Nýlega birtist grein eftir aðalhagfræðing Seðlabanka Íslands, Þórarinn G. Pétursson. Hér má sjá hvernig ritstjórn visir.is og Fréttablaðsins hafa greinilega ,,misst sig“ eftir að þessi grein var birt og þar sett fram gagnrýnislaus ,,fréttaskýring“, líklega af velþóknun við þá sem vilja eyðileggja krónuna sem gjaldmiðil og þvæla umræðuna um efnið enn frekar.
Þar segir hann m.a.:
Eins og rakið er hér að ofan fylgir því nokkur kostnaður að reka eigið myntkerfi í jafn litlum þjóðarbúskap og þeim íslenska. Þennan kostnað þarf að vega á móti mögulegum ábata eigin gjaldmiðils sem unnt er að nýta til að bregðast við sértækum íslenskum efnahagsskellum, en eins og rakið er í skýrslu Seðlabankans virðist íslensk hagsveifla lítt tengd hagsveiflu annarra þróaðra ríkja sem bendir til þess að sveigjanleg gengisstefna sé heppileg fyrir íslenskan þjóðarbúskap.
Það sem gleymist hér er sá ábati sem felst í því að halda vinnuhafli að vinnu í litlu hagkerfi svo halda megi uppi þekkingu og reynslu í atvinnugreinum lítillar þjóðar og efla nýjar útflutningsgreinar.
Sjá má hér vel þekkta kenningu í hagfræði um þetta efni:
- Sögulegt samhengi milli verðlagsþróunar og atvinnustigs þjóða – Phillips kúrfan (á ensku)
- Hér má sjá tengingar í sama efni (á íslensku)
Aldrei hefur náðst að meta mikilvægi þess að hjálpa á fætur þeim greinum sem standa í útflutningi svo skapa megi tekjur og ljóst er að þó erlendir sérfræðingar fáist til rannsókna séu þeir ekki að gera sér grein fyrir því hvernig á að byggja eyju norður í ballarhafi og halda þar uppi atvinnustigi og heilum Seðlabanka þar sem forystumenn tala gegn eigin gjaldmiðli í sama mund sem prentaður er tíuþúsundkall.
Jafnframt þessu gleymist að Seðlabanki Íslands, með flesta núverandi snillinga þar um borð, sá ekki í gegnum ólögmæt lán sem þöndu m.a. efnahagsreikning SPRON 2005-2007 og fleiri fjármálafyrirtækja og myndaði þar með óeðlilega og falska eiginfjárstöðu og verð á markaði. Sá ábati, ef ábata ætti að kalla, var ekki aðeins enginn heldur stórtap í agnarsmáu hagkerfi okkar Íslendinga.
Á því töpuðu hluthafar gríðarlega vegna falskrar verðmyndunar á markaði hér innanlands, á því töpuðu einstaklingar sem tóku gengistryggð lán, á því töpuðu sérstaklega fólk sem tók verðtryggð lán sem hafa ekki verið leiðrétt vegna ,,ábatans“ af störfum Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins auk þess sem erlendir kröfuhafar töpuðu gríðarlega vegna rangrar uppgefinnar stöðu úr stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands þegar matsfyrirtækin voru að meta land og þjóð fyrir erlenda markaði.
Ekki að undra að erlendir sérfræðingar sjá að framlegð á vinnustund hér á landi sé lítil miðað við erlendis því hér eru okkar sérfræðingar búnir að klúðra svo ótrúlega miklu á skömmum tíma. Svo kenna þeir blessaðri krónunni um vitleysuna í eigin ranni eins augljós og hún er.
Hér gleymist einnig sá kostnaður, t.d. ef tekin er upp evra, við að halda uppi stjórnsýslu af hálfu Seðlabankans innan evrópska seðlabankans og víða til að halda sjó við að stýra efnahag smáríkis. Einnig kostar það að taka upp hvaða aðra mynt sem er og það kostar unga fólkið okkar vinnu og reynslu að geta ekki unnið og aflað sér tekna í atvinnuleysis-menningarþjóðfélagi.
Að lokum segir svo aðalhagfræðingurinn:
Bætt hagstjórn mun gera okkur kleift að nýta betur kosti sveigjanlegs gengis eigin gjaldmiðils og draga úr kostnaði við að reka svo smátt myntkerfi. Það breytir þó ekki því að áfram mun fylgja því nokkur kostnaður og þótt vissulega muni koma tímabil þar sem sveigjanlegt gengi getur auðveldað aðlögun í kjölfar áfalls er ábatinn til lengri tíma ekki augljós. Spurningin um krónuna verður því áfram til staðar.
Hver heldur að það kosti ekki að reka eigið myntkerfi en ábatinn er að hér á landi er ekki 30 til 50% atvinnuleysi ungs fólks líkt og þar sem menn keyra niður vexti til að efla atvinnulífið sem virðist ekkert vera að ná sér í Evrópu um þessar mundir.
Nýlega eru afstaðnar kosningar á Ítalíu, þar sem Jón Gnarr þeirra Ítala vann stórsigur, benda til að þetta stóra iðnaðarríki ætli að trufla áform Evrópusambandsins við að auka ábata sinn í þessu atvinnuleysi sem nú ríkir innan vébanda þess. Ættu því hagfræðingar Seðlabanka Íslands ekki fremur að beina greinum sínum í farveg fjölmiðla innan Brussel en í Reykjavík?
Þetta gleymist því þeir eldast svo hratt þarna í Seðlabanka Íslands og virðast ganga um svörtuloft hoknir af reynslu síðustu ára.