Laugardagur 20.04.2013 - 10:43 - Lokað fyrir ummæli

Framsóknarflokkurinn góðu gæddur

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins

 

Nú fer að líða að kosningum og fylgi Framsóknaflokksins dalar. Hefur formaður flokksins m.a. bent á að kosningabaráttan gæti orðið ljót og það er satt. Kosningabarátta er oft óvægin og ódrengileg þar sem notuð eru ljót orð og oftar en ekki persónulegar árásir.

Hitt ber einnig að nefna að til eru þeir sem koma með góðlátlegt grín fyrir kosningar til að varpa fram nýjum víddum í annars litlausa og flata kosningaherferð stjórnmálasamtaka. Eitt dæmi um ódrengilegan undirróður er þegar RÚV er að ráðast persónulega á vörubílstjóra með frekar ódýrum spurningum þegar þeir ekki einu sinni voga sér að spyrja útvarspsstjóra um sífelldan halla og yfirkeyrslu hjá RÚV. Það er ljótt.

Varðandi Framsóknarflokkinn er rétt að benda á að þrátt fyrir margt sem má gagnrýna frá fyrri tíð er hann nú skipaður fjölda ungs fólks sem vill vel og fullyrða má að í tíð þessa flokks hefur margt gott áunnist þrátt fyrir allt. Að öðrum ólöstuðum innan þessa ágæta flokks telur pistlahöfundur að Sigmundur Davíð, formaður Framsóknarflokksins, sé gæddur góðum eiginleikum sem leiðtogi. Sama má segja um Frosta Sigurjónsson sem komið hefur fram með áhugaverðar nálganir varðandi peningapólitík og stjórn landsmála.

Satt best að segja er rétt að fagna því að ungt fólk eins og framangreindir menn og kjarnakonur eins og Eygló Harðardóttir, Vígdís Hauksdóttir ofl. vilji taka þátt í stjórnmálum á Íslandi í dag.

Viðtalið fræga á RÚV við Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins bendir til þess að ungt og kröftugt fólk er hugsi um hvort það eigi virkilega að leggja út í stjórnmálin og setja þar fjölskylduna að veði. Það er mjög svo virðingarvert af Bjarna að hafa bent á þennan annars augljósa vinkil og í kjölfarið kom á daginn að stór hluti landsmanna vill alls ekki missa Bjarna og styrkti þetta Sjálfstæðisflokkinn.

Hvað Framsóknarflokkinn varðar má telja að aldrei áður í sögu flokksins hefur verið eins gott úrval af góðu og vel meinandi fólki í framboði. Því ber að fagna og hið sama á við um Sjálfstæðisflokkinn. Píratar eru annar flokkur með önnur sjónarmið en fullur af ungu fólki sem frekar er vinstri sinnað og reynslulítið en vel meinandi varðandi sín sjónarmið þó sum séu mjög framandi.

Framsóknarflokkurinn, þrátt fyrir að hafa dalað í könnunum, er góður kostur og virkilega frambærilegt fólk þar á ferð. Pistlahöfundur mun samt sem áður ekki greiða honum atkvæði sitt sökum áherslumunar varðandi skattkerfið en Sjálfstæðisflokkurinn vill skattalækkanir einn flokka sem er hið besta mál auk fjölda annarra þátta sem greinir þessa flokka frá.

VG og Samfylkingin eiga í vanda vegna þess að endurnýjun er fremur lítil innan þeirra vébanda miðað við aðra flokka.

Því má ekki gleyma að Framsóknarflokkurinn er framkvæmdaflokkur, íhald fyrir margra hluta sakir, gætir lands og sjávar og vill fólki þessa lands vel með framfaramál að leiðarljósi. Það er flokkur sem á að starfa með Sjálfstæðisflokknum á næstu misserum enda augljóst hvað allt mannval varðar innan þessara flokka að í slíku samstarfi mætti byggja upp á ný traust og virðingu Alþingis.

Því er Framsóknarflokkurinn góður kostur þó að mati greinarhöfundar ekki sá besti. Sjálfstæðisflokkurinn spannar þau málefni sem henta betur þó svo að sterk tengsl séu á milli málaflokka þessara beggja flokka í stórum dráttum.

Það er gott fólk sem skipar lista Framsóknarflokksins og með þeim orðum vill pistlahöfundur leggja sitt að mörkum til að benda á að hægt er að fjalla um stjórnmál fyrir kosningar á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Gleðilegar kosningar framundan.

Áfram XD !

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur