Sunnudagur 22.01.2017 - 21:56 - Lokað fyrir ummæli

Af Donald Trump

Embættistaka Donald Trump - 45. forseti Bandaríkjanna 20. janúar 2017

Embættistaka Donald Trump – 45. forseti Bandaríkjanna 20. janúar 2017

Við þekkjum það Íslendingar að fjölmiðlar fara oft óvarlega og bera enga ábyrgð á því sem þeir segja eða gera. Þetta er oft kallað fjórða valdið en það sem þetta vald hefur umfram annað vald í lýðræðislegu þjóðfélagi er að það lýtur öðrum lögmálum en löggjafar-, dóms- og framkvæmdavald. Það virðist ekki bera ábyrgð og þarf ekki að axla ábyrgð. Í lögum er gert ráð fyrir að þingmenn þurfi að svara á fjögurra ára fresti fyrir gjörðir sínar, sama á við ráðherra séu þeir ekki utan þings og svo dómskerfið og dómarar sem má víkja frá störfum ef svo ber undir. Allt er þetta í lögum og tækt að grípa inní. Þetta á ekki við um fjölmiðla og þá er hægt að kaupa og selja, fjárfesta í fréttaskotum og með auglýsingasamningum beinlínis koma að efni sem hentar framleiðendum eða þeim sem hafa efni á að koma einhverju fram. Er þetta eðlilegt? Nei, þetta er ekki alveg eðlilegt. Hvað er til ráða?

Trump og bandarískir fjölmiðar sem og alþjóðapressan

Mynd sem á að sýna mismunandi vinsældir milli Obama og Donald Trumps

Mynd sem á að sýna mismunandi vinsældir milli Obama og Donald Trumps – Mótmælendur hömluðu stuðningsmönnum Donald Trumps að mæta á staðinn.

Flestir þekkja þá umræðu sem verið hefur í gangi varðandi kjör á nýjum forseta í stærsta lýðræðisþjóðfélagi heims, Bandaríkjunum. Þar hefur verið fjallað um að Pútín hafi komið Trump til valda. Einnig hefur verið rætt um að frægar stjörnur demókrata hafi ekki viljað syngja við innsetningu Trumps, sem reyndar er enginn furða, auk þess sem nýleg umfjöllun um mætingu við innsetningu Trumps

þar sem þar er látið í veðri vaka að lítill áhugi hafi verið á Trump og innsetningu hans í embætti forseta Bandaríkjanna. Lítum aðeins á tölurnar.

Samanburðartafla - Obama og Trump

Samanburðartafla – Obama og Trump

Hér í töflunni má sjá að fylgi Demókrata í höfuðborg Bandaríkjanna er 91% og sé tekið tillit til þess að mesta fylgi Trumps er í miðríkjum Bandaríkjanna er ljóst að þeir þurfi, þ.e. stuðningsmenn Trumps, að ferðast um langan veg til að mæta við innsetningu hans en t.d. um eða yfir hálf milljón manns fyrir Obama er sjálfir búa í höfuðborg Bandaríkjanna þar sem athöfnin fer fram. Við svona athafnir mæta margir og taka börn sín jafnvel með. (Heimild með fyrirvara um gæði þeirra upplýsinga: Time, Wikipedia)

Demókratar hafa ekki langt að fara til höfuðborgar Bandaríkjanna

Demókratar hafa ekki langt að fara til höfuðborgar Bandaríkjanna

Sé leiðrétt fyrir þessu kemur í ljós að Trump er að gera betur en Obama gerði við innsetningu hans árið 2013 (Ath. ekki fræðileg rannsókn en segir einhverja sögu engu að síður). Þess ber að geta að rétt áður en Obama var kjörinn sat pistlahöfundur á 17. júní stræti í Berlín og hlustaði á Obama halda ræðu ásamt fjölskyldu sinni og þúsundum íbúa og gesta þar í borg. Óhætt er að segja að þar fór maður sem braut ísinn með því að verða fyrsti forseti Bandaríkjanna sem gat rakið ættir sínar til Afríku. Það þótti tíðindum sæta.

Því var um stórmerkileg tímamót að ræða árið 2009 umfram aðrar innsetningaathafnir forseta í Bandaríkjunum þegar Obama var setturn fyrst í embætti. Þrátt fyrir það nær Trump að hafa langt upp í þær tölur en slær Obama algjörlega út sé miðað við árið 2013 og þá eftir leiðréttingu á gríðarlegu fylgi Demókrata í höfuðborg Bandaríkjanna. Svo má geta þess að gríðarleg mótmæli í borginni urðu til þess að þúsundir stuðningsmanna Trumps gátu ekki mætt við innsetningaathöfnina. Það skekkir myndina vissulega mikið.

Múgæsing fjölmiðla

Stór þáttur í umfjöllun um Donald Trump hefur byggst á því að hann sé með orðum sínum og gjörðum að stuðla að e.k. múgæsingu. RÚV hefur meðal annars lagt meira í orð páfans í Róm þegar þeir leggja blessuðum páfanum sjálfum beinlínis orð í munn og segja hann hafa líkt Trump við Hitler þegar hann sjálfur talaði almennt um málið og hefði það alveg eins geta átt við Pútín en ekki Trump. Það er nú aldeilis guðræknin á þeim bænum.

Hafa því fjölmargir fjölmiðlar víða um heim lagst á eitt í að grafa undan lýðræðislega kjörnum forseta Bandaríkjanna sem aðeins getur stuðlað að því að efla þá sem standa honum andspænis, þ.e. Pútín í Rússlandi, Xi Jinping í Kína og öðrum af þeirra kaliber. Er það sem við viljum?

Trump og Obama

Trump og Obama ásamt glæsilegum eiginkonum sínum

Það eru haldnar kvennagöngur gegn Donald Trump þrátt fyrir að hann hafi misst út úr sér svipuð ummæli og höfð voru eftir Theodore Roosewelt fyrrum forseta Bandaríkjanna en þá átti það við karlmenn, ekki konur. Ekki mæli ég þessum ummælum bót en vil samt benda á vægi umræðunnar konur vs karlar. Þar er farið að halla mikið á og ber að merkja þennan halla sérstaklega þegar kemur að umgengnisrétti feðra á Íslandi og víðar eftir skilnað. Einnig má geta umræðunnar varðandi skólakerfið og unga drengi sem fá þar ekki karlfyrirmyndir til að kenna sér lengur m.a. vegna þess hve öflug kvennastétt kennarastéttin er orðin.

Það má því ætla að fylgismenn Demókrata, og þá með gífurlega háum styrkjum til handa þess flokks og tengsl við fjölmiðla, séu einmitt þeir sem stuðla að múgæsingu en slíkt má einnig rekja til Íslands þar sem vinstri menn eru bæði hávaðasamir en fremur afkastalitlir þegar kemur til kastanna við stjórn ríkissjóðs og á Alþingi. Til þess arna hafa þeir stuðning frá fjölmiðlum sem virðast telja sig hafa vald til að segja hvað sem er án ábyrgðar.

Það eitt sem hægt er að gera er að kalla eftir meiri ábyrgð til handa fjölmiðlum og ber þó að gæta að því að standa vörð um rit-, tjáningar- og prentfrelsi. Þessi ábyrð byggist aðallega á því að við, sem látum okkur umfjöllun sem þessa í léttu rúmi liggja, skrifum sjálf okkar hugrenningar um þessi málefni og birtum almenningi.

Donald Trump 45. forseti Bandaríkjanna

Pistlahöfundur er ekki einhver sérstakur stuðningsmaður Donald Trumps þó margir gætu lagt framangreint efni síðar fram og talið svo hafa verið. Ég hef bara afskaplega litla skoðun á mönnum fyrr en þeir fara að láta verkin tala. Það er mikilvægt að mótmælendur fái að koma sínum málum á framfæri en við verðum samt sem áður að tala um sanngjarnari umræðu sem litast ekki stöðugt af undirliggjandi þörfum viðkomandi til að draga úr vægi lýðræðislegs stjórnkerfis. Slík undirmál munu aðeins leiða til þess að þeir sem hafa engan áhuga á slíku kerfi eflist og þeim megin verði til þeir leiðtogar sem blessaður páfinn í Róm vildi minnast á en RÚV snéri því á eigin veg sem mætti svo sannarlega teljast ámælistvert.

Donald Trump getur beinlínis reynst vel. Það þarf að auka tekjur og atvinnu í Bandaríkjunum. Obama gerði ekkert í því og skilar hann við verra búi en hann tók við. Það er vegna þess að fólk kaus Donald Trump en ekki Hillary Clinton og þrátt fyrir að Hillary hafi hlotið fleiri atkvæði á landsvísu er Donald Trump kosinn skv. þessu kerfi eins og flestir ef ekki allir fyrrum forsetar Bandaríkjanna. Leikreglurnar eru þekktar fyrirfram og þetta urðu úrslitin.

Vilji fólk annað kerfi en þetta er rétt að það standi upp og tjái sig einmitt um það, kanni hvaða hljómgrunn það nýtur og draga svo ályktanir út frá því.

Annars óska ég bandarísku þjóðinni til hamingju með nýjan forseta og megi honum vegna vel í embætti, fara vel með það embætti og megi hann einnig tryggja enn frekar gott samband við Ísland.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur