Laugardagur 14.05.2016 - 14:39 - Lokað fyrir ummæli

Kosningaloforð – Stefnumál

Í dag er afmæli forseta Íslands hr. Ólafs Ragnars Grímssonar. Til hamingju !

Kærar þakkir fyrir allt sem þú hefur gert fyrir land og þjóð. Ég hlakka til að fá þig hingað í Mosfellsbæinn þar sem þið bæði getið notið friðar og náttúran sem og fólkið mun svo sannarlega taka vel á móti ykkur.

Á næsta leiti – Alþingiskosningar

Á næsta leiti eru kosningar til Alþingis Íslendinga og rétt að líta aðeins upp frá væntanlegum forsetakosningum í næsta mánuði og huga að stefnu fyrir land og þjóð. Færi maður í þá ,,geimferð“ að bjóða sig fram í prófkjöri og svo til Alþingis er mikilvægt að leggja fram stefnu sína og markmið. Reikna má með því að átök í prófkjörum og svo í kosningum verði til þess að forsendur gætu breyst eitthvað.  Fólk gæti viljað sjá ný stefnumál og því gætu mál þróast þar til á þing er komið ef á annað borð menn verða fyrir valinu. En ég legg tillögur fram alveg óbundin varðandi framhaldið enda mikil fórn í því fólgin að fara á þing verði af því á annað borð.

Stefnumál – Drög

Til að einfalda málin er best að draga upp skýra mynd:

  1. Breyting á nauðungarsölulögum.
    1. Hvers vegna? Það er vegna þess að 57. grein (sjá skýrslu mína um efnið frá 2010) hefur ekki virkað sem raunhæft úrræði fyrir gerðarþola sem hefur misst eign sína í nauðungarsölu og hefur ekki burði til að berjast áfram.
    2. Hvernig næst þetta fram? Það næst fram með því að kalla eftir samráði við alla hagsmunaaðila en með þessu er verið að tryggja t.a.m. að skuldabréfasafn banka styrkist að virði, stjórnsýslan verður skilvirkari þar sem kröfuhöfum verður gert grein fyrr því að þeim muni bera að bjóða upp í alla kröfu sína við nauðungarsölu en ekki aðeins í hluta hennar.
    3. Hverju þarf að breyta? Það þarf að breyta lögum um nauðungarsölu og að straumlínulaga kröfurétt almennt og lagabálkinn allan. Samhliða þarf að krefjast þess að fjármálastofnanir fái ekki að liggja með eignir of lengi á bókum sínum eða dótturfélaga sinna. Slíkt hefur skapað rangt raunvirði á fasteignamarkaði þar sem bolmagn er notað til að halda virði uppi á fasteignum og samhliða á skuldabréfasafni. Þetta þarf að lúta lögmálum markaðarins og hafa þannig eðlileg áhrif á þróun vísitalna á markaði, þ.m.t. vísitölu neysluverðs. Að öðrum kosti er markaðurinn bjagaður af þessu kerfi sem er í raun lagaumgjörð um gamla ríkisbanka.
  2. Skilvirkari stjórnsýsla = Rafræn stjórnsýsla = Beint lýðræði.
    1. Hvers vegna? Það er einfaldlega vegna þess að stjórnsýslukerfið og þá sérstaklega stjórnsýslu-tölvukerfið er úrelt. Með því fyrirkomulagi sem er á Alþingi, þ.e. að frumvörp eru lögð fram, fara í nefnd og þar óskað umsagna, er leitast við að virkja lýðræðið. Fólk hefur kallað eftir beinu lýðræði og fleiri þjóðaratkvæðagreiðslum. Það er óþarfi ef við bætum úr rafrænni stjórnsýslu, einföldum skipuritin, leggjum niður tölvudeildir í hverju ráðuneyti og hverri stofnun, tökum þetta miðlægt og samþættum aðgerðir. Með þessu getum við náð nágrönnum okkar í þessu efni. Ráðherrar eiga að geta verið með app í símanum og öll ríkisfjármál þar á rauntíma sbr. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Hann getur fylgst ,,live“ með öllu og borað sig niður á útgjaldaliði frá degi til dags. Þetta er ekki hægt hér á landi og er með ólíkindum að hið opinbera fari ekki í þetta.
    2. Hvernig næst þetta fram? Hér þarf bara að segja að við erum að verða úrelt á þessu sviði. Það skilja allir og sérstaklega unga kynslóðin. Það á að hugsa um þetta eins og vegakerfið. Hér höfum við tækifæri að skapa nýjar iðngreinar á sviði tölvu- og hugbúnaðargerðar. Við náum þessu fram með því að hið opinbera ríði á vaðið, leggi niður gamlar deildir á þessu sviði og hafi stefnu um að gera það með mannsæmandi hætti. Ríkisstjórn þarf að taka þetta upp sem forgangsmál á næsta kjörtímabili.
    3. Hverju þarf að breyta? Innleiðing þarf ekki að taka langan tíma og það þarf að tryggja opin markað fyrir útboð á ýmsum sviðum svo smá og meðalstór tölvufyrirtæki geti boðið í verk á fjölmörgum sviðium. Innan fárra ára gætum við þróað kerfi sem eru orðin útflutningsvara áður en langt um líður. Hér yrði um byltingu að ræða sem myndi auka beint lýðræði og aðgengi fólks að gögnum sem leiðir af sér daglegt og virkt lýðræði, aðhald og þekkingu sem nýst gæti innan kjörtímabils hverrar ríkisstjórnar.
  3. Náttúruvernd.
    1. Hvers vegna? Það er augljóst. Við höfum svo lítið gert. Við þurfum að bæta alla staði sem eru undir álagi vegna ferðamanna. Það þarf að vernda náttúru lands og sjávar til að tryggja að við uppfyllum alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Það verður að ganga vel um hálendi Íslands og virða mörk þegar kemur að því að hemja náttúru í formi virkjana og ágangs af margvíslegum toga. Við eigum einnig að leita leiða að finna nýja kosti til að afla orku úr náttúrunni í sátt við hana og þá verndarstefnu sem samfélög heims hafa komið sér saman um. Við eigum að vinna að þessu á okkar eigin forsendum og samþætta okkar þekkingu þeirri sem hingað kemur að utan.
    2. Hvernig næst þetta fram? Við eigum að virkja einkaframtakið og lágmarka ríkisafskiptin. Best er að gefa einstaklingum kosti á, eins og nú er, að leita í styrki fyrir uppbygginu en allra best yrði að koma upp lánasjóð í tengslum við náttúruvernd sbr. Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þar geta aðilar sótt framkvæmdarfé. Þar sem eru ríkisjarðir skal boðið út til einkaaðila rekstur þeirra og ef það þarf að bæta úr og breyta hafa aðilar sem hafa eignarrétt og/eða afnotarétt í formi leiguréttinda kost á að innheimta gjald er miðast við árlega fjárfestingarþörf, efnhag og skuldir viðkomandi í tengslum við þá fjárfestingu sem lögð hefur verið farm auk fyrirfram gefinnar ávöxtunarkröfu á markaði. Með þessu má nýta fjármálafræðin til að leysa lagalega úr þeirri flækju sem hefur myndast í þessum málum. Forðast á að blanda ríkinu í rekstur eða innheimtu skatta á þessa grein, þ.e. ferðamannaiðnaðinn. Hins vegar gefst kjörið tækifæri fyrir náttúruvernd til handa þeim sem vilja taka sér land í fóstur og veita aðgang að því undir styrkri stjórn áhugahópa og velunnarra íslenskrar náttúru.
    3. Hverju þarf að breyta? Aðallega þarf að breyta hugarfari. Náttúrvernd á að verða sport á Íslandi, áhugamál fleiri og lífsspursmál. Við á Íslandi erum í grunnin miklir náttúrverndarsinnar. Náttúruvernd er afar mikilvæg en það verður að nýta krafta hins frjálsa markaðar til að ná fram því besta.
  4. Utanríkismál, ESB og ICESAVE út úr myndinni:
    1. Hvers vegna? Það er nú aðallega vegna þess að þetta er hvort eð er út úr myndinni, þ.e. ESB og ICESAVE. Utanríkismál eru hagsmunamál sem ber að rækta.
    2. Hvernig næst þetta fram? Það næst fram með því að hætta að eyða tíma Alþingis í að ræða mál af þessum toga og fara í að byggja upp, breyta og bæta hér innanlands. Við eigum að byggja samstarf upp meðal norðurlandaþjóða, eiga gott samtarf við Bretland og Bandaríkin auk vissulega ríkja Evrópusambandsins og þá sérstaklega Þýskaland. Annars á velvild og vinsemd í garð ESB að vera ríkjandi rétt eins og við leggjum áherslu á slíkt við önnur ríkjasambönd, alþjóðastofnanir og þróunarlönd. Við eigum að taka meiri þátt í þróunaraðstoð og byggja á þeirri þekkingu sem fyrir er á því sviði. Samband okkar innan NATO á að styrkja og tryggja að við búum að okkar öryggi og viðbúnaði hér heimafyrir í góðri sátt og í samráði við þá bestu á því sviði.
    3. Hverju þarf að breyta? Það þarf að hætta að argaþrasast um að við fáum einhvern sess innan ESB nema þann sem við þegar höfum. Þrátt fyrir að við tökum við miklu af regluverki þaðan er slíkt rétt eins og við tökum við læknum að utan sem þar hafa lært á slysadeildum og fengið að reyna sig á bráðasviði sem ekki var í boði hér. Lagarammi ESB og þeirra ríkja sem þar eru innan er ávallt tilkeyrður á annað hvort glæpum eða víðtækri reynslu á sviði fjármála eða hagstjórn hvers konar. Við nýtum okkur þeirra reynslu þó hugsanlegt sé að ekkert af þessu komi fram hér næstu árin. Það að búa að þessu er öryggi og að geta bent á lagabókstafinn skiptir máli. Það kom sér t.d. afskaplega vel þegar menn vildu borga skuldir óreiðumanna með samningi um ICSAVE skuldirnar sem okkur bar ekki. Þá gátum við vísað í tilskipun frá ESB varðandi ríksiábyrgð og tryggingasjóð innistæðueigenda. Það þarf því litlu öðru að breyta nema hugarfarinu.
  5. Fjármál og hagmál – Krafa um eiginfjárhlutfall fjármálastofnana lækki.
    1. Hvers vegna? Jú, nýlega kallaði Fjármálaeftirlitið (FME) eftir 19,5% eiginfjárhlutfalli sbr. frétt um það efni frá 2013 í Viðskiptablaðinu. Verið er að fylgja eftir BASEL III sem er strangara en BASEL II og enn strangara en BASEL I. Samkvæmt lögum má eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja (banka) ekki fara niður fyrir 8% en þá missir viðkomandi starfsleyfið sitt. Útreikningar á eignasafni banka er flókið og er mat áhættu mismunandi eftir þeim lánapappírum sem þar liggja. Ef bankar eru slóðar er líklegt að áhætta eykst og ef þeir eru almennt áhættusæknir er hið sama uppi á teningnum. Því er ekkert óeðlilegt við það að bankar gæti þurft að fara upp í 19,5% þakið séu þeir áhættusæknir. Hins vegar verður að líta til þess að bankar á markaði eru sjálfir eins og hver önnur vara á markaði með mismunandi gæði, kosti og galla. Undirliggjandi eignasafn, stjórnendateymi og stefna er lykilinn að því hvers kyns banki þetta er sem um er að ræða
    2. Hvernig næst þetta fram? Það næst fram með því að bæta eignasafnið. Sbr. stefnumál nr. 1 hér að framan varðandi nauðungarstölur og gjaldþrotameðferð bæði einstaklinga og fyrirtækja er ljóst að allur kröfuhafabálkur laga á Íslandi er n.k. niðurgreiðslulagabálkur sem þarf að fara í gegnum talsverða ormahreinsun. Því þarf lagabreytingu til og búa þannig um hnútana að bankarnir sjálfir, með aðhaldi sem stafar af lögum af þessum toga, lækki þetta hlutfall og hafi gaman af. Þeir geta þá farið að keppast um að vera áhættuminni og geta boðið lægri vexti í stað þess að líta ávallt yfir til FME og bíða hvað þaðan kemur. Hér er því um fyrirbyggjandi og samfelldar aðgerðir að ræða sem ekki aðeins styrkir eiginfjárgrunn fjármálakerfisins heldur einnig myndar frjálsan og virkari markað, styrkir stöðu heimila, styrkir samkeppni á fjármálamarkaði og bætir við þætti sem hefur vantað þar innanbúðar, þ.e. hvatan. Hvatinn er sá að bæta sig, gera enn betur, sinna veðum sínum, fylgjast með undirliggjandi eignum með reglubundnum hætti og stuðla þannig að því að eignasafnið sé ,,up-to-date“. Bankastjórinn á svo að vera með appið í símanum rétt eins og ráðherran þar sem verið er að streyma til hans árangursmati og stöðu efnahagsins ,,live“ dag frá degi.
    3. Hverju þarf að breyta? Það þarf að breyta hugarfari enn á ný og gera fjármálaheiminum grein fyrir því að ekkert sé að óttast. Þeir eru bara á leið í ræktina.
  6. Bæta þarf heilbrigðis- og öldrunarmál – Styðja á við bakið á öryrkjum og barnafólki:
    1. Hvers vegna? Það er augljóst, þetta er okkar grunnskylda.
    2. Hvernig næst þetta fram? Það er að gera sér grein fyrir því að ríkið getur ekki höndlað þetta allt og því þarf að koma til hvati í kerfið til þess að forgangsraða. Langveikir verða að ganga fyrir og mjög aldraðir. Það þarf að auka sveigjanleika í skipulagsmálin svo hægt sé að byggja yfir aldraða. Það þarf að taka saman gögn um þá sem þurfa mikla umönnun á næstu árum og áratugum. Það þarf að opna landið fyrir erlendu heilbrigðistarfsfólki utan Schengen og tryggja aðlögun þess að kerfinu. Barnafólk á að geta átt sitt eigið húsnæði, borgað af því og alið upp börn sín helst sem lengst heima á fyrstu árunum eftir fæðingu. Með tækni má auka möguleika ungs fólks að vinna heima og ef stjórnsýslan tekur sig á (sbr. stefnumál nr. 2) eru líkur á að fleiri geti unnið í hátækni hjá henni sem og í fyrirtækjum á þessu sviði. Við verðum að tryggja að öryrkjar geti hið sama, þ.e. unnið og verði viðurkenndir á vinnumarkaði sem ötulir starfsmenn. Verður þá hvati til að vinna að vera til staðar, meðferðarúrræði og aðstoð við að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft.
    3. Hverju þarf að breyta? Einfalda afar flókna stjórnsýslu. Smákóngakerfið þarf að víkja sem allra fyrst og taka þarf upp skilvirkara kerfi og einfalda örorkumat hvers konar. Það þarf að gæta að því að ein stofnun viti af hinum. Varðandi barnafólk verður að hlúa sérstaklega að því fólki og vera með n.k. hraðferð um kerfið til að þau hafi aðgang sem fyrst að því sem þeim skiptir máli. Þau eiga að fá að geta eignast þak yfir höfuðið og byggt sig þaðan upp. Með framangreindum punktum varðandi fjármál og nauðungarsölur verður leitast við að verðbólgan éti ekki upp eigið fé á eign þeirra og að sá lagabálkur allur og samþætting tryggi framtíð þeirra til lengri tíma í eigin húsnæði. Það þarf að auka skilning allra á þessari samþættingu og mikilvægi hennar í heildarmyndinni á Íslandi. Eldri borgarar eiga einnig að fá hraðferð og þau eiga að geta búið heima sem allra lengst. Úrræði í húsnæði utan ,,kerfisins“ á að standa til boða og það að fólk í stærra húsnæði á að geta fengið styrki til að breyta því þannig að gamalt fólk geti búið sem lengst saman og fengið þau tæki og þær græjur sem til þarf alla leiðina heim vilji þau það. Með því að auka á frelsi heilbrigðisfólks erlendis frá og utan Schengen að koma til landsins og starfa getum við tryggt að þetta er hægt. Fólk á að geta búið á Íslandi og fengið þjónustu heim til sín eftir því sem verða vill. Víða erlendis fæst heilbrigðisstarfsfólk rétt til að búa í sama húsi og viðkomandi og ef hægt er að tryggja slíkt er það best. Við þurfum að forgangsraða enn betur og þeir sem hafa efni á að borga reikninginn í heilbrigðiskerfinu eiga að gera það sem mest ef þeir eru heilsuhraustir á annað borð. Hinir, sem eiga bágt, eru illa farnir og aldraðir eða öryrkjar eiga að fá sem allra mest auk þess sem barnafólk ætti að fá frítt fyrir alla fjölskyldumeðlimi í heilsugæslunni séu börn innan 16 ára aldurs innan vébanda hennar. Efla þarf lífeyri ungs fólks og byggja undir framtíðina með kröftugum sparnaði og hvata til þess að spara til bæði skamms tíma og til lengri tíma.

Hér hafa verið sett fram 6 stefnumál. Önnur mál eru einnig mikilvæg. Þar má nefna auðlindamálin, ríkisfjármál, mennta- og menningarmál, útlendingamál, innanríkismál, þróunarmál, landbúnaðarmál, félags- og húsnæðismál,  samgöngumál, sveitastjórnarmál, tryggingamál, málefni norðurslóða, lífeyrismáli, atvinnu- og velferðarmál almennt ofl.

Síðan er spurningin hvort einhver eftirspurn sé eftir einstaklingum með framangreind stefnumál í forgrunni.

Góða helgi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur