Þriðjudagur 10.01.2017 - 10:47 - Lokað fyrir ummæli

Af lágskattasvæðum VG, Pírata og Samfylkingar

Um þessar mundir er mikið rætt um lágskattasvæði og ber Panama þar hæst á Baugi. Fyrir kosningarnar 2013 réð hér ein argasta vinstri stjórn sem uppi hefur verið á vesturlöndum þó víðar væri leitað, jafnvel í Svíþjóð

Lágskattasvæði vinstri manna

Þessi íslenska vinstri ríkisstjórn samþykkti tilskipun frá ESB þess efnis að lágskattasvæði yrðu áfram í seilingarfjarlægð frá íslenskum fjárfestum rétt eins og öðrum fjárfestum innan EES svæðisins.

Hitt stendur eftir að þeim ber, vilji þeir eiga fjármuni og reka fyrirtæki frá lágskattasvæði, að gefa slíkt upp til skatts í heimalandi sínu. Reyndar, sbr. pistil minn frá því í apríl 2016, óskaði Ríkisskattstjóri (RSK) eftir því, þ.e. í umsögn sinni varðandi frumvarpið sem varð síðar að lögum, að Alþingis leitaðist við að setja strangari reglur þar sem dótturfélag á lágskattasvæði yrði skattlagt sér.

Ef vinstri stjórnin hefði, rétt fyrir kosningarnar 2013, farið eftir umsögn RSK varðandi frumvarpið yrði ekki lengur heimilt móðurfélagi á Íslandi að nýta skattalegt tap á Íslandi til frádráttar af hagnaði dótturfélags á viðkomandi lágskattasvæði. Það gerði þessi vinstri stjórn ekki og því er þetta alveg eins og áður var. Að auki afnám vinstri stjórnin svarta lista lágskattasvæða eftir ábendingar um slíkt frá ESB.

Áhangendur ESB á Íslandi, eins og fulltrúar Viðreisnar, ættu að efna til námskeiðahalds hvers vegna heimilt er á Íslandi að eiga fyrirtæki á lágskattasvæðum og hvers vegna það kom til með tilskipun frá ESB. Það að nýta sér töf á birtingu á skýrslu um þetta fyrirbæri til að hefja sig upp í umræðunni er lágkúra af verra taginu. Menn þar á bæ vita betur um tilvist þess arna í íslenskri löggjöf auk vinstri manna er allt þetta hafa samþykkt á Alþingi Íslendinga.

Erindisbréf starfshóps

Í 3. kafla skýrslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Eignir Íslendinga á aflandssvæðum, kemur eftirfarandi fram:

Með erindisbréfi dags. 10. júní 2016 skipaði fjármálaráðuneytið starfshóp með það fyrir augum að „leggja mat á umfang fjármagnstilfærslna og eignaumsýslu á aflandssvæðum, þ.e. í ríkjum sem skilgreind eru sem lágskattasvæði og takmarka miðlun upplýsinga um eignir og tekjur milli landa.“ Enn var áskilið að áætla skyldi „mögulegt tekjutap hins opinbera af slíkum umsvifum.“ Var mælst til þess að starfshópurinn lyki störfum fyrir lok júlímánaðar og legði fram skýrslu sem ráðherra myndi í framhaldinu kynna Alþingi.

Bjarni Benediktsson lagði áherslu á að skýrslan bærist sem fyrst

Ráðuneyti Bjarna Benediktssonar lagði ríka áherslu á að skýrslan kæmi út fyrir lok júlímánaðar 2016 og yrði þar af leiðandi tilbúin tímanlega til umfjöllunar á Alþingi fyrir væntanlegar kosningar og til almennrar birtingar. Hins vegar tókst það ekki. Segir um það í 3. kafla (3.1.) framangreindrar skýrslu.

Enda kom í ljós að meiri tíma þurfti til verksins en ætlað var í upphafi og tókst ekki að skila skýrslu fyrr en nokkuð var liðið á september.

Reyndar kom skýrslan inn í ráðuneytið ekki fyrr en 13. september 2016 eða um einum og hálfum mánuði síðar en áformað var skv. skipunarbréfi frá fjármála- og efnahagsmálaráðherra.

Gefa skýrsluhöfundar eftirfarandi skýringar vegna tafanna.

 • Ítarleg skoðun frum- og lýsigagna
 • Viðtöl við þá er gerst þekkja til aflandsviðskipta
 • Setja upplýsingar í samhengi
 • Ýmis önnur heimildaröflun
 • Sumarleyfi tafði gagnaöflun
 • Tókst ekki af afla skýringa hjá sérfræðingum
 • Gögn bárust þegar langt var liðið á ágústmánuð

Skýrslan átti að birtast fyrr eða fyrir lok júlí 2016

Það kemur skýrt fram í skýrslunni sjálfri að ætlunin var að skila henni snemma eða undir lok júlímánaðar. Tafir urðu sem starfshópurinn hafði ekkert með að gera og hvað þá fjármála- og efnahagsráðherra sem vildi fá skýrsluna sem fyrst svo koma mætti henni til umræðu í þinginu fyrir þinglok. Markmið ráðherrans var að skýrslan fengi vandaða umfjöllun og yfirvegaða. Það sem menn eru hins vegar sammála um er að skýrslan bætir ekki miklu meira við það sem þegar hefur komið fram.

Enginn mælir því hins vegar mót að málið þurfi að rannsaka mun betur og það kemur skýrt fram hjá aðilum stafshópsins, sem skýrsluna unnu, að mun meiri vinnu þarf til svo ná megi betur utan um efnið sem er til umfjöllunnar. Það yrði því baglegt ef þetta efni og þessar áherslur verði undir sökum yfirlætislegrar umræðu þess efnis að skýrslan átti að hafa birst fyrr sem tókst ekki m.a. vegna þess að starfshópurinn vildi vinna verkið betur, eiga fund með sérfræðingi sem kom ekki til landsins fyrr en 21. júlí 2016 og taka saman gögn sem tafðist vegna sumarleyfa. Áður, eða í maí 2016, hafði fjármála- og efnahagsráðherra lagt fram frumvarp á Alþingi um aðgerðir stjórnvalda til að sporna við skattsvikum vegna eignarhalds í lágskattaríkjum.

 1. Erindisbréf barst stafshópnum 10. júní 2016
 2. Fyrsti fundur haldinn 15. júní 2016
 3. Dr. James S. Henry fundar með starfshópnum í hádeginu 21. júlí 2016 eins og kom fram í frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins
 4. Dr. James S. Henry heldur fyrirlestur um efnið í Háskóla Íslands 21. júlí 2016 – The Global Haven Industry: Size, Growth, and Key Impacts
 5. Væntanleg skil skýrslunnar 31. júlí 2016 eða á mánudaginn 1. ágúst 2016
 6. Skýrslan send fjármála- og efnahagsráðuneytinu 13. september 2016
 7. Kynning á skýrslunni 5. október 2016 hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og aðeins 5 virkir dagar til þingloka
 8. Fjórir fundir hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í millitíðinni fyrir þinglok og kosningar
 9. Bjarni Benediktsson í ræðu undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir 10. október 2016: ,,Að öðru leyti hvað varðar aflandsfélög þekkja menn að við höfum lagt hér inn ítrekað tillögur, frumvörp, og ég mun (Forseti hringir.) á næstu dögum sömuleiðis skila skýrslu um þau mál sem ég boðaði í vor varðandi umfang þeirra mála“. Kom fram á fésbókarsíðu Björns Bjarnasonar 11. janúar 2016. (*)
 10. Þinglok en Sigurður Ingi Jóhannsson las forsetabréf um þingfrestun 13. október 2016
 11. Kosningar til Alþingis 29. október 2016
 12. Bjarni Benediktsson fær fyrstur umboð til stjórnarmyndunar 2. nóvember 2016
 13. Bjarni ræðir við fulltrúa Pírata, VG, Viðreisnar, Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Bjartrar framtíðar
 14. Bjarni slítur viðræðum við Viðreisn og Bjarta framtíð, Óttarr Proppé tekin í sátt sbr. frétt í visir.is 15. nóvember 2016
 15. Þing kallað saman til að ljúka gerð fjárlaga 6. desember 2016
 16. Fjórir fundir í efnahags- og vipskiptanefnd eftir að þing kom aftur saman eftir kosningar
 17. Frestun þingfunda eftir afgreiðslu fjárlagafrumvarps 22. desember 2016
 18. Skýrslan birt á vef fjármálaráðuneytisins 6. janúar 2017
 19. Þrír flokkar samþykkja að mynda stjórn, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn, Björt framtíð og Viðreisn 9. janúar 2017

Enginn var áhuginn að kalla eftir skýrslunni þegar ljóst var að Bjarni minntist á að hún væri til staðar 10. október 2017.

Álagið mikið fyrir kosningar – Óskir stjórnarandstöðunnar um þingrof og kosningar

Álagið fyrir kosningar má lýsa með orðum Svandísar Svavarsdóttur á 164. fundi 145. löggjafaþingsins einmitt þann sama dag og Bjarni Benediktsson fékk kynningu á skýrslunni sem mikið er rætt um í dag, þ.e. 5. október 2016:

Virðulegi forseti. Staðan er sú að nú hefur þetta þing, 145. þing, lokið öllum þeim mikilvægu málum sem rædd voru í apríl. Búið er að ljúka húsnæðismálunum, búið er að ljúka haftamálunum að mestu og hér ættum við að ljúka atkvæðagreiðslu eftir 3. umr. um höft og hætta svo. Það er eina málið sem stendur út af, eitt þingmál, að ljúka atkvæðagreiðslu eftir 3. umr. um höft.

Virðulegi forseti. Íslandssögunni lýkur ekki 29. október. Það er ekki þannig. Öll þau mál sem eru hér á dagskrá og sem eru á listanum langa frá núverandi ríkisstjórn eru þeirrar gerðar að nýtt þing getur unnið úr þeim. Það er þannig. Nýtt, lýðræðislega kjörið þing sem hefur raunverulegt umboð til þess, sem núverandi, fráfarandi ríkisstjórn hefur sannarlega ekki.

Virðulegi forseti. Það á að ljúka þessari einu atkvæðagreiðslu og senda þingið heim þannig að allir sitji við sama borð í kosningabaráttu fyrir kosningarnar að þessu sinni.

Hér kemur því fram að Svandís taldi ríkisstjórnina ekki hafa umboð til að mæla fyrir öðrum málum og vildi hún fara heim en ekki ræða neina skýrslu hvort hún hefði vitneskju um hana eður ei. Hún fullyrðir hér sjálf að nýtt þing geti tekið þessi mál að sér. Nú er komið að því og hvers vegna þá að þrátta um hvenær skýrslan kom fram í dagsljósið?

Engar fyrirspurnir um skýrsluna á meðan stjórnarmyndunarviðræður fóru fram

Svo virðist sem aðilar í stjórnarmyndunarviðræðunum, sem flestir áttu að vita af stofnun starfshópsins í júlí 2016, höfðu lítinn sem engan áhuga á að kalla eftir þessari skýrslu eða rannsókn fyrr eða síðar og þá sérstaklega eftir að stjórnarmyndunarviðræðurnar hófust frá og með 2. nóvember 2016 til og með 6. janúar 2017 þegar skýrslan birtist á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þetta vekur sérstaka furðu enda öllum opinbert að starfshópurinn var starfandi fyrir kosningar og átti að skila af sér undir lok júlímánaðar skv. erindisbréfi.

Sjá má hér að vefmiðillinn Kjarninn, þ.e. 16. júní 2016, fylgdist vel með þróun mála og því undarlegt að þingmenn hafi ekki verið vakandi um efnið allan þennan tíma en það er reyndar skýringar á því. Sjá má hér að framan að mikið álag var á Alþingi fyrir kosningar en stjórnarandstaðan þrýsti mjög á um að ákveðin afmörkuð mál, ekki önnur, yrðu tekin fyrir á þinginu, önnur ekki.

Það sætir undrun að þar sem að starfshópurinn hafi verið stofnaður eftir að þingsályktunartillaga þingmanna VG var samþykkt og því í raun og sann að undirlægi þeirra að þeir sjálfir hafi ekki fylgst betur með og kallað eftir skýrslunni þegar þeir höfðu umboð til stjórnarmyndunnar fyrir áramót og jafnvel fyrr. Þeim var það í lófa lagið hefðu þeir á annað borð mikinn áhuga á efninu, þ.e. efni sem varðar lágskattasvæði sem þeir samþykktu sjálfir í lög ásamt breytingum fyrir kosningarnar 2013.

Bætir skýrslan einhverju við?

Skýrslan bætir litlu við sem ekki var þekkt. Vitað var að einhverjir svíkja undan skatti og aðrir ekki. Það sem kemur í ljós er hve lítið starfshópurinn virtist vita um umfangið sem hann tók að sér og leggur hópurinn ríka áherslu á að rannsaka þurfi efnið frekar til að ná betur utan um það og fá heildaryfirsýn. Skýrslan er í raun enn drög að stærra verki að mati starfshópsins.

Hins vegar virðist vanta í skýrsluna hverjir það eru sem standa að baki skattsvikunum og tel ég að skattborgarar á Íslandi bíði eftir þeim lista. Hann birtist ekki í þessar skýrslu enda verkið ekki fullunnið, aðeins komin skýrsla sem skýrsluhöfundar segja sjálfir að sé alls ekki tæmandi. Það má vænta að væri þessi listi birtur yrði hann langefstur á Baugi í umræðunni. Það yrði mikil Viðreisn í því ef menn legðu upp úr með að skýra fyrir almenningi lágskattasvæði og hví þau eru í íslenskri löggjöf. En víst er að á Kaupþingum heimsins þekki margir til lágskattasvæða og skattaundanskota en við hér á Íslandi erum rétt að byrja á því námskeiði þar sem væntanlega verður fjallað um efnisval ESB í íslenska löggjöf.

Svo virðist einnig að dr. James S. Henry hafi í raun komið til landsins til að taka starfshópinn í n.k. endurmenntun á sviði aflandsviðskipta, viðskipta sem eru lögleg eftir að Alþingi Íslendinga samþykkti slíkt, m.t.t. tilskipunar frá ESB, inn í lög um tekjuskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda.

Því spannar skýrslan efni sem varðar bæði lögleg viðskipti sem og ólögmæt viðskipti. Við þekkjum slíkt hér heima þegar menn svíkja undan sköttum og einnig þegar menn fara að lögum. Því er þetta ekki frétt fyrr en tekið er á þeim sem brjóta af sér enda vitum við öll að mikið er um skattalagabrot frá tímum þeim er við flúðum hingað frá Noregi.

Það sem skýrslan sýnir umfram allt er hve víðæk vanþekking stjórnsýslunnar er, þingheims og almennings á Íslandi á alþjóðaviðskiptum og þeim viðamiklum viðbótum sem innleiddar eru í íslenska löggjöf í formi tilskipanna frá ESB sem Alþingi virðist samþykkja möglunarlaust og greinilega blindandi.

Það lýsir þessu best að þegar breytingar fóru í gegnum þingið fyrir kosningarnar 2013 tók aðeins einn maður til máls umfram framsögumenn en það var Pétur heitinn Blöndal. Hann var líklega eini þingmaðurinn sem vissi ítarlega hvað var á ferðinni þegar þetta rann í gegnum þingið á sínum tíma.

Hvaða þingmenn greiddu götu lágskattasvæða á Alþingi 2013?

Þeir sem greiddu lögmæti lágskattasvæða atkvæði sitt á Alþingi Íslendinga árið 2013 voru eftirtaldir þingmenn sem enn eru á þingi:

 • Birgitta Jónsdóttir
 • Katrín Jakobsdóttir
 • Svandís Svavarsdóttir
 • Steingrímur J. Sigfússon ofl.

Nánar má sjá skammstafanir þeirra er samþykktu lögin:

AtlG, ÁI, ÁPÁ, ÁÞS, ÁsbÓ, ÁRJ, BirgJ, BJJ, BjG, BjarnB, BVG, GuðbH, GÞÞ, GBS, HHj, IllG, JóhS, JBjarn, JRG, KJak, KaJúl, KÞJ, KLM, LMós, LGeir, MT, MÁ, OH, ÓGunn, PHB, REÁ, SII, SF, SJS, SSv, TÞH, UBK, VBj, ÖJ.

(*) Aths. Uppfært 12. janúar 2017 eftir að Björn Bjarnason setti á fésbókarsíðu sína tilvitnun í ræðu Bjarna Benediktssonar frá 10. október 2016 (3 dögum fyrir þinglok og tíminn þá liðinn til að leggja málið fyrir þingi).

Flokkar: Hagmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur