu máttvana.
Þá gátu þeir ekki lengur nýtt tengslanet, aflað sér tekna og voru þurrausnir fjármagni. Á þeim tímapunkti þótti tímabært að rétta af gengið, sæta færis og selja svo. Þótti það hið eðlilegasta mál að setja bankakerfið í þrot, hirða eignasafn út úr því sem hentaði, selja það með 100% láni en þó aðeins á brotabrot af því verði sem fjárflæðið sagði til um á þeim sama tíma. Því og þess vegna var verðmatið rangt.
Dæmi um Jón, Sigga, Helgu, Dóru og Baldur
Jón fasteignafrömuður fékk að kaupa fasteign sína aftur, sem tekin var af honum fyrir hrun vegna áhvílandi gengisláns er fór upp úr öllu valdi. Lánið var komið í 600 milljónir og leigan var 2 milljónir á mánuði. Gjaldþrota bankinn tók yfir einkahlutafélag Jóns eftir að hafa gjaldfellt lánið. Félagi Jóns, Óli, var í bankanum eftir hrun og leiðbeindi Jóni hvernig best væri að fara í þetta. Óli fór síðan úr ,,gamla“ bankanum yfir í ,,nýja“ bankann og fylgdi máli Jóns eftir.
,,Gamli“ bankinn setti ákveðin félög inn í Pegasus-eignarhaldsfélag sitt og afhenti það svo á ákveðnu verði til nýja bankans sem greiddi með skuldabréfi sem að baki stóð niðurgreidd ríkisábyrgð. Þegar hér var komið til sögu var búið að færa lánið sem Jón fékk á sínum tíma niður í 30 milljónir og eignin seld yfir í ,,nýja“ bankan á sama verði. Þar varð til ,,tjón“ fyrir kröfuhafa ,,gamla“ bankans upp á kr. 570 milljónir.
Í eldri pistli var fjallað um skattaundanskotið mikla en þá gerði þessi aðgerð það að verkum að leiðréttingin átti sér ekki stað í gamla félagi Jóns og myndaði þar ekki skattakvöð sem ríkið hefði getað sótt í fjármagn eða samið um síðar svo hafa mætti t.d. upp í áhættuna við ríkisábyrgðina af öllu hafaríinu. Það hefði verið skynsamt sé litið á málið út frá hagsmunum skattgreiðenda.
Jón stofnar nýtt fasteignafélag og kaupir nú með því eign sína aftur af bankanum á 60 milljónir og fær í meðgjöf 60 milljónir að láni, þ.e. hann kaupir eignina með 100% láni í nýstofnuðu félagi með enga rekstrarsögu. Gamla félagið er sett í þrot.
Eignin fór aldrei í útboð eða ,,opið söluferli“ þar sem hæsta verð hefði verið slegið á opnum og gegnsæjum markaði. Það var gert til að tryggja að eignin færi alls ekki á markaðsvirði þess tíma og ekki í ,,rangar“ hendur. Þegar rætt er um mikilvægi nauðungarsölu var þessa getið sérstaklega, með greinargerð sem fylgdi frumvarpi til nauðungarsölulaga á sínum tíma, að söluferlið yrði opið. Það var gert svo markaðsverð fengist þó svo að aðeins sé kröfuhafinn þinn á kauphliðinni og enginn annar. Þökk sé gildandi nauðungarsölulögum. Hefur eitthvað breyst um kraftana sem þarna búa að baki?
Jón fær því eignina aftur og heldur áfram á rukka inn þessar 2 milljónir á mánuði frá leiguliða sínum. Bíðið nú við! Er það ekki þekkt þumalputtaregla úr viðskiptum með fasteignir og félög á Íslandi að virði félags sé um 120 mánaða leiga, þ.e. leigan á mánuði margfölduð með 120 mánuðum?
Hvað gerir það? Það gerir 480 milljónir króna. Bankinn hefur því gefið Jóni dágóða summu í kaupæti með láninu. Lánið stendur aðeins í 60 milljónum. ,,Nýi“ bankinn er með frábæra eiginfjárstöðu því hann fékk lánapapprínn með eigninni á 30 milljónir sem nú stendur í 60 milljónum. Ekki að undra að eiginfjárstaða bæði Jóns og bankans sé nú til fyrirmyndar og bankinn getur haldið áfram að lána Jóni sem er með nóg veðrými á eigninni og getur framkvæmt ómælt á næstu árum. Ætli hann leiti tilboða eftir þetta í lán frá hinum bönkunum og efli þannig samkeppni um vexti og kjör á markaði?
En hvað með Sigga? Hann fékk félag sitt ekki til baka, hann fékk ekki að bjóða í þegar Jón fékk eign sína afhenda aftur án þess að þurfa að hafa fyrir því. Siggi er sá sem leigir af Jóni og hefði auðveldlega getað lokað þessum ,,díl“ á hærra verði.
Hvað með Helgu? Það er ung kona sem missti heimili sitt og var með tvö ung börn á framfæri. Hvað með hjónin Dóru og Baldur? Þau ráku lítið verktakafyrirtæki og öll tækin þeirra voru seld úr landi, fasteignir boðnar upp og fótunum kippt undan rekstrinum.
Eru ekki margir Íslendingar sem sjá sig einmitt þarna og í þessum hóp?
Ekki sama Jón og séra Jón
Á Íslandi virðist brotið á fólki út og suður og jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar varðar ekki aðeins kynbundið jafnrétti heldur að einnig það að fólk er jafnt fyrir lögum og ekki á að aðgreina fólk eftir efnahag þegar ákvarðanir hins opinbera eru teknar.
Eignir voru teknar af almenningi, venjulegu fólki og fyrirtæki hirt af vel meinandi einstaklingum sem voru að byggja upp sín fyrirtæki rétt eins og Jón. Ekki skal maður hallmæla Jóni sem er sjálfsagt að reyna að bjarga sér eins og allir hinir. Það er bara þessi aðferð sem stenst ekki skoðun.
Hvers vegna gætti fyrsta vinstri stjórnin á Íslandi ekki betur að réttlætinu? Þó svo að ráðherrar, þingmenn og menntamenn komi nú fram og segi að þetta gangi nú allt í haginn skal á það minnst hér að þær stoðir eru byggðar úr efnivið sem er rétt eins og hvert annað illa fengið fé. Hver er máttur stjórnarskrárinnar og laganna til handa fólkinu sé ákvæðum þeirra ekki beitt, ekki einu sinni af ríkjandi stjórnvöldum á hverjum tíma?
Þessu vildi pistlahöfundur getað skila til baka þó síðar verði. Það er torsótt mál en hvers vegna hefur enginn kært með vísan í framangreind ákvæði? Ætli það sé ekki vegna þess sem pistlahöfundur hefur áður bent á, þ.e. að fólk er þreytt, uppgefið og úrvinda, þurrausið fjármunum og illa statt til að takast á við baráttuna og ægivaldið?
Þetta eru fjárhagslegir flóttamenn í okkar eigin landi sem finna sér ekki lengur samastað heima hjá sér.
Getum við treyst þessum flokkum aftur fyrir næsta kjörtímabili?
Ég segi NEI !