Mánudagur 19.12.2016 - 16:10 - Lokað fyrir ummæli

Jóla- og afmælisandinn hjá RÚV

Það þykir lýsa ljúfum Íslending að óska landa sínum og öðrum til hamingju með afmælið og óska fólki gleðilegra Jóla og farsældar á komandi ári með þökk fyrir allt gamalt og gott. Þegar fólk á erfitt, gengur í gegnum erfiðleika, missir ástvini og ættingja syrgjum við með þeim og samhryggjumst náunganum, sýnum skilning og vilja til hjálpar.

Hjá Ríkisúvarpinu (RÚV) virðist þessu öðruvísi farið hjá einhverjum starfsmönnum þar á bæ. Fá þar einhverjir einstaklingar frjálsar hendur til þess að bæði útvarpa og sjónvarpa sínum persónulegum skoðunum og beita sér gagnvart fólki í þessu landi með gögnum sem hvorki sanna sekt né siðferðisbresti nema helst þeirra sem tóku þau saman og fluttu þau á öldum ljósvakans.

100 ára afmæli Framsóknarflokksins

Í tilefni 100 ára afmælisveislu Framsóknarflokksins norðan heiða, sem þar var haldin til að koma á móts við landsbyggðarfólk nú á aðventunni, sendi starfsmaður RÚV skeyti með SMS til fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins og óskaði eftir viðtali. Því skeyti var ekki svarað. Þess í stað ákvað starfsmaður RÚV að skella sér í veisluna óboðinn og óskað þar eftir viðtali við Sigmund Davíð Gunnlaugsson þingmann flokksins sem hann veitti góðfúslega enda hátíðarstund.

Ég hafði óskað eftir viðtali við hann í tilefni dagsins með SMS-skilaboðum, en engin svör fengið. Við ákváðum því að fara á staðinn og kanna hvort hann myndi veita viðtalið, (Heimild: www.visir.is)

Sjá má hér að þó þingmaðurinn svari ekki skeytinu frá þessum starfsmanni RÚV er ekki þar með sagt að hann hafi ekki lesið það.  Fái fólk heillaóskaskeyti frá RÚV með SMS eða önnur skeyti frá vinum og ættingjum er ekki þar með sagt að það sendi annað skeyti til baka heldur tíðkast fremur að hitta viðkomandi og þakka fyrir skeytið.

Ljóst er hér að starfsmaður RÚV mætti þarna í ,,tilefni dagsins“ en ekki í tilefni nokkurs annars og því undarlegt að það þurfi að spyrja starfsmann yfir 86 ára stofnunar (nú opinbert hlutafélag) og þar af 50 ára sjónvarps hvert erindið er fyrir viðtal þegar ,,tilefnið“ hefur þegar verið gefið upp. Því er það starfsmaðurinn sem greinilega gaf upp hvert tilefni viðtalsins var og á fólk ekki að fara í grafgötur með það.

Hvers vegna ekki spurt út í merka sögu Framsóknarflokksins á þessum tímamótum?

Framsóknarflokkurinn átti 100 ára afmæli 16. desember síðastliðinn og var flokkurinn stofnaður þennan dag árið 1916. Fréttamaður RÚV mætti í veislu í ,,tilefni dagsins“ en tók viðtal er fjallaði alls ekki um ,,tilefni dagsins“. Fréttamaðurinn er fæddur 1983 og er sagður verðlaunaður blaðamaður og því talsvert yngri en Framsóknarflokkurinn en aðeins nokkuð yngri en viðmælandinn.

Þingmaðurinn er fæddur 1975 og settist í stól forsætisráðherra 38 ára sem einn þeirra yngstu í sögu þjóðarinnar. Hermann Jónasson var 37 ára þegar hann varð forsætisráðherra, Ásgeir Ásgeirsson var 38 ára og Tryggvi Þórhallsson einnig 38 ára. Allir þessir menn voru framsóknarmenn. Það er einmitt Framsóknarflokkurinn sem sýnt hefur ungu fólki að innan hans er ungu fólki treyst fyrir æðstu embættum þjóðarinnar. Til samanburðar hafa elstu forsætisráðherrar þjóðarinnar komið úr röðum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, fylkingar sem reyndar aðeins einu sinni hefur náð svo langt á sínum skamma ferli og er nú nánast horfin fyrir vikið.

Hvers vegna í ósköpunum var ekki hægt að spyrja út í sögu Framsóknarflokksins af þessu ,,tilefni“ hafi verið ætlunin að mæta af því ,,tilefni“ að flokkurinn var hvorki meira né minna en 100 ára og sá flokkur sem lengst hefur verið í ríkisstjórn á Íslandi?

RÚV hefur verið að halda uppá yfir 50 ára sögu sjónvarpsins með sögubrotum frá 50 ára ferli og nýtt sinn vettvang til að koma slíku á framfæri svo greina má yfirflæði af endursýndu en áhugaverðu efni í ríkisfjölmiðlinum sem vissulega sparar talsverða fjármuni. Hér að neðan má greina frá hvaða flokkur stóð að stofnun RÚV til að upplýsa land og lýð um menningu og svo margt annað fróðlegt, græðandi og gefandi. Leitt er þó að fjármunum þeim sem sparast á afmælisári sjónvarps RÚV er þess í stað varið í að ráðast á sitt eigið fólk og draga þjóðina sundur og saman í ágreiningi sem í raun er lítill og talsvert smáræði.

Mótmæli og mæting ferðamanna við Austurvöll virðist heldur ekki góð mæling á ágreining gagnvart ríkisstjórn sé miðað við síðastliðnar kosningar.

Sigmundur Davíð og saga Framsóknarflokksins í ófáum dráttum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur svo sannarlega sannað sig og gerði það sem fáum hugnaðist að tækist. Hann kallaði eftir hugarfarsbreytingu fyrir kosningarnar 2013 sem miðaði að því að leggja skatt á kröfuhafa hinna föllnu banka með lögmætum hætti og innheimta um 300 milljarða til handa þjóðinni, Íslendingum. Hann gerði gott betur en það eftir að hafa sannfært sjálfstæðismenn um myndun þeirrar stjórnar sem nú situr enn þrátt fyrir ákall vinstri manna um ótímabærar kosningar síðastliðið haust.

Á þeim 100 árum sem Framsóknarflokkurinn hefur dafnað á meðal íslensku þjóðarinnar hefur þessi flokkur setið í ríkisstjórn í 62 ár og á afmæli flokksins var forsætisráðherra þjóðarinnar einmitt úr þessum merka flokki, þ.e. Sigurður Ingi Jóhannsson. Aðeins þetta eitt og sér ætti að gefa fréttamanni RÚV tilefni til fjölmargra spurninga í ,,tilefni dagsins“.

Hér að auki skal stiklað á stóru úr sögu Framsóknarflokksins og íslensku þjóðarinnar sem er samofin:

  • Þróun íslenskra stjórnmála úr sjálfstæðisbaráttu í efnahagsbaráttu og uppbyggingu
  • Fullveldi Íslands 4. janúar 1917 eða fáeinum vikum eftir stofnun Framsóknarflokksins
  • Landverslun stofnuð til að efla utanríkisverslun
  • Kaupfélög stofnuð víða um land
  • Framsóknarflokkurinn lagði mikla áherslu á milliríkjaverslun til að efla framboð á nauðsynjavörum
  • Kreppan mikla á 3. áratug 20. aldarinnar þar sem myndað var bandalag við Alþýðuflokkinn
  • Stofnun Síldabræðslu ríkisins á Siglufirði, stofnun Skipaútgerðar ríkisins, stofnun RÚV, efling Landhelgisgæslunnar var verk Framsóknarflokksins ásamt samstarfsflokki hans
  • Stórsókn í skólamálum með stofnun Héraðsskóla um land allt
  • Stjórn hinna vinnandi stétta eftir alþingiskosningarnar 1934
  • Iðnaður efldur umtalsvert og heildstæðu almannatryggingakerfi komið á
  • Sjálfstæði Íslands í kjölfar innrásar Þjóðverja í Danmörk og heimstyrjaldarinnar eftir 1939
  • Ríkisstjórn Hermanns Jónassonar lagði áherslu á bæta skilyrði sjávarútvegs og gera hann sjálfbærann
  • Efnahagsástandið batnaði og lifði þessi þjóðstjórn til 1942 þegar Ólafur Thors myndaði stjórn (Ólafíu)
  • Stofnun Atlandshafsbandalagsins (NATO) 1949 þar sem Framsóknarflokkurinn klofnaði í afstöðu sinni og Hermann Jónasson sat hjá
  • Kosningabandalag vinstri flokka og stjórn Hermanns Jónassonar 1956 sem var ósamstíga, t.a.m. í utanríkismálum
  • Útfærsla landhelginnar í 12 mílur 1958
  • Ólafur Jóhannesson myndaði stjórn 1971 eftir að Framsóknarflokkurinn hafði verið utan stjórnar í 12 ár og farið aftur í stækkun landhelginnar, nú úr 12 í 50 mílur
  • Árið 1975 var landhelgin svo færð úr 50 mílum í 200 mílur og var þetta gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga en skóp engu að síður miklar deilur við Breta
  • Sættir við Breta 1976 eftir að Íslendingar höfðu slitið stjórnmálasambandi við þá
  • Verðbólgutímabilið 1980-1991 þar sem Framsóknarflokkurinn var í stjórn
  • Efnahagsuppgangur og kerfisbreytingar 1995 þegar Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar
  • Icesave þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var framarlega á meðal jafningja í að krefjast þess að íslenskir skattgreiðendur gengust ekki undir skuldbindingar fyrir einkafyrirtæki sem stefndu í þrot í kjölfar fjármálahruns
  • Endurreisn efnahagslífsins undir forystu Framsóknarflokksins 2013 til dagsins í dag
  • Endurútreikningur og endurgreiðslur til þeirra er fengu ekki leiðréttingar á lánum sínum eftir hrun fjármálakerfisins
  • Álagning skatts og samningar við kröfuhafa föllnu bankanna sem kallaði eftir a.m.k. 300 milljörðum sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gat um fyrir kosningarnar 2013 og efndi á liðnu kjörtímabili og gott betur.
  • Nýting fjármuna sem fengust úr höndum kröfuhafa með lögmætri skattlagningu og samningum ráðstafað til að leiðrétta A-hluta lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna, sem hefur verið í umræðunni um árabil, um rúma 100 milljarða
  • Ný fjárlög sem miða nú fremur að því fyrir árið 2017 að skapa ekki verðbólgu en mæta nauðsynlegum umbótum á heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfinu.

Ætla mætti að þetta hafi getað gefið fréttamanni RÚV tilefni til margra spurninga í ,,tilefni dagsins“ á 100 ára afmæli þessara merku stjórnmálasamtaka á Íslandi.

Viðhorf og sátt

Í Suður Afríku ríkti aðskilnaðarstefna lungað úr þeim tíma sem þessi 100 ár hafa varað frá stofnun Framsóknarflokksins. Hún varði frá 1948 til 1991 en vissulega var hún viðloðandi í raun og sann alla tíð fyrir kosningarnar 1948 þó hún hafi sérstaklega verið tekin upp á því ári. Þessi skelfilega stefna gerði það að verkum að fólk átti mjög bágt svo orðum verður vart komið þar að til að lýsa hörmungunum.

Hitt stendur þó eftir en það er sú sátt sem náðist undir lok tímabilsins og eftir það. Þar markaði einn maður umfram aðra djúp spor í sandinn. Lögfræðingurinn Nelson Mandela var leystur úr haldi árið 1990 eftir að hafa setið inni í 27 ár í fangelsi á Robben Eyju (e. Robben Island), Pollsmoor fangelsinu og Victor Vestor.

Þrátt fyrir þær hörmungar myndaðist sátt í þessu landi langt suður af Íslandi og nærri öðrum pól en þeim sem við búum við. Talið er að þetta sé ein merkilegasta sátt sem náðst hefur varðandi heimsfrið í sögunni.

Hvers vegna getum við Íslendingar ekki fundið þessa sátt í hjörtum okkar?

  • Er ekki óþarfi fyrir Ríkisútvarpið, sem svo sannarlega á að leita svara við mörgum spurningum fyrir land og lýð, að stuðla að sundrungu í eigin landi eftir þá erfiðleika sem þjóðin hefur nú gengið í gegnum?
  • Er ekki rétt að við gerum þá kröfu til Ríkisútvarpsins að það ritrýni þær skýrslur og það efni sem berst þeim áður en það fer í loftið samanber umfjöllun um Panamaskjölin svokölluðu þar sem allt var lögmætt þar á ferð varðandi fjölmarga og saklaust fólk borið saman við harðvítuga alþjóðlega glæpahunda?
  • Er ekki rétt að Ríkisútvarpið meti þá löggjöf sem í gildi er á Íslandi á hverjum tíma (sbr. lög um lágskattasvæði sem samþykkt voru eftir endurskoðun á Alþingi fyrir kosningarnar 2013) áður en umfjöllun fer í loftið?
  • Er ekki rétt að ræða um 100 ára afmæli hafi á annað borð verið sent skeyti þess efnis að markmið viðtalsins væri að ræða við viðkomandi í ,,tilefni dagsins“?

Það er ekkert að því að spyrja spurninga en það skiptir máli hvaða hugur býr að baki. Það er allt í lagi að koma fólki á óvart en slíkt verður að miðast við almennt velsæmi. Það er allt í lagi að birta myndir af fólki en það verður einnig að vera í samræmi við almennt velsæmi og virðingu við þann sem myndin er af.

Við höfum öll áhrif á umhverfið okkar. Sum viljum við undir þrýstingi (e. peer pressure) fullnægja óskum hópsins sem við vinnum í kringum. Við viljum einnig vinna til verðlauna og fá viðurkenningu á okkar starfssviði.

Með vísan í okkar forfeður skiptir máli orðstýr og það er hverjum sem er heimilt að verja sinn orðstýr sé að honum vegið. Eftir allt ber ég mikla virðingu fyrir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni þó svo að hann sé eins og hann er, þrasgjarn eins og ég sjálfur, fastur fyrir og sérlundaður eins og við öll erum í raun og sann.

Berum virðingu fyrir náunganum og látum ekki leiða okkur út af sporinu sem þjóð.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstírdeyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

(Heimild: Úr Gestþætti Hávamála)

 

Gleðileg Jól kæru lesendur og hamingjuríkt ár 2017, þakka liðið.

Flokkar: Heimspeki · Sagnfræði

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur