Mánudagur 15.04.2013 - 09:58 - Lokað fyrir ummæli

Veirusýking af stofni B

Það er ekkert grín þegar fólk sýkist af alvarlegum sjúkdómum sem jafnvel getur dregið það til dauða eða valdið því alvarlegum skaða til lengri eða skemmri tíma. Þetta þekkir fólk vel og veit að heilsan skiptir miklu máli og aðgát verður að hafa með börnum, óvitum, sem margir hverjir geta ekki og kunna ekki að leita sér hjálpar og fara til læknis í tíma.

Heilsan er mikilvæg og það á bæði við um einstaklinga sem og um stöðu þjóðarbús.

Varðandi þjóðfélög og stjórnmál gildir hið sama. Fólk verður að vera meðvitað og getað mótað sína framtíð. Til þess að svo verði og að velsæld ríki er mikilvægt að velja rétt. Aðeins er um að ræða eitt atkvæði á kjörgenga menn og konur á 4ra ára fresti. Þá er mikilvægt að vera við hesta heilsu bæði á sál og líkama og taka ábyrga afstöðu, ekki satt? Það gefst ekki annað tækifæri fyrr en 4 árum síðar. Þá má fullyrða að heilsu fólks og fénaðar hafi hrakað umtalsvert verði vinstri öfl við völd öllu lengur.

Niðurskurður til heilbrigðismála síðustu 4 ár ber því glöggt vitni.

Hefur pistlahöfundi lánast að taka þátt í því að aka öldruðum og sjúkum á kjörstað á vegum Sjálfstæðisflokksins á árum áður. Það hefur gefist vel og afar ánægjulegt að sjá þegar fólk klæðir sig upp og gengur að kjörborðinu. Það á að sýna valdinu virðingu sem maður beitir kjördag við atkvæðagreiðslu.

Svo íslenska þjóðin gæti öðlast það vald sem hún hefur á kjördag þurfti að berjast fyrir fullveldi og sjálfstæði hennar. Það kostaði forfeður og mæður þessa lands blóð, svita og tár. Því skal ekki gleyma.

Um þessar mundir geisa pestir en ein pestin er talsvert skæðari en önnur og er í raun n.k. veirusýking af stofni B sem hefur gagntekið stóran hluta þjóðarinnar og skapað ólgu. Bestu smitstjúkdómalæknar landsins kunna engin skil á ástandinu og eðli pestarinnar. Hún gæti verið bráðdrepandi segja sumir en aðrir telja þetta smávægilega kveisu, magakveisu.

Þessi pest sem hér um ræðir tengist aðallega Framsóknarflokknum og fólki sem virðist ætla að kjósa þann flokk fremur en aðra mun betri kosti í boði, nú eina ferðina enn. Já, þetta er bráðsmitandi fjandi.

Eru Samfylkingarmenn reyndar margir hólpnir hvað B stofn varðar en ekki hvað ESB stofn veirunnar varðar. Má þar benda á skrif Stefáns Ólafssonar prófessors á Eyjunni nýlega. Það virðast því geisa fleiri en ein bráðsmitandi pest en telja má fullvíst að sú sem er af B stofni er bráðdrepandi svo ekki sé minnst á ESB stofninn sem virðist genginn yfir.

Það vill svo til að hér á árum áður setti Framsóknaflokkurinn fram kosningaloforð um fíkniefnalaust Ísland árið 2000 og fylgdi því síðar eftir með loforði um 90% lán hjá Íbúðarlánasjóði. Félagslega húsnæðiskerfi sveitarfélaga var lagt niður til að Framsóknarflokkurinn næði þessu markmiði. Það var nú meiri vitleysan.

Eitt sinn söng Megas:

Já, droppaðu við hjá dópmangaranum og kýldu á netta nös.

Allir vita sem vilja vita og eru ekki alveg búnir að tapa glórunni vegna sýklaveikinnar af B stofni að það var Framsóknaflokkurinn sem valdi þá leið að skuldsetja heimilinn eins mikið og nokkur kostur var hér á árum áður. Þó þessi flokkur hafi ekki verið við stjórnvölinn rétt fyrir hrun var hann við stjórnvölinn rétt um ári áður en hrunið átti sér stað.

Kæru lesendur, um þessar mundir geisar skæð veira af B stofni á Íslandi.

Við skulum uppræta hana sem fyrst. Látum ekki fjölskyldur landsins lenda í því sama og áður, björgum því sem bjargað verður þrátt fyrir að stjórnmála- og heilbrigðiskerfið virðist í molum eftir fyrstu vinstristjórn Íslands.

Hún getur geisað áfram pestin !

Heimilin eiga betra skilið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur